Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1495, 145. löggjafarþing 810. mál: gjaldeyrismál o.fl. (fjárstreymistæki til að draga úr neikvæðum áhrifum fjármagnsinnstreymis).
Lög nr. 42 3. júní 2016.

Lög um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki (fjárstreymistæki til að draga úr neikvæðum áhrifum fjármagnsinnstreymis).


I. KAFLI
Breyting á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 13. gr. m laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Heimilt er að endurfjárfesta fjármuni sem losna við sölu eða uppgreiðslu nýfjárfestingar sem uppfyllir skilyrði 2., 3. og 4. mgr.
     Fjárfestir skal, með aðstoð fjármálafyrirtækis hér á landi, tilkynna um endurfjárfestingu til Seðlabanka Íslands skv. 6. mgr. innan viku frá því að hún var gerð. Tilkynningu skulu fylgja gögn sem staðfesta að fjárfesting uppfylli ákvæði 6. mgr.

2. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Seðlabanka Íslands er heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, að setja reglur sem kveða á um bindingu reiðufjár vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris í tengslum við:
 1. Nýfjárfestingar og endurfjárfestingar þeirra skv. 13. gr. m í skuldabréfum eða víxlum útgefnum í innlendum gjaldeyri eða sem ráðstafað er í innstæður í innlendum gjaldeyri.
 2. Innstæður í innlendum gjaldeyri hjá innlánsstofnunum hér á landi aðrar en þær sem eru tilkomnar vegna fjármuna sem eru endurfjárfestanlegir skv. 13. gr. e eða 13. gr. f eða sem falla undir 13. gr. l eða 13. gr. m, þó ekki ef þær eru til komnar vegna 5. tölul. þessarar málsgreinar.
 3. Nýfjárfestingar og endurfjárfestingar þeirra skv. 13. gr. m í hlutdeildarskírteinum sjóða sem fjárfesta í skuldabréfum eða víxlum útgefnum í innlendum gjaldeyri eða eiga innstæður í innlendum gjaldeyri.
 4. Nýfjárfestingar og endurfjárfestingar þeirra skv. 13. gr. m í eigin fé fyrirtækis sem eru gerðar í þeim tilgangi að fjárfesta, beint eða óbeint, í skuldabréfum eða víxlum útgefnum í innlendum gjaldeyri eða sem ráðstafað er í innstæður í innlendum gjaldeyri.
 5. Lánveitingar til innlends aðila sem nýttar eru til fjárfestinga í innlendum gjaldeyri í þágu lánveitanda í skuldabréfum eða víxlum útgefnum í innlendum gjaldeyri eða ráðstafað er í innstæður í innlendum gjaldeyri. Hið sama á við um slíkar lánveitingar sem nýttar eru til fjárfestinga í hlutdeildarskírteinum sjóða eða í eigin fé fyrirtækis sem fjárfest eða ráðstafað er, beint eða óbeint, með þeim hætti sem lýst er í 1. málsl.

     Skyldu til bindingar reiðufjár skal uppfylla með því að ráðstafa bindingarfjárhæð inn á bundinn reikning hjá innlánsstofnun hér á landi. Bindingarhlutfall af bindingargrunni ákvarðar bindingarfjárhæð. Innlánsstofnun skal innan sama viðskiptadags leggja fjárhæð sem samsvarar allri bindingarfjárhæð skv. 1. málsl. á bundinn reikning hjá Seðlabanka Íslands. Bindingu reiðufjár lýkur þegar bindingartími er liðinn, óháð því hvort nýtt innstreymi erlends gjaldeyris sem myndar bindingargrunn hefur verið losað með sölu eða endurgreiðslu. Úttektir af bundnum reikningum eru óheimilar á bindingartíma. Innlegg á bundna reikninga innlánsstofnana hjá Seðlabanka Íslands skulu háð sama bindingartíma og samsvarandi bindingarfjárhæð. Óheimilt er að veðsetja bindingarfjárhæð og innlán innlánsstofnana á bundnum reikningum hjá Seðlabanka Íslands.
     Í reglum skv. 1. mgr. skal kveða nánar á um framkvæmd bindingar reiðufjár, þar á meðal um:
 1. bindingartíma, bindingarhlutfall og vexti á bundnum reikningum innlánsstofnana hjá Seðlabanka Íslands, sbr. 3. málsl. 2. mgr.,
 2. uppgjörsmynt bindingarfjárhæðar og samsvarandi fjárhæðar á bundnum reikningum innlánsstofnana hjá Seðlabanka Íslands.

     Bindingarhlutfall má nema allt að 75% og bindingartími má vera allt að fimm ár. Ákvarðanir Seðlabanka Íslands um bindingarhlutfall, bindingartíma og vexti skulu grundvallast á lögbundnum markmiðum bankans og vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahags- og peningamálum og fjármálastöðugleika.
     Í reglum skv. 1. mgr. er heimilt að kveða á um mismunandi bindingartíma, bindingarhlutfall, uppgjörsmynt og vexti eftir tegund fjármuna sem mynda bindingargrunn.
     Brot gegn ákvæði þessu og reglum settum á grundvelli þess varðar stjórnvaldssektum og refsingu skv. 15. gr. a – 15. gr. d, 16. gr., 16. gr. a og 16. gr. b.

II. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum, nr. 37/2016.

3. gr.

     Við 3. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þær aflandskrónueignir sem undanþegnar eru 3. mgr. 13. gr. b laga um gjaldeyrismál, vegna flutnings úr vörslum erlends lögaðila til innlánsstofnunar eða vörsluaðila hér á landi, á grundvelli bréflegrar umsóknar sem Seðlabanki Íslands hefur móttekið fyrir gildistöku laga þessara.

4. gr.

     Við 3. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna bætist: þátttöku í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands 2016, millifærslna milli reikninga með innstæður skv. a-lið 1. tölul. 2. gr. og fjárfestinga í fjármálagerningum samkvæmt undanþágulista útgefnum af Seðlabanka Íslands, sbr. heimild í 4. mgr. 13. gr. b laga um gjaldeyrismál, eftir 23. maí 2016.

5. gr.

     Á eftir orðunum „til að nýta til“ í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: gjaldeyrisviðskipta í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands árið 2016 eða til.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætist: og fjármálagerningum, útgefnum í innlendum gjaldeyri, sem tilgreindir eru á fjárfestingarlista Seðlabanka Íslands skv. 5. mgr.
 2. Í stað orðanna „skulu varðveitt“ í 3. mgr. kemur: og aðrir fjármálagerningar skv. 1. mgr. skulu varðveittir.
 3. Á eftir orðunum „Seðlabanka Íslands“ í 4. mgr. kemur: og öðrum fjármálagerningum skv. 1. mgr.
 4. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 5.      Seðlabanka Íslands er heimilt að ákveða á hverjum tíma þá fjármálagerninga, útgefna í innlendum gjaldeyri, sem eigendur innstæðna skv. 1. mgr. geta fjárfest í. Fjármálagerningar skv. 1. málsl. skulu tilgreindir á sérstökum fjárfestingarlista og skal hann birtur á vef Seðlabankans.
 6. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Heimild til fjárfestinga í innstæðubréfum Seðlabanka Íslands og fjármálagerningum útgefnum í innlendum gjaldeyri.


III. KAFLI
Breyting á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, nr. 155/2010, með síðari breytingum.

7. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Heimilt er að draga frá skattstofni skv. 3. gr. skuldir skattskylds aðila sem nemur heildarfjárhæð bindingarfjárhæða samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III í lögum um gjaldeyrismál.

IV. KAFLI
Gildistaka.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað öðlast lögin gildi við birtingu.

Samþykkt á Alþingi 2. júní 2016.