Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1284, 151. löggjafarþing 747. mál: sóttvarnalög og útlendingar (sóttvarnahús og för yfir landamæri).
Lög nr. 23 22. apríl 2021.

Lög um breytingu á sóttvarnalögum og lögum um útlendinga (sóttvarnahús og för yfir landamæri).


I. KAFLI
Breyting á sóttvarnalögum, nr. 19/1997.

1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir ákvæði 13. tölul. 3. mgr. 1. gr. er ráðherra heimilt, á tímabilinu 22. apríl til og með 30. júní 2021, með reglugerð, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, að skylda ferðamann sem kemur frá eða hefur dvalið á hááhættusvæði, eða svæði sem fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um, að dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi. Sóttvarnalækni er heimilt að veita undanþágu frá þessari skyldu sýni ferðamaður með fullnægjandi hætti fram á að hann muni uppfylla öll skilyrði sóttkvíar eða einangrunar í húsnæði á eigin vegum.
     Umsókn um undanþágu skal hafa borist sóttvarnalækni a.m.k. tveimur sólarhringum fyrir komu til landsins. Við mat á því hvort veita skuli undanþágu skal m.a. líta til nýgengis smita á viðkomandi svæði eða landi sem ferðamaður kemur frá eða hefur dvalið í og hvort fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir um svæðið.
     Að fenginni tillögu sóttvarnalæknis skal ráðherra í reglugerð skilgreina hááhættusvæði. Við skilgreininguna er m.a. heimilt að líta til forsendna um nýgengi smita á tilteknu svæði og til útbreiðslu mismunandi afbrigða kórónuveiru. Heimilt er að skilgreina tiltekið land sem hááhættusvæði enda þótt einungis afmarkaður hluti þess uppfylli framangreind skilyrði samkvæmt skilgreiningu í reglugerð. Ráðherra skal birta lista yfir svæði og lönd sem talin eru sérstök hááhættusvæði með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Listinn skal sæta endurskoðun eigi sjaldnar en á tveggja vikna fresti.
     Um málsmeðferð fer eftir 14. gr.

II. KAFLI
Breyting á lögum um útlendinga, nr. 80/2016.

2. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Ráðherra er heimilt, á tímabilinu 22. apríl til og með 30. júní 2021, með reglugerð, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, að kveða á um að útlendingum sem koma frá eða dvalið hafa á hááhættusvæði, sbr. ákvæði til bráðabirgða í sóttvarnalögum, nr. 19/1997, eða svæði sem fullnægjandi upplýsingar liggja ekki fyrir um, sé óheimilt að koma til landsins þrátt fyrir að þeir uppfylli almenn komuskilyrði laga þessara og reglugerðar um för yfir landamæri. Í reglugerðinni er heimilt að kveða á um undanþágur frá banni við komu til landsins, m.a. vegna búsetu hér á landi og brýnna erindagjörða.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 22. apríl 2021.