Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 519, 149. löggjafarþing 81. mál: vaktstöð siglinga (hafnsaga).
Lög nr. 121 5. desember 2018.

Lög um breytingu á lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003 (hafnsaga).


1. gr.

     12. gr. laganna orðast svo:
     Hafnarstjórn er heimilt að mæla fyrir um hafnsögu og hafnsöguskyldu, sbr. þó 2. mgr.
     Öll skip sem flytja hættulegan eða mengandi varning í farmrými eða á þilfari í meira magni en tiltekið er í reglugerð skulu hafa um borð leiðsögumann við siglingu um hafnarsvæði.
     Hafnarstjórn er heimilt að veita skipstjóra skips undanþágu frá hafnsöguskyldu.
     Hafnarstjórnir ráða hafnsögumenn.
     Heimilt er að mæla nánar fyrir um hafnsögu og hafnsöguskyldu, undanþágu frá hafnsögu og skilyrði fyrir henni, skyldur og réttindi hafnsögumanna o.fl. í hafnarreglugerð, sbr. 1. mgr. 4. gr. hafnalaga.

2. gr.

     14. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Réttindi og skyldur leiðsögumanns.
     Leiðsögumaður ber ábyrgð á leiðsögu sinni. Leiðsögumaður skal leiðbeina og aðstoða stjórnanda skips þannig að komist sé á milli áfangastaða á öruggan hátt og án óþarfa tafa. Leiðsögumanni er óheimilt að yfirgefa skip fyrr en það er komið á áfangastað nema með leyfi skipstjóra. Leiðsögumaður skal aðstoða við að koma skipi í festar þegar slík aðstoð er ekki fyrir hendi í viðkomandi höfn.
     Leiðsögumaður skal í starfi sínu aðstoða yfirvöld við framkvæmd starfa þeirra. Leiðsögumaður skal tafarlaust upplýsa viðeigandi yfirvöld um hættur eða annað sem kann að ógna öryggi skipa eða valda mengun hafs og stranda. Sérstök varúð skal viðhöfð til að hindra mengun hafs og stranda af völdum hættulegra efna. Leiðsögumaður skal reyna með öllum tiltækum ráðum að halda útbreiðslu mengunar í lágmarki.
     Meðan leiðsögumaður dvelur um borð í skipi ber skipstjóra að sjá honum fyrir fæði.

3. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 22. nóvember 2018.