Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 942, 136. löggjafarþing 406. mál: listamannalaun (heildarlög).
Lög nr. 57 27. apríl 2009.

Lög um listamannalaun.


1. gr.

Hlutverk.
     Í þeim tilgangi að efla listsköpun í landinu veitir Alþingi árlega fé af fjárlögum til þess að launa listamenn í samræmi við ákvæði laga þessara.

2. gr.

Launasjóðir.
     Starfslaun listamanna skulu veitt úr sex sjóðum:
 1. launasjóði hönnuða,
 2. launasjóði myndlistarmanna,
 3. launasjóði rithöfunda,
 4. launasjóði sviðslistafólks,
 5. launasjóði tónlistarflytjenda,
 6. launasjóði tónskálda.

     Auk starfslauna er sjóðunum heimilt að veita ferðastyrki.
     Yfirumsjón með sjóðunum er í höndum stjórnar listamannalauna. Sérstakar nefndir annast úthlutun starfslauna úr sjóðunum.

3. gr.

Stjórn.
     Menntamálaráðherra skipar þrjá menn í stjórn listamannalauna til þriggja ára í senn, einn samkvæmt tilnefningu Bandalags íslenskra listamanna, einn samkvæmt tilnefningu Listaháskóla Íslands og einn án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi aðalmanna. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann í stjórn listamannalauna lengur en tvö samfelld starfstímabil.
     Stjórnin gerir tillögu til ráðherra um stefnu og áherslur við úthlutun listamannalauna til þriggja ára í senn og hefur eftirlit með að skilyrðum um starfslaun sé fylgt. Stjórninni er heimilt að færa umsóknir á milli sjóða, sbr. 2. gr.
     Ráðherra er heimilt að fela stjórninni að reka sérstaka skrifstofu eða semja við til þess bæra aðila að annast umsýslu sjóðanna.
     Kostnaður vegna umsýslu sjóðanna greiðist af fjárveitingum til listamannalauna.

4. gr.

Starfslaun.
     Starfslaun skulu nema 266.737 kr. á mánuði á verðlagi fjárlaga 2009. Starfslaun eru veitt til listamanns sem telst sjálfstætt starfandi í listgrein sinni. Fjárhæð starfslauna skal koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála.
     Þeir sem taka starfslaun skulu vera á skrá hjá stjórn listamannalauna og fá greidd starfslaun mánaðarlega. Þeir sem njóta starfslauna í sex mánuði eða lengur skulu ekki gegna fullu starfi meðan á starfslaunatímanum stendur.
     Starfslaunaþegar skulu skila skýrslu um störf sín á starfslaunatímanum eigi síðar en ári eftir að honum lýkur. Stjórn listamannalauna má fella niður starfslaun sem veitt eru til lengri tíma en sex mánaða ef talið er að viðkomandi listamaður sinni ekki list sinni að mati stjórnar.

5. gr.

Fjöldi starfslauna.
     Samanlögð starfslaun miðast við 1.600 mánaðarlaun eða 133,33 árslaun.

6. gr.

Launasjóður hönnuða.
     Launasjóður hönnuða veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 50 mánaðarlauna.
     Þriggja manna nefnd, sem ráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum samtaka hönnuða og arkitekta, úthlutar fé úr launasjóði hönnuða. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Úthlutunarnefndin skiptir með sér verkum.

7. gr.

Launasjóður myndlistarmanna.
     Launasjóður myndlistarmanna veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 435 mánaðarlauna.
     Þriggja manna nefnd, sem ráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum Sambands íslenskra myndlistarmanna, úthlutar fé úr launasjóði myndlistarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Úthlutunarnefndin skiptir með sér verkum.

8. gr.

Launasjóður rithöfunda.
     Launasjóður rithöfunda veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 555 mánaðarlauna.
     Þriggja manna nefnd, sem ráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum Rithöfundasambands Íslands, úthlutar fé úr launasjóði rithöfunda. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Úthlutunarnefndin skiptir með sér verkum.

9. gr.

Launasjóður sviðslistafólks.
     Launasjóður sviðslistafólks veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 190 mánaðarlauna.
     Þriggja manna nefnd, sem ráðherra skipar árlega samkvæmt tillögum Leiklistarsambands Íslands, úthlutar fé úr launasjóði sviðslistafólks. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Úthlutunarnefndin skiptir með sér verkum.

10. gr.

Launasjóður tónlistarflytjenda.
     Launasjóður tónlistarflytjenda veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 180 mánaðarlauna.
     Þriggja manna nefnd, sem ráðherra skipar árlega, úthlutar fé úr launasjóði tónlistarflytjenda. Skulu tveir nefndarmanna tilnefndir af Félagi íslenskra hljómlistarmanna og einn af Félagi íslenskra tónlistarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Úthlutunarnefndin skiptir með sér verkum.

11. gr.

Launasjóður tónskálda.
     Launasjóður tónskálda veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 190 mánaðarlauna.
     Ráðherra skipar árlega þriggja manna nefnd sem úthlutar fé úr launasjóði tónskálda. Tónskáldafélag Íslands tilnefnir tvo fulltrúa og Félag tónskálda og textahöfunda tilnefnir einn fulltrúa. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Úthlutunarnefndin skiptir með sér verkum.

12. gr.

Lengd starfslauna.
     Starfslaun skulu veitt til 6, 9, 12, 18 eða 24 mánaða. Heimilt er að úthluta starfslaunum til skemmri tíma en hálfs árs, þó aldrei skemur en til þriggja mánaða. Sú upphæð sem varið er til þessa, sem og til ferðastyrkja, skal ekki vera hærri en nemur 10% þeirra mánaðarlauna sem hver sjóður hefur til úthlutunar árlega.
     Ef starfslaunum er úthlutað til einstaklinga vegna afmarkaðra verkefna er heimilt að víkja frá ákvæðum 1. mgr.
     Miða skal við að fjórðungur heildarstarfslauna hvers sjóðs samkvæmt lögum þessum verði að jafnaði veittur til listamanna sem taka laun í eitt ár eða meira.
     Heimilt er að úthluta starfslaunum til lengri tíma en 24 mánaða, þó aldrei lengur en til 36 mánaða.

13. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna í heild eða einstakar greinar þeirra, þar á meðal um skilgreiningu á því hvað teljist fullt starf, sbr. 2. mgr. 4. gr., og um tilhögun tilnefninga af hálfu tilnefningaraðila í úthlutunarnefndir, sbr. 6.–11. gr. Þá skal enn fremur setja nánari ákvæði í reglugerð um skilmála fyrir veitingu starfslauna, þar með talið um endurgreiðslu þeirra ef gegn þeim skilmálum er brotið.
     Við framkvæmd þessarar greinar skal haft samráð við samtök listamanna eftir því sem við á hverju sinni.

14. gr.

Málsmeðferð.
     Ákvarðanir skv. 6.–11. gr. eru endanlegar á stjórnsýslustigi og sæta ekki kæru til ráðherra.

15. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Fyrirmæli um úthlutun úr launasjóðum listamanna koma til framkvæmda á árinu 2010.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. skulu samanlögð starfslaun árið 2010 miðast við 1.325 mánaðarlaun og árið 2011 við 1.465 mánaðarlaun.

II.
     Þrátt fyrir ákvæði 6.–11. gr. skulu starfslaun og styrkir til listamanna árin 2010 og 2011 vera sem hér segir:
 1. Starfslaun og styrkir hönnuða árið 2010 skulu miðast við 20 mánaðarlaun og árið 2011 við 35 mánaðarlaun.
 2. Starfslaun og styrkir myndlistarmanna árið 2010 skulu miðast við 360 mánaðarlaun og árið 2011 við 400 mánaðarlaun.
 3. Starfslaun og styrkir rithöfunda árið 2010 skulu miðast við 505 mánaðarlaun og árið 2011 við 530 mánaðarlaun.
 4. Starfslaun og styrkir sviðslistafólks árið 2010 skulu miðast við 160 mánaðarlaun og árið 2011 við 175 mánaðarlaun.
 5. Starfslaun og styrkir tónlistarflytjenda árið 2010 skulu miðast við 150 mánaðarlaun og árið 2011 við 165 mánaðarlaun.
 6. Starfslaun og styrkir tónskálda árið 2010 skulu miðast við 130 mánaðarlaun og árið 2011 við 160 mánaðarlaun.


III.
     Listamenn sem notið höfðu listamannalauna í nokkur ár fyrir 31. desember 1991 og höfðu þá náð 60 ára aldri skulu njóta sérstakra framlaga samkvæmt ákvörðun stjórnar listamannalauna.

Samþykkt á Alþingi 16. apríl 2009.