Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1156, 127. löggjafarþing 333. mál: eldi nytjastofna sjávar.
Lög nr. 33 16. apríl 2002.

Lög um eldi nytjastofna sjávar.


1. gr.

     Markmið þessara laga er að stuðla að ábyrgu eldi nytjastofna og tryggja verndun villtra nytjastofna. Skal í því skyni leitast við að tryggja gæði framleiðslunnar, koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýta slíka stofna.

2. gr.

     Til eldis samkvæmt lögum þessum teljast geymsla, gæsla og fóðrun nytjastofna, hafbeit, klak- og seiðaeldi, hvort sem er á landi eða í sjó.
     Til nytjastofna samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru eða kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi, íslensku landgrunni eða á landi með eldi. Ferskvatnsfiskar teljast ekki til nytjastofna samkvæmt þessum lögum.

3. gr.

     Sjávarútvegsráðherra fer með yfirstjórn allra mála er varða eldi nytjastofna sjávar. Til eldis nytjastofna þarf rekstrarleyfi Fiskistofu. Áður en Fiskistofa gefur út slíkt leyfi skal hún afla umsagnar Hafrannsóknastofnunarinnar. Er eldi nytjastofna óheimilt á Íslandi eða í fiskveiðilandhelgi Íslands án slíks leyfis.
     Umsókn um rekstrarleyfi skal vera skrifleg og skulu þar koma fram upplýsingar um m.a. eignaraðild að fiskeldisstöð, fagþekkingu umsækjanda, stærð stöðvar, framleiðslumagn, eldistegundir, eldisaðferðir, matsskyldu framkvæmdar samkvæmt lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Umsókn skulu fylgja skilríki um afnot lands og sjávar, leyfi til mannvirkjagerðar og leyfi til starfsemi samkvæmt ákvæðum annarra laga sem varða slíkan atvinnurekstur. Þá skulu fylgja umsókn gögn um sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti, svo og önnur gögn sem Fiskistofa óskar eftir að lögð verði fram.
     Ef umsókn og önnur gögn eru fullnægjandi og sýnt er að veiting leyfisins stríðir ekki gegn markmiðum 1. gr. skal Fiskistofa gefa út rekstrarleyfi til fimm ára í senn.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð á grundvelli þessara laga sem mælir nánar fyrir um skilyrði sem umsækjendur um rekstrarleyfi samkvæmt lögunum þurfa að uppfylla til að fá útgefið leyfi. Í reglugerðinni skal meðal annars tilgreina viðmið varðandi stærð stöðvar, eldisrými, framleiðslugetu og önnur atriði er varða vistfræðilega og sjúkdómstengda þætti.
     Þrátt fyrir 2. mgr. er ráðherra heimilt í reglugerð að kveða sérstaklega á um skilyrði fyrir veitingu rekstrarleyfa til stöðva sem ekki falla undir matsskyldu samkvæmt lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum.

4. gr.

     Landbúnaðarráðherra skipar fjóra menn í fiskeldisnefnd til fjögurra ára í senn, einn án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu sjávarútvegsráðherra, einn samkvæmt tilnefningu Hafrannsóknastofnunarinnar og einn samkvæmt tilnefningu Veiðimálastofnunar. Landbúnaðarráðherra skipar formann nefndarinnar. Varamenn skal skipa með sama hætti og aðalmenn. Fiskeldisnefnd skal vera til ráðgjafar og stefnumótunar um eldi vatnafiska og nytjastofna bæði á landi og í sjó og fara með þau mál sem henni eru falin samkvæmt lögum.

5. gr.

     Fiskistofa og eftirlitsmenn í hennar þjónustu annast eftirlit með framkvæmd laga þessara og skulu ákvæði laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, gilda eftir því sem við á um það eftirlit. Eftirlitið skal ná til fiskeldislegra þátta í starfsemi stöðvanna og til þess að skilyrði í rekstrarleyfi séu haldin. Forsvarsmönnum fiskeldisstöðva er skylt að veita Fiskistofu og eftirlitsaðilum hennar allar þær upplýsingar og þá aðstoð sem nauðsynleg er við framkvæmd eftirlits og skoðunar.
     Fiskistofu er heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, að annast framkvæmd eftirlitsins samkvæmt sérstökum samningi. Eftirlitið skal framkvæmt á vegum Fiskistofu og eftir reglum sem hún setur. Fyrir eftirlit Fiskistofu eða faggiltra eftirlitsaðila skulu fiskeldisstöðvar greiða árlegt eftirlitsgjald sem miðast við raunkostnað við eftirlitið samkvæmt gjaldskrá sem sjávarútvegsráðherra staðfestir.
     Eftirlitsgjald skal innheimt með einni greiðslu á ári eigi síðar en 1. nóvember ár hvert. Fiskistofa skal annast innheimtu eftirlitsgjaldsins. Ef eftirlitsgjald er ekki greitt á eindaga reiknast hæstu lögleyfðu dráttarvextir af fjárhæð þess frá gjalddaga til greiðsludags.
     Ráðherra getur með reglugerð mælt nánar fyrir um tilhögun eftirlits samkvæmt þessari grein.

6. gr.

     Fiskistofa getur afturkallað rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn ákvæðum laganna eða stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru á grundvelli þeirra, skilyrðum leyfis er ekki fullnægt eða ef leyfishafi verður ófær um að reka fiskeldisstöð. Brjóti leyfishafi gegn ákvæðum laga þessara eða hlíti ekki þeim skilyrðum sem sett eru í rekstrarleyfi skal Fiskistofa veita honum skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta. Sinni leyfishafi ekki slíkri viðvörun skal afturkalla rekstrarleyfi. Sé um ásetning eða stórkostlegt gáleysi að ræða getur Fiskistofa afturkallað starfsleyfi án undanfarandi viðvörunar eða frests til úrbóta.

7. gr.

     Brot gegn ákvæðum laga þessara, reglum settum samkvæmt þeim og ákvæðum leyfisbréfa varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsisvist allt að tveimur árum.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Fiskeldisstöðvar sem starfa á grundvelli starfsleyfis samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, skulu sækja um rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum innan árs frá gildistöku.

Samþykkt á Alþingi 8. apríl 2002.