Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 1998.  Útgáfa 122b.  Prenta í tveimur dálkum.


Vaxtalög

1987 nr. 25 27. marsI. kafli. Gildissvið.
1. gr. Lög þessi gilda um vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar og á öðrum sviðum réttarins, eftir því sem við getur átt, nema öðruvísi sé kveðið á í lögum.
2. gr. Auk vaxta taka lög þessi til annars endurgjalds sem áskilið er eða tekið fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar.
3. gr. Ákvæði II. og III. kafla laga þessara um ákvörðun vaxta gilda því aðeins að ekki leiði annað af lögum, samningum eða venju.

II. kafli. Almennir vextir.
4. gr. Almenna vexti skal því aðeins greiða af peningakröfum fram að gjalddaga þeirra að það leiði af samningum, venju eða lagafyrirmælum.
5. gr. [Þegar samið er um vexti af peningakröfu, en hundraðshluti þeirra ekki tiltekinn, skulu vextir frá því að til skuldar er stofnað vera á hverjum tíma jafnháir vegnu meðaltali ársávöxtunar á nýjum almennum útlánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum.] 1)
    1)L. 67/1989, 1. gr.
6. gr. Sé samið um breytilega vexti í samræmi við hæstu lögleyfða vexti eða hæstu vexti á markaðnum á hverjum tíma skal miða við hæstu gildandi vexti af hliðstæðum lánum sem eru í almennri notkun hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum eins og þeir eru á hverjum tíma.
7. gr. [Kröfur um skaðabætur skulu bera vexti frá og með þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað og vera á hverjum tíma jafnháir vegnu meðaltali vaxta af almennum óbundnum sparisjóðsreikningum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum. Sé skaðabótakrafa miðuð við verðlag síðar en hið bótaskylda atvik varð ber krafan þó vexti frá þeim tíma.] 1)
    1)L. 67/1989, 2. gr.
8. gr. Viðskiptabönkum og sparisjóðum ber án tafar að tilkynna Seðlabanka Íslands um öll vaxtakjör og breytingar á þeim í því formi sem Seðlabankinn krefst. [Verðbréfafyrirtæki skulu einnig tilkynna Seðlabankanum um breytingar á ávöxtunarkröfum sem gerðar eru fyrir verðbréfasjóði í þeirra umsjá og eignarleigufyrirtækjum skal skylt að upplýsa bankann um almennar breytingar á eignarleigukjörum sem þau bjóða.] 1)
Seðlabankinn skal fyrir lok mánaðar birta í Lögbirtingablaði í aðgengilegu formi öll almenn vaxtakjör hvers viðskiptabanka og sparisjóðanna sameiginlega, svo og vegið meðaltal þeirra svo sem áskilið er í lögum þessum og skal hver tilkynning lögð til grundvallar samkvæmt lögunum næsta mánuðinn eða uns næsta tilkynning birtist.
    1)L. 67/1989, 3. gr.

III. kafli. Dráttarvextir.
9. gr. [Hafi gjalddagi verið fyrir fram ákveðinn skulu dráttarvextir reiknast af peningakröfu frá og með gjalddaga, ef eigi er greitt á gjalddaga, fram að greiðsludegi.
Dráttarvextir skulu ætíð reiknast sem dagvextir nema á annan veg sé sérstaklega mælt í lögum.] 1)
Nú er ekki samið um gjalddaga kröfu og er þá heimilt að reikna dráttarvexti þegar liðinn er mánuður frá því að kröfuhafi sannanlega krafði skuldara um greiðslu. Sé sá mánaðardagur, sem greiðslukrafan miðast við, ekki til í næsta mánuði skal skuldari greiða dráttarvexti frá og með síðasta degi þess mánaðar.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 2) er ætíð heimilt að reikna dráttarvexti frá þeim tíma er dómsmál telst höfðað til heimtu kröfunnar, sbr. þó 15. gr. um skaðabætur.
    1)L. 67/1989, 4. gr. 2)Nú 3. mgr., sbr. l. 67/1989, 4. gr.
10. gr. [Dráttarvextir af peningakröfum í íslenskum gjaldmiðli skulu ákveðnir af Seðlabanka Íslands sem ársvextir með þeim hætti að hlutfallið milli dráttarvaxta, að viðbættri tölunni 100, og ávöxtunar nýrra almennra útlána skv. 2. mgr. þessarar greinar, að viðbættri tölunni 100, sé á bilinu 1,02 til 1,06.] 1)
[Seðlabanki Íslands skal eigi sjaldnar en mánaðarlega reikna vegið meðaltal ársávöxtunar á nýjum almennum útlánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum og birta meðaltal þetta í Lögbirtingablaði ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. og skulu þeir dráttarvextir gilda uns næsta tilkynning er birt í Lögbirtingablaði.] 2)
Viðskiptaráðherra setur, að fengnum tillögum Seðlabanka Íslands, nánari reglur 3) um grundvöll og útreikning meðalávöxtunar og dráttarvaxta samkvæmt grein þessari og 11. gr.
    1)L. 90/1992, 1. gr. 2)L. 9/1989, 19. gr. 3)Rg. 287/1987, sbr. 12/1990.
11. gr. [Dráttarvextir af löglegum peningakröfum í erlendum gjaldmiðli skulu ákveðnir af Seðlabanka Íslands sem ársvextir með þeim hætti að hlutfallið milli dráttarvaxta, að viðbættri tölunni 100, og meðalvaxta viðkomandi gjaldmiðils á innlendum gjaldeyrisreikningum í viðskiptabönkum og sparisjóðum, að viðbættri tölunni 100, sé á bilinu 1,02 til 1,06.] 1)
Um útreikning Seðlabanka Íslands á meðalávöxtun og ákvörðun dráttarvaxta skv. 1. mgr. greinarinnar, birtingu útreiknings og gildistíma dráttarvaxta fer eftir ákvæðum 2. mgr. 10. gr. laga þessara.
Sé um gjaldmiðil að ræða sem ekki er gefinn kostur á að eiga á innlendum gjaldeyrisreikningi hér á landi eða gjaldmiðil sem ekki er skráður hér á landi skal miða við vexti af almennum óbundnum sparisjóðsreikningum í hlutaðeigandi landi samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands.
    1)L. 90/1992, 2. gr.
12. gr. Áfallnir dráttarvextir skulu lagðir við höfuðstól skuldar og nýir dráttarvextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð ef vanskil standa lengur en 12 mánuði. Aldrei skal reikna slíka vaxtavexti oftar en á 12 mánaða fresti.
13. gr. Ef atvik, sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt, valda því að greiðsla fer ekki fram skal ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum sökum.
14. gr. Sé mál höfðað til heimtu peningakröfu og dráttarvaxta krafist má … 1) dæma dráttarvexti frá þeim tíma, er mál telst höfðað, til greiðsludags enda þótt vaxtahæð sé ekki tilgreind í stefnu.
[Sé mál hins vegar höfðað til heimtu peningakröfu sem gjaldféll eftir gildistöku laga þessara og dráttarvaxta er krafist skv. 10. gr. má dæma dráttarvexti frá gjalddaga kröfunnar skv. 9. gr. fram að greiðsludegi enda þótt vaxtahæð sé ekki tilgreind í stefnu.] 2)
    1)L. 91/1991, 160. gr. 2)L. 67/1989, 5. gr.
15. gr. Skaðabótakröfur skulu bera dráttarvexti skv. 1. mgr. 10. gr. að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til þess að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Dómstólar geta þó ákveðið annan upphafstíma dráttarvaxta.
16. gr. Þegar greiða skal dráttarvexti samkvæmt lögum þessum skulu almennir vextir, verðbætur eða annað umsamið álag falla niður.

[IV. kafli. Vaxtakjör opinberra fjárfestingarlánasjóða.]1)
    1)L. 67/1989, 6. gr.
[17. gr. Ákvæði þessa kafla gilda um lánskjör opinberra fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna sem starfa samkvæmt sérstökum lögum.] 1)
    1)L. 67/1989, 6. gr.
[18. gr. Fjárfestingarlánasjóðir atvinnuveganna endurlána það fé sem þeir fá til ráðstöfunar með sambærilegum lánskjörum og þeir sæta sjálfir að viðbættum hæfilegum vaxtamun og að teknu tilliti til annarra tekna sjóðanna. Jafnframt skulu þeir gæta þess að gengistryggðar, verðtryggðar og óverðtryggðar eignir og skuldbindingar standist í meginatriðum á.
Viðskiptaráðherra lætur fara fram árlega og oftar, ef þurfa þykir, athugun á lánskjörum fjárfestingarlánasjóða, sbr. ákvæði 1. mgr., og skal þá bera þau saman við samsetningu þess fjármagns sem sjóðirnir hafa yfir að ráða og þau lánskjör sem almennt gilda á lánamarkaði á sambærilegum lánveitingum.] 1)
    1)L. 67/1989, 6. gr.
[19. gr. Viðskiptaráðherra er heimilt að undangenginni athugun skv. 2. mgr. 18. gr. og að fengnum tillögum Seðlabanka Íslands að setja meginreglur um lánskjör þeirra fjárfestingarlánasjóða sem ákvæði þessa kafla ná til. Stjórnir þeirra sjóða, sem hlut eiga að máli, skulu síðan gera tillögur til Seðlabanka Íslands um lánskjör þeirra innan ramma slíkra meginreglna.
Seðlabanki Íslands staðfestir ákvörðun stjórnar fjárfestingarlánasjóðs um lánskjör enda leiði undanfarandi athugun í ljós að hún samræmist meginreglu skv. 1. mgr.] 1)
    1)L. 67/1989, 6. gr.

[V. kafli. Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.]1)
    1)L. 13/1995, 1. gr.
[20. gr. Ákvæði kafla þessa gilda um skuldbindingar um sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem áskilið er að greiðslurnar skuli breytast í hlutfalli við verðvísitölu eða vísitölu gengis á erlendum gjaldmiðli, sbr. 21. gr.] 1)
    1)L. 13/1995, 1. gr.
[21. gr. Það er skilyrði verðtryggingar sparifjár og lánsfjár skv. 20. gr. að grundvöllur hennar sé annaðhvort:
    1. vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði eða
    2. vísitala gengis á erlendum gjaldmiðli eða samsettum gjaldmiðlum sem Seðlabanki Íslands reiknar og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Viðskiptaráðherra setur að fenginni tillögu Seðlabankans nánari ákvæði um gengisvísitölur í reglugerð. 1)
   Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir vegna verðtryggingar sparifjár og lánsfjár næsta mánuð á eftir.
Seðlabankinn getur að fengnu samþykki viðskiptaráðherra heimilað að fleiri opinberlega skráðar vísitölur en tilgreindar eru í 1. mgr. geti verið grundvöllur verðtryggingar sparifjár og lánsfjár.
Seðlabankinn skal að fengnu samþykki viðskiptaráðherra ákveða lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána. Bankinn getur jafnframt að fengnu samþykki ráðherra ákveðið að vextir verðtryggðra innstæðna eða lána skuli vera óbreytanlegir á lánstímanum.] 2)
    1)Rg. 151/1995. 2)L. 13/1995, 1. gr.
[22. gr. Þegar skuldbindingum með ákvæðum um verðtryggingu er þinglýst hjá sýslumönnum skulu þeir gæta þess að ákvæðanna sé getið í veðmálaskrám og að þær komi fram á veðbókarvottorðum.] 1)
    1)L. 13/1995, 1. gr.
[23. gr. Seðlabankinn setur nánari reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. 1) Í þeim skal meðal annars kveðið á um jöfnuð verðtryggðra eigna og skulda viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana. Seðlabankinn getur beitt viðskiptabanka, sparisjóði og aðrar lánastofnanir viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga um Seðlabanka Íslands sé ákvörðunum bankans í þessum efnum ekki sinnt.] 2)
    1)Rg. 152/1995 og 330/1995. 2)L. 13/1995, 1. gr.
[24. gr. Vísitala neysluverðs, sbr. 21. gr., með grunninn 100 í maí 1988, skal í hverjum mánuði margfölduð með stuðlinum 19,745. Útkoman, án aukastafa, skal gilda sem vísitala fyrir næsta mánuð á eftir, í fyrsta sinn fyrir apríl 1995, gagnvart fjárskuldbindingum sem samið hefur verið um fyrir 1. apríl 1995 og eru með ákvæðum um lánskjaravísitölu þá sem Seðlabanki Íslands reiknaði og birti mánaðarlega samkvæmt heimild í 39. gr. laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., sbr. reglugerð nr. 18/1989. Hagstofan skal birta mánaðarlega í Lögbirtingablaði vísitölu skv. 2. málsl. þessarar málsgreinar.
Verði gerð breyting á grunni vísitölu neysluverðs skal Hagstofan birta í Lögbirtingablaði margfeldisstuðul fyrir þannig breytta vísitölu í stað stuðulsins sem getið er í 1. mgr.
Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda einnig um lánskjaravísitölu í lögum og hvers kyns stjórnvaldsfyrirmælum öðrum og samningum sem í gildi eru 1. apríl 1995.] 1)
    1)L. 13/1995, 1. gr.

[VI. kafli.]1) Viðurlög og málsmeðferð.
    1)L. 13/1995, 1. gr.
[25. gr.]1) [Hver, sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi hagnýtir sér á óréttmætan hátt fjárþröng viðsemjanda síns eða aðstöðumun þeirra að öðru leyti til þess að áskilja sér vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar umfram gildandi vaxtamörk sambærilegra útlánsvaxta hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum á þeim tíma er til skuldar er stofnað, sbr. 8. gr., skal sæta sektum … 2) eða fangelsi allt að einu ári. Sé brot ítrekað eða sakir miklar varðar brotið … 2) fangelsi allt að tveimur árum.
Hafi Seðlabanki Íslands hlutast til um vexti útlána hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum á grundvelli 9. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, með síðari breytingum, skulu gildandi vaxtamörk útlána þau sömu og Seðlabankinn ákveður.] 3)
Ákvæði 1. mgr. tekur einnig til þeirra sem bera fyrir sig eða framselja samning eins og þar er lýst eða hafa af honum óréttmætan ávinning. Um hlutdeild í brotum að öðru leyti og um tilraun til brota fer eftir III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
Gera má lögaðila fésekt fyrir brot á lögum þessum án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á fyrirsvarsmann eða starfsmann lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má einnig gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu.
    1)L. 13/1995, 1. gr. 2)L. 82/1998, 184. gr. 3)L. 67/1989, 7. gr.
[26. gr.]1) Hver, sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi áskilur sér hærri dráttarvexti en leyfilegt er samkvæmt lögum þessum, skal sæta sektum … 2) eða fangelsi allt að einu ári. Sé brot ítrekað eða sakir miklar varðar brotið … 2) fangelsi allt að tveimur árum.
Ákvæði 2. og 3. mgr. 17. gr. 3) taka til brota gegn þessari grein, eftir því sem við getur átt.
    1)L. 13/1995, 1. gr. 2)L. 82/1998, 184. gr. 3)Nú 3. og 4. mgr. 25. gr.
[27. gr.]1) Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ólögmætur er sá samningur ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft. Oftekna vexti fram að gjalddaga skuldar skal þá miða við það sem er umfram hæstu auglýstu útlánsvexti viðskiptabanka og sparisjóða á hliðstæðum lánum á þeim tíma er til skuldar var stofnað.
    1)L. 13/1995, 1. gr.
[28. gr.]1) [Mál út af refsiverðum brotum gegn lögum þessum sæta meðferð opinberra mála. Endurgreiðslukröfur og aðrar einkaréttarkröfur má hafa uppi og dæma í slíkum málum.] 2)
    1)L. 13/1995, 1. gr. 2)L. 19/1991, 195. gr.

[VII. kafli.]1) Gildistaka og bráðabirgðaákvæði.
    1)L. 13/1995, 1. gr.
[29. gr.]1) Lög þessi öðlast þegar gildi. …
Ákvæði II. kafla laga þessara taka til allra skulda sem stofnast eftir gildistöku laganna.
    1)L. 13/1995, 1. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
II. Nú segir í lánssamningi, gerðum fyrir gildistöku laga þessara, að við vanskil reiknist hæstu lögleyfðir dráttarvextir eins og þeir eru á hverjum tíma og skulu þá dráttarvextir þessir fara eftir 10. gr. laga þessara.
Komi fram í lánssamningi um verðtryggt lán, gerðum fyrir gildistöku laga þessara, að verðtrygging skuli haldast ef greiðsludráttur verður skal regla 16. gr. laga þessara gilda allt að einu um lánssamning þennan.
III. Nú segir í lánssamningi, gerðum fyrir gildistöku laga þessara, að vextir af láni fram að gjalddaga skuli vera breytilegir í samræmi við hæstu lögleyfða vexti á hverjum tíma eða hæstu vexti á markaðnum á hverjum tíma og skulu þá vextir af þessum lánum eftir gildistöku laganna verða jafnháir vegnu meðaltali vaxta af hliðstæðum lánum hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum eins og þeir eru á hverjum tíma.