Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 953, 144. löggjafarþing 159. mál: umboðsmaður skuldara (upplýsingaskylda og dagsektir).
Lög nr. 12 25. febrúar 2015.

Lög um breytingu á lögum um umboðsmann skuldara, nr. 100/2010, með síðari breytingum (upplýsingaskylda og dagsektir).


1. gr.

     5. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

     Í stað 2. mgr. 3. gr. laganna koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Upplýsingasöfnun umboðsmanns skuldara er háð því skilyrði að hún sé nauðsynleg og varði upplýsingarnar tiltekinn skuldara skal samþykki hans fyrir vinnslunni liggja fyrir. Þegar upplýsinga er aflað frá öðrum en skuldara skal fylgja ákvæðum 21. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, um fræðsluskyldu umboðsmanns skuldara.
     Sé ekki orðið við beiðni umboðsmanns skuldara um að veita upplýsingar skv. 1. mgr. innan hæfilegs frests getur hann ákveðið að viðkomandi aðili skuli greiða dagsektir þar til upplýsingarnar hafa verið látnar í té.
     Aðila sem ákvörðun um dagsektir skv. 3. mgr. beinist að skal veittur fjórtán daga frestur til að koma að skriflegum andmælum áður en ákvörðun er tekin. Tilkynningu umboðsmanns skuldara um fyrirhugaða ákvörðun um dagsektir og ákvörðun um dagsektir skal fylgja rökstuðningur. Að öðru leyti gilda stjórnsýslulög um ákvörðun um dagsektir. Ákvörðun skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að. Dagsektir falla á hvern dag frá og með fyrsta virka degi frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun þar til upplýsingaskyldu er sinnt og þær falla niður þegar umboðsmaður skuldara telur að upplýsingaskyldan sé uppfyllt. Dagsektir geta numið frá 10.000 kr. til 1 millj. kr. fyrir hvern dag. Við ákvörðun fjárhæðar dagsekta skal m.a. líta til fjölda starfsmanna þess aðila sem ákvörðun beinist að og hversu umsvifamikill viðkomandi atvinnurekstur er.
     Dagsektir eru aðfararhæfar án undangengins dóms og renna í ríkissjóð.

3. gr.

     Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
     Heimilt er að kæra ákvarðanir samkvæmt lögum þessum til ráðherra. Um málsmeðferð stjórnsýslukæru gilda ákvæði stjórnsýslulaga.
     Þegar ákvörðun um dagsektir skv. 3. mgr. 3. gr. er kærð til ráðherra skal ráðherra kveða upp úrskurð eins fljótt og unnt er og að jafnaði innan mánaðar frá því að kæra barst til úrskurðar. Óheimilt er að innheimta dagsektir fyrr en ráðherra hefur úrskurðað í málinu. Dagsektir leggjast ekki á meðan kæra er til meðferðar hjá ráðherra. Staðfesti ráðherra ákvörðun umboðsmanns skuldara um dagsektir halda dagsektir áfram að leggjast á frá og með fyrsta virka degi frá dagsetningu úrskurðar ráðherra.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 17. febrúar 2015.