Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 808, 136. löggjafarþing 322. mál: aðför o.fl. (bætt staða skuldara).
Lög nr. 23 27. mars 2009.

Lög um breytingu á lögum um aðför, nr. 90/1989, lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.


I. KAFLI
Breyting á lögum um aðför, nr. 90/1989, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. og 1. málsl. 8. gr. skal þargreindur aðfararfrestur frá gildistöku laga þessara til 1. janúar 2010 vera fjörutíu dagar í stað fimmtán daga.

II. KAFLI
Breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum.

2. gr.

     Á eftir 1. málsl. 2. mgr. 21. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo: Skal sýslumaður meðal annars leiðbeina gerðarþola sérstaklega um þann kost að ráðstafa megi eign með nauðungarsölu á almennum markaði.

3. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Frá gildistöku laga þessara ber sýslumanni að verða við ósk gerðarþola um að fresta fram yfir 31. október 2009 töku ákvörðunar um byrjun uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði ef leitað er nauðungarsölu á grundvelli 6. gr. á fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili, enda sé um að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda. Hafi þegar verið ákveðin ráðstöfun slíkrar fasteignar til fullnustu kröfu skv. 6. gr. við byrjun uppboðs eða framhald þess eða á almennum markaði en uppboði hefur ekki verið lokið eða boð á almennum markaði samþykkt í eign skal sýslumaður verða við ósk gerðarþola um að fresta þeim aðgerðum fram yfir 31. október 2009.
     Verði nauðungarsölu frestað samkvæmt því sem segir í 1. mgr. skulu kröfur, aðrar en skattkröfur, sem trygging er fyrir í viðkomandi eign og tilheyra ríkinu eða stofnun eða fjármálafyrirtæki í eigu þess, aðeins bera þá vexti fram til 1. nóvember 2009 sem þær hefðu ella borið ef ekki hefði komið til vanskila á þeim.
     Tímabil sem nauðungarsölu er frestað skv. 1. mgr. skal undanskilið þeim fresti sem um ræðir í 2. mgr. 27. gr.

III. KAFLI
Breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum.

4. gr.

     3. mgr. 70. gr. laganna orðast svo:
     Ef skuldarinn sækir þing skal héraðsdómari leiðbeina honum um þau úrræði sem kveðið er á um í 3. þætti. Ef skuldari og lánardrottinn sem krefst skipta á búi hans æskja þess má dómari verða við sameiginlegri beiðni þeirra um að fresta meðferð kröfunnar. Slíka fresti má ekki veita til lengri tíma en samtals eins mánaðar nema skuldari sé einstaklingur sem ekki stundar atvinnurekstur, en fresturinn má þá lengstur verða samtals þrír mánuðir.

5. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 87. gr. getur skiptastjóri með samþykki veðhafa heimilað skuldara að búa áfram í húsnæði í eigu búsins í allt að tólf mánuði. Fyrir þau afnot skal hann greiða leigu sem nemur a.m.k. þeim kostnaði sem er af eigninni, en það sem umfram er gengur til greiðslu krafna sem tryggðar eru með veði í eigninni. Heimild þessi fellur niður 1. mars 2010, en ákvörðun sem skiptastjóri hefur tekið fyrir þann dag stendur til loka þess tíma sem ákveðinn var.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.

6. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. laganna skulu dráttarvextir sem leggjast á skattkröfur nema fimmtán hundraðshlutum á ársgrundvelli, þó aldrei hærri en almennir dráttarvextir, frá og með 1. apríl til og með 31. desember 2009.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 25. mars 2009.