Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1475, 131. löggjafarþing 732. mál: umgengni um nytjastofna sjávar (meðafli, leyfissviptingar).
Lög nr. 61 24. maí 2005.

Lög um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
     Við veiðar á uppsjávarfiski er ekki skylt að skilja meðafla frá uppsjávarafla. Meðafli reiknast þó til aflamarks viðkomandi fiskiskips, en ráðherra setur reglur um hvernig móttakandi afla eða vigtarleyfishafi skuli standa að sýnatöku og útreikningi meðafla við löndun á uppsjávarfiski. Komi til gjaldtöku á grundvelli laga nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, með síðari breytingum, vegna fisktegunda sem veiðast sem meðafli við veiðar á uppsjávarfiski skal gjaldið þó aldrei vera lægra en nemur 70% af meðalfiskverði sömu tegundar í næsta mánuði fyrir gjaldtöku.

2. gr.

     1. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
     Útgerð og skipstjóra fiskiskips er skylt að fylgjast með stöðu aflaheimilda skipa sinna með hliðsjón af úthlutuðum aflaheimildum, flutningi aflaheimilda og lönduðum afla. Fiskistofa skal fylgjast með nýtingu fiskiskipa á aflaheimildum. Bendi upplýsingar Fiskistofu til að skip hafi veitt umfram aflaheimildir sínar í einhverri tegund skal Fiskistofa tilkynna það útgerð og skipstjóra viðkomandi skips með símskeyti og jafnframt að skipið sé svipt leyfi til veiða í atvinnuskyni frá og með fjórða virka degi hafi fullnægjandi aflaheimildir ekki verið fluttar til skipsins innan þess tíma. Telji móttakandi tilkynningar að upplýsingar Fiskistofu um afla skips séu rangar og að skipið hafi ekki veitt umfram aflaheimildir skal hann innan þriggja virkra daga koma athugasemdum á framfæri við Fiskistofu. Fiskistofa getur veitt lengri frest til athugasemda ef ástæða er til að ætla að skráning afla eða aflaheimilda sé röng. Óheimilt er að stunda veiðar í atvinnuskyni eftir að símskeyti hefur borist móttakanda nema að fenginni staðfestingu Fiskistofu. Séu aflaheimildir skips að liðnum fresti auknar þannig að afli skipsins á fiskveiðiárinu rúmist innan þeirra skal því veitt leyfi að nýju. Útgerð viðkomandi skips skal bera kostnað af símskeytum og öðrum tilkynningum samkvæmt ákvæðum þessarar greinar eftir nánari reglum sem ráðherra setur og er heimilt að bæta þeim kostnaði við gjald sem greitt er fyrir tilkynningu um flutning aflamarks til viðkomandi skips, sbr. 3. mgr. 12. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Heimilt er Fiskistofu að fallast á að tilkynningar samkvæmt þessari grein fari fram með öðrum sannanlegum hætti en símskeyti, enda hafi útgerðir lagt fram tillögur um slíka framkvæmd sem Fiskistofa metur fullnægjandi. Ráðherra getur sett nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. júní 2005.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 2005.