2.1.2003

Rekstur skrifstofu þingmannanefndar um Norðurskautsmál flyst til alþjóðasviðs skrifstofu Alþingis

Alþjóðasvið skrifstofu Alþingis tók um áramótin við rekstri skrifstofu þingmannanefndar um Norðurskautsmál. Þingmannanefnd um Norðurskautsmál er samstarfsvettvangur þingmanna aðildarríkja Norðurskautsráðsins og starfar sem stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um Norðurskautsmál sem haldin er annað hvert ár. Aðildarríki ráðstefnunnar eru Norðurlönd, Bandaríkin, Kanada og Rússland. Evrópuþingið á jafnframt aðild að ráðstefnunni, samtök frumbyggja eiga þar fasta fulltrúa og ýmis samtök eiga áheyrnaraðild.

Skrifstofa þingmannanefndar um Norðurskautsmál hefur frá upphafi samstarfsins árið 1994 verið rekin af alþjóðaskrifstofu finnska þingsins, en fluttist um áramót til alþjóðasviðs skrifstofu Alþingis. Forstöðumaður alþjóðasviðs er Belinda Theriault, en ritari þingmannanefndarinnar verður Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sérfræðingur á alþjóðasviði og ritari Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar um Norðurskautsmál. Skrifstofan annast undirbúning funda þingmannanefndarinnar sem haldnir eru þrisvar til fjórum sinnum á ári, sem og undirbúning þingmannaráðstefnu um Norðurskautsmál, í samráði við þingmannanefndina. Hún er einnig tengiliður við aðrar stofnanir á sviði Norðurskautsmála og hefur umsjón með heimasíðu og öðru upplýsingastarfi, jafnframt því sem hún sinnir sérfræðistörfum fyrir nefndina sem markast af áherslum hennar hverju sinni.