Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. janúar 1999.  Útgáfa 123a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Háskóla Íslands

1990 nr. 131 31. desemberI. kafli. Hlutverk Háskóla Íslands.
1. gr. Háskóli Íslands skal vera vísindaleg rannsóknarstofnun og vísindaleg fræðslustofnun, er veiti nemendum sínum menntun til þess að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum og til þess að gegna ýmsum embættum og störfum í þjóðfélaginu.

II. kafli. Stjórn háskólans.
2. gr. Stjórn háskólans er falin háskólaráði, rektor, deildum, deildarforsetum og framkvæmdastjórum stjórnsýslusviða. Háskólaráð hefur, svo sem lög mæla og nánar segir í reglugerðum, úrskurðarvald í málefnum háskólans og háskólastofnana, vinnur að þróun og eflingu þeirra og markar þeim heildarstefnu. Háskólaráð er æðsti ákvörðunaraðili innan háskólans, nema annað sé ótvírætt tekið fram í lögum eða reglugerðum.
Háskólaráði er heimilt að skipa starfsnefndir sem eru því til ráðgjafar og aðstoða við stefnumótun.
Rektor er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og er æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan. Hann hefur almennt eftirlit með starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki heildarstefnu í málefnum stofnunarinnar.
Í umboði rektors, og svo sem lög mæla og nánar segir í reglugerðum, hafa framkvæmdastjórar stjórnsýslusviða yfirumsjón og eftirlit með hinni almennu stjórnsýslu háskólans, en deildarforsetar hafa eftirlit með starfi og stjórnsýslu deilda.
Svið hinnar almennu stjórnsýslu skulu vera: Fjármálasvið, samskiptasvið, starfsmannasvið, bygginga- og tæknisvið, rannsóknasvið og kennslusvið. Framkvæmdastjóri fjármálasviðs ber heitið háskólaritari. Hann hefur í umboði rektors og háskólaráðs heimild til að skuldbinda háskólann og háskólastofnanir fjárhagslega, hefur yfirumsjón með gerð fjárhagsáætlunar háskólans og framkvæmd hennar samkvæmt fjárlögum og hefur umsjón með sjóðum hans. Ábyrgðarsvið annarra framkvæmdastjóra stjórnsýslusviða skulu afmörkuð í reglugerð.
Rektor, deildarforsetar og framkvæmdastjórar stjórnsýslusviða leysa úr þeim málum sem þurfa ekki að koma fyrir háskólaráð, háskóladeildir eða stjórnvöld af laganauðsyn eða samkvæmt venju.
Áður en lögum og reglugerðum, er snerta háskólann eða háskólastofnanir, verður breytt eða við þau aukið skal leita umsagnar háskólaráðs um breytingar eða viðauka, svo og um nýmæli. Nú varðar málefni sérstaklega eina deild og skal háskólaráð þá leita álits hennar áður en það lætur uppi umsögn sína.
Háskólinn á stjórnarfarslega undir menntamálaráðherra.
3. gr. Rektor er kjörinn til þriggja ára í senn, og eru [prófessorar sem ráðnir eru ótímabundið í fullt starf] 1) einir kjörgengir. Atkvæðisrétt eiga prófessorar, dósentar og lektorar og allir þeir, sem [ráðnir eru í fullt starf] 1) við háskólann og stofnanir hans og hafa háskólapróf. [Nú er háskólakennari í orlofi og annar maður er ráðinn til að gegna starfi hans tímabundið og fer hann þá með atkvæðisrétt þess sem í orlofi er.] 1) Þá eiga allir stúdentar, sem skrásettir eru í Háskóla Íslands tveimur mánuðum á undan rektorskjöri, atkvæðisrétt. Greidd atkvæði stúdenta skulu gilda sem einn þriðji hluti greiddra atkvæða alls, en greidd atkvæði annarra atkvæðisbærra aðila skulu gilda sem tveir þriðju hlutar greiddra atkvæða alls.
Rektorskjör fer fram í aprílmánuði, en rektor tekur við störfum með byrjun háskólaárs.
Sá er rétt kjörinn rektor, sem hlotið hefur meiri hluta greiddra atkvæða, sbr. 1. mgr. Ef enginn fær svo mörg atkvæði, skal kjósa að nýju eftir viku um þá tvo eða fleiri, sem flest atkvæði fengu, og er þá sá rétt kjörinn, er flest atkvæði fær. Séu atkvæði jöfn, ræður hlutkesti. Um tilhögun kosningar skal kveða nánar á í reglugerð.
Kjörgengum háskólakennara er skylt að taka við rektorskjöri, nema sérstök atvik hamli. Nú skorast sá, sem kjörinn hefur verið rektor, undan því að taka við kjöri, og metur þá háskólaráð, hvort fallist verði á afstöðu hans. Ef háskólaráð fellst á sjónarmið hins nýkjörna rektors, skal efna hið fyrsta til nýrrar rektorskosningar.
Rektor má endurkjósa, en honum er ekki skylt að taka við endurkjöri.
Nú fellur rektor frá eða lætur af störfum, áður en kjörtímabil hans er liðið, og skal þá kjósa nýjan rektor, svo fljótt sem því verður komið við, en varaforseti háskólaráðs gegni rektorsstörfum þangað til. Varaforseti háskólaráðs gegnir og störfum rektors, ef hann forfallast vegna veikinda eða fær leyfi frá störfum. Ef varaforseti er forfallaður, gegnir sá deildarforseti rektorsstörfum, sem lengst hefur haft á hendi [kennarastarf] 1) við háskólann. Hinn nýkjörni rektor er kosinn til þriggja ára, en það, sem eftir er háskólaárs, er hann tekur við, skal teljast eitt ár.
    1)L. 83/1997, 126. gr.
4. gr. [Í háskólaráði eiga sæti rektor, forsetar háskóladeilda, tveir fulltrúar, kjörnir til tveggja ára í senn í skriflegri atkvæðagreiðslu á vegum Félags háskólakennara úr hópi þeirra félagsmanna sem ekki eru kjörgengir til starfa deildarforseta, og fjórir fulltrúar stúdenta, kjörnir hlutfallskosningu í sérstökum kosningum til tveggja ára í senn. Kjörinn skal einn fulltrúi Félags háskólakennara og tveir fulltrúar stúdenta árlega. Einnig eiga setu á fundum ráðsins háskólaritari, landsbókavörður og einn kjörinn fulltrúi starfsmanna í stjórnsýslu Háskólans.] 1) Rektor er forseti ráðsins, en varaforseta og ritara kýs ráðið úr hópi deildarforseta til eins árs í senn.
Nú má deildarforseti ekki sækja fund vegna forfalla eða af öðrum ástæðum og tekur þá sá kennari, sem kosinn hefur verið deildarforseti til vara, sbr. 13. gr., sæti hans í ráðinu. Ef þess manns nýtur ekki, kveður rektor til fundarsetu þann prófessor úr deild þeirri, sem í hlut á, er lengst hefur gegnt [kennarastarfi] 2) í deildinni. Sömu reglur gilda, er deildarforseti gegnir rektorsstörfum í viðlögum, sbr. 3. gr.
Nú mega fulltrúar stúdenta eða fulltrúar, er Félag háskólakennara tilnefnir, ekki sækja fund háskólaráðs, og taka varamenn þeirra, sem nefndir eru með sama hætti og aðalmenn, þá sæti þess, sem forfallaður er.
    1)L. 71/1994, 13. gr. 2)L. 83/1997, 127. gr.
5. gr. Háskólaráð heldur fundi eftir þörfum. Æski tveir menn úr háskólaráði fundar, er rektor skylt að boða til hans, svo og ef einn þriðji hluti fastráðinna og settra kennara háskólans æskir fundar. Nú er fundur boðaður að frumkvæði kennara, sem eiga ekki sæti í ráðinu, og er þeim þá rétt að senda fulltrúa, einn eða fleiri eftir ákvörðun rektors, á fundinn. Hafa slíkir fulltrúar málfrelsi á fundinum, en atkvæðisrétt eiga þeir ekki.
Háskólaráð er ekki ályktunarfært, nema tveir þriðju hlutar atkvæðisbærra háskólaráðsmanna sæki fund hið fæsta. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði eru jöfn, sker atkvæði rektors úr eða þess, er gegnir forsetastörfum.
6. gr. Rektor eða háskólaráð geta boðað til almenns kennarafundar til umræðna um einstök málefni háskólans eða stofnana hans. Nú æskir einn þriðji hluti prófessora, dósenta og lektora fundar, og er rektor þá skylt að boða til hans. Allir kennarar háskólans eiga rétt á að sækja almenna kennarafundi og njóta atkvæðisréttar þar. Ályktanir kennarafunda eru ekki bindandi fyrir háskólaráð.
7. gr. Háskólaráð ræður framkvæmdastjóra stjórnsýslusviða til fimm ára í senn. Rektor ræður annað starfslið almennrar stjórnsýslu eftir því sem fé er veitt til. Deildarforsetar ráða starfslið einstakra deilda að höfðu samráði við rektor og eftir því sem fé er veitt til.
Háskólaráð skipar umsjónarmann með byggingum háskólans og innanstokksmunum.
Um starfslið háskólabókasafns segir í 36. gr. laga þessara, en um starfslið annarra stofnana háskólans og fyrirtækja fer eftir því, sem segir í lögum eða samþykktum þeirra.
8. gr. Heimilt er að kveða nánar á í reglugerð 1) um starfssvið og starfshætti háskólaráðs, rektors og framkvæmdastjóra stjórnsýslusviða. Háskólaráð setur öðru starfsliði stjórnsýslu erindisbréf.
    1) Rg. A 98/1993. Sjá einnig neðanmgr. með 40. gr. þ.l. um breytingar á reglugerðinni.

III. kafli. Háskólakennarar og háskóladeildir.
9. gr. Háskóladeildir eru grunneiningar háskólans. Innan þeirra fer fram kennsla, rannsóknir og stjórnun. Deildir eru sjálfráðar um eigin málefni innan þeirra marka er sameiginlegar reglur háskólans setja. Reglubundið mat skal fara fram á starfi deilda.
Í Háskóla Íslands eru þessar deildir: Guðfræðideild, læknadeild, lagadeild, heimspekideild, verkfræðideild, viðskipta- og hagfræðideild, tannlæknadeild, félagsvísindadeild og raunvísindadeild.
Við háskólann starfa rannsóknastofnanir samkvæmt ákvörðun háskóladeilda og háskólaráðs og með samþykki menntamálaráðherra, og skulu þær að jafnaði heyra undir háskóladeild. Í reglugerð 1) eða samþykktum má m.a. kveða á um starfssvið stofnunar, stjórn hennar og tengsl við háskóladeild og háskólaráð.
Heimilt er að stofna til námsbrauta, sem veiti sérhæfða menntun, er leiði til háskólaprófs, þegar svo stendur á, að náminu verður ekki komið fyrir innan háskóladeilda. Háskólaráð kveður á um stofnun slíkra námsbrauta með samþykki menntamálaráðherra, að fengnum tillögum um námsskipan og stjórn. Nánari ákvæði um námsbraut skulu sett í reglugerð háskólans.
    1)Rg. 190/1974 (Lagastofnun); rg. 191/1974 (Líffræðistofnun); rg. 318/1975 (Guðfræðistofnun); rg. 537/1975, sbr. 689/1981 (Raunvísindastofnun); rg. 598/1982 (stofnun í erlendum tungumálum); rg. 599/1982 (Heimspekistofnun); rg. 89/1983 (rannsóknastofnanir við heimspekideild HÍ); rg. 243/1985 (Félagsvísindastofnun); rg. 410/1986 (Stofnun Sigurðar Nordals); rg. 449/1988 (rannsóknastofnun í siðfræði); rg. 188/1989 (Hagfræðistofnun); rg. 125/1990 (Rannsóknastofa í kvennafræðum); rg. 212/1990 (Alþjóðamálastofnun HÍ); rg. 211/1992 (Viðskiptafræðistofnun HÍ); rg. 105/1993 (Verkfræðistofnun); rg. 333/1995 (Lífeðlisfræðistofnun HÍ); rg. 119/1997 (Mannfræðistofnun); rg. 122/1997 (Umhverfisstofnun); rg. 124/1997 (Rannsóknarstofnun í hjúkrunarfræði); rg. 125/1997 (Tannlækningastofnun); rg. 126/1997 (Lyfjafræðistofnun); rg. 346/1998 (Reiknistofnun); rg. 350/1998, sbr. 591/1998 (Orðabók).
10. gr. Kennarar háskólans eru prófessorar, dósentar, lektorar, þ. á m. erlendir lektorar, aðjúnktar og stundakennarar.
Prófessorar, dósentar og lektorar skulu vera þeir, sem hafa kennslu og rannsóknir við háskólann að aðalstarfi.
Nú hefur háskólinn ekki tök á að koma upp rannsóknaaðstöðu í tiltekinni kennslugrein, og má þá samkvæmt tillögu háskólaráðs og viðkomandi háskóladeildar tengja slíka kennarastöðu tiltekinni stöðu eða starfsaðstöðu við opinbera stofnun utan háskólans, enda sé slík tilhögun heimiluð í reglum stofnunarinnar eða samþykkt af stjórn hennar. Um [ráðningu í slíkt kennarastarf] 1) fer eftir lögum og reglugerð fyrir háskólann. [Ráðning í slíkt starf má vera tímabundin til allt að tveggja ára í senn.] 1) Við [ráðningu] 1) skal starfsheiti ákveðið og kveðið á um starfsskyldur, eftir því sem tilefni er til. Þess skal jafnan gætt, að starfsaðstaða og starfsskyldur fullnægi þeim kröfum, sem gera verður samkvæmt háskólalögum að fylgi slíkri stöðu. Nánari ákvæði um fyrirkomulag þeirra [ráðninga], 1) sem hér um ræðir, má setja í reglugerð, eftir því sem nauðsynlegt þykir. Heimild þessarar málsgreinar nær ekki til [prófessorsstarfs], 1) sbr. þó 38. gr.
[Heimilt er, með samþykki háskólaráðs að tillögu háskóladeildar, að ráða dósent eða lektor tímabundinni ráðningu til allt að tveggja ára í senn. Um tilhögun slíkrar ráðningar skal setja ákvæði í reglugerð.] 1)
Háskólaráð setur meginreglur um starfsskyldur háskólakennara og leysir úr því, hvernig starfsskylda einstakra kennara skuli skiptast, sbr. nánar í 1. mgr. 18. gr.
Aðjúnktar eru ráðnir [tímabundið til allt að tveggja ára í senn] 1) og taka þeir mánaðar- eða árslaun. Stundakennarar svo og styrkþegar eru ráðnir til skemmri tíma og taka stundakennslulaun, mánaðar- eða árslaun. Í hvert skipti, er nýr kennari ræðst að háskólanum, skal afmarka stöðu hans með starfsheiti.
Í reglugerð má mæla fyrir um starfsheiti fastráðinna starfsmanna háskólastofnana.
Dósentar og lektorar, sem nú starfa við háskólann og skipaðir voru fyrir gildistöku laga nr. 22/1969, halda starfsheitum sínum.
    1)L. 150/1996, 15. gr.
11. gr. [Ráðherra ræður prófessora, en rektor ræður dósenta og lektora.] 1) Eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum ræður háskólaráð aðjúnkta og erlenda lektora að fengnum tillögum háskóladeildar, en háskóladeild stundakennara og styrkþega.
Umsækjendur um [prófessorsstörf], 1) dósentsstörf og lektorsstörf skulu láta fylgja umsókn sinni rækilega skýrslu um vísindastörf þau, er þeir hafa unnið, ritsmíðar og rannsóknir, svo og námsferil sinn og störf.
Skipa skal hverju sinni þriggja manna nefnd til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna … 1) starfinu. Háskólaráð skipar einn nefndarmann, menntamálaráðherra annan, en deild sú, sem hann á að starfa við, hinn þriðja, og er hann formaður. Í nefnd þessa má skipa þá eina, er lokið hafa háskólaprófi á hlutaðeigandi fræðasviði, eða eru að öðru leyti viðurkenndir sérfræðingar á því sviði. Dómnefndarmenn skulu, eftir því sem við á, uppfylla hin sérstöku dómaraskilyrði … 2) Háskólaráð skipar ritara dómnefnd til ráðuneytis, leiðbeiningar og annarrar aðstoðar. Háskólaráð setur reglur 3) um starfshætti dómnefndar og hlutverk ritara og skulu þær lagðar fyrir menntamálaráðherra til staðfestingar.
Dómnefnd skal láta uppi rökstutt álit um það hvort af vísindagildi rita umsækjenda og rannsókna svo og námsferli þeirra og störfum megi ráða að þeir séu hæfir til að gegna … 1) starfinu. Leita skal álits hlutaðeigandi skorar áður en háskóladeild fjallar um umsækjendur sem dómnefnd telur hæfa. Eiga fulltrúar stúdenta á skorar- og deildarfundi þá ekki atkvæðisrétt. Engum má veita [prófessorsstarf], 1) dósentsstarf eða lektorsstarf við Háskólann nema meiri hluti dómnefndar telji hann hæfan og meiri hluti viðstaddra á deildarfundi greiði honum atkvæði í … 1) starfið. Ef fleiri umsækjendur en tveir eru í kjöri við atkvæðagreiðsluna á deildarfundi og enginn þeirra hlýtur meiri hluta við fyrstu atkvæðagreiðslu skal kosið á ný milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Nú fellst menntamálaráðherra ekki á tillögu deildarfundar og skal þá auglýsa … 1) starfið að nýju.
Heimilt er að kveða svo á í reglugerð að framangreind ákvæði skuli gilda um sérfræðinga við rannsóknastofnanir eða aðrar háskólastofnanir.
Heimilt er að flytja lektor í dósentsstöðu og dósent í [prófessorsstarf] 1) samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
Háskólaráð getur lagt til að forstöðumaður háskólastofnunar sé fluttur í [prófessorsstarf] 1) eftir sömu reglum og gilda um flutning dósents í [prófessorsstarf]. 1)
    1)L. 150/1996, 16. gr. 2)L. 91/1991, 160. gr. 3) Augl. 366/1997.
12. gr. [[Þegar sérstaklega stendur á getur menntamálaráðherra, samkvæmt tillögu háskóladeildar og með samþykki háskólaráðs, boðið vísindamanni að taka við prófessorsstarfi við háskólann án þess að það sé auglýst laust til umsóknar. Á sama hátt getur rektor boðið vísindamanni að taka við lektors- eða dósentsstarfi.] 1)
Rektor skal heimilt, samkvæmt tillögu háskóladeildar, að auglýsa kennarastarf laust til umsóknar, svo að starfið verði veitt ári áður en hinn nýráðni kennari hefur kennslu sína. Kveða skal á um það hverju sinni frá hvaða tíma launagreiðslur hins nýráðna kennara hefjist.] 2)
    1)L. 83/1997, 128. gr. 2)L. 150/1996, 17. gr.
13. gr. Hver háskóladeild velur úr hópi prófessora deildarinnar deildarforseta og annan til vara. Deildarforseti á sæti í háskólaráði, en varaforseti tekur sæti hans þar eftir reglum 4. gr.
Deildarforseta og varaforseta skal kjósa til tveggja ára í senn. Kjörgengum kennurum er skylt að taka við kosningu til deildarforsetastarfa og til starfa varadeildarforseta. Endurkjósa má deildarforseta, en rétt hefur hann til að skorast undan endurkjöri. Sá, sem gegnt hefur embætti rektors, getur og skorast undan kjöri til deildarforsetastarfa næsta kjörtímabil, eftir að hann lét af rektorsstörfum. Nú fellur deildarforseti frá eða lætur af störfum, og skal þá kjósa deildarforseta og varaforseta fyrir þann hluta kjörtímabils, sem eftir er.
14. gr. Hver háskóladeild heldur fundi eftir þörfum. Deildarforseti boðar fundi, og eiga þar sæti prófessorar, dósentar og lektorar, sbr. 10. gr. 1. mgr., svo og forstöðumenn vísindastofnana, er lúta deildinni, og er þeim skylt að sækja fundi. Enn fremur eiga þar sæti þrír fulltrúar stúdenta í deildum, þar sem tala annarra, sem rétt hafa til fundarsetu með atkvæðisrétti samkvæmt lögum eða deildarsamþykktum, er tólf eða færri, og síðan einn fulltrúi stúdenta fyrir hverja sex til viðbótar. Háskóladeild er heimilt að ákveða, að dósentar og lektorar í hlutastarfi, svo og aðjúnktar, megi sitja deildarfundi með atkvæðisrétti.
Kennari, sem [fær lausn] 1) undan kennsluskyldu, skal jafnframt vera undan þeirri skyldu þeginn að sækja deildarfundi, enda á hann ekki atkvæðisrétt á fundum, meðan lausnin stendur. Heimilt er að veita lausn undan kennsluskyldu með þeim áskilnaði, að skyldur og réttindi til stjórnunarstarfa séu óbreytt. Kennari, sem háskólaráð hefur veitt rannsóknarleyfi samkvæmt kjarasamningi, skal eiga rétt til setu á deildarfundi með fullum réttindum, ef hann æskir þess.
Nú er fjallað sérstaklega um kennslugreinar kennara, sem ekki eiga sæti á deildarfundi, og skal deildarforseti þá boða þá á deildarfund og gefa þeim kost á að ræða það málefni, en atkvæðisrétt eiga þeir ekki.
Heimilt er að ákveða í reglugerð að deild sé skipt í skorir eftir kennslugreinum og fjalli hver skor um málefni kennslugreinarinnar eftir því sem nánar segir í reglugerð. Enn fremur eiga þar sæti tveir fulltrúar stúdenta í skor þar sem tala annarra, sem rétt hafa til fundarsetu með atkvæðisrétti, er átta eða færri og síðan einn fulltrúi stúdenta fyrir hverja fimm til viðbótar.
Heimilt er að setja ákvæði í reglugerð um stjórnunarnefnd í háskóladeild (deildarráð) og skal þá m.a. kveða á um fjölda nefndarmanna, starfssvið og starfshætti. Í deildarráði skulu sitja tveir fulltrúar stúdenta þar sem tala annarra, sem rétt hafa til fundarsetu með atkvæðisrétti, er átta eða færri og síðan einn fulltrúi stúdenta fyrir hverja fimm til viðbótar. Heimilt er háskóladeild á fundi að afsala sér ákvörðunarvaldi í tilteknum málum eða málaflokkum til slíkrar stjórnarnefndar og afturkalla heimildina að því er varðar mál er eigi hafa hlotið afgreiðslu í nefndinni.
Rektor er heimilt að taka þátt í meðferð mála í öllum deildum, en atkvæðisrétt á hann þó aðeins í sinni deild.
    1)L. 83/1997, 129. gr.
15. gr. Deildarforseta er skylt að boða til deildarfundar, ef rektor eða þriðjungur deildarmanna, sem rétt eiga á fundarsetu, æskja fundar.
Deildarfundur er ályktunarfær, ef fund sækja eigi færri en helmingur atkvæðisbærra manna. Nú eru atkvæði jöfn, og ræður þá atkvæði deildarforseta, eða þess, er gegnir forsetastörfum.
Deildarforseti hefur yfirumsjón með að ákvarðanir deilda og deildarráðs séu framkvæmdar. Hann er yfirmaður stjórnsýslu deildar. Hann hefur frumkvæði að mótun heildarstefnu fyrir deild, gerð fjárhagsáætlunar og forgangsröð verkefna. Hann hefur eftirlit með notkun fjárveitinga. Hann skal stuðla að samstarfi og samræmingu við aðrar deildir og stjórnsýslusvið.
16. gr. Hver deild eða námsbraut semur kennsluskrá fyrir sig og skal þar gerð grein fyrir námsefni, kennsluháttum, prófkröfum, stjórn deildar- og námsbrautamála og félagsmálum stúdenta. Við hverja deild, skor og námsbraut skulu starfa ráðgefandi námsnefndir sem jafnmargir kennarar og nemendur eiga sæti í. Hlutverk námsnefnda er að fjalla um tillögur um námsefni í hverri kennslugrein, semja umsagnir og tillögur um námsskipan og kennslufyrirkomulag greinar.

IV. kafli. Kennsla og nemendur.
17. gr. [Háskólaárið telst frá 5. september til jafnlengdar næsta ár. Kennsluár Háskólans skiptist í tvö kennslumissiri, haustmissiri og vormissiri. Missiraskipting, leyfi og önnur kennsluhlé skulu ákveðin í reglugerð. Háskólaráði er heimilt að ákveða sérstaka missiraskiptingu fyrir einstakar deildir og námsbrautir.] 1)
    1)L. 133/1990, 1. gr.
18. gr. Háskólaráð ákveður, að fenginni umsögn háskóladeildar, hvernig starfsskylda einstakra háskólakennara skuli skiptast milli kennslu og annarra starfsþátta. Nú unir kennari ekki úrlausn háskólaráðs, og má hann þá skjóta úrlausninni til menntamálaráðherra, sem leysir til fullnaðar úr þessu efni.
Rektor á rétt á að vera leystur að fullu [frá starfi sínu] 1) sem prófessor meðan hann gegnir rektorsembættinu. Rektor gerir að fenginni umsögn deildar tillögu til menntamálaráðherra um hvern setja skuli í [starfið]. 1)
Deildarforsetar eiga rétt á að vera leystir undan skyldum í sínu fasta starfi að nokkru eða öllu leyti. Rektor ákveður með samþykki menntamálaráðherra hvernig ráðstafa skuli starfsskyldum þeirra.
    1)L. 83/1997, 130. gr.
19. gr. Rektor getur með samþykki deildarforseta veitt kennurum leyfi í bili frá störfum, allt að fjórum vikum, svo og tilflutning á skyldustörfum innan háskólaársins. Endranær er menntamálaráðherra heimilt, með samþykki rektors, að fenginni umsögn háskóladeildar, að veita kennara leyfi frá störfum að hluta eða að öllu leyti um tiltekinn tíma. Kennari sá, er sækir um leyfi í eitt ár eða skemur, getur tilnefnt kennara í sinn stað með samþykki háskóladeildar í þeim tilvikum þegar leyfið í heild varir eigi lengri tíma en eitt ár. Vari leyfi lengur en eitt ár skal háskóladeild taka afstöðu til þess hvernig með [starfið] 1) skuli fara og gera um það tillögu til ráðherra.
    1)L. 83/1997, 131. gr.
20. gr. Fyrirlestrar, æfingar og námskeið eru fyrir skrásetta stúdenta, en kennara er heimilt að veita öðrum kost á að sækja slíka kennslu, nema háskólaráð mæli öðruvísi fyrir.
21. gr. Hver sá, sem staðist hefur fullnaðarpróf frá íslenskum skóla, sem heimild hefur til að brautskrá stúdenta, á rétt á að vera skrásettur háskólaborgari, gegn því að greiða skrásetningargjald.
Rektor getur leyft, að skrásettir verði til náms menn, sem lokið hafa erlendis prófi eða prófum, er tryggja nægan undirbúning til námsins eigi miður en íslenskt stúdentspróf.
Háskólaráði er heimilt samkvæmt umsókn og að fengnum tillögum þeirrar deildar, er í hlut á, að leyfa skrásetningu einstaklinga, er lokið hafa öðru fullnaðarprófi frá menntaskóla en stúdentsprófi. Þá er háskólaráði og heimilt samkvæmt umsókn að leyfa skrásetningu einstaklinga er lokið hafa öðru námi hérlendis með þeim árangri, sem hlutaðeigandi deild eða námsbraut telur nægja til framhaldsnáms við Háskóla Íslands, enn fremur skal rektor vera þessum ráðstöfunum meðmæltur.
Raungreinadeildarpróf frá Tækniskóla Íslands veitir einnig rétt til skrásetningar til verkfræðináms, með fyrrgreindum skilyrðum. Heimilt er að setja í reglugerð ákvæði um, að ákveðin próf frá íslenskum skólum veiti rétt til skrásetningar í tiltekið nám við háskólann, enda hafi prófin verið metin jafngildi stúdentsprófs til undirbúnings viðkomandi námi.
Heimilt er að setja í reglugerð ákvæði um inntöku stúdenta í einstakar deildir.
[Við skrásetningu til náms greiðir stúdent skrásetningargjald, 24.000 kr. Upphæð gjaldsins kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Háskólaráði er heimilt að ráðstafa allt að 13% af gjaldinu til Félagsstofnunar stúdenta og allt að 10% til sérstakra verkefna samkvæmt samningi milli Háskólans og stúdentaráðs Háskóla Íslands sem háskólaráð staðfestir. Heimilt er að taka 15% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til skrásetningar utan skrásetningartímabila.
Þeir teljast einir stúdentar við Háskóla Íslands sem skrásettir hafa verið til náms. Í reglugerð má kveða nánar á um árlega skrásetningu stúdenta.] 1)
    1)L. 29/1996, 1. gr.
22. gr. Ákvæði um heilbrigðisskilyrði í sambandi við skrásetningar háskólastúdenta má setja í reglugerð.
Öllum skrásettum stúdentum er skylt að ganga undir heilbrigðisrannsóknir eftir því, sem háskólaráð áskilur.
23. gr. Ákvæði um eftirlit með námsástundun háskólastúdenta má setja í reglugerð háskólans.
24. gr. Háskólaráð getur veitt stúdent áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu, ef hann hefur gerst sekur um brot á lögum eða öðrum reglum háskólans.
Áður en brottrekstur er ráðinn, skal leita umsagnar háskóladeildar stúdents. Veita skal stúdent kost á að svara til saka. Enn fremur skal leita umsagnar stjórnar í deildarfélagi stúdents.
Brottrekstur skal þegar í stað tilkynna menntamálaráðuneytinu. Stúdent er heimilt að skjóta úrskurði háskólaráðs til menntamálaráðherra. Kæra frestar framkvæmd úrskurðar, en stúdent má þó ekki ganga undir próf, meðan á málskoti stendur.
Nú tekur stúdent sig á, og er háskólaráði þá heimilt að fella brott fyrri úrskurð um brottrekstur.
25. gr. Hljóti stúdent dóm fyrir refsivert brot, er hefur flekkun mannorðs í för með sér skv. 2. gr. l. nr. 52/1959, 1) er háskólaráði heimilt að víkja honum úr skóla. Stúdentinn getur skotið þeirri ákvörðun til menntamálaráðherra, með þeim hætti, er segir í 24. gr. Heimilt er háskólaráði að víkja stúdent úr skóla um stundarsakir, meðan rannsókn á slíku máli stendur yfir.
    1)l. 80/1987.
26. gr. Afskipti háskólans af háskólastúdent hætta, er stúdent lýkur fullnaðarprófi í grein sinni eða prófi, er sérstakur lærdómstitill er við tengdur, enda haldi hann ekki áfram óslitið námi í grein sinni til æðri prófstiga. Nú er mælt fyrir um, að stúdentar skuli skrá sig til náms hvert háskólaár, sem þeir stunda nám við skólann, og falla þeir þá niður af stúdentatali, ef þeir láta ekki skrá sig til náms.
Nú óskar stúdent að gera hlé á námi sínu heilt kennsluár eða lengur, og skal hann þá leita heimildar viðkomandi háskóladeildar eða námsbrautar og skrá sig árlegri skrásetningu, meðan á leyfistíma stendur, enda sé gætt ákvæða um tímamörk náms.

V. kafli. Próf.
27. gr. Í reglugerð háskólans skal setja ákvæði um prófgreinar, próftíma, skiptingu fullnaðarprófs í fleiri en einn hluta, undirbúningspróf, einkunnir og annað, er að prófunum lýtur.
Heimilt er í reglugerð að kveða á um hámarkstímalengd í námi eða einstökum hlutum þess og um afleiðingar, ef þeim ákvæðum er ekki fullnægt.
Nú stenst stúdent ekki próf, gengur frá því, eftir að hann hefur byrjað próf, eða kemur ekki til prófs og hefur ekki boðað forföll, og er honum þá heimilt að þreyta prófið að nýju innan árs. Háskóladeild getur þó veitt undanþágu frá ákvæðum þessarar málsgreinar, ef sérstaklega stendur á.
Í reglugerð má mæla fyrir um rétt manna, sem staðist hafa próf, til að endurtaka prófið.
28. gr. Háskólakennarar standa fyrir prófum, en hver deild ræður tilhögun prófa hjá sér, að svo miklu leyti sem ekki eru sett bindandi ákvæði um það í lögum eða reglugerð.
Munnleg próf skulu háð í heyranda hljóði. Þó er háskóladeild heimilt, ef sérstaklega stendur á, að ákveða, að slíkt próf skuli halda fyrir luktum dyrum.
29. gr. Við munnleg próf, sem teljast til fullnaðarprófs, skal vera einn prófdómari utan háskólans. Skrifleg próf dæma hlutaðeigandi kennarar einir.
Stúdent á rétt til að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar, ef hann æskir þess innan 15 daga frá birtingu einkunnar. Vilji stúdent, sem ekki hefur staðist próf, þá eigi una mati kennarans, getur hann snúið sér til viðkomandi deildarforseta. Skal þá prófdómari skipaður í hverju tilviki. Einnig getur kennari eða meiri hluti nemenda, telji þeir til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi.
Menntamálaráðherra skipar prófdómendur að fengnum tillögum háskóladeildar. Þá eina má skipa prófdómara, sem lokið hafa viðurkenndu fullnaðarprófi við háskóla í þeirri grein, sem dæma skal, eða getið hafa sér orðstír fyrir fræðimennsku í greininni. Prófdómendur skulu skipaðir til þriggja ára í senn, nema skipun sé samkvæmt 2. mgr. hér á undan.
Sé ekki völ á prófdómara hérlendis utan háskólans, er fullnægir skilyrðum 3. mgr. hér á undan, er menntamálaráðherra rétt að skipa háskólakennara til starfans að fenginni tillögu háskóladeildar.
30. gr. Forseti háskóladeildar metur, að höfðu samráði við greinarkennara, hvort viðurkenna skuli háskólapróf, sem stúdent hefur tekið erlendis, og að hverju leyti. Setja má almenn ákvæði í reglugerð um viðurkenningu erlendra prófa.

VI. kafli. Doktorar og meistarar.
31. gr. Háskóladeildir hafa rétt til að veita doktorsnafnbót. Slíka nafnbót má veita annaðhvort í heiðursskyni eða að undangengnu sérstöku prófi. Doktorsnafnbót í heiðursskyni verður ekki veitt nema með samþykki 3/ 4 hluta allra atkvæðisbærra deildarmanna og með samþykki háskólaráðs. Háskóladeildir standa fyrir doktorsprófi. Fulltrúar stúdenta á deildarfundum eiga aðeins atkvæðisrétt um veitingu doktorsnafnbóta í heiðursskyni.
32. gr. Sá, er æskir doktorsnafnbótar, skal að jafnaði hafa lokið kandídatsprófi eða embættisprófi.
33. gr. Sá, er æskir að taka doktorspróf, skal láta fylgja umsókn sinni vísindalega ritgerð eða ritgerðir, enda varði ritgerðir, ef því er að skipta, sama meginrannsóknarsvið og myndi nokkra heild. Umsókn skal stíluð til hlutaðeigandi háskóladeildar.
Í reglugerð skulu settar reglur um doktorspróf.
34. gr. Hver sá, er hlotið hefur doktorsnafnbót frá háskólanum, á rétt á að halda þar fyrirlestra í vísindagrein sinni, en tilkynna verður hann það háskólaráði.
Nú þykir doktor misbeita þessum rétti sínum, og getur þá háskólaráð svipt hann réttinum.
35. gr. Háskólaráð getur ákveðið í samþykkt samkvæmt tillögum háskóladeildar, að heimilt sé að ganga undir meistarapróf í grein, að loknu embættis- eða kandídatsprófi. Prófið er fólgið í samningu ritgerðar eða ritgerða, og má áskilja, að umsækjandi gangi einnig undir munnlegt próf í tilteknum greinum og haldi opinbera fyrirlestra. Ritgerð skal skila til þeirrar háskóladeildar, sem í hlut á.
Nánari reglur um meistarapróf skal setja í reglugerð.

VII. kafli. Stofnanir háskólans og eigur hans.
36. gr. Háskólaráð hefur yfirumsjón með einstökum háskólastofnunum, … 1) fyrirtækjum háskólans, svo sem kvikmyndahúsi, og með sjóðum skólans og öðrum eignum.
Í tengslum við skrifstofu háskólans starfar þjónustumiðstöð sem annast gerð samninga milli aðila innan háskólans og utan um einstök verkefni. Allir meiri háttar samningar eru háðir samþykki háskólaráðs.
Háskólanum skal heimilt með samþykki háskólaráðs og menntamálaráðherra að eiga aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum er séu hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða félög með takmarkaða ábyrgð og stundi framleiðslu og sölu, sem lýtur að slíkri starfsemi, í því skyni að þróa hugmyndir og hagnýta niðurstöður rannsókna og þjónustuverkefna sem háskólinn vinnur að hverju sinni.
Heimilt er háskólaráði, að fenginni staðfestingu menntamálaráðherra, að starfrækja endurmenntunarstofnun er hafi að meginhlutverki að standa fyrir endurmenntun háskólamanna. Slík endurmenntunarstofnun starfi í nánum tengslum við allar deildir háskólans. Háskólaráð getur heimilað að félög háskólamanna og aðrir skólar á háskólastigi taki þátt í stjórn stofnunarinnar, að fengnu samþykki menntamálaráðherra. Nánar skal kveðið á um starfssvið og stjórn slíkrar stofnunar í reglugerð. 2)
Við Háskóla Íslands skal starfrækt námsráðgjöf sem sérstök háskólastofnun. Háskólaráð setur reglur um stjórn stofnunarinnar og starfsemi.
Háskólanum skal heimilt að eiga og reka lyfjabúð til kennslu og rannsókna í lyfjafræði lyfsala.
1)
Háskólaráð setur einstökum fyrirtækjum háskólans samþykktir.
Um stjórn sjóða fer eftir því, sem stofnskrár eða aðrar samþykktir mæla fyrir um.
Um tengsl Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum við háskólann fer eftir því, sem segir í lögum nr. 67 11. maí 1990.
    1)L. 71/1994, 13. gr. 2)Rg. 540/1991.

VIII. kafli. [Kennarastörf]1) við Háskóla Íslands.
    1)L. 83/1997, 134. gr.
37. gr. [Ný prófessorsstörf verða stofnuð með ákvörðun menntamálaráðherra, að fengnum tillögum háskólaráðs og háskóladeildar. Önnur ný kennarastörf verða stofnuð með ákvörðun rektors, að fengnum tillögum háskóladeildar.] 1)
    1)L. 83/1997, 132. gr.
38. gr. Prófessorar, dósentar og lektorar í tilteknum kennslugreinum geta jafnframt haft starfsaðstöðu við opinberar stofnanir utan háskólans, ef háskólinn hefur ekki tök á að koma upp slíkri aðstöðu í viðkomandi fræðigrein. Þess skal jafnan gætt, að starfsaðstaða og starfsskyldur fullnægi þeim kröfum, sem gerðar eru um [slík störf], 1) samkvæmt háskólalögum. Heimild til slíkra starfa má aðeins veita með samþykki háskólaráðs og viðkomandi háskóladeildar í hverju einstöku tilviki.
Prófessorarnir í lyflæknisfræði og handlæknisfræði veita forstjórn lyflæknis- og handlæknisdeildum Landspítalans, prófessorinn í geðlæknisfræði skal vera forstöðumaður geðveikrahælisins á Kleppi, uns komið hefur verið á fót fleiri sjúkradeildum fyrir geðveika, og prófessorinn í meinafræði veitir jafnframt forstöðu rannsóknarstofu í meinafræði.
Prófessorinn í heilbrigðisfræði skal auk kennslunnar í þeirri grein annast heilbrigðislegar rannsóknir fyrir heilbrigðisstjórnina, þar á meðal, manneldisrannsóknir í samráði við manneldisráð. Prófessorinn í fæðingarhjálp og kvensjúkdómum veitir forstjórn fæðingardeild Landspítalans, og prófessorinn í röntgenfræði veitir forstjórn röntgendeild Landspítalans.
    1)L. 83/1997, 133. gr.

IX. kafli. Kennsla í lyfjafræði lyfsala.
39. gr. Við læknadeild skal stofna til kennslu í lyfjafræði lyfsala (pharmacia), og skal kveða á um námstilhögun í reglugerð.

X. kafli.
40. gr. Menntamálaráðherra leitar staðfestingar forseta Íslands á reglugerð 1) fyrir háskólann, að fengnum tillögum háskólaráðs. Í reglugerðinni er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara. Reglugerðarákvæði þau, sem í gildi eru við gildistöku laganna, halda gildi sínu, uns ný ákvæði eru sett.
    1) Rg. A 98/1993, sbr. A 101/1993, A 116/1994, A 118/1994, A 81/1995, A 113/1995, A 122/1995, A 3/1996, A 12/1996, A 32/1996, A 118/1996, A 105/1998 og A 107/1998.