Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1328, 150. löggjafarþing 317. mál: þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta (leyfisveitingar, málsmeðferð, endurupptaka o.fl.).
Lög nr. 34 13. maí 2020.

Lög um breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998 (leyfisveitingar, málsmeðferð, endurupptaka o.fl.).


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „vindorku, námur og önnur jarðefni“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: og vindorku.
 2. Á eftir 2. málsl. 3. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þó þarf samþykki ráðherra fyrir allri nýtingu náma og annarra jarðefna.
 3. 3. málsl. 4. mgr. fellur brott.
 4. Í stað orðanna „hliðstæðra verkefna innan þjóðlendna samkvæmt nánari ákvörðun sveitarstjórnar“ í 4. málsl. 4. mgr. kemur: uppbyggingar innviða, landbóta, umsjónar, eftirlits, skipulagsáætlanagerðar og sambærilegra verkefna innan þjóðlendna samkvæmt nánari ákvörðun sveitarstjórnar.
 5. 2. málsl. 5. mgr. fellur brott.


2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
 1. Lokamálsliður 1. mgr. fellur brott.
 2. Í stað orðanna „þar með talið um skilyrði fyrir leyfum sveitarstjórna til afnota af þjóðlendum“ í 2. mgr. kemur: þ.m.t. um jafnræði og gagnsæi við úthlutun afnota af landi og hvers konar landsréttindum og hlunnindum í þjóðlendum, endurgjald fyrir slík tímabundin afnot og tímalengd þeirra nota, innlausn mannvirkja sem afnotum fylgja við lok leigutíma og önnur skilyrði fyrir afnotum.


3. gr.

     Í stað ártalsins „2015“ í lokamálslið 8. gr. laganna kemur: 2024.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
 1. Við 1. mgr. bætist: sbr. þó 10. gr. a.
 2. Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
 3.      Vilji ráðherra auka við kröfur ríkisins í máli sem er til meðferðar hjá óbyggðanefnd getur nefndin heimilað að hinar auknu kröfur komi til úrlausnar ef það verður ekki metið ríkinu til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar í einu lagi í öndverðu og hinar auknu kröfur seinka ekki málsmeðferð um of að mati nefndarinnar. Um kynningu á hinum auknu kröfum og kröfulýsingarfrest annarra sem telja til eignarréttinda fer skv. 2. mgr.
       Nefndinni er heimilt að taka til meðferðar svæði sem áður hafa sætt meðferð hennar ef hún hefur í úrskurði gert athugasemd við kröfugerð ráðherra. Jafnframt er nefndinni heimilt að taka til meðferðar almenninga stöðuvatna á landinu öllu. Um málsmeðferð fer eftir lögum þessum.


5. gr.

     Á eftir 10. gr. laganna kemur ný grein, 10. gr. a, svohljóðandi:
     Þegar nefndin tekur landsvæði utan strandlengju meginlandsins til meðferðar er henni heimilt að skora á þá sem kalla til eignarréttinda þar að lýsa réttindum sínum fyrir nefndinni innan tiltekins frests, áður en kröfum ríkisins um þjóðlendur er lýst. Tilkynning um áskorunina skal birt í Lögbirtingablaði og veittur a.m.k. þriggja mánaða frestur til að lýsa réttindum. Eignarréttindi falla ekki niður þótt rétthafar láti hjá líða að lýsa þeim á þessu stigi málsmeðferðarinnar heldur geta þeir eftir sem áður lýst kröfum síðar, sbr. 2. mgr. 10. gr. Að fresti skv. 1. málsl. loknum afhendir óbyggðanefnd hlutaðeigandi ráðherra þau erindi sem borist hafa og veitir honum frest, sbr. 1. mgr. 10. gr., til að lýsa kröfum ríkisins um þjóðlendur. Að öðru leyti fer um málsmeðferð skv. 10. gr.
     Nefndin getur jafnframt ákveðið málsmeðferð skv. 1. mgr. vegna almenninga stöðuvatna, sbr. 7. mgr. 10. gr.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
 1. Í stað orðanna „1. mgr.“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 2. mgr.
 2. Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Jafnframt getur sá sem telur til eignarréttinda eða annarra réttinda á svæði sem úrskurður nefndarinnar lýtur að átt aðild að dómsmáli um úrskurðinn þrátt fyrir að hafa ekki lýst kröfu fyrir nefndinni, að uppfylltum skilyrðum laga um meðferð einkamála um aðild að dómsmálum, enda verði það ekki metið honum til vanrækslu að hafa ekki gert kröfu fyrir nefndinni. Að sömu skilyrðum uppfylltum getur aðili að máli fyrir nefndinni, að ríkinu frátöldu, gert nýjar eða auknar kröfur fyrir dómi.


7. gr.

     Á eftir 19. gr. laganna kemur ný grein, 19. gr. a, svohljóðandi:
     Eftir að óbyggðanefnd hefur kveðið upp úrskurð á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef úrskurður hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en skilyrði 2. mgr. þeirrar greinar um tímafresti og samþykki annarra málsaðila gilda ekki um endurupptökuna. Sama rétt eiga aðrir sem telja til eignarréttinda eða annarra réttinda á svæðinu, þrátt fyrir að hafa ekki lýst kröfu fyrir nefndinni, enda verði þeim ekki metið til vanrækslu að hafa ekki gert kröfu áður. Hafi verið höfðað einkamál vegna viðkomandi svæðis, sbr. 1. mgr. 19. gr., og dómur fallið fer þó um endurupptöku eftir ákvæðum laga um meðferð einkamála.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 6. maí 2020.