Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1980, 139. löggjafarþing 648. mál: Þjóðminjasafn Íslands (heildarlög).
Lög nr. 140 28. september 2011.

Lög um Þjóðminjasafn Íslands.


I. KAFLI
Stjórnsýsla.

1. gr.

Höfuðsafn.
     Þjóðminjasafn Íslands er eign íslenska ríkisins og fer mennta- og menningarmálaráðherra með yfirstjórn þess. Safnið er höfuðsafn á sviði menningarminja.
     Kostnaður af rekstri Þjóðminjasafnsins greiðist úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.

2. gr.

Skipulag og yfirstjórn.
     Ráðherra skipar forstöðumann Þjóðminjasafns Íslands, þjóðminjavörð, til fimm ára í senn. Skipaður skal maður með háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfssviði safnsins.
     Forstöðumaður Þjóðminjasafns Íslands, þjóðminjavörður, stjórnar starfsemi og rekstri safnsins. Hann ræður starfsmenn þess og er í fyrirsvari fyrir safnið.

II. KAFLI
Hlutverk og starfsemi.

3. gr.

Hlutverk.
     Hlutverk Þjóðminjasafns Íslands er að stuðla sem best að varðveislu íslenskra menningarminja og miðla sögu þjóðarinnar.
     Hlutverk sitt rækir safnið einkum með því að:
  1. safna, skrá og varðveita menningar- og þjóðminjar,
  2. taka við og varðveita fornmuni, sýni og önnur rannsóknargögn úr fornleifarannsóknum,
  3. rannsaka og annast kynningu á menningarminjum með sýningum, útgáfu á fræðilegum ritum og annarri fræðslustarfsemi til að veita sem víðtækasta sýn á íslenska sögu og setja hana í alþjóðlegt samhengi,
  4. miðla þekkingu um íslenska menningu til skóla, fjölmiðla og almennings,
  5. annast minjavörslu í nánu samstarfi við Minjastofnun Íslands og eiga í samstarfi við önnur höfuðsöfn,
  6. móta stefnu um söfnun, skráningu, rannsóknir og miðlun menningar- og þjóðminja,
  7. stuðla að samvinnu menningarminjasafna,
  8. veita öðrum menningarminjasöfnum ráðgjöf,
  9. halda skrá yfir lausamuni í einkaeigu er teljast til þjóðarverðmæta,
  10. annast önnur verkefni samkvæmt ákvörðun ráðherra.


4. gr.

Gjaldtökuheimild.
     Þjóðminjasafni Íslands er heimilt að taka aðgangseyri. Þá er safninu heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sína, svo sem lán á munum, ljósmyndun muna, afrit af ljósmyndum, sérunnar munaskrár og úttak tölvugagna, sérfræðilega heimildaþjónustu, fjölföldun og hvers konar aðra þjónustu til að standa straum af kostnaði. Safnið setur gjaldskrá um framangreinda gjaldtöku.

5. gr.

Varðveisla og lán safngripa.
     Þjóðminjasafni Íslands er heimilt að fela viðurkenndu safni varðveislu gripa sem því eru afhentir.
     Safninu er heimilt að fela öðrum stofnunum á sviði minjavörslu eftirlit með minjum sem eru hluti af safnkosti þess.
     Safninu er einnig heimilt að lána viðurkenndum söfnum eða öðrum stofnunum safngripi tímabundið á sýningar eða til rannsókna.
     Öll lán á safngripum þurfa að uppfylla skilyrði Þjóðminjasafns Íslands um útlán safngripa.

III. KAFLI
Kirkjugripir.

6. gr.

Friðun kirkjugripa.
     Þjóðminjasafn Íslands ákveður, að höfðu samráði við biskup Íslands eða forstöðumenn trúfélaga, friðun kirkjugripa sem varðveittir eru í kirkjum landsins og taldir eru friðunarverðir vegna sögulegs eða listræns gildis.
     Safnið skal halda skrá yfir friðaða kirkjugripi og láta biskupsstofu, forstöðumanni viðeigandi trúfélags og hlutaðeigandi kirkju í té upplýsingar úr skránni.

7. gr.

Friðaðir kirkjugripir.
     Friðaðir kirkjugripir skv. 6. gr. eru friðhelgir. Óheimilt er að raska þeim eða spilla. Ekki má heldur flytja þá frá kirkju nema með leyfi Þjóðminjasafns Íslands.
     Forráðamönnum kirkna ber að vernda skráða kirkjugripi og skal Þjóðminjasafn Íslands vera þeim innan handar með nauðsynlegar öryggisráðstafanir.

8. gr.

Aflagðir, friðaðir kirkjugripir.
     Þjóðminjasafn Íslands varðveitir aflagða, friðaða kirkjugripi og þá gripi sem safnið og forráðamenn kirkna eru sammála um að eigi sé ástæða til að hafa í kirkju lengur.
     Þjóðminjasafni Íslands er heimilt að fela viðurkenndu safni varðveislu aflagðra, friðaðra kirkjugripa.

9. gr.

Kirkjugripir í einkaeign.
     Þjóðminjasafn Íslands skal eiga forkaupsrétt að kirkjugripum í einkaeign ef seldir verða.

IV. KAFLI
Önnur ákvæði.

10. gr.

Setning reglugerða.
     Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna í heild eða einstakra kafla þeirra.

11. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013. Um leið falla úr gildi II. og V. kafli þ jóðminjalaga, nr. 107/2001.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Fram til 1. janúar 2013 er ráðherra heimilt að undirbúa gildistöku laganna.

Samþykkt á Alþingi 17. september 2011.