Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 1. febrúar 1997. Útgáfa 121a. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um vörumerki
1968 nr. 47 2. maí
I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Með skráningu samkvæmt lögum þessum geta atvinnurekendur öðlast einkarétt til þess að nota vörumerki sem sérstök auðkenni fyrir vörur, verk eða þjónustu, er þeir hafa til sölu í atvinnurekstri sínum (vörumerkjaréttur).
[Vörumerki geta verið hvers konar tákn er birta má á prenti og til þess eru fallin að greina vörur eða þjónustu eins aðila frá vörum og þjónustu annarra, þ.e.:
1. orð eða orðasambönd, þar á meðal vígorð, mannanöfn, nöfn á fyrirtækjum eða fasteignum,
2. bókstafir og tölustafir,
3. myndir og teikningar,
4. útlit, búnaður eða umbúðir vöru.] 1)
Ákvæði laga þessara um vörur eiga einnig við um verk og þjónustu, sem í té er látin, eftir því sem við á.
1)L. 67/1993, 5. gr.
2. gr. Atvinnurekendur öðlast og vörumerkjarétt, þótt merki sé eigi skráð, ef það hefur náð markaðsfestu.
Nú er merki á vöru almennt þekkt á tilteknu sviði viðskipta hér á landi sem auðkenni á vöru notanda þess, og telst það þá hafa náð markaðsfestu.
3. gr. Enn fremur er hverjum heimilt í atvinnurekstri sínum að nota nafn sitt, firmanafn, eða nafn á fasteign sinni sem vörumerki, svo fremi, að sú notkun sé ekki á þann veg, að villst verði á merkinu og vörumerkjum annarra.
Nafn annars manns, firma eða sérkennilegt nafn á fasteign hans má ekki heimildarlaust nota sem vörumerki. [Í rétti þessum felst þó ekki að eigandi vörumerkisins geti hindrað að aðrir noti nafn sitt, firmanafn eða nafn á fasteign sinni í atvinnuskyni í samræmi við góða viðskiptavenju.] 1)
Eigi má heldur nota auðkenni sem vörumerki, ef villast má á því og vörumerki, er annar hefur þegar tekið í notkun hér á landi. Sama er um vörumerki, sem annar hefur þegar tekið í notkun erlendis, svo fremi, að sá, er ætlar að nota það hér á landi, þekki eða ætti að þekkja það.
1)L. 67/1993, 6. gr.
4. gr. Vörumerkjaréttur skv. 1.–3. gr. veitir eiganda vernd gegn því, að aðrir noti heimildarlaust í atvinnuskyni vörumerki, er villst verður á og merki hans. Á þetta við um hvers konar notkun, hvort sem merkið er sett á sjálfa vöruna eða umbúðir hennar, notað í auglýsingum, verslunarbréfum eða á annan hátt, og skiptir eigi máli, hvort selja á vöruna hér á landi eða erlendis. Heimildarlaus munnleg notkun merkisins er og bönnuð.
Nú er merki notað fyrir tilteknar vörur, og er þá öðrum en eiganda óheimilt að vísa til þess merkis, þegar seldir eru varahlutir, eða annað fylgifé þeirrar vöru, nema samþykki eiganda merkisins komi til, enda sé vísað til merkisins á þann hátt, að ætla megi, að fylgifé stafi frá eiganda merkisins eða hann hafi gefið samþykki sitt til notkunar þess.
Nú gerir annar en eigandi vörumerkis verulegar breytingar á vörum auðkenndum merkinu, hvort heldur er með aðgerðum, viðgerðum eða á annan svipaðan hátt, og má hann þá því aðeins nota merkið, án samþykkis eiganda, ef varan er á ný boðin til sölu í atvinnuskyni, að breytinganna sé greinilega getið, eða að þær eftir atvikum komi greinilega í ljós.
5. gr. Vörumerkjaréttur nær ekki til þeirra hluta vörumerkis, sem aðallega miða að því að gera vöruna, búnað hennar eða umbúðir hagkvæmari í notkun, eða miða annars að öðru en því að auðkenna hana.
6. gr. Samkvæmt lögum þessum skal eigi telja vörumerki svo lík hvert öðru, að hætta sé á, að menn villist á þeim, nema þau nái til sömu vöru eða vöru svipaðrar tegundar.
[Hætta á ruglingi telst þó vera til staðar gagnvart vel þekktu vörumerki hér á landi ef notkun á öðru líku merki felur í sér misnotkun eða rýrir aðgreiningareiginleika eða orðspor hins þekkta merkis.] 1)
1)L. 67/1993, 7. gr.
7. gr. Nú krefjast tveir eða fleiri, hver um sig, vörumerkjaréttar á auðkennum, er villast má á og gengur þá eldri réttur fyrir yngri, ef annað leiðir ekki af síðargreindum ákvæðum.
8. gr. [Yngri réttur á skráðu vörumerki getur notið verndar jafnhliða rétti á eldra vörumerki þótt merkin séu svo lík að villast megi á þeim, að því tilskildu að tilkynning um skráningu hafi verið afhent í góðri trú og eigandi eldra vörumerkisins hafi þrátt fyrir vitneskju um yngra merkið látið notkun á því afskiptalausa hér á landi í fimm ár samfellt frá skráningardegi.] 1)
1)L. 67/1993, 8. gr.
9. gr. Yngri réttur á vörumerki getur og notið jafnhliða verndar rétti á eldra merki, þótt villast megi á merkjunum:
a. ef eigandi eldra merkis hefur ekki innan hæfilegs tíma gert nauðsynlegar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir notkun yngra merkisins,
b. ef réttinum á merkjunum hefur verið náð með notkun þeirra í mismunandi landshlutum og álíta má, að nota megi bæði merkin eftir sem áður, án verulegs tjóns fyrir eiganda hins eldra réttar.
10. gr. Í tilvikum þeim, er um ræðir í 8.–9. gr., geta dómstólar, ef það telst sanngjarnt, ákveðið, að annað merkjanna eða bæði megi eingöngu nota á sérstakan hátt, t.d. þannig, að þau séu af ákveðinni gerð, staðarnafni bætt við eða þau á annan veg skýrt aðgreind.
11. gr. Samkvæmt beiðni eiganda skráðs vörumerkis ber höfundum, útgefendum og forleggjurum orðabóka, handbóka, kennslubóka og þess háttar sérfræðirita að gæta þess, að merki sé ekki birt, nema þess sé jafnframt getið, að um skráð vörumerki sé að ræða.
Nú vanrækir maður skyldur sínar samkvæmt 1. mgr. þessarar greinar, og ber honum þá að kosta leiðréttingu, er birt skal á þann hátt, er sanngjarnt þykir.
II. kafli. Um skráningu vörumerkja.
12. gr. Vörumerkjaskrá skal haldin í Reykjavík fyrir land allt, sbr. 20. og 21. gr. Skráninguna annast vörumerkjaskráritari, er ráðherra skipar.
13. gr. Það er skilyrði skráningar vörumerkis, að merkið sé til þess fallið að greina vörur merkiseiganda frá vörum annarra. Merki, sem eingöngu eða aðeins með smávægilegum breytingum eða viðbótum gefa til kynna tegund vörunnar, ástand, magn, notkun, verð, uppruna eða hvenær varan er framleidd, skal eigi telja nægjanlegt sérkenni. … 1)
Þegar kveða skal á um, hvort merki hafi nægjanlegt sérkenni, skal líta til allra aðstæðna, og þó einkum til þess, hversu lengi og að hve miklu leyti merkið hefur verið í notkun.
1)L. 67/1993, 9. gr.
14. gr. Vörumerki má eigi skrá:
1. ef heimildarlaust eru í merkinu ríkistákn, opinber alþjóðamerki, merki íslenskra bæjar- eða sveitarfélaga, opinber skoðunar- og gæðamerki, sérstök heiti greindra einkenna eða annað, sem til þess er fallið að villst verði á því og framangreindum merkjum og táknum. Bannið nær því aðeins til opinberra skoðunar- og gæðamerkja að óskað sé skráningar merkis fyrir sömu eða svipaðar vörutegundir og þær, sem framangreind merki og tákn eru notuð fyrir;
2. ef merkið er til þess fallið að villa um fyrir mönnum;
3. ef merkið er annars andstætt lögum eða allsherjarreglu, eða til þess fallið að valda hneyksli;
4. ef í merkinu felst eitthvað það, sem gefur tilefni til að ætla, að átt sé við firma annars manns, nafn annars manns eða mynd, enda sé þá ekki átt við löngu látna menn, eða í merkinu felst sérkennilegt nafn á fasteign annars manns eða mynd af henni;
5. ef í merkinu felst eitthvað, er skilja má sem sérkennilegan titil á vernduðu bókmenntalegu eða listrænu verki annars manns, eða ef gengið er á höfundarrétt annars manns á slíku verki, einkaleyfisrétt hans, mynsturrétt eða rétt til ljósmynda;
6. ef villast má á merkinu og vörumerki, sem skráð hefur verið hér á landi samkvæmt eldri tilkynningu eða hefur verið notað hér á landi, þegar tilkynning um skráningu er afhent, og enn er notað hér;
7. ef merkið er til þess fallið, að villst verði á því og vörumerki, sem notað er erlendis á þeim tíma, sem tilkynning um skráningu er afhent, og enn er notað þar, enda hafi tilkynnandi vitað eða átt að vita, hvernig á stóð um hið erlenda merki, þegar hann afhenti tilkynningu sína.
Þrátt fyrir ákvæðin í 4., 5., 6. og 7. tölul. má skrá merki, ef nægjanleg heimild er til og ekki er ástæða til að ætla, að skráningin valdi villu.
15. gr. Vörumerkjaréttur sá, er menn öðlast við skráningu, nær eigi til þeirra hluta merkis, sem eigi er heimilt að skrá eina sér.
Nú er í merki eitthvað það, sem nefnt er í 1. mgr., og sérstök ástæða er til að ætla, að skráning merkisins geti valdið vafa um það, hve víðtækur vörumerkjarétturinn er, og má þá við skráninguna undanskilja berum orðum vernd á þeim hlutum merkis.
Nú kemur síðar í ljós, að þá hluta merkis, sem undanskildir hafa verið vernd, megi að réttu lagi skrá, og má þá skrá slíka hluta merkis, eða merkið sjálft, án þeirra takmarkana, er um getur í 2. mgr.
16. gr. Vörumerki skal skrá í ákveðnum flokki eða flokkum vara.
Greining í vöruflokka ákveður ráðherra og auglýsir. 1)
1) Augl. 283/1984, sbr. 88/1992.
17. gr. Tilkynning vörumerkis til skráningar skal vera skrifleg og send vörumerkjaskráritara. Í tilkynningu skal vera mynd af merkinu, nafn eða firma tilkynnanda … 1) Þá skal og geta um þær vörutegundir, sem merkið óskast skráð fyrir, eða vöruflokka, sem það óskast skráð í. Loks skal tilkynningin að öðru leyti vera í samræmi við ákvæði sett samkvæmt 46. gr.
1)L. 67/1993, 10. gr.
18. gr. Nú er vörumerki notað í fyrsta sinn fyrir vörur, sem sýndar eru á landssýningu eða alþjóðlegri sýningu hér á landi, er nýtur viðurkenningar ráðherra, og er síðan tilkynnt til skráningar innan 6 mánaða frá þeim tíma talið, er það kom fram á sýningunni, og skal sú tilkynning, að því er snertir síðar tilkomin atvik, svo sem notkun annarra á merkinu eða tilkynningu á því, talin fram komin þegar er merkið var birt á sýningunni.
Ráðherra getur ákveðið og auglýst, sbr. 46. gr., að reglur þær, sem um getur í 1. mgr., skuli gilda um vörumerki, er fram koma í fyrsta sinn á alþjóðasýningum erlendis, opinberum eða viðurkenndum af hinu opinbera, enda sé um gagnkvæma vernd að ræða.
19. gr. Nú hefur tilkynnandi ekki gætt þeirra fyrirmæla, sem sett eru um tilkynningar, eða vörumerkjaskráritari telur, að aðrar tálmanir leiði til þess, að synja beri um skráningu, og ber þá vörumerkjaskráritara að senda tilkynnanda rökstudda synjun og ákveður hann jafnframt frest, er tilkynnandi má nota til þess að skýra mál sitt.
Að fresti loknum kveður vörumerkjaskráritari á um, hvort orðið skuli við beiðni tilkynnanda. Vörumerkjaskráritari getur þó gefið tilkynnanda kost á að koma fram nánari skýringum.
Ákvörðun vörumerkjaskráritara getur tilkynnandi [skotið til áfrýjunarnefndar í vörumerkja- og einkaleyfamálum] 1) eða dómstólanna samkvæmt ákvæðum 44. gr.
1)L. 31/1984, 1. gr.
20. gr. Nú fullnægir tilkynning gerðum kröfum og engin tormerki eru talin á því að skrá merkið, og skal þá vörumerkjaskráritari hið fyrsta birta auglýsingu um hana. Í auglýsingu skal skýrt frá aðalefni tilkynningarinnar og birt mynd af merkinu.
Auglýsing skal birt í Stjórnartíðindum eða sérstöku blaði, 1) er ríkisstjórnin gefur út. Nánari reglur um birtinguna setur ráðherra.
Andmælum gegn skráningu merkis ber að koma skriflega fram innan tveggja mánaða talið frá birtingardegi auglýsingarinnar, og skulu þau rökstudd.
1) Augl. 801/1983.
21. gr. Að loknum fresti samkvæmt 20. gr. athugar vörumerkjaskráritari tilkynninguna að nýju, sbr. 19. gr.
Nú er tilkynning samþykkt, og ber þá að skrá merkið í vörumerkjaskrána og auglýsa skráninguna samkvæmt 20. gr.
Nú er synjað um skráningu merkis, sem auglýst hefur verið samkvæmt 20. gr., og skal þá synjun birt á þann hátt, er þar segir.
Ákvörðun vörumerkjaskráritara getur tilkynnandi [skotið til áfrýjunarnefndar í vörumerkja- og einkaleyfamálum] 1) eða dómstóla samkvæmt ákvæðum 44. gr.
1)L. 31/1984, 2. gr.
22. gr. Vernd sú, sem skrásett vörumerki fær, hefst frá þeim degi, er tilkynning samkvæmt 17. gr., sbr. 19. gr., er afhent og helst um 10 ára bil frá skráningardegi.
Samkvæmt umsókn eiganda merkis verður skráning endurnýjuð um 10 ára bil hverju sinni, talið frá lokum hvers skráningartímabils.
23. gr. Tilkynningu um, að óskað sé endurnýjunar á skráningu, skal eigi afhenda vörumerkjaskráritara fyrr en 1 ári áður og eigi síðar en 6 mánuðum eftir að skráningartímabilinu lýkur.
Nú þykir eigi neitt athugavert við tilkynninguna, og verður endurnýjun þá skráð í vörumerkjaskrána.
Nú hefur tilkynning um endurnýjun eigi verið afhent, áður en skráningartímabilinu lauk, og sendir þá vörumerkjaskráritari eiganda merkisins, eða umboðsmanni hans, sbr. 31. gr., tilkynningu um það. Nú er slík tilkynning eigi send, og ber þá vörumerkjaskráritari eigi ábyrgð á því.
24. gr. Samkvæmt umsókn eiganda merkis má gera minni háttar breytingar á skráðu vörumerki, enda valdi þær því eigi, að heildaráhrif merkisins raskist.
Slíkra breytinga skal getið í skránni.
III. kafli. Um afnám skráningar.
25. gr. Nú er vörumerki skráð andstætt ákvæðum þessara laga, og getur þá dómur fellt skráninguna úr gildi, sbr. þó ákvæði 8.–10. gr. [Skráningin verður þó ekki felld úr gildi vegna ruglingshættu við annað vörumerki ef skilyrði 25. gr. a eiga við um það merki.] 1)
Með dómi má og fella skráningu úr gildi, ef eigandi merkis er hættur atvinnurekstri, merki er, eftir að það er skráð, bersýnilega orðið óhæft til þess að auðkenna vöru eiganda þess frá vörum annarra, og loks, ef það er orðið villandi, andstætt allsherjarreglu eða til þess fallið að valda hneyksli.
1)L. 67/1993, 11. gr.
[25. gr. a. Ef eigandi að skráðu vörumerki hefur eigi, innan fimm ára frá skráningardegi, notað vörumerkið hér á landi fyrir þær vörur eða þjónustu sem það er skráð fyrir eða hafi slík notkun ekki átt sér stað í fimm ár samfellt má ógilda skráninguna með dómi ef ekki koma fram gildar ástæður fyrir því að notkun á vörumerkingu hefur ekki átt sér stað.
Ef vörumerki er notað í annarri útfærslu en greinir í vörumerkjaskrá, þó þannig að um sé að ræða óveruleg frávik sem ekki raska aðgreiningarhæfi þess eða ef merkið hefur verið sett á vörur hér á landi sem eingöngu eru ætlaðar til útflutnings eða á umbúðir þeirra, skal leggja slíkt að jöfnu við notkun skv. 1. mgr.
Ef vörumerki er notað af öðrum en eiganda, en með samþykki hans, skal leggja þá notkun að jöfnu við notkun eiganda.
Skráning verður þó ekki afmáð ef notkun á merki hefur hafist eftir lok fimm ára tímabilsins en áður en krafa um ógildingu kemur fram. Nú er krafa um ógildingu eigi lögð fram fyrr en þrír mánuðir hið skemmsta eru liðnir frá lokum fimm ára tímabilsins en eigandi merkis hefur hafið eða tekið aftur upp notkun þess á síðustu þremur mánuðum áður en krafa um ógildingu kom fram. Skal þá slík notkun ekki hafa áhrif á kröfu um ógildingu hafi eiganda merkis verið kunnugt um að krafan mundi koma fram er hann hóf undirbúning að notkun þess.] 1)
1)L. 67/1993, 12. gr.
[25. gr. b. Hafi notkunarskyldu verið fullnægt fyrir hluta af þeim vörum eða þjónustu er vörumerkið var skráð fyrir skal ógildingin ekki taka til þess hluta skráningarinnar.] 1)
1)L. 67/1993, 13. gr.
26. gr. Hverjum þeim, sem hefur lögmætra hagsmuna að gæta, er rétt að höfða mál gegn eiganda merkis í því skyni, að skráning þess verði felld úr gildi.
[Vörumerkjaskrárritari er réttur sóknaraðili í málum samkvæmt ákvæðum 13. gr., 1.–3. tölul. 14. gr., 2. mgr. 25. gr. og 25. gr. a.] 1)
1)L. 67/1993, 14. gr.
27. gr. Merki verða afmáð úr vörumerkjaskránni samkvæmt dómi, svo og ef skráning er eigi endurnýjuð eða eigandi merkis óskar þess, að merkið verði afmáð.
… 1)
1)L. 91/1991, 160. gr.
IV. kafli. Sérreglur um skráningu erlendra vörumerkja.
28. gr. Nú tilkynnir atvinnurekandi, sem ekki rekur fyrirtæki hér á landi, vörumerki til skráningar, og ber honum þá að sanna, að hann hafi fengið samsvarandi merki skráð í heimalandi sínu fyrir þær vörutegundir, sem tilkynning hans fjallar um.
Nú er um gagnkvæma réttarvernd að ræða, og getur ráðherra þá auglýst, að ákvæðum 1. mgr. skuli eigi beitt.
29. gr. Nú er um gagnkvæma réttarvernd að ræða, og getur ráðherra þá auglýst, að vörumerki, sem eigi mundi talið skráningarhæft hér á landi, en hefur verið skráð í öðru ríki, megi þó skrá hér á sama hátt og í hinu erlenda ríki, enda sé þá fullnægt nánari skilyrðum, er auglýsingin greinir. Slík skráning veitir þó í engu rýmri rétt en samsvarandi skráning í hinu erlenda ríki.
30. gr. [Iðnaðarráðherra getur ákveðið að sá sem sótt hefur um skráningu vörumerkis í öðru ríki geti, innan tilskilins frests, lagt inn umsókn um skráningu sama merkis hérlendis með þeim áhrifum að umsóknin telst, hvað varðar merki er aðrir hafa sótt um skráningu á eða tekið í notkun, fram komin samtímis umsókninni í hinu erlenda ríki.] 1)
1)L. 36/1996, 28. gr.
31. gr. Eiganda vörumerkis, sem eigi er heimilisfastur hér á landi, ber að hafa umboðsmann heimilisfastan hér. Umboðsmaðurinn skal hafa heimild eiganda merkis til þess að taka við stefnu af hans hálfu, svo og öðrum tilkynningum, er merkið varða, þannig að bindi eigandann. Nafn umboðsmanns og heimilisfang skal skráð í vörumerkjaskrána.
Nú hefur hæfur umboðsmaður eigi verið nefndur, og ber þá eiganda merkis að bæta úr því, sem áfátt er, innan frests, sem vörumerkjaskráritari ákveður. Tilkynningu um frestinn ber að senda í ábyrgðarbréfi, en ef ókunnugt er um heimilisfang eiganda merkis, þá með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Nú er umboðsmaður samkvæmt ofangreindu eigi nefndur, áður en frestur er úti, og skal þá merkið afmáð úr skránni.
V. kafli. Um framsal, leyfi o.fl.
32. gr. Rétt til vörumerkis má framselja ásamt atvinnurekstri þeim, sem það er notað í, eða eitt sér.
Nú framselur einhver atvinnurekstur sinn, og eignast framsalshafi þá vörumerki atvinnurekstrarins, nema um annað hafi verið samið eða megi telja umsamið.
33. gr. Hver sá, sem eignast hefur rétt á skráðu vörumerki, skal tilkynna það til vörumerkjaskráritara, og getur hann þá eigendaskiptanna í vörumerkjaskránni.
Þar til framsal er tilkynnt til skráningar, getur vörumerkjaskráritari talið þann eiganda merkis, sem síðast var skráður eigandi.
34. gr. [Eigandi að skráðu vörumerki getur veitt öðrum leyfi til að nota merkið í atvinnuskyni (nytjaleyfi). Nytjaleyfi getur tekið til allrar vöru eða þjónustu sem vörumerkið nýtur verndar fyrir eða takmarkaðs hluta skráningar. Nytjaleyfi getur tekið til landsins alls eða afmarkaðra svæða þess. Eigandi að skráðu vörumerki getur krafist vörumerkjaréttar fram yfir rétt nytjaleyfishafa brjóti hann ákvæði nytjaleyfissamnings varðandi gildistíma, leyfilega útfærslu merkis, hvar og hvernig nota má það eða ákvæði er varða gæði vöru eða þjónustu er leyfishafi býður fram undir merkinu.
Eigandi vörumerkis eða leyfishafi getur, gegn ákveðnu gjaldi, farið fram á að nytjaleyfi verði fært í vörumerkjaskrá og birt, sbr. 20. gr. Sami háttur skal á hafður er nytjaleyfi fellur úr gildi. Skráningaryfirvöld geta hafnað því að færa inn nytjaleyfi ef þau telja að notkun leyfishafa á merkinu geti leitt til ruglingshættu. Um áfrýjun slíkrar synjunar gilda ákvæði 4. mgr. 21. gr.
Leyfishafi getur því aðeins framselt rétt sinn að um það hafi verið samið.] 1)
1)L. 67/1993, 15. gr.
35. gr. Nú hefur réttur að skráðu vörumerki verið veðsettur, eða aðför gerð í honum, og skal þá, ef eigandi merkis, veðhafi eða aðfararhafi óskar, geta þess í vörumerkjaskránni.
VI. kafli. Um bann gegn notkun villandi vörumerkja.
36. gr. Nú verður notkun vörumerkis villandi, eftir að það hefur verið framselt, eða leyfi til þess að nota það hefur verið tilkynnt, og má þá með dómi banna hlutaðeiganda að nota merkið í þeirri gerð, sem það er.
Sama er og, ef vörumerki er annars villandi, eigandi þess notar það á villandi hátt eða einhver annar með hans samþykki.
Vörumerkjaskráritari, svo og hver sá, sem hagsmuna hefur að gæta, getur höfðað mál samkvæmt þessari grein.
VII. kafli. Ákvæði um réttarvernd.
37. gr. Notkun vörumerkis, andstæða ákvæðum laga þessara, má banna með dómi.
Hver sá, sem af ásetningi brýtur gegn rétti á skráðu vörumerki, skal sæta sektum.
Sókn sakar fyrir brot gegn ákvæðum laga þessara á sá, sem telur hagsmuni sína skerta. … 1)
Mál, sem höfðuð eru samkvæmt lögum þessum, skulu rekin fyrir [héraðsdómi] 2) Reykjavíkur, ef eigandi merkis er búsettur erlendis.
1)L. 91/1991, 160. gr. 2)L. 92/1991, 51. gr.
38. gr. Hverjum þeim, sem af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn vörumerkjarétti, er skylt að bæta tjón það, sem af hefur hlotist.
Nú brýtur einhver gegn vörumerkjarétti, án þess að um ásetning eða gáleysi sé að ræða, og er honum þá skylt að bæta þeim, er brotið var gegn, tjón hans eftir því, sem sanngjarnt þykir. Bætur þessar mega þó aldrei vera hærri en ætla má, að nemi hagnaði hins bótaskylda af brotinu.
39. gr. Í málum út af brotum gegn rétti á skráðu vörumerki verður 2. lið 1) 37. gr. því aðeins beitt, að brot hafi verið framið, eftir að merkið var skráð.
1)Átt við mgr.
40. gr. Krafa samkvæmt 38. gr. fyrnist á 5 árum. Stafi krafan af refsiverðu verki, fyrnist hún á 10 árum.
Þrátt fyrir ákvæði 1. liðs 1) má höfða mál til greiðslu bóta fyrir brot gegn vörumerkjarétti, ef brot hefur verið framið, eftir að merkið var tilkynnt til skráningar, enda sé mál höfðað innan árs frá skráningardegi.
1)Átt við mgr.
41. gr. Í málum út af brotum gegn vörumerkjarétti getur dómur ákveðið, að gerðar skuli ráðstafanir til að hindra misnotkun á merkinu. Í því skyni getur dómur kveðið svo á, að merkið skuli numið brott af þeim vörum, sem eru í vörslu hlutaðeiganda eða hann annars ræður yfir. Ef nauðsyn ber til, má ákveða, að ónýta skuli vöruna eða afhenda hana þeim, er misgert var við, gegn bótum eða án þeirra.
42. gr. Nú hefur leyfi verið veitt til notkunar á vörumerki, og eru þá hvor um sig, leyfissali og leyfishafi, réttur sóknaraðili í málum um brot gegn vörumerkjaréttinum, enda hafi eigi verið á annan veg samið.
Nú vill leyfishafi höfða mál, og ber honum þá að tilkynna leyfissala það. Vanræksla í þessu efni varðar frávísun máls.
VIII. kafli. Gæðamerki.
43. gr. Þau ákvæði þessara laga, er snerta vörumerki, ná og til gæðamerkja, að því leyti sem samrýmst getur sérákvæðum um þau merki.
IX. kafli. Ýmis ákvæði.
44. gr. Ákvarðanir vörumerkjaskráritara samkvæmt lögum þessum [getur tilkynnandi borið undir áfrýjunarnefnd í vörumerkja- og einkaleyfamálum], 1) enda sé það gert innan þriggja mánaða frá þeim degi, er ákvörðunin var tekin. Leita má til dómstóla, þótt málið hafi borið undir [áfrýjunarnefnd í vörumerkja- og einkaleyfamálum]. 1) Nú óskar tilkynnandi úrskurðar dómstóla, og ber honum þá að höfða mál innan 6 mánaða frá þeim tíma, er vörumerkjaskráritari [eða áfrýjunarnefnd í vörumerkja- og einkaleyfamálum tók ákvörðun sína]. 1)
[Nefnd þriggja manna, áfrýjunarnefnd í vörumerkja- og einkaleyfamálum er ráðherra skipar, skal úrskurða í ágreiningsmálum, samkvæmt 19. og 21. gr., sbr. 1. mgr. 44. gr. laga þessara. Iðnaðarráðherra skipar formann nefndarinnar til þriggja ára í senn og skal hann vera lögfræðingur. Aðra nefndarmenn skipar iðnaðarráðherra til að úrskurða í einstökum ágreiningsmálum. Áfrýjunarnefndin ákveður málsmeðferðarreglur í hverju einstöku máli með hliðsjón af meginreglum einkamálaréttarfarsins. Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði. Aðilar máls skulu greiða gjald vegna áfrýjunar sem ákvarðast í reglugerð um gjald fyrir vörumerki o.fl.] 2)
1)L. 31/1984, 3. gr. 2)L. 31/1984, 4. gr.
45. gr. Öllum er rétt að kynna sér efni vörumerkjaskrárinnar, annaðhvort með því að skoða hana eða með því að fá endurrit úr henni. Öllum er og rétt að fá vitneskju um, hvort merki er skráð.
46. gr. Ráðherra sá, er fer með vörumerkjamál, setur nánari reglur 1) um afhendingu og meðferð á tilkynningum til vörumerkjaskrárinnar, þar á meðal um fresti til að krefjast forgangsréttar, sbr. 18. og 30. gr., um form skrárinnar og færslu, útgáfu skráningarblaðs og efni þess, svo og um gjöld fyrir tilkynningar, afgreiðslur, endurrit o.fl.
1)Rg. 1/1969 (um tilkynningar og skráningu vörumerkja o.fl.). Rg. 436/1990, sbr. 287/1996 (um forgangsrétt til tilkynninga um skráningu á vörumerkjum). Rg. 188/1991 (um Einkaleyfisstofu). Rg. 673/1996.
47. gr. Með þeim takmörkunum, sem leiðir af 48. gr., koma ákvæði laga þessara í stað laga um vörumerki nr. 43 13. nóvember 1903, án þess þó að það raski gildi fyrri skráninga. Vörumerki þau, sem skráð hafa verið samkvæmt eldri lögum, skulu standa áfram í vörumerkjaskránni, þótt þau fullnægi eigi skilyrðum laga þessara til þess að verða skráð sem ný vörumerki.
Um þau vörumerki, sem skráð eru samkvæmt eldri lögum, kemur skráning í vöruflokka, sem um ræðir í 16. gr., eigi til framkvæmda, fyrr en skráning er endurnýjuð.
48. gr. …