Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 322, 137. löggjafarþing 4. mál: meðhöndlun úrgangs (flutningur úrgangs milli landa, EES-reglur).
Lög nr. 93 21. ágúst 2009.

Lög um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. Eftirfarandi skilgreiningar bætast við greinina í viðeigandi stafrófsröð:
 2.       Framleiðandi úrgangs: aðili sem veldur því að úrgangur myndast.
        Tilkynnandi: hver sá sem hyggst flytja út úrgang eða láta flytja út úrgang og er skylt að tilkynna um það samkvæmt lögum þessum. Tilkynnandi er einn af eftirfarandi aðilum sem forgangsraðast svo: framleiðandi úrgangs, sá sem meðhöndlar úrgang, flytjandi úrgangs. Ef enginn af framangreindum aðilum er þekktur er tilkynnandi sá sem hefur úrgang í vörslu sinni.
 3. Skilgreining á umflutningi verður svohljóðandi: Umflutningur: flutningur úrgangs í höfn eða á flugvöll og þaðan aftur án tollafgreiðslu.
 4. Í stað orðanna „13. gr.“ í skilgreiningum á spilliefni og úrgangi kemur: 20. gr.


2. gr.

     1. málsl. 9. gr. laganna orðast svo: Rekstraraðili skal fyrir 1. maí ár hvert skila til Umhverfisstofnunar skýrslu um þær tegundir úrgangs sem fargað er eða eru endurnýttar eða endurnotaðar, um heildarmagn og um árangur af vöktunaráætlun, sbr. 32. og 33. gr., fyrir undangengið ár.

3. gr.

     Í stað orðanna „15. gr.“ í 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: 22. gr.

4. gr.

     Í stað 12. gr. laganna kemur nýr kafli, III. kafli, Flutningur úrgangs á milli landa, með átta nýjum greinum, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytast númer annarra greina og kafla samkvæmt því:
     
     a. (12. gr.)
Skráning og tilkynningarskylda.
     Framleiðandi úrgangs eða sá sem hefur úrgang í vörslu sinni skal halda skrá m.a. yfir magn og uppruna úrgangs, áfangastað og hver sé viðtakandi hans, samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð sem ráðherra setur. Framleiðandi úrgangs eða sá sem hefur úrgang í vörslu sinni skal hafa skrána aðgengilega fyrir eftirlitsaðila.
     Sá aðili sem meðhöndlar úrgang, sem er nánar tilgreindur í reglugerð sem ráðherra setur, skal jafnframt tilkynna Umhverfisstofnun um magn og uppruna úrgangsins, áfangastað og hver sé viðtakandi hans.
     
     b. (13. gr.)
Takmörkun á flutningi úrgangs.
     Óheimilt er að flytja tilteknar tegundir úrgangs milli tiltekinna landa, annars vegar til förgunar og hins vegar til endurnýtingar, hvort sem um er að ræða útflutning, innflutning eða umflutning. Tilgreina skal í reglugerð sem ráðherra setur tegundir úrgangs sem óheimilt er að flytja og þau lönd sem óheimilt er að flytja slíkan úrgang til, sbr. 1. málsl.
     Óheimilt er að þynna eða blanda úrgang við undirbúning flutnings og á meðan á flutningi stendur.
     Umhverfisstofnun sker úr ágreiningi um hvort um vöru eða úrgang er að ræða. Kæra til ráðherra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar Umhverfisstofnunar.
     
     c. (14. gr.)
Samþykki.
     Umhverfisstofnun samþykkir tilkynningar fyrir innflutning, útflutning og umflutning úrgangs sem tilgreindur er nánar í reglugerð sem ráðherra setur. Ráðherra kveður í reglugerð á um skilyrði fyrir samþykki stofnunarinnar fyrir flutningi úrgangs.
     
     d. (15. gr.)
Eftirlit og sýnataka.
     Umhverfisstofnun fer með eftirlit með flutningi úrgangs milli landa. Stofnuninni skal heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits að einstökum förmum úrgangs sem fluttur er milli landa, þar á meðal til töku sýna og myndatöku. Heimild þessi nær einnig til úrgangs sem er undirbúinn til flutnings. Um eftirlit og sýnatöku skal kveða nánar á í reglugerð.
     
     e. (16. gr.)
Gjaldtaka.
     Umhverfisstofnun er heimilt að innheimta gjald vegna umsýslu við tilkynningar, sbr. 14. gr. Þá er stofnuninni heimilt að innheimta gjald vegna sýnatöku og eftirlits, sbr. 15. gr. Ráðherra setur, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni stofnunarinnar vegna flutnings á úrgangi milli landa. Upphæð gjalda skal taka mið af kostnaði við veitta þjónustu og verkefni samkvæmt þessum kafla.
     
     f. (17. gr.)
Trygging um fjárhagslega ábyrgð vegna flutnings úrgangs.
     Umhverfisstofnun er heimilt að setja sem skilyrði fyrir samþykki stofnunarinnar fyrir útflutningi, innflutningi og umflutningi úrgangs að framleiðandi úrgangs eða sá sem hefur úrgang í vörslu sinni framvísi tryggingu um fjárhagslega ábyrgð fyrir kostnaði við meðhöndlun úrgangsins. Trygging um fjárhagslega ábyrgð getur verið bankaábyrgð, vátrygging eða önnur trygging sem Umhverfisstofnun metur fullnægjandi. Upphæð tryggingar um fjárhagslega ábyrgð skal ná yfir kostnað við meðhöndlun úrgangsins, þ.m.t. geymslu úrgangsins í 90 daga, kostnað við að flytja úrganginn á annan endurnýtingar- eða förgunarstað og að flytja úrganginn til baka til upprunalands.
     
     g. (18. gr.)
Ólöglegur flutningur.
     Nú uppgötvar Umhverfisstofnun flutning sem stofnunin telur vera ólöglegan og skal hún þá þegar tilkynna það öðrum hlutaðeigandi lögbærum stjórnvöldum. Jafnframt skal Umhverfisstofnun taka til baka úrgang sem hefur verið fluttur ólöglega út eða láta endurvinna eða farga úrganginum í samráði við önnur lögbær stjórnvöld sem hlut eiga að máli. Ráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd aðgerða vegna ólöglegs flutnings úrgangs.
     Sá kostnaður sem hlýst af ólöglegum flutningi úrgangs skv. 1. mgr. skal greiddur í eftirfarandi röð af:
 1. tilkynnanda í reynd, eða ef engin tilkynning hefur verið lögð fram,
 2. tilkynnanda að lögum, eða,
 3. öðrum aðila sem tengist úrganginum, eða ef því verður ekki komið við,
 4. lögbæru sendingarstjórnvaldi.

     Kostnaður sem leggst á Umhverfisstofnun skv. 2. mgr. greiðist úr ríkissjóði.
     
     h. (19. gr.)
Skylda að taka úrgang til baka.
     Umhverfisstofnun skal taka til baka úrgang þegar flutningur hans er ekki í samræmi við skilyrði samþykkis fyrir flutningnum. Umhverfisstofnun er þó ekki skylt að taka til baka úrgang ef:
 1. hlutaðeigandi lögbær stjórnvöld sem hlut eiga að máli telja fullnægjandi að úrgangurinn sé meðhöndlaður með öðrum hætti þar sem hann er staðsettur eða annars staðar; skal það gert af tilkynnanda, lögbæru stjórnvaldi þar sem úrgangurinn er staðsettur eða af aðila á vegum þess,
 2. úrgangurinn hefur blandast öðrum úrgangi áður en Umhverfisstofnun var gert viðvart um að úrgangurinn uppfyllti ekki skilyrði samþykkis fyrir flutningnum.

     Umhverfisstofnun skal tilkynna hlutaðeigandi lögbærum stjórnvöldum um að flutningur úrgangs sé ekki í samræmi við samþykki fyrir honum um leið og stofnuninni verður það ljóst.
     Sá kostnaður sem hlýst af móttöku úrgangs skv. 1. mgr. skal greiddur í eftirfarandi röð af:
 1. tilkynnanda, eða ef því verður ekki komið við,
 2. öðrum aðila sem tengist úrganginum, eða ef því verður ekki komið við,
 3. Umhverfisstofnun, eða ef því verður ekki komið við,
 4. samkvæmt samkomulagi milli hlutaðeigandi lögbærra stjórnvalda sem hlut eiga að máli.

     Kostnaður sem leggst á Umhverfisstofnun skv. 2. mgr. greiðist úr ríkissjóði.

5. gr.

     Á undan 13. gr. laganna, sem verður 20. gr. þeirra, kemur ný kaflafyrirsögn, svohljóðandi: IV. KAFLI, Reglugerðir, og breytast númer kafla samkvæmt því.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna, er verður 20. gr.:
 1. Í stað orðanna „15. gr.“ í f-lið kemur: 22. gr.
 2. Í stað orðanna „17. gr.“ í h-lið kemur: 24. gr.
 3. Í stað k- og l-liðar koma sex nýir stafliðir, svohljóðandi:
  1. eftirlit með flutningi úrgangs milli landa og tilkynningarskyldu þeirra sem meðhöndla og flytja slíkan úrgang, fjárhagslega ábyrgð og tryggingu skv. 17. gr.,
  2. bann eða takmörkun á flutningi úrgangs til og frá tilteknum löndum, annars vegar til förgunar og hins vegar til endurnýtingar,
  3. nánari atriði er varða ólöglegan útflutning, innflutning og umflutning á úrgangi og skyldur aðila til að taka úrgang til baka,
  4. skrá sem framleiðandi úrgangs eða sá sem hefur úrgang í vörslu sinni skal halda, m.a. yfir magn og uppruna úrgangs, áfangastað og viðtakanda hans,
  5. samþykki Umhverfisstofnunar, hvaða úrgangur er háður slíku samþykki og eyðublöð fyrir tilkynningu um flutning úrgangs, ásamt sértækum leiðbeiningum og hvaða upplýsingar og skjöl þurfa að fylgja tilkynningunni,
  6. önnur atriði sem samræmast lögum þessum.


7. gr.

     Í stað orðanna „20. gr.“ í 6. mgr. 19. gr. laganna kemur: 27. gr.

8. gr.

     Í stað orðanna „a–d-lið 4. mgr. 19. gr.“ og „3. mgr. 21. gr“ í 2. mgr. 20. gr. laganna kemur: a–d-lið 4. mgr. 26. gr., og: 3. mgr. 28. gr.

9. gr.

     Í stað orðanna „14. gr.“ í a-lið 22. gr. laganna og „16., 17. og 18. gr.“ í e-lið sömu greinar kemur: 21. gr., og: 23., 24. og 25. gr.

10. gr.

     Í stað orðanna „17. gr.“ í 2. mgr. 24. gr. laganna kemur: 24. gr.

11. gr.

     Í stað orðanna „15. gr.“ í 4. mgr. 26. gr. laganna kemur: 22. gr.

12. gr.

Innleiðing á reglugerð.
     Lög þessi eru sett til innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1013/2006/EB frá 14. júní 2006 um flutning úrgangs, sem vísað er til í V. kafla í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 73/2008.

13. gr.

     Ríkisstjórninni er heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 73/2008, frá 14. júní 2006, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992 og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1013/2006/EB um flutning úrgangs.

14. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 11. ágúst 2009.