Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 997, 146. löggjafarþing 356. mál: loftslagsmál (losun lofttegunda, EES-reglur).
Lög nr. 45 14. júní 2017.

Lög um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum (losun lofttegunda).


1. gr.

     Á eftir V. kafla laganna kemur nýr kafli, V. kafli A, Vöktun losunar koldíoxíðs frá sjóflutningum, með einni nýrri grein, 21. gr. a, svohljóðandi:
     Skipafyrirtæki skulu vakta losun koldíoxíðs frá farþega- og flutningaskipum yfir 5.000 brúttótonnum sem koma á ferð sinni í höfn á Evrópska efnahagssvæðinu og skila um hana skýrslu til Umhverfisstofnunar og Eftirlitsstofnunar EFTA.
     Ráðherra setur reglugerð um vöktun losunar frá sjóflutningum, aðferðir við vottun og skýrslugjöf vegna losunar koldíoxíðs frá sjóflutningum.

2. gr.

     Við 47. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 2015/757 frá 29. apríl 2015 um vöktun, skýrslugjöf og sannprófun á losun koltvísýrings frá sjóflutningum og um breytingu á tilskipun 2009/16/EB.

3. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða V í lögunum orðast svo:
     Líta skal svo á að allar kröfur sem gerðar eru til flugrekenda í 17. og 21. gr. séu uppfylltar að því er varðar:
  1. alla losun flugs til og frá flugvöllum sem staðsettir eru í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, á almanaksárinu 2017,
  2. alla losun flugs á milli flugvalla sem staðsettir eru á Gvadelúpeyjum, Mayotte, Frönsku Gíneu, Martiník, Sankti Martins-eyjum, Asoreyjum, Madeira og Kanaríeyjum og flugvallar sem staðsettur er á Evrópska efnahagssvæðinu, á almanaksárinu 2017,
  3. alla losun flugs á milli flugvalla í ríkjum og á landsvæðum sem tilheyra ríki á Evrópska efnahagssvæðinu en eru ekki aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, svo sem á við um Grænland og Færeyjar, á almanaksárinu 2017.

     Enn fremur skal ekki gripið til aðgerða gegn flugrekendum að því er varðar alla losun frá flugi í 1.–3. tölul. 1. mgr.
     Frá 1. janúar 2013 til 31. desember 2020 er flug á vegum flugrekenda sem eru ekki með flugrekstur í atvinnuskyni og annast flugferðir þar sem heildarlosun á ári er minni en 1.000 tonn undanskilið gildissviði viðskiptakerfisins og laga þessara.
     Umhverfisstofnun skal á tímabilinu 1. janúar 2017 til 31. desember 2017 endurúthluta endurgjaldslausum losunarheimildum til flugrekenda í samræmi við breytt gildissvið viðskiptakerfisins skv. 1. mgr. þessa ákvæðis.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 20. gr. skal úthlutun losunarheimilda 2017 fara fram eigi síðar en 30. apríl 2017.

4. gr.

     Við III. viðauka við lögin bætist: Köfnunarefnistríflúoríð (NF 3).

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Ákvæði 1. gr. um vöktun losunar koldíoxíðs frá farþega- og flutningaskipum yfir 5.000 brúttótonnum kemur til framkvæmda 1. janúar 2018 og fyrstu skýrslu um losun koldíoxíðs skal skila eigi síðar en 30. apríl 2019.

Samþykkt á Alþingi 31. maí 2017.