Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1143, 139. löggjafarþing 136. mál: fjarskipti (fjarskiptaáætlun, stjórnun, úthlutun tíðna o.fl.).
Lög nr. 34 13. apríl 2011.

Lög um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum (fjarskiptaáætlun, stjórnun og úthlutun tíðna o.fl.).


I. KAFLI
Fjarskiptaáætlun.

1. gr.

     3.–5. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra leggur á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjarskiptaáætlun þar sem mörkuð skal stefna fyrir næstu tólf árin. Í fjarskiptaáætlun skal gera grein fyrir ástandi og horfum hvað varðar fjarskipti í landinu, og meta og taka tillit til þarfa samfélagsins fyrir bætt fjarskipti. Skilgreina skal markmið stjórnvalda sem stefna ber að og leggja þannig grunn að framþróun íslensks samfélags. Markmiðin skulu stuðla að aðgengilegum og greiðum, hagkvæmum og skilvirkum, öruggum og umhverfisvænum fjarskiptum. Heimilt skal í fjarskiptaáætlun að skoða fjarskipti heildstætt í tengslum við aðra þætti samskipta, svo sem rafræn samskipti og samskipti sem byggjast á póstþjónustu.
     Í fjarskiptaáætlun skal leggja áherslu á að:
 1. ná fram víðtæku samstarfi markaðarins, neytenda, opinberra stofnana og ráðuneyta um stefnumótun er varðar fjarskipti og skyld svið,
 2. styrkja samkeppni á fjarskiptamarkaði og auka samkeppnishæfni Íslands,
 3. tryggja öryggi almennra fjarskiptaneta innan lands og tengingar Íslands við umheiminn,
 4. ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og hámarka jákvæð áhrif fjarskiptatækni á hagvöxt,
 5. ná fram samræmdri forgangsröðun og stefnumótun, og skal forgangsröðun byggjast á mati á þörf fyrir úrbætur á landinu í heild og í einstökum landshlutum,
 6. stuðla að atvinnuuppbyggingu, eflingu lífsgæða og jákvæðri byggðaþróun.

     Í fjarskiptaáætlun skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fjögurra ára, og leggur ráðherra fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um slíka áætlun. Aðgerðaáætlun skal endurskoðuð á tveggja ára fresti og má þá leggja nýja þingsályktunartillögu fyrir Alþingi, en það skal gert eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Í fjögurra ára áætlun skal gera grein fyrir fjáröflun og útgjöldum eftir einstökum verkefnum eins og við á. Fjarskiptaáætlun og fjögurra ára áætlun hennar taka gildi þegar Alþingi hefur samþykkt þær sem þingsályktanir.

II. KAFLI
Stjórnun og úthlutun tíðna.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
 1. Á undan 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 2.      Fjarskiptatíðnir innan íslensks yfirráðasvæðis og númer úr íslenska númeraskipulaginu eru auðlindir undir stjórn íslenska ríkisins. Úthlutun á tíðnum og númerum felur í sér tímabundna heimild til skilyrtra afnota sem hvorki leiðir til eignarréttar né varanlegs nýtingar- og ráðstöfunarréttar.
 3. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
 4.      Póst- og fjarskiptastofnun skal birta opinberlega upplýsingar um öll réttindi til notkunar á tíðnum og númerum og rétthafa þeirra. Tíðniheimildir sem veittar eru til eigin nota má undanskilja birtingu, svo og upplýsingar um tíðniheimildir sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari vegna mikilvægra öryggis-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuna rétthafa.


3. gr.

     Í stað 2. og 3. málsl. 9. gr. laganna kemur einn málsliður sem orðast svo: Við töku ákvarðana um að takmarka fjölda réttinda eða framlengja gildistíma réttinda á tíðnisviði þar sem fjöldi réttinda er takmarkaður skal leggja áherslu á hagsmuni notenda og að örva samkeppni, auk þess sem tillit skal tekið til hvata og áhættu við fjárfestingar, og skal öllum hagsmunaaðilum, þ.m.t. notendum, gefið tækifæri til þess að tjá sig um takmarkanir á réttindum áður en Póst- og fjarskiptastofnun tekur ákvörðun sína sem skal birt ásamt rökstuðningi.

4. gr.

     11. gr. laganna orðast svo:
     Póst- og fjarskiptastofnun skal taka ákvörðun um réttindi til þess að nota tíðnir og númer eins fljótt og unnt er eftir móttöku umsóknar. Ákvörðun skal liggja fyrir innan þriggja vikna ef um er að ræða númer sem ætluð eru til ákveðinnar notkunar samkvæmt númeraskipulaginu og innan sex vikna ef tíðnir eru ætlaðar til ákveðinnar notkunar í tíðniskipulaginu.
     Umsókn um réttindi til tíðninotkunar skal taka til afgreiðslu án tafar ef hún lýtur eingöngu að óverulegum hluta af skilgreindu tíðnisviði og úthlutun hefur þannig ekki teljandi áhrif á framboð þess eða neikvæð áhrif á samkeppni.
     Nú berst Póst- og fjarskiptastofnun umsókn um tíðnir til að veita almenna fjarskiptaþjónustu eða til útvarps, sem ekki fellur undir 2. mgr., og skal stofnunin þá með auglýsingu kanna hugsanlegan vilja annarra til að fá úthlutun á umræddu tíðnisviði. Komi í ljós áhugi um að fá úthlutun á viðkomandi tíðnisviði er heimilt að taka ákvörðun um að úthlutun fari fram með útboði eða uppboði skv. 6. eða 7. mgr. eftir því sem við á.
     Krefjast má þess af umsækjendum um réttindi að þeir leggi fram fullnægjandi upplýsingar um eignaraðild, fjárhagsstöðu og fyrirhugaða starfsemi, svo og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar teljast til að leggja mat á umsóknir þeirra. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja sérstök skilyrði varðandi hæfi umsækjanda um fjarskipta- og útvarpstíðnir til að fá úthlutun, svo sem um fjárhagslega burði til uppbyggingar og reksturs fjarskiptanets sem ætlað er til að nota þær tíðnir sem sótt er um, tæknilega getu og reynslu umsækjanda til að reka almenna fjarskiptaþjónustu og að umsækjandi hafi ekki brotið alvarlega eða ítrekað gegn ákvæðum laga þessara eða vanefnt verulega skilmála fyrri úthlutana tíðniréttinda.
     Setja má skorður við úthlutun tíðna fyrir hljóðvarp og sjónvarp sem byggjast á menningarlegum sjónarmiðum, svo sem til þess að stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu. Einnig má setja skorður við úthlutun tíðna ef úthlutun getur orðið til þess að hindra virka samkeppni á fjölmiðlamarkaði.
     Viðhafa má útboð við úthlutun réttinda til að nota númer og tíðnir. Útboð skal að jafnaði vera opið en heimilt er að hafa útboð lokað að undangengnu opnu forvali. Póst- og fjarskiptastofnun annast framkvæmd útboða og ákveður skilmála í útboðslýsingu. Útboðslýsing skal innihalda allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að bjóðanda sé unnt að leggja fram tilboð í réttindi. Í útboðslýsingu fyrir útboð á tíðnum skulu m.a. koma fram upplýsingar um lágmarksþjónustusvæði, afmörkun þess tíðnisviðs sem boðið er út, hversu mörg réttindi eru í boði, gildistími réttinda, hvort réttindin verða bundin við tiltekna þjónustu eða tækni, hæfi bjóðenda, aðra skilmála varðandi útboðið sjálft og um notkun og nýtingu á því tíðnisviði sem boðið er út. Skýrar upplýsingar skulu koma fram um mat á tilboðum. Óheimilt er að leggja fram frávikstilboð nema það sé sérstaklega heimilað í útboðslýsingu. Heimilt er að takmarka fjölda tilboða frá hverjum bjóðanda eða tengdum aðilum og einnig er heimilt að takmarka þátttöku aðila sem þegar hafa réttindi á sambærilegu tíðnisviði.
     Ráðherra getur ákveðið að úthlutun fari fram að loknu uppboði. Í ákvörðun um uppboð skal koma fram hvort réttindi skuli bundin skilyrðum sem þjóna eiga samfélagslegum markmiðum, t.d. að ákveðin þjónusta verði boðin á tilteknu útbreiðslusvæði. Póst- og fjarskiptastofnun ákveður skilmála uppboðs að öðru leyti. Póst- og fjarskiptastofnun annast framkvæmd uppboða og úthlutun réttinda að loknu uppboði. Póst- og fjarskiptastofnun getur falið öðrum hæfum aðila að annast tiltekna þætti í framkvæmd uppboðs. Í uppboðsskilmálum skal tilgreina nákvæmlega þær tíðnir eða númer sem boðin eru upp, gildistíma réttinda, hvort réttindin verða bundin við tiltekna þjónustu eða tækni, greiðslufyrirkomulag, lágmarkskröfur sem gerðar eru til bjóðenda, aðra skilmála varðandi uppboðið sjálft og um notkun og nýtingu á því tíðnisviði eða númerum sem boðin eru upp. Í skilmálum er m.a. heimilt að mæla fyrir um þátttökugjald sem standa skal straum af kostnaði við undirbúning og framkvæmd uppboðs. Ákveða má lágmarksboð sem skal ekki vera hærra en sem svarar fimmtánföldu árgjaldi fyrir viðkomandi tíðnir eða númer eins og það er ákveðið í lögum um Póst- og fjarskiptastofnun. Ákveða má afslátt af lágmarksboði fyrir tíðniréttindi, til að mynda gegn kvöð um íþyngjandi skilyrði, svo sem um útbreiðslu og gæði þjónustu. Ákveða má brottvísun aðila frá uppboði og sektir ef ekki er staðið við tilboð eða brotið er gegn uppboðsskilmálum og geta þær numið allt að einföldu árgjaldi fyrir þau réttindi sem boðið er í, eða þeim mismun sem er á tilboði sem ekki er staðið við og þeirri greiðslu sem fæst fyrir réttindin í lok uppboðs. Áskilja má að trygging sé sett fyrir greiðslu tilboða og sekta. Heimilt er að takmarka fjölda tilboða frá hverjum bjóðanda eða tengdum aðilum og einnig er heimilt að takmarka þátttöku aðila sem þegar hafa réttindi á sambærilegu númera- eða tíðnisviði.
     Við úthlutun réttinda er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að ákveða fyrir fram fjárhæð og fyrirkomulag dagsekta sem leggjast á fjarskiptafyrirtæki sem ekki uppfyllir þær skuldbindingar sem réttindin kveða á um. Dagsektir samkvæmt þessu ákvæði geta numið allt að 500.000 kr. á dag.
     Ef ákveðið er að halda útboð eða uppboð við úthlutun númera er heimilt að framlengja málsmeðferðarfrest skv. 1. mgr. um þrjár vikur. Ef ákveðið er að halda útboð eða uppboð við úthlutun tíðna er einnig heimilt að framlengja málsmeðferðarfrest skv. 1. mgr., þó ekki lengur en um átta mánuði.
     Nánar skal kveðið á um málsmeðferð við veitingu réttinda til að nota tíðnir í reglugerð sem ráðherra setur. Í reglugerðinni skal m.a. kveða nánar á um framkvæmd og skilmála útboða og uppboða.

5. gr.

     12. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Breytingar og afturköllun á réttindum.
     Þegar sérstaklega stendur á, svo sem vegna breytinga á löggjöf, er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að breyta skilyrðum í almennum heimildum og skilyrðum fyrir úthlutun réttinda.
     Réttindi til notkunar tíðna og númera má afturkalla í þágu almannahagsmuna ef mikilvægar forsendur fyrir réttindunum breytast eða bresta, t.d. vegna alþjóðlegra samþykkta sem Ísland er aðili að.
     Fyrirhugaðar breytingar og afturkallanir skulu kynntar hagsmunaaðilum, þ.m.t. notendum, með hæfilegum fyrirvara sem þó skal ekki vera styttri en mánuður.
     Ef gildistími réttinda til notkunar á tíðnum eða númerum er framlengdur er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að gera breytingar á skilyrðum réttindanna eða bæta við skilyrðum.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
 1. 1. mgr. orðast svo:
 2.      Póst- og fjarskiptastofnun skal í samræmi við alþjóðlegar samþykktir þar að lútandi stuðla að sem hagkvæmastri nýtingu tíðnirófsins og að skaðlegar truflanir á viðtöku þráðlausra merkja verði sem minnstar. Stofnunin skal skipuleggja notkun mismunandi hluta tíðnirófsins, skrá skipulagið og birta það opinberlega, og veita upplýsingar um skipulagið eftir þörfum. Stofnunin getur ákveðið að ákvarðanir alþjóðastofnana, sem Ísland á aðild að, varðandi skipulag og nýtingu tíðnirófsins verði bindandi hér á landi og skal þá vísað til þeirra í tíðniskipulaginu sem stofnunin birtir.
 3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Skipulag tíðnirófsins.


III. KAFLI
Önnur ákvæði.

7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. laganna:
 1. 9. málsl. 1. mgr. fellur brott.
 2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Þrátt fyrir leyfisskyldu vegna þráðlauss sendibúnaðar skv. 1. mgr. er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að ákveða að þráðlaus sendibúnaður til tiltekinnar notkunar skuli eingöngu vera háður tilkynningarskyldu til stofnunarinnar. Heimild til notkunar slíks búnaðar er þá bundin því að Póst- og fjarskiptastofnun geri ekki athugasemd við staðsetningu búnaðarins eða eiginleika hans og virkni. Óheimilt er að nota tilkynningarskyldan sendibúnað sem ekki hefur verið tilkynntur. Póst- og fjarskiptastofnun getur sett reglur um tilkynningu þráðlauss sendibúnaðar, þ.m.t. um þær kröfur sem gerðar eru til tíðnirétthafa á þeim tíðnisviðum sem slíkur búnaður starfar á.


8. gr.

     Á eftir 62. gr. laganna kemur ný grein, 62. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:
Gagnagrunnur um þráðlausan sendibúnað.
     Póst- og fjarskiptastofnun skal halda rafrænan gagnagrunn um þráðlausan sendibúnað. Í gagnagrunninn skal skrá upplýsingar um staðsetningu og tæknilega eiginleika senda, m.a. um sendistyrk og sendistefnu, bandbreidd og tengingu búnaðarins við almenn fjarskiptanet. Skylt er að veita Póst- og fjarskiptastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til skráningar í gagnagrunninn á því formi sem stofnunin ákveður.
     Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að hagnýta upplýsingar í gagnagrunninum í starfsemi sinni, m.a. vegna:
 1. eftirlits með virkni, öryggi og heildstæði fjarskiptaneta,
 2. aðgerða til að finna og koma í veg fyrir skaðlegar fjarskiptatruflanir,
 3. gerðar korta um útbreiðslu fjarskiptasendinga.

     Heimilt er að nýta upplýsingar í gagnagrunninum í stefnumótun á sviði fjarskipta. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að veita öðrum viðeigandi stjórnvöldum aðgang að gagnagrunninum, að hluta eða öllu leyti, til þess að vinna að verkefnum og uppfylla skyldur sínar á sviði almannavarna, heilsuverndar, skipulagsmála og umhverfismála. Falli til kostnaður við að koma slíkum aðgangi á skal hann borinn af því stjórnvaldi sem hans óskar.
     Heimilt er að opna fyrir takmarkaðan aðgang fyrir almenning að gagnagrunninum. Þó skal opinber aðgangur að upplýsingum í gagnagrunninum vera háður takmörkunum sem Póst- og fjarskiptastofnun ákveður, svo sem vegna upplýsinga er varða mikilvæga viðskipta- og öryggishagsmuni. Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur um skráningu og breytingar upplýsinga og um birtingu og aðgang að upplýsingum í gagnagrunninum.
     Póst- og fjarskiptastofnun skal heimilt á grundvelli sérstaks þjónustusamnings að fela óháðum aðila að hýsa og reka gagnagrunninn séu viðeigandi kröfur um öryggi upplýsinga uppfylltar.

9. gr.

     64. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Takmörkun fjarskipta vegna truflana eða sérstakra aðgerða.
     Póst- og fjarskiptastofnun getur látið innsigla fjarskiptavirki og rafföng eða hluta þeirra eða bannað notkun þeirra og eftir atvikum fyrirskipað að þau skuli afhent til geymslu undir innsigli ef fjarskiptavirkin eða rafföngin valda skaðlegum truflunum á fjarskiptum eða hætta er á að öryggi fjarskipta sé raskað.
     Nú liggur fyrir að rafföng, tæki, raflagnir, pípur, leiðslur eða því um líkt valda skaðlegri truflun á rekstri fjarskiptavirkis og er Póst- og fjarskiptastofnun þá heimilt að beina fyrirmælum til eiganda slíks hlutar um að hann grípi á eigin kostnað til viðeigandi úrbóta án tafar, taki t.d. niður, færi eða fjarlægi viðkomandi hlut sem veldur skaðlegri truflun.
     Vanræki eigandi að framkvæma fyrirmæli um úrbætur getur Póst- og fjarskiptastofnun látið vinna verkið á kostnað eiganda. Krafa um kostnað vegna þessa er aðfararhæf skv. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, um aðför.
     Ef þörf krefur er lögreglu skylt að aðstoða Póst- og fjarskiptastofnun við þær aðgerðir er greinir í 1. og 2. mgr.
     Að fenginni beiðni frá Fangelsismálastofnun getur Póst- og fjarskiptastofnun veitt heimild fyrir truflun þráðlausra fjarskipta innan sérstaklega afmarkaðs svæðis vegna framkvæmdar á öryggis- og refsigæslu. Áður en slík heimild er veitt skal stofnunin leita álits fjarskiptafyrirtækja sem veita þráðlausa fjarskiptaþjónustu á viðkomandi svæði.

10. gr.

     4. mgr. 71. gr. laganna fellur brott.

IV. KAFLI
Gildistaka.

11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 28. mars 2011.