1.11.2010

Norðurlandaráðsþing 2010 í Reykjavík 2.-4. nóvember 2010

62. þing Norðurlandaráðs verður sett klukkan 14.30 þriðjudaginn 2. nóvember á Grand hóteli. Þingið hefst með ávarpi forseta Alþingis, Ástu R. Jóhannesdóttur og forseta Norðurlandaráðs Helga Hjörvars og í kjölfarið hefst Norrænn leiðtogafundur. Efni leiðtogafundarins er: Grænn hagvöxtur - leiðin út úr kreppunni. Að leiðtogafundi loknum kynnir forsætisráðherra Finna, Mari Kiviniemi, formennskuáætlun Finna í Norrænu ráðherranefndinni árið 2011.

Norðurlandaráðsþing 2010 verður haldið á Grand hóteli í Reykjavík frá þriðjudeginum 2. nóvember til fimmtudagsins 4. nóvember. Fulltrúar á þinginu verða forsætisráðherrar, aðrir ráðherrar og þingmenn frá öllum norrænu ríkjunum og sjálfstjórnarsvæðunum. Íslandsdeild Norðurlandaráðs skipa: Helgi Hjörvar, formaður, Álfheiður Ingadóttir, varaformaður, Ásmundur Einar Daðason, Bjarni Benediktsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Siv Friðleifsdóttir.

Bein útsending verður frá Norðurlandaráðsþingi á sjónvarpsrás Alþingis á dreifikerfum Símans og Vodafone og á vef Alþingis. Útsending frá setningu Norðurlandaráðsþings, leiðtogafundi og kynningu formennskuáætlunar verður túlkuð á íslensku.

Dagskrá þingsins er á vef Norðurlandaráðs.

Á dagskránni eru meðal annars eftirtaldir atburðir:

Mánudaginn 1. nóvember kl. 17.00 verður bókin Sambandsríkið Norðurlönd (Förbundsstaten Norden) eftir Gunnar Wetterberg kynnt en bókin er ársrit Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs 2010. Bein útsending er frá kynningunni á vef Alþingis, einnig er sent út á sjónvarpsrás Alþingis. Grand hóteli, Gullteig.

Þriðjudaginn 2. nóvember kl. 9.30 verður fréttamannafundur með norrænu forsætisráðherrunum. Grand hóteli, Hvammi. Tækifæri verður til myndatöku af forsætisráðherrunum við upphaf fundar þeirra kl. 8.30-8.35, einnig í Hvammi.

Miðvikudaginn 3. nóvember kl. 11.30 verður fréttamannafundur með norrænum utanríkisráðherrum. Grand hóteli, Hvammi.

Verðlaun Norðurlandaráðs verða veitt í Íslensku óperunni miðvikudaginn 3. nóvember klukkan 18.30. Veitt eru kvikmynda-, bókmennta-, tónlistar- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.

Framvísa verður gildum blaðamannapassa/ passa frá fjölmiðli, með mynd, þegar kort er sótt. Hægt verður að sækja aðgangskort á Grand hótel frá kl. 8.00 á mánudagsmorgun.