7.9.2012

Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins verða veitt 7. september

Barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins að verðmæti 1,2 milljónir króna verða afhent við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu föstudaginn 7. september kl. 17.00. Þetta er í sjötta skipti sem verðlaunin eru veitt en þeim er úthlutað annað hvert ár.

Verðlaunaafhendingin verður í tengslum við setningu Vestnorrænna menningardaga. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, setur hátíðina. Josef Motzfeldt, forseti grænlenska landsþingsins, Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Max Dager, forstjóri Norræna hússins, ávarpa samkunduna. Ólína Þorvarðardóttir, alþingismaður og varaformaður Vestnorræna ráðsins, og Ármann Jakobsson, dómnefndarmaður bókmenntaverðlaunanna, kynna vinningshafa og afhenda verðlaunin.

Til verðlaunanna sem nú verða veitt í sjötta skipti voru tilnefndar þrjár bækur, ein frá Færeyjum, ein frá Grænlandi og ein frá Íslandi. Verðlaunin eru veitt annað hvert ár fyrir bók sem þykir bera af öðrum sambærilegum bókum sem gefnar hafa verið út í löndunum þremur.

Tilnefndar bækur: Með heiminn í vasanum eftir Margréti Örnólfsdóttur (Bjartur 2011), grænlenska bókin Sagan um Kaassali eftir Lars-Pele Berthelsen og færeyska bókin Skriva í sandin eftir Marjuna Syderbø Kjelnæs.

Þeir sem áður hafa hlotið verðlaunin eru: Andri Snær Magnason árið 2002 fyrir bókina Sagan af bláa hnettinum, Kristín Steinsdóttir og Halla Sólveig Þorgeirsdóttir árið 2004 fyrir bókina Engill í vesturbænum, færeyski rithöfundurinn Bárður Oskarsson árið 2006 fyrir bókina Hundurinn, kötturinn og músin, Kristín Helga Gunnarsdóttir árið 2008 fyrir bókina Draugaslóð og Gerður Kristný árið 2010 fyrir bókina Garðurinn.

Dómnefnd verðlaunanna skipa prófessor Dagný Kristjánsdóttir formaður, Oddfríður Marni Rasmussen rithöfundur og Vera Lise Rosing Olsen.

Frekari upplýsingar veitir: Þórður Þórarinsson framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins, s. 563 0731, vestnordisk@althingi.is.

Reglur verðlaunanna.