Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1495, 138. löggjafarþing 597. mál: fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda (frambjóðendur í forsetakosningum, lækkun nafnleyndargólfs o.fl.).
Lög nr. 119 21. september 2010.

Lög um breytingu á lögum nr. 162/2006, um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra.


1. gr.

     1. málsl. 1. gr. laganna orðast svo: Tilgangur laga þessara er að kveða á um framlög til frambjóðenda í kjöri til embættis forseta Íslands, til Alþingis og til sveitarstjórna, opinber og almenn fjárframlög til stjórnmálasamtaka og stjórnmálastarfsemi og draga úr hættu á hagsmunaárekstrum og tryggja gagnsæi í fjármálum.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
 1. 3. tölul. orðast svo: Frambjóðendur: Þátttakendur í persónukjöri í forsetakosningum, kosningum til Alþingis og kosningum til sveitarstjórna og þátttakendur í prófkjörum stjórnmálasamtaka.
 2. Við 2. málsl. 4. tölul. bætist: sem og sala stjórnmálasamtaka á vörum og þjónustu á yfirverði.


3. gr.

     Við 3. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
     Stjórnmálasamtök sem bjóða fram í öllum kjördæmum í kosningum til Alþingis geta að loknum kosningum sótt um sérstakan fjárstyrk úr ríkissjóði til að mæta útlögðum kostnaði við kosningabaráttu, að hámarki 3 millj. kr. Umsóknum um fjárstyrk vegna kosningabaráttu skal beint til dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og skulu umsóknir berast eigi síðar en þremur mánuðum eftir að kosningar fóru fram. Umsóknum skal fylgja afrit reikninga fyrir kostnaði sem fjárstyrk er ætlað að mæta. Dómsmála- og mannréttindaráðuneyti getur sett nánari reglur um form umsókna og fylgigagna sem og um það hvaða kostnaður geti talist kostnaður við kosningabaráttu.
     Skilyrði úthlutunar á fé úr ríkissjóði til stjórnmálasamtaka skv. 1. mgr. er að viðkomandi samtök hafi áður fullnægt upplýsingaskyldu sinni til Ríkisendurskoðunar skv. 9. gr.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
 1. Á eftir orðinu „sveitarstjórnarkosningum“ í 1. málsl. kemur: árleg.
 2. Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
 3.      Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga er heimilt að setja viðmiðunarreglur til að stuðla að samræmdri framkvæmd á greiðslum framlaga frá sveitarfélögum til stjórnmálasamtaka samkvæmt þessari grein. Á því ári sem sveitarstjórnarkosningar eru skal úthlutun framlaga fara fram á þann hátt að stjórnmálasamtök fái framlög fyrir síðari hluta þess árs í samræmi við kjörfylgi í nýafstöðnum kosningum.


5. gr.

     Við 2. mgr. 6. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðast svo: Berist stjórnmálasamtökum eða frambjóðanda framlag frá óþekktum gefanda skal skila framlaginu í ríkissjóð enda hafi ekki gefist tækifæri til að hafna móttöku þess.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
 1. Í stað fjárhæðarinnar „300.000 kr.“ í 1. og 2. mgr. kemur: 400.000 kr.
 2. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein sem orðast svo:
 3.      Stofnframlög, þ.e. framlög frá lögráða einstaklingum og lögaðilum sem eru veitt í beinum tengslum við stofnun stjórnmálasamtaka, mega að hámarki nema sem svarar til tvöföldu hámarksframlagi skv. 1. mgr.
 4. 2. málsl. 2. mgr. fellur brott.
 5. 3. mgr. fellur brott.
 6. Í stað orðanna „í prófkjörum af kosningabaráttu“ í inngangsmálslið 4. mgr. kemur: af kosningabaráttu í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna.
 7. Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
 8.      Heildarkostnaður frambjóðanda í forsetakosningum af kosningabaráttu má ekki vera hærri en sem nemur tvöfaldri þeirri fjárhæð sem tiltekin er í 4. mgr. á hvern íbúa á kjörskrá fyrir landið allt.
 9. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Hámarksframlög, leiðbeiningarreglur og kostnaður vegna kosningabaráttu.


7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
 1. Í stað fjárhæðarinnar „300.000 kr.“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: 400.000 kr.
 2. Á eftir orðunum „til að staðreyna“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: reikninga og.


8. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Stjórnmálasamtök skulu fyrir 1. október ár hvert skila Ríkisendurskoðun reikningum sínum fyrir síðastliðið ár, sbr. 8. gr., árituðum af endurskoðendum. Ríkisendurskoðun skal í kjölfarið, eins fljótt og unnt er, birta útdrátt úr ársreikningi stjórnmálasamtaka með samræmdum hætti. Þar skal greina frá heildargjöldum og heildartekjum. Í útdrættinum skulu tekjur sundurliðaðar eftir uppruna þannig að greint sé á milli ríkisframlags, framlaga frá sveitarfélögum, framlaga frá lögaðilum, félagsgjalda og framlaga frá einstaklingum og einnig greint frá helstu stærðum í efnahagsreikningi. Greina skal sérstaklega alla móttekna afslætti frá markaðsverði sem og sölu á þjónustu, vöru eða eignum á yfirverði. Birta skal nöfn allra lögaðila sem veita framlög til stjórnmálastarfsemi sem og fjárhæð þeirra. Einnig skal birta nöfn einstaklinga sem veitt hafa framlög sem eru metin á meira en 200.000 kr.

9. gr.

     10. gr. laganna orðast svo:
     Frambjóðendur skulu gera uppgjör fyrir kosningabaráttu sína þar sem greint er frá öllum framlögum og útgjöldum vegna hennar í samræmi við almennar reikningsskilareglur og skal uppgjörið áritað af endurskoðanda eða bókhaldsfróðum skoðunarmanni. Miða skal uppgjörstímabil við það tímamark þegar kosningabarátta frambjóðanda hefst. Þegar um prófkjör er að ræða skal miða uppgjörstímabil við það tímamark þegar prófkjör er auglýst nema kosningabarátta frambjóðanda hafi hafist fyrr. Þegar um forsetakjör er að ræða skal miða uppgjörstímabil við það tímamark þegar framboði er skilað til dómsmálaráðuneytis nema kosningabarátta frambjóðanda hafi hafist fyrr. Miða skal lok uppgjörstímabils við það tímamark þegar reikningum er skilað til Ríkisendurskoðunar skv. 11. gr. Ríkisendurskoðun gefur út leiðbeiningar um uppgjör fyrir kosningabaráttu og um upplýsingaskyldu um uppgjörið.
     Ríkisendurskoðun getur hvenær sem er kallað eftir öllum gögnum til að staðreyna að kostnaður við kosningabaráttu og framlög einstaklinga og lögaðila til frambjóðanda séu innan þeirra marka sem greinir í III. kafla.
     Frambjóðendur eru undanþegnir uppgjörsskyldu ef heildartekjur eða heildarkostnaður við kosningabaráttu er ekki umfram 400.000 kr.

10. gr.

     11. gr. laganna orðast svo:
     Frambjóðendur skulu skila Ríkisendurskoðun árituðum reikningum sínum eigi síðar en þremur mánuðum frá því að kosning fór fram. Ríkisendurskoðun skal í kjölfarið, eins fljótt og unnt er, birta útdrátt úr reikningum með samræmdum hætti. Þar skal greina frá heildargjöldum og heildartekjum. Í útdrættinum skulu tekjur sundurliðaðar eftir uppruna þannig að greint sé á milli ríkisframlags, framlaga frá sveitarfélögum, framlaga frá lögaðilum, félagsgjalda og framlaga frá einstaklingum og einnig greint frá helstu stærðum í efnahagsreikningi. Greina skal sérstaklega alla móttekna afslætti frá markaðsverði sem og sölu á þjónustu, vöru eða eignum á yfirverði. Birta skal nöfn allra lögaðila sem veita framlög til kosningabaráttu frambjóðandans sem og fjárhæð þeirra. Einnig skal birta nöfn einstaklinga sem veitt hafa framlög sem eru metin á meira en 200.000 kr. til kosningabaráttu frambjóðandans.
     Ef uppgjör vegna kosningabaráttu sýnir jákvæða eða neikvæða fjárhagsstöðu skal frambjóðandi árlega skila nýju uppgjöri til Ríkisendurskoðunar eða allt þar til umframfjármunum hefur verið ráðstafað eða skuld verið greidd.

11. gr.

     12. gr. laganna orðast svo:
     Hver sem tekur við framlögum, eða jafnvirði þeirra, sem óheimilt er að veita viðtöku skv. 6. gr. eða hærri framlögum en heimilt er skv. 7. gr. skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
     Hver sem skilar ekki upplýsingum eða skýrslum samkvæmt ákvæðum laga þessara til Ríkisendurskoðunar innan tilgreindra tímamarka skal sæta sektum. Sama gildir séu veittar upplýsingar ekki í samræmi við settar reglur.
     Gera skal lögaðilum sekt fyrir brot á 1. eða 2. mgr.
     Refsa skal fyrir brot samkvæmt þessari grein séu þau framin af ásetningi eða gáleysi.
     Tilraun og hlutdeild í brotum samkvæmt þessari grein er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.
     Heimilt er að gera upptæk til ríkissjóðs framlög sem tekið er við án heimilda eða umfram heimildir samkvæmt lögum þessum eftir því sem segir í VII. kafla A almennra hegningarlaga.

12. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. október 2010.

Samþykkt á Alþingi 9. september 2010.