24.4.2018

Fundur þingforseta EFTA-ríkja í Tallinn

Forsetar þjóðþinga aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, voru sérstakir gestir á ráðstefnu þingforseta aðildarríkja Evrópusambandsins sem haldin var í Tallinn í Eistlandi 23.–24. apríl 2018. 

EFTA þingforsetarnir áttu við þetta tækifæri sérstakan fund þar sem þeir ræddu hlutverk þjóðþinganna í Evrópusamstarfi á mismunandi forsendum; Ísland og Noregur á grundvelli EES-samningsins og Sviss á grundvelli tvíhliða samninga. 

Steingrímur J. Sigfússon ávarpaði ráðstefnuna á síðari degi, fyrir hönd þingforseta EFTA-ríkja, og þakkaði boðið. Lagði hann áherslu á mikilvægi náinnar og góðrar samvinnu þjóðþinga ríkja sem valið hafa Evrópusambandsaðild og þjóðþinga ríkja sem telja hagsmunum sínum betur varið utan ESB og hafa valið annan farveg fyrir samvinnu sína í Evrópu.

Fundur þingforseta EFTA-ríkjanna í Tallinn

Frá vinstri: Dominique De Buman, forseti neðri-deildar svissneska þingsins, Géraldine Savary, 2. varaforseti efri-deildar svissneska þingsins, Tone Wilhelmsen Trøen, forseti norska Stórþingsins, og Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.