Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 776, 131. löggjafarþing 160. mál: þriðja kynslóð farsíma.
Lög nr. 8 15. febrúar 2005.

Lög um þriðju kynslóð farsíma.


1. gr.

Markmið og gildissvið.
     Markmið laga þessara er að tryggja hagsmuni neytenda og virka samkeppni á íslenskum farsímamarkaði við úthlutun tíðna fyrir þriðju kynslóð farsíma hér á landi.
     Lög þessi taka til úthlutunar tíðna til starfrækslu farsímaneta á tíðnisviðunum 1900–1980 MHz, 2010–2025 MHz og 2110–2170 MHz.
     Í lögum þessum merkir þriðja kynslóð farsíma þráðlaust farsímakerfi samkvæmt IMT-2000 stöðlum Alþjóðafjarskiptasambandsins, þ.m.t. UMTS-stöðlum.
     Í lögum þessum merkir UMTS-farsímanet þráðlaust farsímakerfi sem býður upp á breiðbands- og margmiðlunarþjónustu með meiri hraða en fyrsta og önnur kynslóð farsímaneta.

2. gr.

Úthlutun tíðna.
     Póst- og fjarskiptastofnun úthlutar tíðnum skv. 1. gr.
     Úthlutun tíðna skal fara fram að undangengnu almennu útboði í samræmi við ákvæði 5. gr.
     Heimilt er að áskilja að tíðnir skuli teknar í notkun innan hæfilegs tíma ella falli heimildin niður. Tíðniúthlutun skal bundin við nafn og er framsal óheimilt.
     Gildistími tíðniúthlutunar er 15 ár.

3. gr.

Útbreiðsla.
     Lágmarkskrafa til hvers rétthafa er að UMTS/IMT-2000 þjónusta nái til 60% íbúa eftirfarandi svæða:
  1. höfuðborgarsvæðis,
  2. Vesturlands, Vestfjarða og Norðurlands vestra,
  3. Norðurlands eystra og Austurlands,
  4. Suðurlands og Suðurnesja.

     Nánari ákvæði um áfanga og hraða uppbyggingar og kröfur um sendistyrk munu skilgreind við útboð á tíðnum.

4. gr.

Tíðnigjald.
     Fyrir hverja tíðniúthlutun skv. 2. gr. skal greiða 190 millj. kr. tíðnigjald. Þar af skal rétthafi greiða 5 millj. kr. þegar tíðni hefur verið úthlutað, en eftirstöðvar tíðnigjalds greiðast ríkissjóði með fjórum jöfnum greiðslum frá því að tíðniúthlutun fer fram þar til tvö ár eru liðin frá úthlutun.
     Fyrir uppbyggingu fjarskiptanets umfram lágmarkskröfu skv. 3. gr. skal veittur afsláttur af tíðnigjaldi. Afsláttur nemur 10 millj. kr. fyrir hvern hundraðshluta íbúa umfram 60% útbreiðslu utan höfuðborgarsvæðisins. Tekið verður tillit til afsláttar vegna útbreiðslu umfram 60% frá upphafi. Tíðnigjald skal þó aldrei verða lægra en 40 millj. kr.
     Til viðbótar tíðnigjaldi greiðir hver handhafi úthlutunar gjald sem nemur 4 millj. kr. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að selja útboðsgögn til að standa straum af kostnaði við gerð útboðsgagna skv. 5. gr.

5. gr.

Útboð.
     Póst- og fjarskiptastofnun skal með almennu útboði gefa þeim sem vilja fá úthlutað tíðnum skv. 2. gr. kost á að gera tilboð í tíðnir til reksturs UMTS/IMT-2000 farsímanets hér á landi. Með útboði verður allt að fjórum bjóðendum úthlutað tíðnum.
     Póst- og fjarskiptastofnun ákveður hvaða hlutar tíðnisviða sem tilgreind eru í 1. gr. fylgja hverri úthlutun fyrir sig.
     Póst- og fjarskiptastofnun skal semja ítarlega útboðslýsingu þar sem skilmálar útboðsins eru settir fram á hlutlægan og skýran hátt, þar á meðal allir þættir sem lagðir verða til grundvallar við val á rétthöfum í samræmi við markmið laga þessara og jafnframt vægi einstakra atriða við mat á tilboðum.
     Póst- og fjarskiptastofnun getur sett lágmarksskilyrði varðandi fjárhagsstöðu og tæknilega getu sem fullnægja þarf til þess að hafa rétt til þátttöku í útboðinu.
     Póst- og fjarskiptastofnun getur hafnað tilboði ef það er ekki í samræmi við útboðslýsingu eða ef bjóðandi leggur ekki fram upplýsingar eða gögn sem Póst- og fjarskiptastofnun telur nauðsynleg til þess að leggja mat á tilboðið.
     Meðal atriða sem koma skulu fram í tilboðum er viðskiptaáætlun sem miðast við að bjóðandi byggi upp net sitt sjálfur, áætlun um útbreiðslu farsímanetsins og þjónustu bæði eftir mannfjölda og svæðum, áætlun um hraða við uppbyggingu nets og áætlun um frágang mannvirkja.
     Hver bjóðandi má aðeins senda inn eitt tilboð. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að hafna tilboðum frá bjóðendum sem eiga ráðandi eignarhlut í öðrum bjóðendum.
     Komi engin tilboð í tíðniúthlutun samkvæmt UMTS-staðli verður að hámarki þremur bjóðendum úthlutað tíðnum fyrir þriðju kynslóð farsíma.

6. gr.

Ákvæði fjarskiptalaga.
     Ákvæði laga um fjarskipti og laga um Póst- og fjarskiptastofnun gilda um þriðju kynslóð farsíma eftir því sem við á.
     Við úthlutun tíðna skal Póst- og fjarskiptastofnun setja skilyrði í samræmi við lög þessi, lög um fjarskipti og tilboð hvers rétthafa fyrir sig.

7. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 7. febrúar 2005.