Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1479, 138. löggjafarþing 687. mál: meðferð einkamála (málsóknarfélög).
Lög nr. 117 20. september 2010.

Lög um breytingu á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála (málsóknarfélög).


1. gr.

     Á eftir 19. gr. laganna kemur ný grein, 19. gr. a, svohljóðandi:
     1. Þremur aðilum eða fleiri, sem eiga kröfur á hendur sama aðila sem eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, er í stað þess að sækja mál skv. 1. mgr. 19. gr. heimilt að láta málsóknarfélag, sem þeir eiga hlut að, reka í einu lagi mál um kröfur þeirra allra. Málsóknarfélag skal stofnað til að reka tiltekið mál fyrir dómi og er hvorki heimilt að takmarka ábyrgð félagsmanna á skuldbindingum félagsins né láta það starfa við annað en rekstur málsins og eftir atvikum fullnustu á réttindum félagsmanna og uppgjör krafna þeirra. Séu málsóknarfélagi ekki settar sérstakar samþykktir skulu gilda um það almennar samþykktir sem dómsmálaráðherra ákveður í reglugerð. Halda skal skrá um félagsmenn. Verði málsóknarfélag skrásett skal ekki greitt fyrir það gjald í ríkissjóð.
     2. Þótt málsóknarfélag eigi aðild að máli eiga félagsmenn hver fyrir sitt leyti þá hagsmuni sem málið varðar og njóta þar sömu stöðu og aðilar að því leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum þessarar greinar. Í stefnu skal dómkrafa gerð í einu lagi í nafni félagsins en greint skal allt að einu frá félagsmönnum, svo og hvern hlut hver þeirra eigi í kröfu sé hún um greiðslu peningafjárhæðar. Í dómi skal kveðið á um kröfu eða önnur réttindi félagsins á hendur gagnaðila án þess að félagsmanna sé getið. Félagið fer í hvívetna með forræði á máli svo að bindandi sé fyrir félagsmenn, þar á meðal til að fella það niður eða ljúka því með dómsátt. Ef því er að skipta leitar félagið í eigin nafni fullnustu réttinda félagsmanna að máli loknu. Leita má fullnustu á réttindum á hendur málsóknarfélagi hjá félagsmönnum sjálfum.
     3. Nú gengur nýr aðili í málsóknarfélag eftir að mál er höfðað en áður en aðalmeðferð þess er hafin og getur þá félagið aukið við dómkröfur sínar í þágu nýja félagsmannsins. Slík breyting á dómkröfum skal eftir þörfum gerð með framhaldsstefnu og gildir þá ekki það skilyrði 29. gr. að félaginu verði ekki metið til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar í einu lagi í öndverðu.
     4. Segi félagsmaður sig eftir höfðun máls úr málsóknarfélagi fer það ekki lengur með forræði á hagsmunum hans sem málið varðar og ber félaginu að breyta dómkröfum sínum að því leyti sem úrsögn gefur tilefni til. Dæma má félagsmann, sem svo er ástatt um, til að greiða hlut í málskostnaði sem gagnaðila félagsins kann að verða ákveðinn.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 8. september 2010.