Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1558, 130. löggjafarþing 780. mál: Háskóli Íslands (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.).
Lög nr. 41 12. maí 2004.

Lög um breytingu á lögum nr. 41/1999, um Háskóla Íslands.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 12. gr. laganna:
  1. 3. mgr. orðast svo:
  2.      Rektor skipar þriggja manna dómnefnd til þess að dæma um hæfi umsækjenda um kennara- og sérfræðingsstörf. Háskólaráð tilnefnir einn nefndarmann, menntamálaráðherra annan og deild sú eða stofnun sem starfið er við hinn þriðja og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar. Rektor er heimilt að skipa dómnefndir til þriggja ára í senn fyrir hvert af meginfræðasviðum háskólans eða einstakar deildir eða stofnanir. Háskólaráð tilnefnir þá einn mann í hverja dómnefnd og menntamálaráðherra annan. Skal sá sem tilnefndur er af háskólaráði vera formaður dómnefndar og sá sem tilnefndur er af menntamálaráðherra varaformaður. Varamenn þeirra skulu skipaðir með sama hætti. Þriðji nefndarmaðurinn er sérfræðingur, tilnefndur af viðkomandi deild eða stofnun, sem skipaður er sérstaklega til þess að fara með hvert ráðningarmál. Í dómnefndir má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi úr háskóla eða jafngildu námi.
  3. Við 7. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Háskólaráð getur mælt svo fyrir í reglunum að undanþiggja megi auglýsingu störf sem byggjast á sérstökum tímabundnum styrkjum, störf sem tengjast sérstökum tímabundnum verkefnum, störf sem nemendur gegna við háskólann samhliða rannsóknartengdu framhaldsnámi og störf við háskólann sem tengjast tilteknu starfi utan hans á grundvelli samstarfssamnings.


2. gr.

     Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Við yfirtöku Háskóla Íslands á verkefnum Norrænu eldfjallastöðvarinnar skal rektor Háskóla Íslands bjóða starfsmönnum Norrænu eldfjallastöðvarinnar störf við sambærileg verkefni innan háskólans og þeir höfðu hjá Norrænu eldfjallastöðinni. Sameiginlegar reglur háskólans gilda um störf sem boðin eru samkvæmt þessu ákvæði. Heimilt er þó að bjóða starf án þess að fyrir liggi hæfnismat dómnefndar skv. 12. gr., enda megi telja augljóst að viðkomandi uppfylli hæfniskröfur sem að lágmarki eru gerðar til háskólakennara og sérfræðinga. Ákvæði 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum, gilda ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 29. apríl 2004.