Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1053, 141. löggjafarþing 93. mál: bókhald (texti bókhaldsbóka og ársreikninga, skoðunarmenn, endurskoðendur, EES-reglur).
Lög nr. 11 6. mars 2013.

Lög um breytingu á lögum nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum (texti bókhaldsbóka og ársreikninga, skoðunarmenn, endurskoðendur).


1. gr.

     Í stað orðanna „sbr. 2. mgr. 11. gr.“ í 1. málsl. 2. mgr. 10. gr. A laganna kemur: sbr. 2. mgr. 7. gr.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
  1. 1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. hafa félög skv. 1. gr. heimild til að varðveita gögn skv. 1. mgr. erlendis í allt að sex mánuði.
  2. Í stað orðanna „tölvubúnaði“ og „tölvutækan“ í 3. mgr. kemur: rafrænum útbúnaði, og: rafrænan.


3. gr.

     32. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Endurskoðun og yfirferð ársreikninga.
     Félagsmenn í félögum sem ber að semja ársreikninga samkvæmt þessum kafla, sem fara með minnst einn tíunda hluta atkvæða í félagi, geta á félagsfundi krafist þess, ef ekki er um það getið í samþykktum félagsins, að kosinn verði a.m.k. einn endurskoðandi, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmaður. Ákvæði laga um endurskoðendur gilda um starf endurskoðanda sem er kosinn skv. 1. málsl.
     Uppfylli endurskoðandi, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmaður ekki lengur skilyrði til starfans skal stjórn félagsins annast um að valinn verði nýr endurskoðandi, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmaður eins fljótt og unnt er og skal hann gegna því starfi þar til kosning getur farið fram.

4. gr.

     Við 33. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Endurskoðendur og skoðunarmenn eiga rétt á að sitja fundi þar sem fjallað er um ársreikninga.
     Endurskoðendum og skoðunarmönnum er óheimilt að gefa einstökum félagsaðilum eða öðrum upplýsingar um hag félags umfram það sem fram kemur í ársreikningi.

5. gr.

     34. gr. laganna orðast svo:
     Endurskoðendur skulu að lokinni endurskoðun árita ársreikninginn. Áritun endurskoðanda skal vera í samræmi við það sem fram kemur í lögum um endurskoðendur. Auk þess skal í áritun endurskoðanda koma fram álit á því hvort skýrsla stjórnar geymi þær upplýsingar sem þar ber að veita. Ef endurskoðendur telja að ekki beri að samþykkja ársreikninginn skulu þeir taka það fram sérstaklega.

6. gr.

     35. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Skoðunarmenn.
     Sá sem er kosinn eða ráðinn til að yfirfara ársreikning fyrir félag skv. 1. gr., sem ekki er skylt að kjósa endurskoðanda í samræmi við lög eða samþykktir félagsins, skal hafa þá reynslu af bókhaldi og reikningsskilum sem með hliðsjón af starfsemi og stærð félagsins telst nauðsynleg til rækslu starfans. Hann skal vera lögráða og fjár síns ráðandi. Óhæðisskilyrði 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 79/2008, um endurskoðendur, eiga einnig við um skoðunarmenn.
     Skoðunarmenn skulu yfirfara ársreikninginn og í því sambandi kanna bókhaldsgögn félagsins og aðra þætti er varða rekstur þess og stöðu. Skoðunarmaður skal staðfesta þá vinnu sem hann innir af hendi varðandi reikningsskilin með undirskrift sinni og dagsetningu á ársreikninginn og telst undirskriftin hluti ársreiknings.
     Ef skoðunarmaður telur að nauðsynlegar upplýsingar vanti í ársreikninginn eða skýrslu stjórnar eða upplýsingar séu villandi og enn fremur ef hann telur að fyrir liggi atvik sem varðað geti stjórnendur ábyrgð skal hann vekja athygli á því.
     Skoðunarmenn skv. 1. mgr. mega ekki sitja í stjórn félagsins eða gegna stjórnunarstörfum fyrir það.
     Ef kosnir eru trúnaðarmenn, einn eða fleiri, úr hópi félagsmanna í samræmi við samþykktir félagsins til þess að yfirfara ársreikning félagsins skulu þeir staðfesta að farið hafi verið eftir ákvörðunum félagsfunda og stjórnar um öflun, ráðstöfun og ávöxtun fjármuna og önnur atriði í rekstrinum á reikningsárinu.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu gilda um færslu bókhalds og samningu ársreikninga fyrir hvert það reikningsár sem hefst 1. janúar 2013 eða síðar.

Samþykkt á Alþingi 21. febrúar 2013.