Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 744, 154. löggjafarþing 467. mál: veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands (leyfi til prófana á vinnslu og veiðarfærabúnaði).
Lög nr. 108 22. desember 2023.

Lög um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997 (leyfi til prófana á vinnslu- og veiðarfærabúnaði).


1. gr.

     Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Ráðherra getur, að fenginni umsókn þar um, veitt skilyrt, takmörkuð og tímabundin leyfi til prófana á nýjum vinnslu- og veiðarfærabúnaði skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, ef búnaðurinn hefur verið settur í skip hér á landi og nauðsynlegt getur talist að prófa virkni hans. Veiðist sjávarafli við prófanir skal hann vera óverulegur og seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla á Íslandi og skal andvirði aflans renna til sjóðs skv. 3. mgr. 1. gr. laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, nr. 37/1992. Slíkar prófanir skulu fara fram undir eftirliti Fiskistofu. Leyfishafi skal greiða allan kostnað sem leiðir af veru eftirlitsmanns Fiskistofu um borð í skipi samkvæmt þessari málsgrein. Ráðherra getur kveðið á um nánari reglur um skilyrði, veitingu leyfa, kostnað og eftirlit vegna prófana á vinnslu- og veiðarfærabúnaði í reglugerð.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 12. desember 2023.