Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 977, 148. löggjafarþing 390. mál: fjarskipti (EES-reglur, nethlutleysi, CE-merkingar á fjarskiptabúnaði).
Lög nr. 41 23. maí 2018.

Lög um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum (EES-reglur, nethlutleysi, CE-merkingar á fjarskiptabúnaði).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. Á eftir 21. tölul. kemur nýr töluliður svohljóðandi, og breytist röð annarra liða samkvæmt því: Netaðgangsþjónusta: Rafræn fjarskiptaþjónusta sem er aðgengileg öllum og veitir aðgang að internetinu og þar með tengingu við því sem næst alla endapunkta internetsins, án tillits til þeirrar nettækni og endabúnaðar sem notaður er.
 2. Á eftir 37. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi, og breytist röð annarra liða samkvæmt því: Þráðlaus fjarskiptabúnaður: Rafmagns- eða rafeindavara sem hefur þann tilgang að gefa frá sér eða taka við hátíðnibylgjum fyrir þráðlaus fjarskipti eða staðsetningarákvörðun, eða rafmagns- eða rafeindavara sem verður að bæta við aukabúnaði, svo sem loftneti, til að geta gefið frá sér eða tekið við hátíðnibylgjum fyrir þráðlaus fjarskipti eða staðsetningarákvörðun.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
 1. 6. mgr. orðast svo:
 2.      Í samtengisamningi og samningi um aðgang að netum skal geta um þá stýringu fjarskiptaumferðar sem aðilar áskilja sér rétt til að viðhafa í almennum fjarskiptanetum og skal stýringin uppfylla skilyrði um nauðsyn og meðalhóf. Slíka samninga um samtengingu og aðgang skal senda Póst- og fjarskiptastofnun eigi síðar en viku eftir undirritun þeirra.
 3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Samtenging neta og stýring fjarskiptaumferðar.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr. laganna:
 1. Við 2. mgr. bætast tveir nýir stafliðir, b- og c-liður, svohljóðandi, og breytist röð annarra liða samkvæmt því:
  1. tæknileg skilyrði þjónustunnar og lágmarksgæði hennar,
  2. kröfur um upplýsingagjöf fjarskiptafyrirtækja, mæliaðferðir og prófanir á gæðum þjónustu.
 2. Við bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 3.      Notendur skulu eiga rétt á því að fá aðgang að upplýsingum og efni, miðla því, nota og bjóða fram þjónustu, með því að nota búnað að eigin vali, óháð staðsetningu sinni eða fjarskiptafyrirtækis eða uppruna eða áfangastað upplýsinganna, efnisins og þjónustunnar sem fer um netaðganginn. Ákvæði 1. málsl. gildir þó ekki um notkun eða aðgang að efni eða þjónustu sem brýtur gegn öðrum lögum eða dómsúrskurði.
       Fjarskiptafyrirtæki sem veitir aðgang að internetþjónustu skal meðhöndla alla fjarskiptaumferð jafnt, án mismununar, takmarkana eða truflunar og óháð sendanda eða móttakanda, því efni sem sótt er eða miðlað, þeirri þjónustu sem notuð er eða boðin fram og þeim búnaði sem er notaður.
       Þrátt fyrir 4. mgr. er fjarskiptafyrirtæki heimilt að beita umferðarstýringu á netumferð sé stýringin nauðsynleg, gagnsæ, hófleg og án mismununar.
       Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd nethlutleysis, m.a. um eftirfarandi:
  1. leyfilegan tilgang umferðarstýringar,
  2. skilyrði fyrir beitingu umferðarstýringar,
  3. skilyrði fyrir framboði á sérþjónustu sem styðst við ákveðna nethögun,
  4. vernd persónuupplýsinga við beitingu umferðarstýringar,
  5. upplýsingagjöf fjarskiptafyrirtækja til áskrifenda í viðskiptaskilmálum,
  6. upplýsingagjöf fjarskiptafyrirtækja til Póst- og fjarskiptastofnunar og eftirlitsúrræði hennar, m.a. um úttektir á framkvæmd nethlutleysis.

 4. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Gæði þjónustu og nethlutleysi.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 61. gr. laganna:
 1. 1.–3. mgr. orðast svo:
 2.      Þráðlaus fjarskiptabúnaður skal vera þannig gerður að:
  1. hann tryggi heilsuvernd og öryggi einstaklinga og húsdýra og friðhelgi eignarréttar,
  2. notkun hans hafi ekki truflandi áhrif á rafsegulsviðssamhæfi.

       Þráðlaus fjarskiptabúnaður skal vera þannig gerður að hann noti á skilvirkan hátt og styrki skilvirka notkun á fjarskiptatíðnirófi til að komast hjá skaðlegri truflun.
       Þráðlaus fjarskiptabúnaður innan tiltekinna flokka eða tegunda skal vera þannig gerður að hann sé í samræmi við eftirfarandi grunnkröfur:
  1. búnaðurinn sé samvirkur við aukabúnað, einkum samræmd hleðslutæki,
  2. búnaðurinn sé samvirkur um net við annan þráðlausan fjarskiptabúnað,
  3. búnaðinn sé hægt að tengja við skilfleti viðeigandi tegundar á innri markaðinum,
  4. búnaðurinn valdi ekki skaða á netinu eða virkni þess né því að netbúnaður sé misnotaður og valdi með því óviðunandi skerðingu á þjónustu,
  5. í búnaðinum séu innbyggðar öryggisráðstafanir til að sjá til þess að persónuupplýsingar og friðhelgi einkalífs notandans og áskrifandans njóti verndar,
  6. búnaðurinn sé gerður fyrir sérstakar aðgerðir sem tryggja vörn gegn svikum,
  7. búnaðurinn sé gerður fyrir sérstakar aðgerðir sem tryggja aðgang að neyðarþjónustu,
  8. búnaðurinn sé gerður fyrir sérstakar aðgerðir sem auðvelda fötluðu fólki að nota hann,
  9. búnaðurinn sé gerður fyrir sérstakar aðgerðir til að tryggja að aðeins sé hægt að hlaða hugbúnaði niður í þráðlausa fjarskiptabúnaðinn ef sýnt hefur verið fram á að samtenging þráðlausa fjarskiptabúnaðarins og hugbúnaðarins sé í samræmi við kröfur.

 3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Grunnkröfur þráðlauss búnaðar.


5. gr.

     65. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Samræmi búnaðar.
     Óheimilt er að setja á markað eða bjóða á markaði annan þráðlausan fjarskiptabúnað en þann sem uppfyllir grunnkröfur 61. gr. og hefur CE-merkingu, á grundvelli samræmismats, því til staðfestingar.
     Óheimilt er að taka þráðlausan fjarskiptabúnað í notkun nema notkun hans sé í samræmi við fyrirhugaðan tilgang hans og hann uppfylli grunnkröfur 61. gr. og hafi CE-merkingu, á grundvelli samræmismats, því til staðfestingar.
     Innflutningur einstaklinga eða lögaðila á notendabúnaði til eigin nota eða í öðrum tilgangi telst markaðssetning í þessu sambandi.
     Aðili sem hyggst setja á markað þráðlausan búnað á tíðnisviðum þar sem notkun hefur ekki verið samræmd á Evrópska efnahagssvæðinu skal tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um þessa fyrirætlun með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Einnig skal senda stofnuninni upplýsingar um eiginleika búnaðarins, þ.m.t. tíðnisvið hans, bil milli rása, mótunaraðferð og hátíðniafl. Telji Póst- og fjarskiptastofnun hættu á því að búnaðurinn geti truflað aðra þjónustu á viðkomandi tíðnisviði getur stofnunin bannað sölu og notkun hans.

6. gr.

     Á eftir 65. gr. laganna kemur ný grein, 65. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Skyldur rekstraraðila.
     Framleiðendur þráðlauss búnaðar skulu tryggja að þráðlaus fjarskiptabúnaður sem þeir setja á markað fullnægi grunnkröfum 61. gr. og hafi CE-merkingu, á grundvelli samræmismats, því til staðfestingar. Framleiðendur bera ábyrgð á að framkvæmt sé samræmismat fyrir þráðlausa fjarskiptabúnaðinn. Þá skal framleiðandi þráðlauss fjarskiptabúnaðar sem settur er á markað hér á landi tryggja að honum fylgi upplýsingar fyrir notendur á íslensku um tilætlaða notkun, helstu eiginleika og öryggismál. Þá skulu fylgja upplýsingar um framleiðslunúmer, nafn framleiðanda og skráð viðskiptaheiti hans eða vörumerki. ESB-samræmisyfirlýsing og tæknigögn skulu fylgja þráðlausa fjarskiptabúnaðinum. Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um að upplýsingar skv. 3. málsl. megi vera á ensku eða Norðurlandamáli öðru en finnsku enda megi ætla að notendahópur viðkomandi vöru skilji hið erlenda mál vegna menntunar, starfa eða annarrar sérhæfingar.
     Innflytjendum er einungis heimilt að setja á markað þráðlausan fjarskiptabúnað sem uppfyllir grunnkröfur 61. gr. og hefur CE-merkingu, á grundvelli samræmismats, því til staðfestingar. Skulu innflytjendur ganga úr skugga um að búnaðinum fylgi þau gögn sem framleiðanda ber að láta fylgja, sbr. 1. mgr. og reglugerð sem ráðherra setur. Þá skulu innflytjendur skrá nafn sitt og skráð viðskiptaheiti á þráðlausa fjarskiptabúnaðinn eða, ef slíkt er ekki hægt, á umbúðir hans.
     Dreifingaraðilar skulu gæta þess vandlega þegar þeir bjóða fram þráðlausan fjarskiptabúnað á markaði að hann sé í samræmi við grunnkröfur og hafi CE-merkingu því til staðfestingar. Dreifingaraðila ber að gæta þess að með búnaðinum fylgi þau gögn sem framleiðanda ber að láta fylgja, sbr. 1. mgr. og reglugerð sem ráðherra setur.
     Uppfylli framleiðandi, innflytjandi eða dreifingaraðili ekki skyldur sem kveðið er á um í 1.–3. mgr. eða reglugerð sem ráðherra setur getur Póst- og fjarskiptastofnun lagt á stjórnvaldssekt skv. 74. gr. a.

7. gr.

     66. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Markaðseftirlit með þráðlausum fjarskiptabúnaði.
     Póst- og fjarskiptastofnun fer með markaðseftirlit með þráðlausum fjarskiptabúnaði og rekstraraðilum hans. Skal stofnunin að eigin frumkvæði eða eftir ábendingu taka til meðferðar mál er varða markaðseftirlit með þráðlausum fjarskiptabúnaði og skyldum rekstraraðila. Í því skyni skal stofnunin hafa ótakmarkaðan aðgang að sölustöðum slíks búnaðar.
     Ef þráðlaus fjarskiptabúnaður, sem uppfyllir ekki grunnkröfur 61. gr. og reglugerðar sem ráðherra setur, er settur á markað, fluttur inn eða honum dreift, getur stofnunin krafist þess að sala hans og/eða notkun verði þegar í stað stöðvuð, búnaðurinn verði kyrrsettur eða haldlagður og að rekstraraðilar grípi til aðgerða til úrbóta. Póst- og fjarskiptastofnun getur einnig, að undangengnu mati, takmarkað að þráðlaus fjarskiptabúnaður sé settur á markað, fluttur inn eða honum dreift af ástæðum sem tengjast almannaöryggi, almannaheilbrigði og almannahagsmunum. Getur stofnunin jafnframt krafist aðgerða af hálfu rekstraraðila til úrbóta í slíkum tilvikum.
     Póst- og fjarskiptastofnun getur gert kröfu um að rekstraraðilar afhendi stofnuninni sundurliðaðar upplýsingar og teikningar af búnaði sem settur hefur verið á markað eða ráðgert er að setja á markað. Með slíkar upplýsingar skal farið sem trúnaðarmál.

8. gr.

     Á eftir 66. gr. laganna kemur ný grein, 66. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Reglugerð um eftirlit með markaðssetningu og samræmi þráðlauss fjarskiptabúnaðar.
     Ráðherra skal setja reglugerð um eftirlit með markaðssetningu og samræmi þráðlauss fjarskiptabúnaðar. Í reglugerðinni skal m.a. kveða á um kröfur sem gerðar eru til þráðlauss fjarskiptabúnaðar, heimildir til að bjóða þráðlausan búnað fram á markaði og notkun hans, frekari skyldur framleiðenda, innflytjenda og dreifingaraðila þráðlauss fjarskiptabúnaðar, samræmi þráðlauss fjarskiptabúnaðar og samræmismatsstofur, CE-merkingu, markaðseftirlit og samstarf yfirvalda.

9. gr.

     Á eftir 74. gr. laganna kemur ný grein, 74. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Stjórnvaldssektir.
     Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að leggja stjórnvaldssekt á fjarskiptafyrirtæki sem ítrekað beitir ólögmætri stýringu fjarskiptaumferðar eða takmarkar með ólögmætum hætti aðgang notanda til þess að sækja sér, nota og miðla efni eða þjónustu á internetinu óháð staðsetningu sinni eða fjarskiptafyrirtækisins og uppruna eða áfangastað efnis eða þjónustu, sbr. 3.–5. mgr. 41. gr. Sekt getur numið allt að 10.000.000 kr. Við ákvörðun sektar skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots og tekna fjarskiptafyrirtækis af broti þegar það á við.
     Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að leggja stjórnvaldssekt á rekstraraðila sem brýtur gegn ákvæðum 1. og 2. mgr. 65. gr. og 65. gr. a og ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur skv. 66. gr. a. Við ákvörðun um fjárhæð stjórnvaldssektar samkvæmt þessari málsgrein skal stofnunin hafa hliðsjón af alvarleika brotsins, hvað það hefur staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna fyrirtækisins og hvort mögulega hefði mátt koma í veg fyrir lögbrotið með stjórnun og eftirliti. Loks ber að líta til þess hver fjárhagslegur styrkleiki hins eftirlitsskylda aðila er. Stjórnvaldssektir geta numið frá 10.000 kr. til 10.000.000 kr. Sektin skal þó ekki vera hærri en sem nemur 3% af veltu síðasta almanaksárs hjá hlutaðeigandi aðila.
     Ákvarðaðar stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar og renna þær til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Gjalddagi stjórnvaldssektar er 15 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin og reiknast dráttarvextir frá þeim tíma verði vanskil á greiðslu hennar.

10. gr.

     Lög þessi taka gildi 1. júlí 2018.

11. gr.

Breyting á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á 12. gr. laga um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, með síðari breytingum:
 1. Við greinina bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Með sama hætti eru stjórnvaldssektir sem Póst- og fjarskiptastofnun ákvarðar skv. 74. gr. a laga um fjarskipti aðfararhæfar.
 2. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Sektir og innheimta.


Samþykkt á Alþingi 9. maí 2018.