Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1034, 145. löggjafarþing 400. mál: vatnsveitur sveitarfélaga (skilgreining og álagning vatnsgjalds).
Lög nr. 21 30. mars 2016.

Lög um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004 (skilgreining og álagning vatnsgjalds).


1. gr.

     Lokamálsliður 3. gr. laganna orðast svo: Ákvæði sveitarstjórnarlaga gilda um samvinnu sveitarfélaga á þessu sviði, eftir því sem við á.

2. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Hafi vatnsveita verið tengd við mannvirki á fasteign er heimilt að leggja á hana almennt vatnsgjald. Mannvirki telst tengt vatnsveitu þegar heimæð hefur verið tengd frá vatnsveitulögn í vatnsinntak notanda. Gjaldið skal þá vera hlutfall af fasteignamati fasteignarinnar í heild, sbr. 3. mgr., þó aldrei hærra en 0,5% af heildarmatsverði hennar. Í þeim tilvikum þegar matsverð fasteignar liggur ekki fyrir við álagningu vatnsgjalds er heimilt að ákveða upphæð vatnsgjalds með hliðsjón af áætluðu fasteignamati eignarinnar fullfrágenginnar og ber þá að taka mið af fasteignamati sambærilegra fasteigna í sveitarfélaginu.
     Geti eigandi eða umráðamaður fasteignar sýnt fram á að tiltekið mannvirki á fasteign, sem sérstaklega er aðgreint í fasteignaskrá, geti ekki tengst vatnsveitu af landfræðilegum eða tæknilegum ástæðum eða vegna eðlis þess getur hann beint erindi til vatnsveitu um að álagning almenns vatnsgjalds taki mið af því. Þá skulu hlunnindi, ræktað land og önnur sérstök fasteignaréttindi sem skilgreind eru í fasteignaskrá sem hluti fasteignarinnar vera undanþegin við álagningu almenns vatnsgjalds ef þau mynda umtalsverðan hluta af matsverði.
     Fasteign samkvæmt lögum þessum telst vera afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt, eins og hún er nánar skilgreind í fasteignaskrá hverju sinni. Þá telst eignarhluti í fjöleignarhúsi vera sérstök fasteign.
     Í stað þess að miða við fasteignamat, sbr. 1. mgr., er heimilt að miða vatnsgjaldið við fast gjald á hverja fasteign fyrir sig, sbr. 3. mgr., auk álags vegna annars eða hvors tveggja af eftirfarandi:
  1. Stærðar allra mannvirkja sem tilheyra fasteign samkvæmt flatarmáli og/eða rúmmáli.
  2. Notkunar samkvæmt mæli.
Álagning samkvæmt þessari málsgrein skal aldrei vera hærri en segir í 1. mgr. Með sama hætti og tilgreint er í 2. mgr., og að fullnægðum sömu skilyrðum, er við álagningu samkvæmt þessari málsgrein hægt að sækja um undanþágu frá því að álagning taki til tilgreindra mannvirkja á fasteign.
     Heimilt er að innheimta vatnsgjald með fasteignaskatti. Skulu þá gjalddagar vatnsgjalds vera þeir sömu og sveitarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu vatnsgjalds hagað á sama hátt og innheimtu fasteignaskatts.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Notkunargjald kemur til viðbótar vatnsgjaldi skv. 6. gr.
  2. Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Við skammtímanotkun vatns frá vatnsveitu, svo sem vegna byggingarframkvæmda, eða þegar óskað er sérstakrar tengingar við vatnsveitu, og gjaldtaka samkvæmt öðrum ákvæðum laga þessara á ekki við, er vatnsveitu heimilt að heimta sérstök tengi- og notkunargjöld til viðbótar við heimæðargjald skv. 5. gr. ef við á. Gjöld má innheimta fyrir vinnu við tengingu og/eða aftengingu vatns, sem föst gjöld, t.d. fyrir þá daga sem tenging varir, á grundvelli mælingar og/eða áætlaðrar notkunar.


4. gr.

     1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
     Stjórn vatnsveitu skal semja gjaldskrá þar sem kveðið er nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda samkvæmt lögum þessum. Miða skal við að vatnsgjald ásamt öðrum tekjum vatnsveitu standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar, ásamt kostnaði við að standa undir þeirri skyldu veitunnar að tryggja nægilegt vatn og vatnsþrýsting til slökkvistarfs og fyrir sérstakan slökkvibúnað þar sem hans er krafist, sbr. 5. mgr. 5. gr.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 16. mars 2016.