Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1667, 151. löggjafarþing 775. mál: atvinnuleysistryggingar og greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs (framlenging úrræða o.fl.).
Lög nr. 73 15. júní 2021.

Lög um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og lögum um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs, nr. 155/2020 (framlenging úrræða o.fl.).


I. KAFLI
Breyting á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.

1. gr.

     Í stað orðanna „þegar hann sækir um atvinnuleysistryggingar“ í 5. mgr. 52. gr. laganna kemur: við starfslok hans eða þegar hann missir starf sitt að hluta, sbr. 17. gr.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða XVIII í lögunum:
  1. Í stað dagsetningarinnar „1. október 2021“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: 1. febrúar 2022.
  2. Í stað dagsetningarinnar „30. september 2021“ í 2. mgr. kemur: 31. janúar 2022.


3. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Innan fjögurra vikna frá gildistöku þessa ákvæðis skal Vinnumálastofnun greiða þeim atvinnuleitanda sem hafði fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur hinn 1. maí 2021 og verið að fullu tryggður skv. III. eða IV. kafla á umræddum tíma sérstakan 100.000 kr. styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði, enda hafi viðkomandi atvinnuleitandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir aprílmánuð 2021. Þrátt fyrir framangreint skal biðtími eftir atvinnuleysisbótum teljast með við útreikning á fjárhæð styrks, enda hafi viðkomandi atvinnuleitandi verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun á fyrrnefndum biðtíma.
     Hafi atvinnuleitandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samfellt í 14 mánuði eða lengur hinn 1. maí 2021 og verið tryggður hlutfallslega á umræddum tíma skal Vinnumálastofnun greiða honum hlutfallslegan styrk skv. 1. mgr. í samræmi við það tryggingahlutfall sem greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á fyrrnefndu tímabili miðuðust við. Þrátt fyrir framangreint skal biðtími eftir atvinnuleysisbótum teljast með við útreikning á fjárhæð styrks, enda hafi viðkomandi atvinnuleitandi verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun á fyrrnefndum biðtíma.

II. KAFLI
Breyting á lögum um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveirufaraldurs, nr. 155/2020.

4. gr.

     Í stað dagsetningarinnar „30. júní“ í 1. gr. laganna kemur: 31. desember.

5. gr.

     Í stað dagsetningarinnar „30. september 2021“ í 1. málsl. 3. mgr. 7. gr. laganna kemur: 31. mars 2022.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. júní 2021.