Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 814, 150. löggjafarþing 223. mál: neytendalán og aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka (efling neytendaverndar o.fl.).
Lög nr. 163 23. desember 2019.

Lög um breytingu á lögum um neytendalán og lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.


I. KAFLI
Breyting á lögum um neytendalán, nr. 33/2013, með síðari breytingum.

1. gr.

     4. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:
Ófrávíkjanleg ákvæði.
     Ekki er heimilt að semja um eða bera fyrir sig kjör sem eru neytanda óhagstæðari en leiðir af lögum þessum.
     Ekki er heimilt að semja um eða bera fyrir sig að lög annars ríkis takmarki þá vernd sem neytandi nýtur samkvæmt ófrávíkjanlegum ákvæðum laga þessara.

2. gr.

     Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, ásamt fyrirsögn, sem orðast svo:
Lagaskil.
     Hafi neytandi búsettur á Íslandi gert samning við lánveitanda sem hefur staðfestu í öðru ríki skulu íslensk lög gilda um samninginn ef:
 1. undanfari samningsins var sérstakt tilboð til neytandans eða almenn auglýsing og nauðsynlegar ráðstafanir til samningsgerðarinnar af hans hálfu fóru fram hér á landi,
 2. gagnaðilinn, eða umboðsmaður hans, tók við pöntun neytandans hér á landi, eða
 3. samningur er um sölu vöru og neytandinn ferðaðist frá Íslandi til annars lands og gerði pöntun sína þar, að því tilskildu að ferðin hafi verið skipulögð af seljandanum í þeim tilgangi að hvetja neytandann til kaupanna.

     Ekki er heimilt að semja um eða bera fyrir sig að lög ríkis sem er utan Evrópska efnahagssvæðisins gildi um lánssamning sem er nátengdur yfirráðasvæði ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins ef það leiðir til kjara sem eru neytandanum óhagstæðari en leiðir af lögum þessum.

3. gr.

     Á undan 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Lánssamningar skulu gerðir skriflega og skulu undirritaðir af neytanda. Sé lánssamningur gerður í fjarsölu skal hann undirritaður af neytanda með fullgildri rafrænni undirskrift.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna:
 1. Í stað tölunnar „50“ kemur: 35.
 2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
 3.      Brjóti lánveitandi eða lánamiðlari gegn ákvæði 1. mgr. er neytanda ekki skylt að greiða heildarlántökukostnað láns.


5. gr.

     Á eftir 2. mgr. 29. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Neytendastofa getur krafið lánveitendur sem ekki eru starfsleyfisskyldir samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki um upplýsingar og gögn sem nauðsynleg þykja til að meta áhrif lánastarfsemi á fjármálamarkað og neytendur. Neytendastofa getur krafist upplýsinga og gagna munnlega eða skriflega og skulu þau veitt innan hæfilegs frests sem stofnunin setur.
     Upplýsingar og gögn skv. 3. mgr. geta náð til:
 1. fjölda útlána á tilteknu tímabili,
 2. fjárhæðar útlána á tilteknu tímabili,
 3. meðalfjölda lána á hvern neytanda,
 4. aldursdreifingar neytenda, og
 5. hlutfalls vanskila miðað við daga, fjárhæðir, lánshæfismat og aldurshópa.


6. gr.

     Á eftir 29. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 29. gr. a og 29. gr. b, sem orðast svo ásamt fyrirsögnum:
     
     a. (29. gr. a.)
Skráningarskylda.
     Lánveitendur og lánamiðlarar samkvæmt lögum þessum, sem ekki eru jafnframt fjármálafyrirtæki samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki, eru skráningarskyldir hjá Neytendastofu.
     Neytendastofa setur nánari reglur um framkvæmd og skilyrði skráningar.
     Neytendastofa skal upplýsa Fjármálaeftirlitið um aðila sem hlotið hafa skráningu hjá Neytendastofu skv. 1. mgr.
     
     b. (29. gr. b.)
Synjun skráningar.
     Neita skal um skráningu skv. 29. gr. a ef stjórnarmenn eða framkvæmdastjóri skráningarskylds aðila hafa ekki forræði á búi sínu eða hafa á síðustu þremur árum hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl., ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda eða, eftir því sem við á, þeim sérlögum sem gilda um viðkomandi aðila. Þá skal neita um skráningu ef skráningarskyldur aðili uppfyllir ekki kröfur þessara laga.
     Fella skal skráðan aðila af skrá skv. 29. gr. a ef svo háttar um viðkomandi aðila, stjórnarmenn eða framkvæmdastjóra sem um getur í 1. mgr.

7. gr.

     Á eftir 2. mgr. 30. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
     Neytendastofa getur lagt stjórnvaldssektir á skráningarskyldan aðila skv. 29. gr. a sem stundar starfsemi samkvæmt lögum þessum án skráningar.

II. KAFLI
Breyting á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 140/2018, með síðari breytingum.

8. gr.

     Við a-lið 1. mgr. 2. gr. laganna bætist: og lánveitendur og lánamiðlarar samkvæmt lögum um neytendalán.

9. gr.

     Á eftir orðunum „laga um fjármálafyrirtæki“ í 2. mgr. 35. gr. laganna kemur: og lánveitendur og lánamiðlarar samkvæmt lögum um neytendalán.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast 3. gr. og 6.–9. gr. gildi 1. mars 2020.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 2019.