29.8.2003

Opinber heimsókn forseta Alþingis til Slóveníu 1.-4. september

Halldór Blöndal, forseti Alþingis, mun heimsækja Slóveníu dagana 1.-4. september, í boði Boruts Pahor, forseta slóvenska þingsins. Í höfuðborginni Ljúbljana mun Halldór Blöndal eiga fund með slóvenska starfsbróður sínum og ræða við Anton Rop, forsætisráðherra Slóveníu. Þá mun forseti Alþingis eiga fund með borgarstjóra Ljúbljana og mennta- og menningarmálaráðherra landsins. Halldór mun auk þess eiga fund með formönnum þingflokka slóvenska þingsins og eiga viðræður við Dimitrij Rupel utanríkisráðherra og formann utanríkismálanefndar slóvenska þingsins.

Að dvölinni í Ljúbljana lokinni mun forseti Alþingis og sendinefnd fara í Postojna hellana, skoða Predjama kastala og hafnarbæinn Portoroz. Þá mun sendinefndin heimsækja bæinn Piran auk þess sem þjóðgarðurinn í Bled verður skoðaður.

Með þingforsetanum í för verða eiginkona hans, Kristrún Eymundsdóttir og þingmennirnir Guðmundur Árni Stefánsson og Einar Kristinn Guðfinnsson, auk Þorsteins Magnússonar forstöðumanns almennrar skrifstofu Alþingis.