2.6.2023

Fundur þingforseta aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins í Vilníus

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, sækir í dag fund þingforseta aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins, NATO, í Vilníus í Litáen. Fundurinn er haldinn að frumkvæði gestgjafans, Viktoriju Čmilytė-Nielsen, forseta þjóðþings Litáens. Stuðningur við Úkraínu, hnattrænar áskoranir og efling NATO eru meðal mála á dagskrá og sérstakur gestur fundar er Ruslan Stefanchuk, forseti þjóðþings Úkraínu.

Í máli sínu lagði Birgir áherslu á áframhaldandi stuðning við Úkraínu, gerði grein fyrir helstu niðurstöðum leiðtogafundar Evrópuráðsins sem haldinn var í Reykjavík í síðasta mánuði og þeim ályktunum um málefni Úkraínu sem eru til umfjöllunar, eða hafa verið samþykktar, af Alþingi. Þá ítrekaði hann stuðning Alþingis við aðildarumsókn Svíþjóðar að NATO með von um að þau þjóðþing sem ættu eftir að samþykkja umsóknina greiddu götu hennar sem fyrst.

Fundur-thingforseta-adildarrikja-NATO-i-Vilnius_Hopmynd_2023-06-02

Þingforsetar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins stilla sér upp til myndatöku í Vilníus.

Ljósmynd / Seimas