Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1025, 145. löggjafarþing 332. mál: fullnusta refsinga (heildarlög).
Lög nr. 15 23. mars 2016.

Lög um fullnustu refsinga.


I. KAFLI
Markmið, skilgreiningar og gildissvið.

1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að fullnusta refsinga fari fram með öruggum og skilvirkum hætti og að sérstök og almenn varnaðaráhrif refsinga séu virk.
     Markmið laga þessara er jafnframt að draga úr líkum á ítrekun brota og stuðla að farsælli betrun og aðlögun dómþola að samfélaginu.

2. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum, reglugerðum og reglum sem settar eru með stoð í þeim er merking hugtaka sem hér segir:
  1. Afplánun: Vistun í fangelsi eða utan fangelsa vegna afplánunar óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar eða vararefsingar fésekta.
  2. Afplánunartími: Sá tími sem fangi afplánar refsingu.
  3. Agabrot: Brot á lögum þessum, reglugerðum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra og kveða á um skyldur fanga.
  4. Agaviðurlög: Viðurlög við agabrotum fanga.
  5. Barnaverndaryfirvöld: Það ráðuneyti sem fer með barnaverndarmálefni hverju sinni og undirstofnanir þess.
  6. Betrun: Það sem miðar að því að gera fanga kleift að auka færni sína og lífsgæði og sporna við frekari brotastarfsemi og endurkomu í fangelsi.
  7. Fangelsi: Stofnun þar sem vistaðir eru þeir sem afplána refsingar eða sæta gæsluvarðhaldi. Fangelsi skiptast annars vegar í opin fangelsi og hins vegar lokuð fangelsi með misháu öryggisstigi.
  8. Fangelsisár: 360 dagar.
  9. Fangelsismánuður: 30 dagar.
  10. Fangelsisrefsing: Önnur af tveimur tegundum refsinga.
  11. Fangi: Maður sem afplánar fangelsisrefsingu eða vararefsingu fésektar eða sætir gæsluvarðhaldi.
  12. Fésekt: Önnur af tveimur tegundum refsinga.
  13. Fullnusta refsingar: Framkvæmd refsingar.
  14. Heilbrigðisþjónusta: Hvers kyns heilsugæsla, lækningar, hjúkrun, almenn og sérhæfð sjúkrahúsþjónusta, sjúkraflutningar, hjálpartækjaþjónusta og þjónusta heilbrigðisstarfsmanna innan og utan heilbrigðisstofnana sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma og endurhæfa sjúklinga.
  15. Náðun: Eftirgjöf refsingar að nokkru eða öllu leyti.
  16. Rafrænt eftirlit: Afplánun dómþola utan fangelsis þar sem hann hefur á sér búnað svo að unnt sé að fylgjast með ferðum hans.
  17. Refsitími: Tímalengd fangelsisrefsingar eða vararefsingar.
  18. Reynslulausn: Skilorðsbundin eftirgjöf hluta refsingar.
  19. Reynslutími: Sá tími sem reynslulausn varir.
  20. Sakarkostnaður: Sá kostnaður sem telst til óhjákvæmilegra útgjalda við meðferð sakamáls samkvæmt lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og sakfelldum einstaklingi eða lögaðila er gert að greiða.
  21. Samfélagsþjónusta: Afplánun óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar eða vararefsingar með skyldubundnu ólaunuðu starfi í þágu samfélagsins sem dómþoli sinnir utan fangelsis.
  22. Vararefsing: Refsing sem kemur til fullnustu greiði dómþoli ekki fésekt.


3. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um fullnustu refsinga, eftirlit með skilorðsbundnum refsingum, náðun og frestun ákæru, innheimtu sakarkostnaðar og framkvæmd upptöku. Þá gilda lögin einnig um gæsluvarðhald eftir því sem við á og stjórnsýslu fangelsismála.

II. KAFLI
Stjórnsýsla.

4. gr.

Yfirstjórn fangelsismála.
     Ráðherra fer með yfirstjórn fangelsismála.

5. gr.

Hlutverk Fangelsismálastofnunar.
     Fangelsismálastofnun sér um fullnustu refsinga og önnur verkefni í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Fangelsismálastofnun er heimilt, með samningi, að fela öðrum verkefni, svo sem að hafa eftirlit með þeim sem afplána með samfélagsþjónustu og undir rafrænu eftirliti.
     Fangelsismálastofnun hefur umsjón með rekstri fangelsa.

6. gr.

Forstjóri Fangelsismálastofnunar.
     Ráðherra skipar forstjóra Fangelsismálastofnunar til fimm ára í senn. Forstjóri skal vera lögfræðingur. Forstjóri ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar.

7. gr.

Forstöðumaður fangelsis.
     Forstjóri Fangelsismálastofnunar skipar forstöðumann fangelsis til fimm ára í senn. Forstöðumaður fangelsis skal vera með háskólapróf sem nýtist í starfi.
     Heimilt er að fleiri en eitt fangelsi heyri undir sama forstöðumann.

8. gr.

Fangaverðir og starfsmenn fangelsa.
     Forstjóri Fangelsismálastofnunar skipar fangaverði til fimm ára í senn. Áður en fangavörður er skipaður skal hann hafa lokið námi í fangavarðafræðum. Leggja má að jöfnu sambærilegt nám sem viðurkennt er af Fangelsismálastofnun að fenginni umsögn stjórnar Fangavarðafélags Íslands. Forstöðumaður fangelsis ræður aðra starfsmenn.
     Heimilt er að ráða fangavörð tímabundið til afleysinga, enda hafi hann setið undirbúningsnámskeið í fangavörslu og staðist bakgrunnsskoðun.
     Fangaverðir mega hvorki gera verkfall né taka þátt í verkfallsboðun.
     Ríkissjóður skal bæta fangavörðum líkamstjón og munatjón sem þeir verða fyrir vegna starfs síns.
     Við störf sín skulu fangaverðir bera einkennisfatnað og skilríki samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Forstjóri Fangelsismálastofnunar og forstöðumenn fangelsa skulu hafa tiltækan einkennisfatnað.

9. gr.

Fangavarðanám.
     Fangelsismálastofnun skal sjá til þess að fangaverðir hljóti viðhlítandi menntun og þjálfun í fangavarðafræðum þegar þörf er á.
     Fangelsismálastofnun er heimilt að semja við menntastofnun um að annast menntun fangavarða en skal eftir sem áður hafa umsjón og eftirlit með náminu.
     Ráðherra setur nánari reglur um nám fangavarða í reglugerð.

10. gr.

Bakgrunnsskoðun.
     Áður en aðili er skipaður, settur eða ráðinn til starfa hjá Fangelsismálastofnun eða í fangelsum ríkisins skal hann, að fengnu samþykki hans, undirgangast athugun, sem felst í öflun upplýsinga úr skrám og upplýsingakerfum sem getið er í 2. mgr., sem lið í mati á því hvort óhætt sé að veita viðkomandi aðgang að fangelsum ríkisins og aðgengi að upplýsingum um framkvæmd fangelsisstarfa og um fanga. Afla skal upplýsinga fimm ár aftur í tímann. Samþykki umsækjanda skal ritað á eyðublað sem Fangelsismálastofnun ákveður. Endurtaka skal athugunina með reglulegu millibili og ekki sjaldnar en á fimm ára fresti. Aldrei má þó ganga lengra við könnun á bakgrunni og sakaferli en þörf er á hverju sinni.
     Samþykki aðila skv. 1. mgr. veitir Fangelsismálastofnun heimild, eftir atvikum með aðstoð ríkislögreglustjóra, til að afla upplýsinga um viðkomandi úr:
  1. skrám lögreglu, þ.m.t. málaskrá lögreglu,
  2. sakaskrá til yfirvalda,
  3. upplýsingakerfi Alþjóðalögreglunnar eða annarra erlendra yfirvalda og
  4. upplýsingakerfi þjóðskrár.

     Leggja skal heildstætt mat á það hvort óhætt sé að veita viðkomandi aðgang að fangelsum ríkisins og upplýsingum skv. 1. mgr. Heimilt er að nýta upplýsingar úr málaskrá lögreglu með beinum hætti til að synja um skipun, setningu eða ráðningu enda sé það mat Fangelsismálastofnunar að upplýsingarnar gefi tilefni til að draga í efa hæfni eða trúverðugleika aðila til að starfa hjá Fangelsismálastofnun eða í fangelsum ríkisins.
     Nú er það mat Fangelsismálastofnunar að upplýsingar úr skrám eða upplýsingakerfum skv. 2. mgr. leiði til þess að ekki sé óhætt að veita aðila aðgang að fangelsum ríkisins eða upplýsingum skv. 1. mgr. og skal þá, áður en ákvörðun er tekin, gefa aðila færi á að gæta andmæla. Ákvörðun Fangelsismálastofnunar skal rökstudd.
     Fangelsismálastofnun skal í samvinnu við ríkislögreglustjóra annast bakgrunnsskoðun skv. 1. mgr.
     Nú uppfyllir starfandi fangavörður ekki bakgrunnsskoðun og skal hann þá leystur frá störfum. Sama gildir um aðra starfsmenn. Ráðherra setur nánari reglur um bakgrunnsskoðanir fangavarða og öryggisstig bakgrunnsskoðana að fengnum tillögum ríkislögreglustjóra í reglugerð.

11. gr.

Heimild til valdbeitingar.
     Starfsmönnum fangelsa og Fangelsismálastofnunar er heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna ef það telst nauðsynlegt til:
  1. Að koma í veg fyrir strok.
  2. Að verjast yfirvofandi árás, yfirbuga grófa mótspyrnu, að hindra að fangi skaði sjálfan sig eða aðra eða til að koma í veg fyrir skemmdarverk.
  3. Að framkvæma fyrirskipaðar aðgerðir sem þörf er á að framkvæma þegar í stað og fangi hafnar eða lætur ógert að fylgja fyrirmælum um.

     Valdbeiting getur falist í líkamlegum tökum eða beitingu viðeigandi varnartækja. Aldrei má þó ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni.
     Kalla skal til lækni eftir valdbeitingu ef grunur er um að hún hafi valdið skaða, ef um sjúkdóma er að ræða eða ef fangi óskar sjálfur læknisaðstoðar.
     Nú er fangi undir 18 ára aldri vistaður á heimili barnaverndaryfirvalda og er þá starfsmönnum heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna samkvæmt skilyrðum 1. mgr., enda hafi þeir hlotið viðeigandi þjálfun í valdbeitingu. Valdbeitingu skal aðeins beitt í ýtrustu neyð og eingöngu þegar ljóst er að aðrar leiðir duga ekki.

12. gr.

Þagnarskylda.
     Starfsmönnum Fangelsismálastofnunar, fangavörðum og öðrum sem starfa í fangelsum ber þagnarskylda um atvik sem þeim verða kunn í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna. Þagnarskyldan tekur til upplýsinga um einkahagi fanga og þeirra sem þeim tengjast og sem eðlilegt er að leynt fari, upplýsinga er varða öryggi fangelsa og annarra upplýsinga sem leynt skulu fara samkvæmt lögum, starfsreglum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

13. gr.

Náðunarnefnd.
     Ráðherra skipar þriggja manna nefnd, náðunarnefnd, svo og þrjá varamenn, til þriggja ára í senn. Formaður nefndarinnar og varaformaður skulu uppfylla skilyrði laga til að hljóta skipun í embætti héraðsdómara. Læknir skal eiga sæti í nefndinni.
     Nefndin skal veita ráðherra rökstudda umsögn um hvort ákvörðun Fangelsismálastofnunar í máli sem varðar synjun á samfélagsþjónustu eða synjun á reynslulausn skuli staðfest, felld úr gildi eða henni breytt. Umsögn nefndarinnar er bindandi fyrir ráðherra.
     Nefndin skal láta ráðherra í té rökstudda tillögu um afgreiðslu náðunarbeiðna.
     Náðunarnefnd er heimilt að afla upplýsinga úr málaskrá lögreglu.
     Náðunarnefnd er heimilt að afla upplýsinga frá heilbrigðisstarfsfólki og heilbrigðisstofnunum til staðfestingar á fyrirliggjandi vottorðum sem og að afla nýrra gagna um heilsufar náðunarbeiðanda eða kæranda ef beiðni um náðun eða kæra er byggð á heilsufarsástæðum. Nefndinni er þó einnig heimilt að krefjast þess að náðunarbeiðandi eða kærandi afli sjálfur gagna um heilsufar sitt.
     Málsmeðferð fyrir nefndinni er skrifleg en nefndinni er heimilt að kalla náðunarbeiðanda fyrir nefndina. Sama gildir ekki um kæranda.
     Hver sem þekkir til náðunarbeiðanda, vegna starfs síns eða ættartengsla, getur sótt um náðun fyrir náðunarbeiðanda. Sama gildir ekki um kæranda, en um hann gilda almennar reglur stjórnsýslulaga um aðild.

III. KAFLI
Fullnusta óskilorðsbundinna fangelsisrefsinga o.fl.

14. gr.

Almennt.
     Fangelsismálastofnun tekur við refsidómum til fullnustu frá ríkissaksóknara. Þá tekur stofnunin við dómum til skráningar þar sem dómþoli er dæmdur ósakhæfur.

15. gr.

Tilkynning um afplánun og útreikningur refsitíma.
     Óskilorðsbundna fangelsisrefsingu skal fullnusta eins fljótt og auðið er eftir að dómur berst Fangelsismálastofnun.
     Nú er dómþoli ekki þegar í fangelsi og skal Fangelsismálastofnun þá tilkynna honum bréflega, með sannanlegum hætti, og að minnsta kosti með fjögurra vikna fyrirvara hvenær og hvar honum ber að mæta til afplánunar. Mæti dómþoli ekki til afplánunar á tilskildum tíma felur Fangelsismálastofnun lögreglu að handtaka hann og færa í fangelsi. Komi dómþoli sér hjá því að mæta til afplánunar kann það að hafa áhrif á framgang afplánunar.
     Nú er dómþoli í gæsluvarðhaldi og skal hann þá þegar hefja afplánun refsingarinnar nema rannsóknarhagsmunir bjóði annað. Afpláni dómþoli aðra fangelsisrefsingu skulu síðari fangelsisrefsingar afplánaðar í beinu framhaldi.
     Heimilt er að láta dómþola hefja afplánun án boðunar eða áður en afplánun á að hefjast samkvæmt boðun ef hann er grunaður um að hafa framið refsiverðan verknað á ný, hætta er talin á að hann reyni að koma sér undan refsingu eða almannahagsmunir mæla með því.
     Nú óskar dómþoli eftir að hefja afplánun refsingar fyrr en áætlað er og skal þá orðið við slíkri beiðni ef unnt er.
     Einn þriðji, helmingur og tveir þriðju hlutar refsitíma eru reiknaðir af samanlögðum refsingum. Sé um að ræða afplánun á eftirstöðvum refsingarinnar vegna rofs á skilyrðum hennar skal reikna helming og tvo þriðju hluta refsitíma af óafplánuðum eftirstöðvum.

16. gr.

Frestun afplánunar og náðun.
     Nú leitar dómþoli eftir því að afplánun verði frestað og er Fangelsismálastofnun þá heimilt að veita stuttan frest mæli sérstakar ástæður með því. Slíkur frestur getur ekki orðið lengri en þrír mánuðir í heild. Við mat á því hvort fresta skuli afplánun skal taka mið af alvarleika afbrots dómþola, sakaferli, persónulegum högum hans, hversu langt er um liðið síðan afbrot var framið og öðrum þáttum er máli kunna að skipta. Að jafnaði skal synja um frest ef beiðni er fyrst borin fram eftir að afplánun á að vera hafin samkvæmt boðun.
     Nú fer dómþoli fram á náðun af refsingunni og skal þá fresta fullnustu hennar ef hún er ekki þegar hafin þar til slík beiðni er afgreidd, enda hafi beiðnin komið fram eigi síðar en hálfum mánuði áður en afplánun skal hefjast. Beiðni um náðun frestar ekki fullnustu sé dómþoli að afplána aðra refsingu.
     Ekki skal fresta fullnustu vegna ítrekaðrar beiðni um náðun nema í nýju beiðninni komi fram veigamiklar upplýsingar sem ekki var unnt að koma á framfæri áður og sérstakar ástæður mæli með að afplánun verði frestað.
     Frestur samkvæmt þessari grein er bundinn því skilyrði að ekki leiki grunur á að dómþoli hafi framið refsiverðan verknað á ný. Heimilt er að setja frekari skilyrði fyrir veitingu frests.
     Nú rýfur dómþoli skilyrði fyrir fresti og getur Fangelsismálastofnun þá ákveðið að hann skuli hefja afplánun án fyrirvara. Sama gildir ef dómþoli gefur rangar upplýsingar í beiðni um frestun.

17. gr.

Vistun í fangelsi.
     Í fangelsi er sá vistaður sem dæmdur er til fangelsisrefsingar, afplánar vararefsingu fésekta eða sætir gæsluvarðhaldi.
     Gæsluvarðhaldsfanga má vista meðal afplánunarfanga ef einangrun telst ekki nauðsynleg.
     Í sérstökum tilvikum má um skemmri tíma vista afplánunarfanga í fangageymslum lögreglu.
     Heimilt er, ef aðstæður leyfa, að vista gæsluvarðhaldsfanga í skamman tíma í fangageymslum lögreglu, þó ekki lengur en í fjóra sólarhringa nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

18. gr.

Tegundir fangelsa.
     Fangelsi skiptast í opin og lokuð fangelsi. Heimilt er að hafa fangelsi deildaskipt. Ráðherra setur nánari reglur um fyrirkomulag fangelsa í reglugerð, svo sem um deildaskiptingu fangelsa.

19. gr.

Hlé á afplánun.
     Afplánun skal vera samfelld. Þó er heimilt að gera hlé á afplánun ef mjög sérstakar ástæður mæla með því. Hlé skal bundið skilyrði um að aðili gerist ekki brotlegur meðan á því stendur. Heimilt er að setja frekari skilyrði fyrir hléi á afplánun.

20. gr.

Strok.
     Strjúki fangi úr afplánun refsivistar telst tími frá stroki og þar til fangi er settur í fangelsi á ný ekki til refsitímans.

21. gr.

Ákvörðun um vistunarstað.
     Fangelsismálastofnun ákveður í hvaða fangelsi afplánun skuli fara fram. Við ákvörðunina skal m.a. tekið tillit til aldurs, kynferðis, búsetu og brotaferils fangans og þyngdar refsingar auk þeirra sjónarmiða sem gilda um vistun í hverju fangelsi fyrir sig.
     Fangelsismálastofnun getur látið færa fanga milli fangelsa eða frá stofnun til fangelsis. Við slíkan flutning skal, eftir því sem aðstæður leyfa, hafa hliðsjón af búsetu fanga og fjölskyldu hans. Fanga skal tilkynnt fyrir fram um slíkan flutning með minnst sólarhrings fyrirvara og gerð grein fyrir ástæðum flutnings, nema hann teljist nauðsynlegur af öryggisástæðum, vegna heilbrigðis fanga, til að fyrirbyggja ofbeldi eða hafi fangi gerst sekur um gróft agabrot, eða fyrir liggi rökstuddur grunur um að fangi hafi fíkniefni eða ólögmæt lyf undir höndum.
     Nú er fangi fluttur úr móttökufangelsi eða lögreglustöð og er þá heimilt að víkja frá tímaskilyrðum 2. mgr.
     Fanga er heimilt að láta aðstandendur sína og lögmann vita af flutningi milli fangelsa.
     Forstöðumaður fangelsis getur í öryggisskyni eða vegna sérstakra aðstæðna tekið ákvörðun um að flytja fanga á milli deilda og klefa. Ekki er skylt að gefa fanga kost á að tjá sig áður en slík ákvörðun er tekin en gæta skal hagsmuna fangans í því sambandi.
     Fangar sem eru undir 18 ára aldri skulu vistaðir á vegum barnaverndaryfirvalda skv. 44. gr.

22. gr.

Vistun á heilbrigðis- eða meðferðarstofnun.
     Fangelsismálastofnun getur, að undangengnu sérfræðiáliti, leyft að fangi sé vistaður um stundarsakir eða allan refsitímann á heilbrigðis- eða meðferðarstofnun. Fangelsismálastofnun getur sett sérstök skilyrði fyrir vistun fanga þar.
     Fangi sem lagður er inn á heilbrigðis- eða meðferðarstofnun telst taka út refsingu meðan hann dvelst þar.

23. gr.

Upphaf afplánunar í fangelsi.
     Við upphaf afplánunar skal fangi sýna fram á það með framvísun skilríkja eða með öðrum sannanlegum hætti hver hann er. Þá skal taka andlitsmynd af fanga og skrá nafn hans og kennitölu ásamt upphafs- og lokadegi afplánunar.
     Læknir skal skoða fanga við upphaf afplánunar og ef þörf krefur meðan á afplánun stendur. Skrá skal upplýsingar um heilsufar, sjúkrasögu og upplýsingar um persónulega hagi fanga og hverja fangi óskar eftir að haft sé samband við ef þurfa þykir vegna hagsmuna hans.
     Heilbrigðisstarfsfólki er skylt að upplýsa fangelsisyfirvöld um sjúkdóma sem gætu varðað öryggi og heilsu annarra.
     Við upphaf afplánunar skal afhenda fanga og kynna, á tungumáli sem hann skilur, samantekt um þær reglur sem um afplánun gilda, um réttindi og skyldur fanga, vinnu og nám sem föngum stendur til boða, reglur viðkomandi fangelsis, hvaða háttsemi varðar agaviðurlögum, um meðferð slíkra mála, upplýsingar um hvert fangi geti kært ákvarðanir er varða fullnustu refsingarinnar og upplýsingar um heimild til að beina kvörtun til umboðsmanns Alþingis, svo og rétt fanga til að hafa samband við lögmann. Afhenda skal fanga afplánunarbréf þar sem fram koma helstu dagsetningar vegna vistunar hans í afplánun. Þá skal fanga gerð grein fyrir lokum afplánunar og reglum um reynslulausn.
     Við upphaf afplánunar skal heimila fanga að tilkynna aðstandendum sínum og lögmanni um afplánunina eins fljótt og auðið er.

24. gr.

Meðferðaráætlun.
     Fangelsismálastofnun skal, í samvinnu við fanga, gera meðferðaráætlun fyrir fanga sé það talið nauðsynlegt að mati sérfræðinga Fangelsismálastofnunar. Áætlunina skal gera eins fljótt og kostur er eftir að afplánun hefst og endurskoða eftir atvikum meðan á afplánun stendur.

25. gr.

Vinna fanga í fangelsi.
     Fanga er rétt og skylt, eftir því sem aðstæður leyfa, að stunda vinnu eða aðra viðurkennda starfsemi í fangelsi.
     Forstöðumaður fangelsis ákveður hvaða vinnu fanga er falið að inna af hendi. Við ákvörðun um vinnu fanga skal tekið tillit til aðstæðna hans og óska eftir því sem unnt er.
     Forstöðumaður fangelsis getur ákveðið, að höfðu samráði við Fangelsismálastofnun, að vinna fanga fari fram utan fangelsis undir eftirliti fangavarða eða annarra aðila sem forstöðumaður ákveður.
     Fanga er heimilt að útvega sér aðra vinnu en greinir í 1. og 3. mgr. að fengnu samþykki forstöðumanns fangelsis. Forstöðumaður fangelsis getur heimilað fanga að uppfylla vinnuskyldu sína í klefa sínum ef aðstæður leyfa og aðrar ástæður mæla ekki gegn því.
     Fangi skal vinna alla virka daga nema laugardaga. Vinna skal að jafnaði innt af hendi frá kl. 8 til kl. 17, þó þannig að daglegur vinnutími verði að jafnaði ekki lengri en átta klukkustundir. Vinnu sem tengist rekstri fangelsis má inna af hendi utan dagvinnutíma.

26. gr.

Nám og starfsþjálfun í fangelsi.
     Fangi skal eiga kost á að stunda nám, þ.m.t. fjarnám og starfsþjálfun. Forstöðumaður fangelsis getur, að höfðu samráði við Fangelsismálastofnun, ákveðið að nám fanga fari að hluta til fram utan fangelsis undir eftirliti fangavarða eða annarra aðila sem forstöðumaður ákveður.
     Reglubundið nám kemur í stað vinnuskyldu. Hver kennslustund jafngildir einni klukkustund í vinnu.
     Stundi fangi ekki nám með eðlilegum hætti geta skólastjórnendur, að höfðu samráði við forstöðumann, ákveðið að víkja fanga úr námi. Fangelsi útvegar og greiðir fyrir kennslubækur vegna kennslu sem fram fer í fangelsi og eru þær eign fangelsisins.
     Nám fanga í fangelsum er á ábyrgð menntamálayfirvalda.

27. gr.

Þóknun og dagpeningar.
     Fanga skal greiða þóknun fyrir ástundun vinnu eða náms. Sé ekki unnt að útvega fanga vinnu, eða hann getur samkvæmt læknisvottorði ekki sinnt vinnuskyldu eða námi, skal hann fá greidda dagpeninga fyrir þá daga sem hann hefði ella unnið. Ráðherra ákveður fjárhæð dagpeninga með gjaldskrá og skal hún miðast við að fangi eigi fyrir brýnustu nauðsynjum til persónulegrar umhirðu.
     Nú gefst fanga kostur á vinnu eða námi eða hann útvegar sér hana sjálfur og fær hann þá ekki dagpeninga. Sama gildir um fanga sem vikið er úr vinnu eða námi eða neitar að vinna eða vera í námi án gildrar ástæðu.
     Fangi sem fær greiðslur frá Tryggingastofnun missir rétt til dagpeninga frá Fangelsismálastofnun.

28. gr.

Greiðsla skaðabóta.
     Dagpeninga og þóknun fanga má taka til greiðslu á skaðabótum eða öðrum útgjöldum sem fangi verður ábyrgur fyrir meðan á afplánun stendur, þar á meðal skuldum sem hann hefur stofnað til við fangelsi. Þó skal ekki heimilt að taka meira en fjórðung af dagpeningum eða launum til slíkra greiðslna.

29. gr.

Heilbrigðisþjónusta fanga.
     Fangar skulu njóta sambærilegrar heilbrigðisþjónustu og almennt gildir, sbr. lög um heilbrigðisþjónustu. Að höfðu samráði við Fangelsismálastofnun sér það ráðuneyti sem fer með heilbrigðismál um og ber ábyrgð á heilbrigðisþjónustu við fanga í fangelsum.

30. gr.

Dvöl ungbarna í fangelsi.
     Eigi fangi ungbarn við upphaf afplánunar, eða fæði kvenfangi barn meðan á afplánun stendur, má heimila fanga í samráði við barnaverndarnefnd að hafa barnið hjá sér í fangelsi fyrstu mánuði ævi þess, og að jafnaði þar til það verður 18 mánaða að aldri, enda sé það barninu fyrir bestu.
     Gera skal sérstakar ráðstafanir til að tryggja velferð barna sem dvelja í fangelsi.

31. gr.

Fullnusta utan fangelsis.
     Fangelsismálastofnun getur leyft fanga að afplána hluta refsitímans utan fangelsis, enda stundi hann vinnu, nám, starfsþjálfun eða meðferð sem Fangelsismálastofnun hefur samþykkt og er liður í aðlögun hans að samfélaginu að nýju, búi á sérstakri stofnun eða heimili sem stofnunin hefur gert samkomulag við og sé þar undir eftirliti. Þegar sérstaklega stendur á getur Fangelsismálastofnun sett það sem skilyrði við fullnustu utan fangelsis að fangi hafi á sér búnað svo að unnt sé að fylgjast með ferðum hans.
     Fangi skal sjálfur greiða gjöld sem slík stofnun eða heimili innheimtir hjá vistmönnum.
     Fangelsismálastofnun setur nánari reglur um forsendur og skilyrði slíkrar vistunar.

32. gr.

Rafrænt eftirlit.
     Þegar dæmd refsing er 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi eða lengri getur Fangelsismálastofnun leyft fanga að ljúka afplánun utan fangelsis, enda hafi hann á sér búnað svo að unnt sé að fylgjast með ferðum hans.
     Þegar dæmd refsing er 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi getur afplánun undir rafrænu eftirliti verið 60 dagar. Afplánun undir rafrænu eftirliti lengist um fimm daga fyrir hvern dæmdan mánuð og getur orðið 360 dagar hið mesta.

33. gr.

Skilyrði rafræns eftirlits.
     Skilyrði þess að rafrænt eftirlit komi til álita eru:
  1. Að fangi teljist hæfur til að sæta rafrænu eftirliti.
  2. Að fangi hafi fastan dvalarstað sem samþykktur hefur verið af Fangelsismálastofnun.
  3. Að maki fanga, forsjáraðili, nánasti aðstandandi eða húsráðandi samþykki að hann sé undir rafrænu eftirliti á sameiginlegum dvalarstað þeirra.
  4. Að fangi stundi vinnu eða nám, sé í starfsþjálfun eða meðferð eða sinni öðrum verkefnum sem Fangelsismálastofnun hefur samþykkt og eru liður í aðlögun hans að samfélaginu á ný.
  5. Að fangi hafi áður nýtt sér úrræði skv. 1. mgr. 31. gr. með fullnægjandi hætti eða verið metinn hæfur til að nýta úrræði skv. 1. mgr. 31. gr. en ekki getað það af ástæðum sem eru ekki af hans völdum. Fangi sem hefur af þessum ástæðum ekki getað nýtt sér úrræðið skal hafa verið agabrotalaus þann tíma sem hann hefði ella nýtt það.
  6. Að fangi hafi ekki rofið skilyrði rafræns eftirlits á síðastliðnum þremur árum.
  7. Að fangi eigi að jafnaði ekki mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum þar sem hann er grunaður um refsiverðan verknað, enda sé málið rekið með eðlilegum hætti og dráttur því ekki af völdum fangans.


34. gr.

Skilyrði í rafrænu eftirliti.
     Rafrænt eftirlit skal bundið eftirfarandi skilyrðum:
  1. Að fangi sé undantekningarlaust á dvalarstað sínum frá kl. 23 til kl. 7 mánudaga til föstudaga og frá kl. 21 til kl. 7 laugardaga og sunnudaga. Jafnframt skal fangi vera á dvalarstað sínum ef hann sækir ekki vinnu, nám, starfsþjálfun, meðferð eða önnur verkefni sem Fangelsismálastofnun hefur samþykkt á virkum degi vegna veikinda eða af öðrum ástæðum nema að höfðu samráði við Fangelsismálastofnun.
  2. Að fangi neyti ekki áfengis eða ávana- og fíkniefna.
  3. Að á fanga falli ekki grunur um refsiverðan verknað.

     Auk þess má ákveða að rafrænt eftirlit verði bundið eftirfarandi skilyrðum:
  1. Að fangi hlíti fyrirmælum Fangelsismálastofnunar um umgengni við aðra menn og iðkun tómstundastarfa.
  2. Að fangi sæti sérstakri meðferð sem Fangelsismálastofnun ákveður.

     Heimilt er að krefjast þess að fangi undirgangist rannsókn á öndunarsýni eða blóð- og þvagrannsókn. Synjun fanga á slíkri rannsókn gildir sem rof á skilyrðum rafræns eftirlits.
     Áður en fullnusta á fangelsisrefsingu undir rafrænu eftirliti hefst skal kynna fanga ítarlega, á tungumáli sem hann skilur, þær reglur sem gilda um rafrænt eftirlit og staðfesting hans fengin á því að hann vilji hlíta þeim.

35. gr.

Rof á skilyrðum fullnustu utan fangelsis.
     Þegar fangi stundar ekki vinnu, nám, starfsþjálfun eða meðferð sem var forsenda fullnustu utan fangelsis, eða strjúki hann frá stofnun eða heimili, brjóti reglur þess eða rjúfi skilyrði fyrir fullnustu, getur Fangelsismálastofnun ákveðið að hann verði fluttur aftur í afplánun í fangelsi. Sama gildir telji stofnun eða heimili brostnar forsendur fyrir áframhaldandi dvöl fanga þar.
     Nú uppfyllir fangi ekki lengur skilyrði skv. 33. gr. eða rýfur skilyrði skv. 34. gr. og ákveður Fangelsismálastofnun þá hvort skilyrðum rafræns eftirlits skuli breytt og hvort heimild til afplánunar undir rafrænu eftirliti verði afturkölluð og refsing afplánuð í fangelsi.

36. gr.

Lok afplánunar.
     Fangi sem afplánar óskilorðsbundna fangelsisrefsingu skal látinn laus kl. 8 að morgni þess dags sem afplánun lýkur. Heimilt er að láta fanga lausan á öðrum tíma þegar um brottvísun úr landi er að ræða eða þegar fangi hefur strokið úr refsivist.
     Fangelsismálastofnun skal tímanlega fyrir lok afplánunar tilkynna félagsþjónustu þess sveitarfélags sem fangi á lögheimili í um lok afplánunar, sé þess þörf. Ráðherra ákveður í reglugerð tímaviðmið tilkynninga Fangelsismálastofnunar.

37. gr.

Samfélagsþjónusta.
     Þegar maður hefur verið dæmdur í allt að 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi er heimilt, ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því, að fullnusta refsinguna með ólaunaðri samfélagsþjónustu, minnst 40 klukkustundir og mest 480 klukkustundir. Fangelsismálastofnun getur ákveðið að hluti ólaunuðu samfélagsþjónustunnar skuli felast í viðtalsmeðferð eða viðurkenndu námskeiði, samhliða samfélagsþjónustu, enda nemi sá hluti aldrei meira en einum fimmta samfélagsþjónustunnar að jafnaði.
     Þegar hluti fangelsisrefsingar er skilorðsbundinn má heildarrefsing samkvæmt dóminum ekki vera lengri en 12 mánuðir til að hægt sé að fullnusta refsinguna með samfélagsþjónustu.
     Þegar um fangelsisrefsingu er að ræða samkvæmt fleiri en einum dómi má samanlögð refsing ekki vera lengri en 12 mánuðir til að hægt sé að fullnusta refsinguna með samfélagsþjónustu.

38. gr.

Skilyrði samfélagsþjónustu.
     Skilyrði þess að samfélagsþjónusta komi til álita eru:
  1. Að dómþoli hafi óskað eftir því skriflega við Fangelsismálastofnun eigi síðar en viku áður en hann átti upphaflega að hefja afplánun fangelsisrefsingar.
  2. Að dómþoli eigi ekki mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum þar sem hann er grunaður um refsiverðan verknað.
  3. Að dómþoli teljist hæfur til samfélagsþjónustu.
  4. Að dómþoli afpláni ekki fangelsisrefsingu eða sæti gæsluvarðhaldi.

     Áður en metið er hvort dómþoli teljist hæfur til að gegna samfélagsþjónustu og þ.m.t. hvort líklegt sé að hann geti innt samfélagsþjónustuna af hendi skal fara fram athugun á persónulegum högum hans. Mæti dómþoli ekki til viðtals í þessu skyni skal almennt synja beiðni um samfélagsþjónustu.
     Þegar fangelsisrefsing er fullnustuð með samfélagsþjónustu jafngildir 40 klukkustunda samfélagsþjónusta eins mánaðar fangelsisrefsingu. Hafi gæsluvarðhald komið til frádráttar fangelsisrefsingu skal taka tillit til þess við útreikning á fjölda klukkustunda.

39. gr.

Ákvörðun um samfélagsþjónustu.
     Fangelsismálastofnun ákveður hvort fangelsisrefsing verði fullnustuð með samfélagsþjónustu og hvaða samfélagsþjónustu dómþoli sinni í hverju tilviki. Sama gildir um á hve löngum tíma samfélagsþjónusta skuli innt af hendi en sá tími skal þó aldrei vera skemmri en tveir mánuðir.
     Þegar skal hafna umsókn um samfélagsþjónustu ef umsækjandi uppfyllir ekki skilyrði skv. 1., 2. og 4. tölul. 1. mgr. 38. gr. Ef sérstakar ástæður mæla með er þó heimilt að víkja frá þeim skilyrðum.
     Þegar umsókn er tekin til efnislegrar meðferðar skal fresta fullnustu fangelsisrefsingar þar til ákvörðun um afgreiðslu hennar liggur fyrir, enda fremji dómþoli ekki refsiverðan verknað á þeim tíma.
     Fullnusta óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar með samfélagsþjónustu hefst þegar dómþoli gengst undir skilyrði samfélagsþjónustu.

40. gr.

Skilyrði í samfélagsþjónustu.
     Samfélagsþjónusta er bundin eftirfarandi skilyrðum:
  1. Að dómþoli hljóti ekki kæru fyrir refsiverðan verknað á þeim tíma sem samfélagsþjónusta er innt af hendi.
  2. Að dómþoli sæti umsjón og eftirliti Fangelsismálastofnunar eða annars aðila sem hún ákveður þegar samfélagsþjónusta er innt af hendi.

     Auk þess má ákveða að samfélagsþjónusta verði bundin eftirfarandi skilyrðum:
  1. Að dómþoli hlíti fyrirmælum umsjónaraðila um dvalarstað, nám, vinnu, umgengni við aðra menn og iðkun tómstundastarfa.
  2. Að dómþoli neyti hvorki áfengis né ávana- og fíkniefna.

     Heimilt er að krefjast þess að dómþoli undirgangist rannsókn á öndunarsýni eða blóð- og þvagrannsókn til að athuga hvort hann hafi rofið skilyrði 2. tölul. 2. mgr. Synjun dómþola á slíkri rannsókn gildir sem rof á skilyrðum í samfélagsþjónustu.
     Áður en fullnusta á fangelsisrefsingu með samfélagsþjónustu hefst skal kynna dómþola ítarlega þær reglur sem gilda um samfélagsþjónustu á tungumáli sem hann skilur og staðfesting hans fengin á því að hann vilji hlíta þeim. Sama gildir um viðbrögð við brotum á þessum reglum.

41. gr.

Rof á skilyrðum samfélagsþjónustu.
     Nú uppfyllir dómþoli ekki lengur skilyrði skv. 38. gr. eða rýfur skilyrði skv. 40. gr., eða að öðru leyti sinnir samfélagsþjónustu ekki með fullnægjandi hætti, og ákveður þá Fangelsismálastofnun hvort skilyrðum hennar skuli breytt, hvort tími sem samfélagsþjónusta er innt af hendi skuli lengdur eða hvort heimild til fullnustu með samfélagsþjónustu verði afturkölluð og refsing afplánuð í fangelsi.
     Þegar rof á skilyrðum samfélagsþjónustu eða meint afbrot er hvorki alvarlegt né ítrekað skal veita áminningu.
     Þegar ákveðið er skv. 1. mgr. að fangelsisrefsing skuli afplánuð í fangelsi skal reikna tímalengd eftirstöðva út með hliðsjón af þeirri samfélagsþjónustu sem þegar hefur verið innt af hendi.
     Þegar eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem að hluta hefur verið fullnustuð með samfélagsþjónustu eru afplánaðar í fangelsi er heimilt að veita reynslulausn af eftirstöðvunum skv. 80. gr. þannig að helmingur og tveir þriðju hlutar reiknist af óafplánuðum eftirstöðvum refsitímans.

IV. KAFLI
Réttindi og skyldur fanga.

42. gr.

Vistun í klefa.
     Fangi skal vera einn í klefa nema sérstakar aðstæður eða húsrými komi í veg fyrir það. Fangaklefi skal vera læstur að næturlagi svo sem nánar er tilgreint í reglum fangelsis. Fangelsismálastofnun getur ákveðið að klefar séu ólæstir í tilteknum fangelsum eða fangelsisdeildum eða í öðrum tilvikum þegar sérstakar ástæður mæla með.
     Forstöðumaður fangelsis getur læst klefa á öðrum tímum en skv. 1. mgr. af öryggisástæðum.
     Föngum í lokuðum fangelsum er óheimilt að fara inn í fangaklefa annarra fanga. Forstöðumaður getur í samráði við Fangelsismálastofnun vikið frá reglunni ef sameiginleg rými í fangelsinu eru ekki fullnægjandi eða aðrar málefnalegar ástæður mæla með því.

43. gr.

Samneyti kynja.
     Leyfa má körlum og konum að taka þátt í daglegu starfi saman en aðskilja ber kynin að næturlagi.
     Fanga er óheimilt að fara inn í klefa fanga af gagnstæðu kyni.

44. gr.

Vistun fanga yngri en 18 ára.
     Fangar sem eru undir 18 ára aldri skulu afplána refsingu á vegum barnaverndaryfirvalda. Óheimilt er að vista fanga undir 18 ára aldri í fangelsi nema fyrir liggi mat sérfræðinga um að það sé honum fyrir bestu með vísan til sérstakra aðstæðna er lúta að honum sjálfum og í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Um slíka vistun gilda ákvæði laga þessara ef við á.
     Fangi sem er skólaskyldur skal eiga kost á skyldunámi, sbr. 26. gr.
     Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd vistunar samkvæmt ákvæði þessu.

45. gr.

Heimsóknir.
     Fangi sem afplánar í lokuðu fangelsi getur fengið heimsóknir frá fjölskyldu og vinum ef aðstæður í fangelsi leyfa og slíkt telst gagnlegt sem þáttur í refsifullnustu hans. Fangi getur fengið heimsóknir frá fjölskyldu eigi sjaldnar en vikulega en heimsóknir frá vinum skulu ekki vera fleiri en tvær í mánuði nema í sérstökum tilvikum.
     Fangi sem afplánar í opnu fangelsi getur fengið heimsóknir frá fjölskyldu og vinum eigi sjaldnar en vikulega ef aðstæður í fangelsi leyfa og slíkt telst gagnlegt sem þáttur í refsifullnustu hans.
     Fangelsismálastofnun setur nánari reglur um heimsóknir, svo sem um undanþágur fyrir fleiri vinaheimsóknum.

46. gr.

Takmarkanir á heimsóknum.
     Forstöðumaður getur ákveðið að heimsóknir tiltekinna manna fari fram undir eftirliti starfsmanns, í öðrum vistarverum fangelsis, eða með því að banna líkamlega snertingu gests og fanga eða banna tilteknum mönnum að heimsækja fanga ef nauðsynlegt þykir til að viðhalda ró, góðri reglu og öryggi í fangelsi og til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað eða ef ástæða er til að ætla að heimsóknin verði misnotuð að öðru leyti. Slíka ákvörðun skal rökstyðja skriflega.
     Heimilt er að rjúfa heimsókn ef það þykir nauðsynlegt til að viðhalda ró, góðri reglu og öryggi í fangelsi eða til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað.
     Heimsókn lögmanns til fanga skal ávallt vera án eftirlits nema lögmaður óski annars.

47. gr.

Heimsóknargestir.
     Fangelsisyfirvöld skulu kanna bakgrunn og sakaferil heimsóknargests áður en forstöðumaður samþykkir heimsóknina. Við könnunina er heimilt að afla upplýsinga úr málaskrá lögreglunnar fimm ár aftur í tímann og úr sakaskrá til yfirvalda. Leggja skal heildstætt mat á það hvort óhætt sé að heimila heimsókn en aldrei má þó ganga lengra við könnun á bakgrunni og sakaferli en þörf er á hverju sinni.
     Heimilt er að leita á þeim sem heimsækja fanga. Leit getur annars vegar verið leit í ytri fötum og hins vegar líkamsleit, enda samþykki heimsóknargestur það. Samþykki hann það ekki skal heimsóknin fara fram með öðrum hætti eða synja um hana, sbr. 1. mgr. 46. gr.
     Heimilt er að skoða það sem farið er með til fanga. Munir eða efni sem gestur hefur meðferðis og fanga er óheimilt að hafa í fangelsi skulu vera í vörslu fangelsis á meðan á heimsókn stendur.
     Upplýsa skal þann sem kemur í heimsókn til fanga um þær reglur er gilda um heimsóknir.

48. gr.

Heimsóknir barna.
     Forstöðumanni fangelsis ber að skipuleggja aðstæður þannig að börn geti komið með í heimsóknir og að þeim sé sýnd nærgætni. Þurfi heimsókn að fara fram utan fangelsis vegna hagsmuna barns skal það gert á grundvelli álits barnaverndaryfirvalda eða annarra sérhæfðra aðila.
     Heimsóknir barna yngri en 18 ára skulu fara fram í fylgd forsjáraðila eða annars aðstandanda, enda liggi fyrir skriflegt samþykki forsjáraðila fyrir því.
     Rjúfa skal heimsókn þar sem börn eru ef talið er að hún brjóti gegn hagsmunum þeirra.

49. gr.

Símtöl.
     Fangi á rétt á símtölum við fólk utan fangelsis á þeim tímum dags sem reglur fangelsis segja til um. Heimilt er að takmarka fjölda símtala hvers og eins og lengd þeirra ef nauðsynlegt reynist til að aðrir fangar fái notið þessa réttar. Símtöl til fanga í öðrum fangelsum eru bönnuð nema með samþykki forstöðumanns.
     Heimilt er að hlusta á eða taka upp símtöl fanga ef það telst nauðsynlegt vegna almenns eftirlits til að viðhalda góðri reglu og öryggi í fangelsi, til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað eða til að vernda þann sem afleiðingar af broti fanga hafa bitnað á og þann sem vitnað hefur gegn fanga.
     Ákvörðun um að hlusta á eða taka upp símtal skal tilkynnt fanga fyrir fram og ástæður hennar tilgreindar og bókaðar. Heimilt er að setja það skilyrði að símtalið fari fram á tungumáli sem fangavörður skilur en ella þýði túlkur samtalið. Eyða skal upptökum þegar þeirra er ekki lengur þörf.
     Ekki er heimilt að hlusta á símtöl fanga við lögmann, prest eða annan sambærilegan fulltrúa trúfélags eða lífsskoðunarfélags sem fangi tilheyrir, opinberar stofnanir eða umboðsmann Alþingis.
     Samkvæmt beiðni rétthafa símanúmers getur forstöðumaður fangelsis ákveðið að ekki verði hringt í símanúmerið úr fangelsi.
     Fangi greiðir sjálfur kostnað við símtöl sín önnur en til lögmanns, ráðuneytisins, umboðsmanns Alþingis, Fangelsismálastofnunar og sendiráðs lands erlends fanga eða ræðismanns þess.

50. gr.

Bréfaskipti.
     Fanga er heimilt að senda og taka við bréfum. Forstöðumaður fangelsis getur ákveðið að opna og lesa bréf til og frá fanga í viðurvist hans til að viðhalda góðri reglu og öryggi í fangelsi, til að fyrirbyggja refsiverðan verknað eða til að vernda þann sem afleiðingar af broti fanga hafa bitnað á og þann sem vitnað hefur gegn fanga. Forstöðumaður getur í sama tilgangi ákveðið að takmarka bréfaskipti fanga við ákveðna aðila eða stöðva sendingu bréfa til og frá fanga. Heimilt er að setja það skilyrði að bréfaskipti fari fram á tungumáli sem fangavörður skilur en annars verði skjalaþýðanda falið að þýða bréf.
     Ekki skal skoða bréfaskipti milli fanga og lögmanns, opinberra stofnana, prests eða annars sambærilegs fulltrúa skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags sem fangi tilheyrir eða umboðsmanns Alþingis.
     Ákvörðun um að lesa bréf, eða leggja hald á það, skal tilkynnt fanga og ástæður hennar tilgreindar og bókaðar.
     Þegar fangelsi útvegar fanga bréfsefni eða umslög má það ekki bera með sér stimpil eða önnur einkenni sem af má ráða að sendandi sé vistaður í fangelsi.
     Fangi skal sjálfur bera kostnað af bréfum sem hann sendir nema til lögmanns, Fangelsismálastofnunar, opinberra stofnana, umboðsmanns Alþingis eða sendiráðs lands erlends fanga eða ræðismanns þess.

51. gr.

Aðgangur að fjölmiðlum.
     Fangi skal að jafnaði eiga kost á að fylgjast með gangi þjóðmála með lestri dagblaða og í gegnum útvarp og sjónvarp.
     Fangelsismálastofnun ákveður hvort heimila skuli fjölmiðlaviðtal við fanga. Slíkt skal ekki heimila ef það er andstætt almannahagsmunum eða hagsmunum brotaþola. Fangelsismálastofnun setur reglur um nánari framkvæmd fjölmiðlaviðtala við fanga.

52. gr.

Útivera og tómstundir.
     Fangi á rétt á útiveru og að iðka tómstundastörf, líkamsrækt og íþróttir í frítíma eftir því sem aðstæður leyfa. Slík ástundun skal vara í að minnsta kosti eina og hálfa klukkustund á dag nema það sé ósamrýmanlegt góðri reglu og öryggi í fangelsi.

53. gr.

Bókasafn.
     Fangi á rétt á aðgangi að bókasafni.

54. gr.

Erlendir fangar.
     Erlendur fangi á rétt á að hafa samband við sendiráð lands síns eða ræðismann þess.
     Nú er fangi ríkisfangslaus eða flóttamaður og skal fangelsi þá aðstoða hann við að hafa samband við fulltrúa innlendra eða alþjóðlegra stofnana sem gæta hagsmuna slíkra einstaklinga.
     Erlendur fangi á rétt á túlki þegar honum er gerð grein fyrir réttindum sínum og skyldum í afplánun sé þess þörf. Hann á jafnframt rétt á að hafa samband við lögmann sinn með aðstoð túlks þegar þurfa þykir.
     Kynna skal erlendum fanga að hann geti sótt um að afplána refsingu í heimalandi sínu, enda sé samningur þess efnis við heimaland viðkomandi fanga.

55. gr.

Iðkun trúar eða siðar.
     Fangi skal eiga kost á að hafa samband við prest eða annan sambærilegan fulltrúa skráðs trúfélags eða lífsskoðunarfélags. Gera skal fanga kleift að iðka trú sína eða sið og taka tillit til matarvenja og bænatíma í starfi og námi fanga eins og unnt er.

56. gr.

Búnaður í klefa.
     Búnaður sem forstöðumaður fangelsis getur leyft fanga samkvæmt reglum fangelsis að hafa í klefa sínum skal vera í eigu fangelsis. Búnaðurinn skal leigður út gegn vægu gjaldi. Nú er búnaður sem heimilt er að leyfa fanga að hafa í klefa sínum ekki til í fangelsinu og er þá heimilt að leyfa fanga að hafa sinn eigin búnað og er þá ekki tekið gjald fyrir notkunina.
     Forstöðumaður fangelsis getur leyft fanga, í samræmi við reglur fangelsis, að hafa raftæki í klefa sínum. Í samráði við Fangelsismálastofnun getur forstöðumaður opins fangelsis heimilað fanga að hafa nettengda tölvu og farsíma í klefa sínum á nánar tilgreindum tímum. Forstöðumaður lokaðs fangelsis getur heimilað fanga, í samráði við Fangelsismálastofnun, að hafa aðgang að nettengdri tölvu í sameiginlegu rými fangelsis. Fangelsismálastofnun setur sérstakar reglur um fyrirkomulag og notkun raftækja, síma og nettengdra tölva.
     Fanga er óheimilt að hafa í vörslum sínum áfengi, ávana- og fíkniefni og lyf. Fanga er þó heimilt í undantekningartilfellum að hafa lyf í klefa sínum, ef það telst nauðsynlegt vegna heilsu hans samkvæmt læknisráði og með samþykki forstöðumanns.
     Fanga er óheimilt að hafa reiðufé í fórum sínum eða klefa sínum, nema með sérstakri heimild forstöðumanns. Fangi skal eiga þess kost að fjármunir hans séu í vörslu fangelsis.
     Gæsluvarðhaldsfanga er heimilt að nota síma eða önnur fjarskiptatæki, þó er slík notkun óheimil í klefa hans. Sá sem stýrir rannsókn getur þó bannað eða takmarkað notkunina. Gæsluvarðhaldsfangi má nota önnur fjarskiptatæki utan klefa í tengslum við nám og vinnu. Forstöðumaður fangelsis getur takmarkað eða bannað að gæsluvarðhaldsfangi noti önnur fjarskiptatæki ef hætta þykir á að það raski góðri reglu eða öryggi í fangelsinu. Sé gæsluvarðhaldsfangi vistaður innan um aðra afplánunarfanga gilda ákvæði 1. og 2. mgr. um notkun á síma og öðrum fjarskiptatækjum.

57. gr.

Skylda til að hlýða fyrirmælum starfsfólks.
     Fanga er skylt að hlýða fyrirmælum sem starfsfólk fangelsisins gefur. Fanga er óheimilt að hindra fangaverði eða aðra starfsmenn í að gegna skyldustörfum sínum.

58. gr.

Talsmenn fanga.
     Fangar geta kosið sér talsmenn úr röðum samfanga sinna til að vinna að málefnum fanga og til að koma fram fyrir þeirra hönd.

V. KAFLI
Leyfi úr fangelsi.

59. gr.

Reglubundin dags- og fjölskylduleyfi.
     Forstöðumaður fangelsis getur að fengnu samþykki Fangelsismálastofnunar veitt fanga sem afplánar refsingu reglubundin dagsleyfi til dvalar utan fangelsis ef slíkt telst gagnlegt sem þáttur í refsifullnustu eða til að búa fanga undir að ljúka afplánun. Slíkt leyfi skal vera 14 klukkustundir að hámarki og skal að jafnaði veitt á tímabilinu frá kl. 7 að morgni til kl. 22 að kvöldi sama dags. Heimilt er að lengja leyfið ef fangi á sannanlega um langan veg að fara til heimilis síns.
     Dagsleyfi kemur fyrst til skoðunar þegar fangi hefur samfellt afplánað þriðjung refsitímans í fangelsi, þó ekki skemmri tíma en eitt ár. Þegar fangi hefur verið samfellt í fjögur ár í fangelsi er heimilt að veita honum slíkt leyfi þótt þriðjungur refsitímans sé ekki liðinn.
     Nú hafa fanga verið veitt dagsleyfi á samfelldu tveggja ára tímabili og hann staðist skilyrði þeirra og er þá heimilt að veita honum allt að 48 klukkustunda fjölskylduleyfi ef slíkt telst gagnlegt sem þáttur í refsifullnustu eða til að búa fanga undir að ljúka afplánun. Slíkt leyfi skal að jafnaði vera frá kl. 12 á hádegi til kl. 12 á hádegi.
     Í beiðni um leyfi skal fangi upplýsa hvernig hann hyggst verja leyfinu, hvern hann hyggst heimsækja og hvar hann mun dveljast. Áður en leyfi er veitt er heimilt að leita staðfestingar hjá viðkomandi á því að af heimsókn geti orðið.
     Dagsleyfi úr fangelsi samkvæmt þessari grein mega mest vera 12 á ári og veita má leyfi að nýju ef liðnir eru 30 dagar frá síðasta leyfi. Fjölskylduleyfi mega vera mest fjögur á ári og þurfa 90 dagar að líða milli slíkra leyfa. Fanga er heimilt að taka dagsleyfi milli tveggja fjölskylduleyfa.
     Nú fer afplánun fram utan fangelsis skv. 31. gr. og er þá heimilt að setja það skilyrði að fanga skuli ekki veitt leyfi samkvæmt þessari grein.

60. gr.

Ákvörðun um dags- og fjölskylduleyfi.
     Taka skal tillit til afbrots og saka- og afplánunarferils þess fanga sem í hlut á við ákvörðun dags- og fjölskylduleyfis. Einnig skal taka tillit til hegðunar hans í fangelsi og þess hvort hann hafi nýtt sér meðferðarúrræði sem til boða hafa staðið í fangelsinu.
     Nú hefur fangi verið dæmdur í síðasta refsidómi eða áður fyrir manndráp, ofbeldis- eða kynferðisbrot, meiri háttar fíkniefnabrot, brennu eða annað almennt hættubrot, eða auðgunarbrot framið með ofbeldi eða hótun um ofbeldi, og skal þá sýna sérstaka gát við mat á því hvort fanga skuli veitt leyfi til dvalar utan fangelsis. Sama gildir ef mál þar sem viðkomandi fangi er grunaður um eða ákærður fyrir slíkt brot er til meðferðar hjá lögreglu, dómstólum eða ákæruvaldi og einnig ef fangi telst síbrotamaður eða hætta er á að hann muni misnota leyfi eða reyna að komast úr landi.
     Nú hefur fangi strokið úr afplánun eða gæsluvarðhaldi og skulu þá líða að minnsta kosti tvö ár þar til unnt er að veita fanga leyfi. Hafi fangi framið refsiverðan verknað í fyrra dags- eða fjölskylduleyfi eða að öðru leyti misnotað slíkt leyfi skal leyfi ekki veitt fyrr en að minnsta kosti átta mánuðir eru liðnir frá slíku atviki. Nú verður fangi uppvís að neyslu áfengis eða ávana- og fíkniefna eða hann hefur framið agabrot í fangelsi eða utan þess og kemur þá leyfi til dvalar utan fangelsis ekki til greina fyrr en að sex mánuðum liðnum frá slíku atviki.

61. gr.

Skammtímaleyfi.
     Forstöðumaður fangelsis getur að fengnu samþykki Fangelsismálastofnunar veitt fanga skammtímaleyfi til dvalar utan fangelsis í þeim tilgangi:
  1. Að heimsækja náinn ættingja eða annan nákominn í fjölskyldu fanga sem er alvarlega sjúkur að fengnu samþykki viðkomandi eða hans nánasta aðstandanda.
  2. Að vera viðstaddur jarðarför eða kistulagningu náins ættingja eða annars nákomins í fjölskyldu fanga. Þó getur fangi verið viðstaddur bæði kistulagningu og jarðarför maka síns, niðja, foreldra, systkina, afa og ömmu, langömmu og langafa.
  3. Að vera viðstaddur fæðingu, skírn eða fermingu barns síns.
  4. Að gæta sérstaklega brýnna persónulegra hagsmuna sinna.

     Ekki skal veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis skv. 1.–4. tölul. 1. mgr. nema fyrir liggi fullnægjandi gögn um þar til greindar aðstæður. Slíkt leyfi skal vera 8 klukkustundir að hámarki. Lengja má þann tíma þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, svo sem þegar um langan veg er að fara. Þó skal skammtímaleyfi aldrei vera lengra en nauðsyn krefur. Liggi samþykki hlutaðeigandi fyrir komu fangans ekki fyrir skal synja um leyfið.
     Með nánum ættingja og öðrum nákomnum í fjölskyldu fanga í 1. og 2. tölul. 1. mgr. er átt við maka, sambúðarmaka, niðja, stjúpbörn, fósturbörn, foreldra, stjúpforeldra, fósturforeldra, tengdaforeldra, systkin, systkinabörn, föður- og móðurforeldra, langömmu og langafa og föður- og móðursystkin.
     Forstöðumaður fangelsis ákveður í samráði við Fangelsismálastofnun hvernig gæslu á fanganum skuli hagað í leyfinu.

62. gr.

Nám, starfsþjálfun eða verkmenntun utan fangelsis.
     Forstöðumaður fangelsis getur að fengnu samþykki Fangelsismálastofnunar veitt fanga sem afplánar refsingu leyfi til dvalar utan fangelsis til að stunda nám, starfsþjálfun eða verkmenntun í allt að 12 mánuði í lok afplánunar í fangelsi ef það telst gagnlegt sem þáttur í refsifullnustu eða til að búa fanga undir að afplánun ljúki. Forstöðumaður fangelsis ákveður í samráði við Fangelsismálastofnun hvernig gæslu á fanganum skuli hagað í leyfinu. Slíkt leyfi er ekki veitt fyrr en fangi hefur verið samfellt í fimm ár í fangelsi.
     Áður en leyfi til dvalar utan fangelsis skv. 1. mgr. er veitt skal liggja fyrir staðfest stundaskrá og skrifleg staðfesting skóla eða þess sem veitir starfsþjálfun um að fangi geti hafið og stundað nám, starfsþjálfun eða verkmenntun þann tíma sem fyrirhugað er að leyfið gildi. Þá skal gengið úr skugga um að þessum aðilum sé ljóst að um fanga sé að ræða sem afpláni refsingu og þeim gerð grein fyrir reglum og skilyrðum sem gilda um leyfið.

63. gr.

Vinna utan fangelsis.
     Forstöðumaður fangelsis getur að fengnu samþykki Fangelsismálastofnunar veitt fanga sem afplánar refsingu leyfi til dvalar utan fangelsis til að stunda vinnu í allt að 12 mánuði í lok afplánunar í fangelsi ef það telst gagnlegt sem þáttur í refsifullnustu eða til að búa fanga undir að afplánun ljúki. Forstöðumaður fangelsis ákveður í samráði við Fangelsismálastofnun hvernig gæslu á fanganum skuli hagað í leyfinu. Slíkt leyfi er ekki veitt fyrr en fangi hefur verið samfellt í fimm ár í fangelsi.
     Áður en leyfi til dvalar utan fangelsis skv. 1. mgr. er veitt skal liggja fyrir skrifleg staðfesting vinnuveitanda um að fangi geti hafið störf þann tíma sem fyrirhugað er að leyfið gildi. Þá skal gengið úr skugga um að vinnuveitanda sé ljóst að um fanga sé að ræða sem afpláni refsingu og þeim gerð grein fyrir reglum og skilyrðum sem gilda um leyfið.

64. gr.

Ákvörðun um nám, starfsþjálfun, verkmenntun og vinnu utan fangelsis.
     Við mat á því hvort heimila skuli fanga að stunda nám, starfsþjálfun, verkmenntun eða vinnu utan fangelsis skal taka tillit til afbrots og saka- og afplánunarferils hans. Einnig skal taka tillit til hegðunar fangans í fangelsi og þess hvort hann hafi nýtt sér meðferðarúrræði sem til boða hafa staðið í fangelsi. Að öðru leyti ber að hafa til hliðsjónar skilyrði fyrir veitingu dagsleyfa samkvæmt lögum þessum.

65. gr.

Skilyrði í leyfi.
     Eftirtalin skilyrði eru fyrir leyfi til dvalar utan fangelsis:
  1. Að fangi neyti ekki eða hafi í vörslu sinni áfengi, ávana- og fíkniefni eða önnur lyf sem honum eru ekki ætluð.
  2. Að fangi fari ekki af landi brott í leyfinu.
  3. Að fangi geri eða fari ekki annað í leyfinu en samræmist tilgangi þess.

     Auk skilyrða 1. mgr. er heimilt að setja eftirtalin skilyrði fyrir leyfi til dvalar utan fangelsis:
  1. Að fangi láti í té öndunarsýni við endurkomu í fangelsið eða blóð- og þvagsýni í leyfi og fyrir og eftir leyfið.
  2. Að fangi gangist undir líkamsleit við endurkomu í fangelsið.
  3. Að fangi skuli ekki, ef tillit til brotaþola eða nánustu aðstandenda eða eðli eða grófleiki brotsins mæla með, koma á ákveðna staði eða hafa samband við ákveðna menn í leyfinu.
  4. Að fanginn skuli tilkynna sig til lögreglu eða fangelsismálayfirvalda.
  5. Að tilteknir einstaklingar sæki fangann og aki honum aftur í fangelsi.
  6. Að fangi hafi á sér búnað svo að Fangelsismálastofnun eða annar aðili sem hún velur geti fylgst með ferðum hans í samræmi við þau fyrirmæli sem Fangelsismálastofnun hefur sett honum.

     Heimilt er að setja frekari skilyrði fyrir leyfi til dvalar utan fangelsis.
     Tilgreina skal hvenær fanganum er heimilt að yfirgefa fangelsið og hvenær hann skal vera kominn aftur í fangelsið. Fangi skal tilkynna fangelsinu svo fljótt sem auðið er ef slys, sjúkdómur eða önnur sambærileg atvik gera honum ókleift að koma úr leyfinu á tilsettum tíma.
     Áður en leyfi er veitt skal leita staðfestingar hjá fanganum á að hann gangist undir skilyrði leyfisins.

66. gr.

Umsókn um leyfi.
     Nú óskar fangi eftir leyfi til dvalar utan fangelsis og skal hann þá sækja um það skriflega til forstöðumanns fangelsis.
     Þegar fanga er veitt leyfi til dvalar utan fangelsis skal afhenda honum skírteini sem greinir skilyrði fyrir leyfisveitingunni, hvaða reglur gilda um leyfið að öðru leyti og hverju það varðar að rjúfa skilyrði leyfisins.
     Óheimilt er að veita fanga leyfi til dvalar utan fangelsis nema hann undirriti skriflega yfirlýsingu um að hann vilji hlíta þeim reglum og skilyrðum sem gilda um leyfið.

67. gr.

Kostnaður.
     Fangi ber sjálfur kostnað af leyfi til dvalar utan fangelsis. Fangi skal þó ekki bera kostnað af fylgd fangavarða.
     Fangi sem stundar vinnu utan fangelsis skv. 63. gr. fær ekki greitt fæðisfé þá daga sem hann vinnur utan fangelsis.

68. gr.

Afturköllun leyfis og rof á skilyrðum þess.
     Heimilt er að afturkalla leyfi til dvalar utan fangelsis vegna hegðunar fanga eða annarra atvika sem verða eftir að ákvörðun um leyfi er tekin og áður en leyfi kemur til framkvæmda og hefðu komið í veg fyrir leyfisveitinguna ef þau hefðu þá verið kunn. Sama á við ef rökstudd ástæða er til að ætla að fangi muni misfara með leyfið.
     Nú rýfur fangi skilyrði leyfis til dvalar utan fangelsis eða brýtur gegn þeim reglum sem um leyfið gilda og getur þá sá sem leyfið veitti fellt það niður. Slík brot gegn skilyrðum leyfis eða reglum þess geta varðað agaviðurlögum skv. VII. kafla.

VI. KAFLI
Leit, líkamsleit og líkamsrannsókn.

69. gr.

Leit í klefa.
     Forstöðumaður fangelsis tekur ákvörðun um leit í klefa fanga ef grunur leikur á að þar sé að finna muni eða efni sem:
  1. refsivert er að hafa í vörslum sínum,
  2. hafa orðið til við refsiverðan verknað,
  3. smyglað hefur verið inn í fangelsið,
  4. fanga er óheimilt að hafa í vörslum sínum eða í klefa samkvæmt reglum fangelsis.

     Einnig má leita í klefa fanga vegna almenns eftirlits og skoða klefa að öðru leyti þótt skilyrði 1. mgr. séu ekki uppfyllt.
     Fangi skal að jafnaði vera viðstaddur leit í klefa. Heimilt er þó að víkja frá þessu skilyrði samkvæmt ákvörðun forstöðumanns fangelsis. Gera skal skýrslu um leitina og þá muni eða efni sem kunna að hafa fundist og fanga er óheimilt að hafa í klefa.
     Fanga skal skýrt frá ástæðum fyrir leit í klefa áður en hún fer fram nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Ákvörðun um leit í klefa fanga skal tekin með rökstuddri bókun.

70. gr.

Leit á fanga.
     Leita má á fanga og í fötum hans við komu í fangelsi, eftir heimsóknir og við almennt eftirlit til þess að koma í veg fyrir að hann hafi í vörslum sínum muni eða efni sem getið er í 1. mgr. 69. gr.
     Leit á fanga innanklæða skal gerð af fangelsisstarfsmanni sama kyns.

71. gr.

Líkamsrannsókn.
     Forstöðumaður tekur ákvörðun um líkamsrannsókn á fanga ef grunur leikur á að hann hafi falið í líkama sínum muni eða efni sem getið er í 1. mgr. 69. gr. Einnig má taka öndunar-, blóð- eða þvagsýni eða annars konar lífsýni úr fanga ef grunur leikur á að hann hafi neytt áfengis eða ávana- og fíkniefna, við komu í fangelsi og við almennt eftirlit.
     Læknir eða hjúkrunarfræðingur annast líkamsrannsókn og töku blóðsýnis.
     Nú fer fram líkamsrannsókn og skal þá gerð skýrsla um tilefni hennar og framkvæmd.
     Ákvörðun um líkamsrannsókn á fanga skal taka með rökstuddri bókun.

72. gr.

Stjórnsýslukæra.
     Stjórnsýslukæra frestar ekki aðgerðum samkvæmt þessum kafla.

VII. KAFLI
Agabrot, agaviðurlög o.fl.

73. gr.

Agabrot.
     Forstöðumaður fangelsis getur beitt fanga agaviðurlögum vegna brota á lögum þessum, reglugerðum og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra og kveða á um skyldur fanga, enda komi fram að brot á þeim varði agaviðurlögum.

74. gr.

Agaviðurlög.
     Agaviðurlög eru eftirtalin:
  1. Skrifleg áminning.
  2. Svipting helmings þóknunar fyrir ástundun vinnu og náms um ákveðinn tíma.
  3. Svipting aukabúnaðar sem sérstakt leyfi þarf fyrir og takmörkun heimsókna, símtala og bréfaskipta um ákveðinn tíma.
  4. Flutningur úr opnu fangelsi yfir í lokað fangelsi.
  5. Takmarkanir á útivist og aðstöðu til íþróttaiðkunar um ákveðinn tíma.
  6. Einangrun í allt að 15 daga.

     Aðeins er heimilt að beita einangrun sem agaviðurlögum vegna eftirfarandi brota eða tilrauna til brota:
  1. Stroks.
  2. Smygls í fangelsi, vörslu eða neyslu áfengis, ólöglegra lyfja eða fíkniefna og vörslu vopna eða annarra skaðlegra hluta.
  3. Ofbeldis eða hótunar um ofbeldi gagnvart öðrum föngum eða starfsmönnum fangelsis.
  4. Grófra skemmdarverka.
  5. Annarra grófra eða endurtekinna minni háttar brota.

     Nú er brot smávægilegt og fangi hefur ekki áður framið agabrot og má þá eingöngu beita skriflegri áminningu.
     Beita má fleiri en einni tegund agaviðurlaga samtímis.
     Áður en ákvörðun um agaviðurlög er tekin skulu málsatvik rannsökuð og skal fanga gefinn kostur á að kynna sér fyrirliggjandi gögn og koma sjónarmiðum sínum um þau á framfæri.
     Ákvörðun um agaviðurlög skal rökstudd, bókuð og birt fanga í viðurvist vitnis.

75. gr.

Aðskilnaður.
     Heimilt er að aðskilja fanga frá öðrum föngum þegar það er nauðsynlegt:
  1. Af öryggisástæðum.
  2. Vegna yfirvofandi hættu sem lífi eða heilbrigði hans er búin.
  3. Vegna hættu á að fangi valdi meiri háttar spjöllum á eignum fangelsis.
  4. Til að koma í veg fyrir strok.
  5. Til að koma í veg fyrir að fangi hvetji aðra til að brjóta reglur fangelsis.
  6. Til að hindra að fangi taki þátt í að útvega sér eða öðrum áfengi, önnur vímuefni eða lyf.
  7. Til að afstýra að hann beiti aðra fanga yfirgangi.

     Aðskilnaður skal ekki standa lengur en nauðsyn krefur og aldrei lengur en 24 tíma.
     Ákvörðun um tímabundinn aðskilnað skal rökstudd og bókuð. Slík ákvörðun sætir ekki kæru.

76. gr.

Vistun í öryggisklefa.
     Vista má fanga í öryggisklefa ef nauðsyn krefur til að koma í veg fyrir ofbeldi, hemja ofbeldisfullan mótþróa hans eða hindra að hann skaði sjálfan sig eða aðra.
     Þegar fangi er vistaður í öryggisklefa má nota belti og fót- og handreimar.
     Forstöðumaður fangelsis tekur ákvörðun um vistun fanga í öryggisklefa. Vistun í öryggisklefa og aðrar aðgerðir sem beitt er í tengslum við hana skulu aldrei standa lengur en samræmist tilgangi vistunar og beitingar annarra aðgerða.
     Ákvörðun um vistun í öryggisklefa skal rökstudd og bókuð. Þá skal ákvörðunin birt fanganum í viðurvist vitnis þegar aðstæður leyfa.

77. gr.

Læknisskoðun.
     Þegar einangrun skv. 74. gr. eða aðskilnaði skv. 75. gr. er beitt, eða fangi settur í öryggisklefa skv. 76. gr., skal kalla til lækni til að skoða fanga. Ef unnt er skal læknir skoða fanga í einangrun eða öryggisklefa daglega.

78. gr.

Málsmeðferð.
     Ákvarðanir um agaviðurlög skv. 74. gr. og vistun í öryggisklefa skv. 76. gr. sæta kæru til ráðuneytisins og skal skýra fanga frá því um leið og ákvörðun er birt. Þegar ákvörðun er kærð skulu gögn málsins þegar send ráðuneytinu.
     Ráðuneytið skal kveða upp úrskurð innan fjögurra virkra daga frá því að kæra barst, ella fellur hin kærða ákvörðun úr gildi. Upphafsdagur frestsins telst vera næsti virki dagur á eftir þeim degi þegar kæran berst ráðuneytinu. Úrskurðarfrestur ráðuneytisins gildir þó ekki ef kæra vegna agaviðurlaga berst ráðuneytinu eftir að gildistími agaviðurlaga hefur liðið undir lok eða ef agaviðurlög felast í áminningu. Ráðuneytið skal þó ávallt leitast við að kveða upp úrskurð eins fljótt og auðið er.

79. gr.

Haldlagning og upptaka.
     Forstöðumaður fangelsis getur tekið ákvörðun um að leggja hald á og eftir atvikum gera upptæka muni eða efni sem óheimilt er að koma með, varðveita eða búa til í fangelsi. Sama gildir um muni eða peninga sem reynt hefur verið að smygla til fanga. Ekki er þó heimilt að gera upptæka eign grandlauss þriðja manns.
     Forstöðumaður fangelsis getur einnig tekið ákvörðun um upptöku muna eða peninga sem finnast innan fangelsis ef ekki er vitað hver er eigandi þeirra.

VIII. KAFLI
Reynslulausn.

80. gr.

Skilyrði reynslulausnar.
     Þegar fangi hefur afplánað tvo þriðju hluta refsitíma getur Fangelsismálastofnun ákveðið að hann skuli látinn laus til reynslu.
     Heimilt er að veita þeim fanga sem ekki afplánar refsingu fyrir alvarlegt eða að öðru leyti gróft afbrot, eða tilraun til slíks brots, svo sem manndráp, ofbeldis- eða kynferðisbrot, frelsissviptingarbrot, meiri háttar fíkniefnabrot, brennu eða önnur almannahættubrot og rán, lausn til reynslu þegar helmingur refsitímans er liðinn.
     Heimilt er að veita fanga lausn til reynslu þegar helmingur refsitímans er liðinn, þrátt fyrir að hann afpláni refsingu fyrir alvarlegt eða að öðru leyti gróft afbrot, ef mjög sérstakar persónulegar ástæður mæla með því og framkoma og hegðun fanga í refsivistinni hefur verið með ágætum. Sama gildir liggi fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar um að fanga verði vísað úr landi að afplánun lokinni. Nú hefur fangi tvívegis eða oftar afplánað fangelsisrefsingu og verður honum þá ekki veitt reynslulausn samkvæmt þessari málsgrein nema sérstakar ástæður mæli með.
     Heimilt er að veita fanga lausn til reynslu þegar einn þriðji hluti refsitímans er liðinn, enda hafi fangi verið 21 árs eða yngri þegar hann framdi afbrot það sem hann situr í fangelsi fyrir, hegðun hans og framkoma verið með ágætum og hann þegið viðeigandi meðferð í afplánun og tekist á við vímuefnavanda sinn, hafi hann verið til staðar.
     Fanga, sem á mál til meðferðar hjá lögreglu, ákæruvaldi eða dómstólum þar sem hann er grunaður um refsiverðan verknað, verður að jafnaði ekki veitt reynslulausn, enda sé málið rekið með eðlilegum hætti og dráttur á því ekki af völdum fangans.
     Fanga, sem telst vera síbrotamaður eða hefur ítrekað verið veitt lausn til reynslu og rofið skilyrði hennar, skal ekki veitt reynslulausn að nýju nema sérstakar ástæður mæli með. Sama gildir þegar reynslulausn telst óráðleg vegna haga fangans eða með tilliti til almannahagsmuna, svo sem þegar hann hefur sýnt af sér mjög ámælisverða hegðun í afplánun eða er talinn hættulegur öðrum samkvæmt mati fagaðila. Nú er fanga synjað um reynslulausn samkvæmt þessari málsgrein og skal þá kynna honum hvaða skilyrði hann þurfi að uppfylla svo að unnt sé að endurskoða ákvörðunina.
     Það er skilyrði reynslulausnar að fangi lýsi því yfir að hann vilji hlíta þeim skilyrðum sem sett eru fyrir reynslulausn. Þegar fangi fær lausn til reynslu skal afhenda honum skírteini er greini skilyrði fyrir reynslulausn og hverju skilorðsrof varði.
     Þegar hluti fangelsisrefsingar er óskilorðsbundinn en hluti skilorðsbundinn verður reynslulausn ekki veitt. Sama gildir þegar fangi afplánar vararefsingu fésektar.
     Nú hefur dómþoli ekki hafið afplánun og er þá heimilt að veita honum reynslulausn af refsingunni ef hann hefur áður afplánað að minnsta kosti jafnlanga refsingu og refsingin er einvörðungu vegna afbrota sem framin eru fyrir þá afplánun og hann hefur ekki verið dæmdur til fangelsisrefsingar fyrir afbrot framin eftir að þeirri afplánun lauk. Sama gildir ef dómþoli hefur þegar hafið afplánun.

81. gr.

Skilyrði á reynslutíma.
     Reynslutími skal vera allt að þremur árum. Nú er óafplánað fangelsi lengra en þrjú ár og má þá ákveða reynslutíma allt að fimm árum.
     Það er skilyrði reynslulausnar að aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á reynslutíma. Auk þess má ákveða að reynslulausn verði, allan eða nánar tiltekinn hluta reynslutímans, bundin eftirfarandi skilyrðum:
  1. Að aðili sé háður umsjón og eftirliti Fangelsismálastofnunar eða annars aðila sem hún ákveður.
  2. Að aðili neyti hvorki áfengis né ávana- og fíkniefna.
  3. Að aðili hlíti fyrirmælum umsjónaraðila um dvalarstað, menntun, vinnu, umgengni við aðra menn og iðkun tómstundastarfa.
  4. Að aðili sæti sérstakri meðferð innan eða utan stofnunar. Vistun á stofnun getur þó ekki staðið lengur en til loka refsitíma.
  5. Að aðili hafi á sér búnað svo að Fangelsismálastofnun eða annar aðili sem hún velur geti fylgst með ferðum hans í samræmi við þau fyrirmæli sem Fangelsismálastofnun hefur sett honum.

     Fangelsismálastofnun tekur ákvarðanir skv. 1. og 2. mgr. og getur vegna breyttra ástæðna fellt skilyrði niður að nokkru leyti eða öllu.
     Nú sætir aðili skilyrði skv. 2. tölul. 2. mgr. og er þá heimilt að krefjast þess að hann undirgangist rannsókn á öndunarsýni eða blóð- og þvagrannsókn. Synjun aðila á slíkri rannsókn gildir sem rof á skilyrðum.

82. gr.

Skilorðsrof.
     Nú fremur maður nýtt brot eftir að hann hlýtur reynslulausn, og rannsókn hefst hjá lögreglu gegn honum sem sakborningi fyrir lok reynslutíma, og ákveður þá dómstóll sem fjallar um mál þetta refsingu í einu lagi fyrir brot það sem nú er dæmt um og svo með hliðsjón af fangelsisrefsingu sem óafplánuð er samkvæmt reglum 60. gr. almennra hegningarlaga þannig að fangelsi samkvæmt eldra dómi er virt með sama hætti og skilorðsdómur.
     Að kröfu ákæranda getur þó dómstóll úrskurðað að maður, sem hlotið hefur reynslulausn, skuli afplána eftirstöðvar refsingar ef hann á reynslutíma rýfur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi framið nýtt brot sem varðað getur sex ára fangelsi eða að brotið varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Við meðferð slíkrar kröfu skal dómari skipa honum verjanda að ósk hans og fara með málið eftir XV. kafla laga um meðferð sakamála eftir því sem við á. Heimilt er að kæra úrskurð dómara skv. 1. málsl. til Hæstaréttar og skal við meðferð kærumálsins farið eftir reglum XXX. kafla laga um meðferð sakamála eftir því sem við á. Kæra frestar ekki framkvæmd úrskurðar. Dómari skal víkja sæti eftir útgáfu ákæru ef hann hefur áður úrskurðað mann, sem ákærður er í málinu, skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar.
     Rjúfi maður skilorð að öðru leyti getur Fangelsismálastofnun ákveðið hvort breytt skuli skilyrðum og reynslu- og/eða tilsjónartími lengdur allt að lögmæltu hámarki hans eða hann taki út refsingu sem eftir stendur.
     Nú er ekki tekin ákvörðun um að maður afpláni fangelsisrefsingu sem hann átti ólokið, sbr. 1.–3. mgr., og telst refsingu þá fullnægt á því tímamarki þegar hann fékk reynslulausn.
     Nú er ákveðið að láta mann taka út eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sbr. 2. og 3. mgr., og hefst þá nýr refsitími í skilningi laga þessara. Veita má reynslulausn að nýju þótt ekki sé fullnægt skilyrðum 1. og 2. mgr. 81. gr. Í þessu tilviki gilda ákvæði 81. gr. um reynslutíma en þó þannig að dreginn skal frá sá tími sem hann hefur notið reynslulausnar áður.
     Nú er maður náðaður skilorðsbundið og er þá heimilt að setja honum þau skilyrði að hann hlíti ákvæðum 81. gr. Um skilorðsrof þess sem er náðaður skilorðsbundið skal fara skv. 1. mgr.

IX. KAFLI
Skilorðsbundnar refsingar, náðun o.fl.

83. gr.

Tilhögun eftirlits.
     Þegar mælt er fyrir um eftirlit með þeim sem frestað er ákæru gegn, dæmdir eru skilorðsbundið eða fá náðun fer Fangelsismálastofnun með eftirlitið eða felur það öðrum.
     Nú hefur aðila verið sett skilyrði um dvöl á hæli samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga og getur Fangelsismálastofnun þá vegna breyttra ástæðna fellt skilyrðið niður að nokkru leyti eða öllu, að fengnum tillögum forstöðumanns hælis, ef því er að skipta.

84. gr.

Veiting upplýsinga.
     Fangelsismálastofnun gerir þeim sem sætir eftirliti grein fyrir því hvað felist í því. Þeim sem sætir eftirliti ber að upplýsa Fangelsismálastofnun um hagi sína og ber að hlíta því sem fyrir hann er lagt af hálfu Fangelsismálastofnunar.

85. gr.

Sértæk skilyrði.
     Nú hefur aðila verið sett skilyrði um að neyta ekki áfengis eða ávana- og fíkniefna og getur þá Fangelsismálastofnun krafist þess að dómþoli undirgangist rannsókn á öndunarsýni eða blóð- og þvagrannsókn ef ástæða er til að ætla að hann hafi brotið gegn skilyrðinu.

86. gr.

Rof á skilyrðum.
     Telji Fangelsismálastofnun að sá sem sætir eftirliti hafi rofið skilyrði þau sem honum var gert að hlíta með dómi, ákærufrestun eða náðun skal Fangelsismálastofnun gera lögreglu og ákæruvaldi viðvart.
     Eftirliti Fangelsismálastofnunar með því að dómþoli haldi sérstök skilyrði samkvæmt dómi eða ákærufrestun lýkur þegar opinber rannsókn á meintum skilorðsrofum dómþola hefst hjá lögreglu. Falli rannsókn hjá lögreglu niður hefst eftirlit Fangelsismálastofnunar samkvæmt þessari grein að nýju.

X. KAFLI
Fullnusta fésekta, innheimta sakarkostnaðar og framkvæmd upptöku.

87. gr.

Innheimta sekta.
     Sýslumenn annast fullnustu sekta sem ákvarðaðar eru af dómstólum eða stjórnvöldum nema annað komi fram í viðkomandi sektarákvörðun. Ráðherra er þó heimilt að ákveða að fullnusta sekta og innheimta sakarkostnaðar verði á hendi eins sýslumanns eða annars aðila á landsvísu.
     Heimilt er að leyfa að sekt og sakarkostnaður sé greiddur með afborgunum. Eigi skal þó veita lengri greiðslufrest en eitt ár frá að því sekt kemur til innheimtu. Heimilt er að veita lengri greiðslufrest ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.
     Hafi sekt eða sakarkostnaður hvorki verið greiddur á tilskildum tíma né verið samið um greiðsluna skal sektin þegar innheimt skv. XI. kafla.
     Ekki er leyfilegt, án sérstakrar lagaheimildar, að krefjast greiðslu sektar úr dánarbúi sökunautar né að innheimta sekt hjá nokkrum öðrum en sökunaut sjálfum. Þó er heimilt að ganga að veði sem tekið hefur verið fyrir sektarkröfu með fjárnámi þótt eigendaskipti hafi síðar orðið að hinni veðsettu eign.
     Sökunautur sem gerð hefur verið sekt getur ekki krafið aðra um endurgreiðslu eða bætur vegna greiðslu sektarinnar.

88. gr.

Vararefsing.
     Nú telur innheimtuaðili að innheimtuaðgerðir séu þýðingarlausar eða fullreyndar og skal hann þá ákveða að vararefsingu verði beitt. Að höfðu samráði við Fangelsismálastofnun skal sektarþola birt tilkynning um fyrirhugaða afplánun vararefsingar með þeim hætti sem áskilinn er við birtingu ákæru skv. 156. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, og með að minnsta kosti fjögurra vikna fyrirvara. Mæti sektarþoli ekki til afplánunar á tilskildum tíma felur innheimtuaðili lögreglu að handtaka hann og færa í fangelsi.
     Nú hefur hluti sektar verið greiddur og ákveður innheimtuaðili þá styttingu afplánunartíma að sama skapi en þó þannig að afplánunartíminn verði ekki styttri en tveir dagar og að sektarfjárhæð sem svarar til hluta úr degi afplánist með heilum degi.
     Nú afplánar sektarþoli vararefsingu samkvæmt fleiri en einum dómi, viðurlagaákvörðun, árituðu sektarboði eða lögreglustjórasekt og telst fullnusta hennar þá hefjast við upphaf afplánunar.

89. gr.

Fullnusta vararefsingar með samfélagsþjónustu.
     Nú innheimtist fésekt ekki sem er 100.000 kr. eða hærri og innheimtuaðili hefur ákveðið að maður skuli afplána vararefsingu hennar, og er þá heimilt, ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því, að fullnusta vararefsinguna með ólaunaðri samfélagsþjónustu, minnst 40 klukkustundir en mest 480 klukkustundir.
     Um lengd fullnustu vararefsingar með samfélagsþjónustu gilda ákvæði 3. mgr. 38. gr.
     Nú hefur umsækjandi fengið fimm eða fleiri sektir og skal þá að jafnaði synja um samfélagsþjónustu.
     Fullnusta vararefsingar með samfélagsþjónustu hefst þegar sektarþoli gengst skriflega undir skilyrði samfélagsþjónustu.

90. gr.

Umsókn um samfélagsþjónustu.
     Ákvæði III. kafla um samfélagsþjónustu gilda þegar vararefsing samkvæmt þessum kafla er fullnustuð með samfélagsþjónustu að öðru leyti en því að í stað þess að umsókn um afplánun vararefsingar með samfélagsþjónustu sé send Fangelsismálastofnun skal sektarþoli senda innheimtuaðila slíka umsókn skriflega eigi síðar en sjö dögum eftir að honum barst tilkynning um fyrirhugaða afplánun vararefsingar.
     Þegar sýslumanni berst umsókn um fullnustu vararefsingar með samfélagsþjónustu skal hann framsenda Fangelsismálastofnun umsóknina til ákvörðunar ásamt gögnum máls og umsögn sinni.

91. gr.

Innheimta sakarkostnaðar.
     Um innheimtu sakarkostnaðar fer skv. 1.–3. mgr. 87. gr.
     Um niðurfellingu sakarkostnaðar fer skv. 2. mgr. 221. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.

92. gr.

Framkvæmd eignaupptöku.
     Lögreglustjóri annast framkvæmd eignaupptöku.
     Nú er það sem gert hefur verið upptækt í vörslu lögreglu og skal lögreglustjóri þá ráðstafa því ef ætla má að það hafi verðgildi umfram kostnað við sölu. Eftir því sem átt getur við skal ákvæðum laga um nauðungarsölu beitt til að koma upptækum munum í verð að kröfu lögreglustjóra. Að öðrum kosti skal eyða því sem gert hefur verið upptækt.

XI. KAFLI
Innheimtuúrræði.

93. gr.

Innheimta, aðför o.fl.
     Innheimta má ógreidda sekt og sakarkostnað, svo og eftirstöðvar slíkra krafna, með aðför eftir lögum um aðför.
     Auk aðgangs að fasteigna-, skipa- og ökutækjaskrá til eignakönnunar hefur innheimtuaðili heimild til að kanna eignir sem varðveittar kunna að vera í bönkum, sparisjóðum og öðrum fjármálafyrirtækjum, þ.m.t. innlán. Þagnarskylda takmarkar ekki aðgang að upplýsingum samkvæmt ákvæði þessu og er fjármálafyrirtæki skylt að upplýsa innheimtuaðila án endurgjalds um eignastöðu viðskiptamanna sinna hjá fyrirtækinu samkvæmt beiðni þar um.

94. gr.

Undanskot eigna.
     Hafi sökunautur á síðustu sex mánuðum fyrir brotadag eða frá brotadegi þar til rannsókn hófst ráðstafað fjármunum sínum eða átt þannig viðskipti að verulega frábrugðið þyki því sem almennt gerist, og ætla má fjárhag hans bágari fyrir vikið, getur innheimtuaðili gert aðför í verðmætum sem án slíks gernings hefðu verið í eigu sökunautar.
     Sé ljóst að sökunautur heldur eftir nægilegum efnum til greiðslu skuldbindinga sinna skal heimildum skv. 1. mgr. ekki beitt gagnvart honum eða viðsemjendum hans.

XII. KAFLI
Málsmeðferð og kæruheimildir.

95. gr.

Kæruleiðir og aðgangur að gögnum.
     Ákvarðanir samkvæmt lögum þessum eru kæranlegar til ráðuneytis nema annað sé tekið fram.
     Fangi á ekki rétt á aðgangi að málsgögnum sem innihalda upplýsingar um aðra fanga eða öryggisatriði viðkomandi fangelsis.
     Heimilt er að halda gögnum og upplýsingum frá fanga ef slíkt telst nauðsynlegt með tilliti til öryggis fangelsis, brotaþola, vitna eða annarra sem tengjast máli fanga, annarra fanga, rannsóknar sakamáls eða annarra sérstakra ástæðna.

XIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.

96. gr.

Gæsluvarðhaldsfangar.
     Ákvæði VI. og VII. kafla gilda einnig um gæsluvarðhaldsfanga.
     Eftir því sem við getur átt gilda ákvæði III., IV. og V. kafla einnig um gæsluvarðhaldsfanga svo framarlega sem annað leiðir ekki af takmörkunum sem gæsluvarðhaldsfanga er gert að sæta á grundvelli laga um meðferð sakamála. Þó ber gæsluvarðhaldsfanga ekki að stunda vinnu í fangelsi.

97. gr.

Vinnsla persónuupplýsinga.
     Hjá Fangelsismálastofnun og í fangelsum er vinnsla persónuupplýsinga um fanga heimil, þar á meðal þeirra upplýsinga sem viðkvæmar geta talist, að því marki sem slík vinnsla telst nauðsynleg vegna starfsemi viðkomandi stofnunar. Um meðferð persónuupplýsinga samkvæmt þessari grein fer samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þá er Fangelsismálastofnun heimilt að halda skrá yfir dóma þar sem dómþoli er dæmdur ósakhæfur.

98. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, þar á meðal reglur um Fangelsismálastofnun og hlutverk hennar, t.d. um vinnslu persónuupplýsinga í stofnuninni og í fangelsum. Í reglugerð er einnig heimilt að mæla fyrir um vinnu og nám fanga, um greiðslu og fjárhæð þóknunar fyrir vinnu og nám, um leyfi til dvalar utan fangelsis og um viðtöl við fanga og talsmenn fanga í fjölmiðlum, fangavarðaskólann, bakgrunnsskoðanir og öryggisstig þeirra.
     Þá er ráðherra heimilt að kveða í reglugerð nánar á um önnur atriði er varða framkvæmd ákvæða um réttindi og skyldur fanga, fyrirkomulag og framkvæmd einangrunar, agaviðurlög og haldlagningu og upptöku muna, svo og um veitingu reynslulausnar, þar á meðal útfærslu skilyrða reynslulausnar.
     Fangelsismálastofnun er heimilt að setja reglur fangelsa og reglur um fullnustu refsinga utan fangelsa.
     Reglur um öryggi fangelsa og fangavarða er óheimilt að birta opinberlega.

99. gr.

Refsiákvæði.
     Hver sá sem smyglar til fanga ávana- og fíkniefnum, lyfseðilsskyldum lyfjum, áfengi, vopnum og hættulegum efnum, tölvubúnaði, símabúnaði, öðrum fjarskipta- og margmiðlunarbúnaði, verkfærum eða öðrum efnum og tækjum sem er bannað að vera með í fangelsi skal sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum. Stórfelld brot eða ítrekuð varða fangelsi allt að tveimur árum. Með stórfelldu broti er m.a. átt við það þegar brot er framið í tengslum við skipulagða brotastarfsemi eða það hefði stefnt öryggi starfsmanna og fangelsisins í brýna hættu.
     Tilraun til brota og hlutdeild í brotum skv. 1. mgr. er refsiverð skv. III. kafla almennra hegningarlaga.

100. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi lög um fullnustu refsinga, nr. 49/2005, með síðari breytingum.

101. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008: 2. mgr. 151. gr. laganna orðast svo:
     Um fullnustu sektar sem lögregla hefur ákveðið skv. 1. mgr. 148. gr. og ákvörðunar skv. 1. mgr. 149. gr. fer eftir lögum um fullnustu refsinga.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 7. gr. um háskólamenntun forstöðumanna fangelsa tekur gildi þegar nýr forstöðumaður er skipaður í stöðu forstöðumanns fangelsis.

II.
     Ráðherra skal setja á laggirnar starfshóp til að endurskoða fyrirkomulag rafræns eftirlits við afplánun refsinga. Starfshópurinn skal greina hvaða afleiðingar það kunni að hafa á framkvæmd fullnustu refsinga samkvæmt gildandi lögum að fangi eigi þann kost að sæta rafrænu eftirliti í stað afplánunar í fangelsi, sé hann dæmdur til refsivistar í styttri tíma, með hliðsjón af varnaðaráhrifum refsinga, betrun og lækkaðri endurkomutíðni. Starfshópurinn skal skila ráðherra skýrslu um málið ásamt lagafrumvarpi eigi síðar en 1. júní 2016.

III.
     Ráðherra skal setja á laggirnar starfshóp til að endurskoða úrræði yfirvalda til innheimtu sekta og sakarkostnaðar með það að markmiði að bæta innheimtuhlutfall. Starfshópurinn skal skila ráðherra skýrslu um málið ásamt lagafrumvarpi eigi síðar en 1. október 2016.

Samþykkt á Alþingi 16. mars 2016.