Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1410, 128. löggjafarþing 636. mál: framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum (verðjöfnun við útflutning).
Lög nr. 82 26. mars 2003.

Lög um breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 85. gr. laganna kemur ný grein, 85. gr. A, svohljóðandi:
     Til þess að jafna samkeppnisstöðu innlendra vara við útflutning er landbúnaðarráðherra heimilt að greiða verðjöfnun við útflutning fullunninna vara sem innihalda innlend landbúnaðarhráefni. Verðjöfnun skal vera jöfn mismun á innlendu viðmiðunarverði og erlendu viðmiðunarverði hverrar tegundar hráefnis sem notað er við framleiðslu vörunnar. Greiðslur miðast við heimildir fjárlaga hverju sinni.
     Landbúnaðarráðherra gefur út reglugerð þar sem tilgreind skulu þau tollskrárnúmer sem heimilt er að greiða verðjöfnun fyrir, þær hráefnistegundir sem heimilt er að verðjafna, viðmiðunarverð innlendra landbúnaðarhráefna, erlend viðmiðunarverð sömu hráefna og nánari skilyrði verðjöfnunar. Í henni skal jafnframt kveðið á um tilhögun greiðslu og heimild ráðherra til að fresta greiðslum sem kunna að vera umfram fjárveitingar Alþingis hverju sinni.
     Sækja skal um verðjöfnun til landbúnaðarráðuneytis. Tollstjórinn í Reykjavík annast greiðslu verðjöfnunar að uppfylltum skilyrðum reglugerðar skv. 2. mgr.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 14. mars 2003.