Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1388, 132. löggjafarþing 448. mál: stjórn fiskveiða (hámark á krókaaflahlutdeild o.fl.).
Lög nr. 42 12. júní 2006.

Lög um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 38 15. maí 1990, með síðari breytingum.


1. gr.

     6. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. a laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó skal samanlögð krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila ekki nema hærra hlutfalli en 4% af þorski og 5% af ýsu miðað við heildarkrókaaflahlutdeild í hvorri tegund.
  2. Við fyrri málslið 2. mgr. bætist: eða meira en 5% af heildarverðmæti krókaaflahlutdeildar.


3. gr.

     Við 3. mgr. 12. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir er orðast svo: Heimilt er Fiskistofu að gera þjónustusamninga um rafrænar tilkynningar um flutning aflamarks milli fiskiskipa og skal greiða 12.000 kr. til Fiskistofu fyrir slíka samninga fyrir hvert fiskveiðiár. Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um skilyrði fyrir gerð þjónustusamninga og víkja frá ákvæðum 1.–3. mgr. að því leyti sem þau lúta að framkvæmd flutnings aflamarks og greiðslu gjalds vegna hans.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi en ákvæði 1. gr. koma til framkvæmda 1. september 2006.
     Þegar lög þessi hafa öðlast gildi skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, og gefa þau út svo breytt með samfelldri greinatölu og kaflanúmerum og samfelldri röð töluliða, stafliða og ákvæða til bráðabirgða sem enn hafa gildi. Jafnframt verða eftirfarandi breytingar á lögunum:
  1. Við 6. gr. b bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó er ráðherra heimilt að veita krókaaflamarksbátum leyfi til að stunda veiðar á botndýrum með þeim veiðarfærum sem til þarf, svo sem plógum og gildrum, svo og til hrognkelsaveiða í net.
  2. Lokamálsliður 6. mgr. 11. gr. orðast svo: Óheimilt er að framselja aflahlutdeild skips nema fyrir liggi samþykki þeirra aðila sem samningsveð áttu í skipinu 1. janúar 1991.
  3. Við 1. málsl. 3. mgr. 17. gr. bætist: og er skipstjórum skylt að veita þeim aðstoð, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 79 26. maí 1997.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þrátt fyrir ákvæði 1.–2. málsl. 5. mgr. 12. gr. skal úthlutað aflamark í úthafsrækju á fiskveiðiárunum 2005/2006, 2006/2007 og 2007/2008 ekki leiða til þess að fiskiskip missi aflahlutdeild í úthafsrækju eða öðrum tegundum.
     Þrátt fyrir lokamálslið 1. mgr. 23. gr. skal endurgreiða útgerð gjald vegna úthlutaðs aflamarks í úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2005/2006. Veiðigjald skv. V. kafla laganna vegna úthafsrækju fiskveiðiárin 2005/2006, 2006/2007 og 2007/2008 skal innheimt í lok hvers fiskveiðiárs miðað við landaðan úthafsrækjuafla fiskiskips á því fiskveiðiári. Þá skal endurgreiða gjald vegna úthlutunar aflaheimilda í rækju á Flæmingjagrunni fyrir árið 2006 og skal veiðigjald fyrir árin 2006, 2007 og 2008 innheimt í lok hvers árs miðað við rækjuafla hvers skips á því ári.

II.
     Sé krókaaflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila, eða í eigu tengdra aðila við gildistöku laga þessara yfir þeim mörkum sem sett eru í 1. eða 2. mgr. 11. gr. a skal viðkomandi aðili þegar í stað senda Fiskistofu tilkynningu í samræmi við 1. mgr. 11. gr. b og gilda þá ákvæði 2. mgr. þeirrar greinar. Aðili skal þó hafa frest til 1. september 2009 til að ráðstafa krókaaflahlutdeildinni þannig að hún rúmist innan settra marka. Að öðru leyti gildir 2. mgr. 11. gr. b um hámark krókaaflahlutdeildar.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2006.