25.8.2006

Fundur norrænna þingforseta í Helsinki

Norrænir þingforsetar funduðu í dag í Helsinki í boði forseta finnska þingsins. Þingforsetarnir ræddu m.a. um framtíðarskipulag Norðurlandaráðsþings. Þeir ákváðu að halda sameiginlegan fund með þingforsetum Eystrasaltsríkjanna árlega, í staðinn fyrir á tveggja ára fresti eins og nú er. Þá skiptust þingforsetarnir á upplýsingum um ýmis innri málefni þinganna og meðhöndlun alþjóðamála. Jafnframt kynnti finnski þingforsetinn formennskuáætlun Finna í ESB og þau verkefni sem finnska þingið hefur á sinni könnu í tengslum við formennskuna. Sólveig Pétursdóttir lagði áherslu á gott samstarf þinganna í málefnum EES. Hún minnti á átak Evrópuráðsþingsins gegn heimilisofbeldi, sem hefst 24. nóvember nk., og hvatti til þess að norrænu þingin tækju öll þátt í átakinu.