23.4.2015

Sigríður Eyþórsdóttir hlýtur Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2015

Hátíð Jóns Sigurðssonar var haldin í Jónshúsi í Kaupmannahöfn í dag, 23 apríl, á sumardaginn fyrsta. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, setti hátíðina og afhenti Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta.

Verðlaunin féllu að þessu sinni í hlut Sigríðar Eyþórsdóttur, tónlistarmanns og kórstjóra, fyrir framlag hennar til Íslandskynningar í Danmörku með bókmenntakynningum og tónlistarflutningi.  Þá hefur Sigríður látið mikið til sín taka á fjölbreyttu sviði menningar- og félagsmála meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn og nágrenni á undanförnum árum og verið öflugur málsvari menningartengdrar starfsemi í Jónshúsi.Verðlaun Jóns Sigurðssonar 2015

Aðalræðumaður á hátíðinni var Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, og flutti hann erindi sem hann nefndi  „Hugsjónir og peysuskapur“.  Ræðuna má lesa í heild sinni hér.

Verðlaun Jóns Sigurðssonar 2015 Verðlaunin hafa áður hlotið:

  • 2014: Bertel Haarder, fyrrverandi menntamálaráðherra Danmerkur.
  • 2013: Erling Blöndal Bengtsson, sellóleikari.
  • 2012: Pétur M. Jónasson, vatnalíffræðingur og prófessor emeritus.
  • 2011: Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.
  • 2010: Søren Langvad byggingarverkfræðingur og forstjóri.
  • 2009: Erik Skyum-Nielsen bókmenntafræðingur og þýðandi.
  • 2008: Guðjón Friðriksson sagnfræðingur. 

Alþingi veitir Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta í minningu starfa hans í þágu Íslands og Íslendinga. Þau hlýtur hverju sinni einstaklingur sem hefur unnið verk er tengjast hugsjónum og störfum Jóns Sigurðssonar. Þau verk geta verið á sviði fræðistarfa, viðskipta eða mennta- og menningarmála. Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar er að finna á vef Jónshúss.