Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 718, 138. löggjafarþing 389. mál: nauðungarsala (frestun uppboðs).
Lög nr. 11 26. febrúar 2010.

Lög um breyting á lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum (frestur).


1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Nú er leitað nauðungarsölu á grundvelli 6. gr. á fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili og um er að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda og ber þá sýslumanni að verða við ósk gerðarþola um að fresta í allt að þrjá mánuði töku ákvörðunar um framhald uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði. Hafi þegar verið ákveðin ráðstöfun slíkrar fasteignar til fullnustu kröfu skv. 6. gr. við framhald uppboðs eða á almennum markaði en uppboði hefur ekki verið lokið eða boð á almennum markaði samþykkt í eign skal sýslumaður að fullnægðum sömu skilyrðum verða við ósk gerðarþola um að fresta þeim aðgerðum í allt að þrjá mánuði.
     Ákvæði þetta fellur úr gildi 31. október 2010.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 25. febrúar 2010.