Lagasafn. Íslensk lög 1. október 2000. Útgáfa 125b. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða
1997 nr. 129 23. desember
I. kafli.
Skyldutrygging, iðgjald og tryggingavernd.
1. gr. Lög þessi gilda um alla lífeyrissjóði og samninga um tryggingavernd eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum.

Með lífeyrissjóði er átt við félag eða stofnun sem veitir viðtöku iðgjaldi til greiðslu lífeyris vegna elli til æviloka, örorku eða andláts samkvæmt nánari ákvæðum í þessum kafla, II. og III. kafla.

Skyldutrygging lífeyrisréttinda felur í sér skyldu til aðildar að lífeyrissjóði og til greiðslu iðgjalds til lífeyrissjóðs og eftir atvikum til annarra aðila samkvæmt samningi um viðbótartryggingavernd.

Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá og með 16 ára til 70 ára aldurs.
2. gr. Iðgjald til öflunar lífeyrisréttinda skal ákveðið í sérlögum, kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti. Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skal vera a.m.k.10% af iðgjaldsstofni. [Iðgjaldi samkvæmt ákvörðun launamanns eða þess sem stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal varið til aukningar lífeyrisréttinda skv. II. eða III. kafla.]
1)

Um aðild að lífeyrissjóði, greiðslu lífeyrisiðgjalds og skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda fer eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein, eða sérlögum ef við á. Taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs eða séu ráðningarbundin starfskjör ekki byggð á kjarasamningi velur viðkomandi sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa. Aðild að lífeyrissjóði skal tiltaka í skriflegum ráðningarsamningi.

Sjóðfélagi er sá sem greitt er fyrir, greiðir eða hefur greitt iðgjald til lífeyrissjóðs og á hjá honum réttindi eins og nánar er fyrir mælt í lögum þessum. Óheimilt er að neita manni um aðild að lífeyrissjóði á grundvelli heilsufars, aldurs, hjúskaparstöðu, fjölskyldustærðar eða kyns.
1)L. 148/1998, 2. gr.
3. gr. Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skv. 2. gr. skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf og þjónustu. Stofn til iðgjalds skal vera allar tegundir launa eða þóknana fyrir störf sem skattskyld eru skv. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar
7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Til gjaldstofns skal þó ekki telja hlunnindi sem greidd eru í fríðu, svo sem fatnað, fæði og húsnæði, eða greiðslur sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, t.d. ökutækjastyrki, dagpeninga og fæðispeninga. Enn fremur skal ekki telja til gjaldstofns eftirlaun og lífeyri sem Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóður greiðir, bætur greiddar af Tryggingastofnun ríkisins, slysa- og sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga og bætur tryggingafélaga vegna atvinnutjóns af völdum slysa. Þá skal telja til iðgjaldsstofns atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Iðgjaldsstofn manns vegna vinnu hans við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal vera jafnhár fjárhæð skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar
7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr.
59. gr. þeirra laga.

Lífeyrisiðgjaldi skal ráðstafa til lágmarkstryggingaverndar, sbr. 4. gr., og eftir atvikum til viðbótartryggingaverndar, sbr. 8.–10. gr.
4. gr. Lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóður veitir miðað við 40 ára inngreiðslutíma iðgjalds skal fela í sér 56% af þeim mánaðarlaunum sem greitt er af í mánaðarlegan ellilífeyri ævilangt frá þeim tíma sem taka hans hefst, þó ekki síðar en frá 70 ára aldri, sbr. 14. gr., og 56% af þeim mánaðarlaunum sem greitt er af í örorkulífeyri á mánuði miðað við full réttindi til framreiknings, sbr. 15. gr. Enn fremur skal lágmarkstryggingavernd fela í sér að jafnað sé milli sjóðfélaga kostnaði vegna makalífeyris skv. 16. gr. og kostnaði vegna barnalífeyris skv. 17. gr.

Lífeyrissjóður skal, í samræmi við 24. gr. þessara laga, tilgreina það iðgjald sem þarf til að standa undir þeirri lágmarkstryggingavernd sem hann veitir.

Lífeyrissjóði er heimilt, í samræmi við tryggingafræðilega athugun, að ákveða lágmark tryggingaverndar þannig að iðgjaldi sé varið að hluta til öflunar lífeyrisréttinda í séreign skv. II. kafla og að hluta til öflunar lífeyrisréttinda í sameign skv. III. kafla.
5. gr. Sjóðfélagi getur ákveðið að ráðstafa til annars aðila en þess lífeyrissjóðs sem tekur við iðgjaldi vegna hans þeim hluta iðgjalds sem renna skal til séreignar skv. 3. mgr. 4. gr. og þeim hluta iðgjalds sem renna skal til viðbótartryggingaverndar.

Viðkomandi launagreiðanda eða lífeyrissjóði ber að færa greiðslu samkvæmt ákvörðun sjóðfélaga skv. 1. mgr. til annars aðila án sérstaks kostnaðarauka fyrir sjóðfélagann.

Tilkynni sjóðfélagi ekki launagreiðanda eða lífeyrissjóði með hæfilegum fyrirvara hvert iðgjald það sem hann getur ráðstafað skv. 1. mgr. skuli renna skal það greiðslufært samkvæmt samþykktum viðkomandi lífeyrissjóðs.

Lífeyrissjóður sem ákveður lágmarkstryggingavernd á grundvelli 3. mgr. 4. gr. eða aðili sem móttekur iðgjald til séreignarsparnaðar eða viðbótartryggingaverndar skal tryggja að sá hluti rekstrarins sem lýtur að varðveislu og ávöxtun iðgjalds er rétthafar hafa beinan ráðstöfunarrétt yfir skv. 1. mgr. sé fjárhagslega aðskilinn og ekki niðurgreiddur af annarri starfsemi.
6. gr. Ríkisskattstjóri skal hafa með höndum eftirlit með því að lífeyrisiðgjald sé greitt vegna hvers manns sem skyldutrygging lífeyrisréttinda nær til.

[Lífeyrissjóðum og aðilum skv. 3. mgr. 8. gr. er skylt að tekjuári liðnu að gera ríkisskattstjóra grein fyrir því iðgjaldi til öflunar lífeyrisréttinda sem greitt hefur verið til þeirra fyrir hvern rétthafa á því ári.]
1)

Launagreiðendur og þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, svo og aðrir þeir sem inna af hendi iðgjaldsskyldar greiðslur, skulu að tekjuári liðnu tilgreina á launamiðum eða á annan hátt er ríkisskattstjóri ákveður þá fjárhæð sem iðgjöld hvers manns miðuðust við ásamt heildariðgjaldi sem skilað hefur verið til lífeyrissjóðs [og aðila skv. 3. mgr. 8. gr.]
1)

[Hver sá sem er skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði samkvæmt lögum þessum og er framtalsskyldur samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt skal í framtali sínu eða á annan hátt er ríkisskattstjóri ákveður tilgreina þau iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda sem hann hefur greitt á árinu og þá lífeyrissjóði og aðila skv. 3. mgr. 8. gr. sem hann hefur greitt til.]
1)

Að tekjuári liðnu skal ríkisskattstjóri senda hverjum og einum lífeyrissjóði yfirlit vegna hvers manns sem er aðili að sjóðnum samkvæmt þeim upplýsingum sem embættið hefur fengið samkvæmt þessari grein. Á yfirlitinu skulu koma fram iðgjaldsstofn og greitt iðgjald hvers manns og mótframlag launagreiðanda. Sé enginn lífeyrissjóður tilgreindur á framtölum eða skilagreinum launagreiðanda og lífeyrissjóða skal senda yfirlitið til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda sem skal þá innheimta iðgjaldið.

Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um framkvæmd þessarar greinar.
1)L. 148/1998, 3. gr.
7. gr. Lífeyrisiðgjald, til lágmarkstryggingaverndar og viðbótartryggingaverndar, skal greitt reglulega í hverjum mánuði, sbr. 2.–4. mgr.

Iðgjaldagreiðslutímabil skal eigi vera lengra en mánuður og skal gjalddagi vera tíunda næsta mánaðar. Eindagi skal vera síðasti dagur sama mánaðar og iðgjald fellur í gjalddaga. Að öðru leyti fer um iðgjaldagreiðslur samkvæmt þeim reglum sem settar eru í samþykktir viðkomandi lífeyrissjóðs eða samkvæmt samningum þeirra aðila sem tilgreindir eru í 8. gr. Réttindi vegna aukaframlaga í lífeyrissjóði umfram reglubundin framlög skulu reiknuð miðað við greiðsludag.

Launagreiðanda er skylt að halda eftir af launum iðgjaldshluta launþega og standa viðkomandi lífeyrissjóði skil á honum, ásamt iðgjaldshluta sínum. Sams konar skylda hvílir á launagreiðanda að því er varðar innheimtu og skil á iðgjaldi til þeirra aðila sem tilgreindir eru í 8. gr.

Launagreiðendum og sjálfstæðum atvinnurekendum ber að tilkynna hlutaðeigandi lífeyrissjóðum og aðilum skv. 8. gr. ef þeim ber ekki lengur að standa skil á lífeyrisiðgjaldi þar sem þeir hafa hætt starfsemi eða launþegar þeirra hafa látið af störfum.
8. gr. Launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er heimilt að gera samning við þá aðila sem tilgreindir eru í 3. mgr. um tryggingavernd á grundvelli iðgjalda sem þeir hafa beinan ráðstöfunarrétt yfir skv. 1. mgr. 5. gr. Iðgjaldi eða iðgjaldshluta samkvæmt þeim samningi skal verja til öflunar lífeyrisréttinda í séreign skv. II. kafla eða í sameign skv. III. kafla.

Rétthafa skv. 1. mgr. er óheimilt að framselja, veðsetja eða á annan hátt ráðstafa innstæðu eða réttindum samkvæmt samningi um viðbótartryggingavernd eða lífeyrisréttindi í séreign nema með samkomulagi skv. 1.–3. tölul. 3. mgr. 14. gr. Ekki verður gerð aðför í réttindum samkvæmt slíkum samningi og enginn skuldheimtumaður í dánarbúi eða þrotabúi hefur rétt til að skerða réttindin á nokkurn hátt.

Eftirtaldir aðilar hafa heimild til að stunda starfsemi skv. II. kafla og taka við iðgjaldi með samningi um viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum þessum:
1. Viðskiptabankar og sparisjóðir sem hafa starfsstöð hér á landi, sbr. lög um viðskiptabanka og sparisjóði.
2. Líftryggingafélög sem hafa starfsstöð hér á landi, sbr. lög um vátryggingastarfsemi.
3. Verðbréfafyrirtæki sem starfa skv. 8. gr. laga um verðbréfaviðskipti og hafa starfsstöð hér á landi.
4. Lífeyrissjóðir, enda uppfylli þeir skilyrði 4.–5. gr.
9. gr. Í samningi um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað skal koma fram nafn og kennitala greiðanda, mánaðarlegt innlegg og hvaða reglur gilda um útborgun og réttindi að öðru leyti. Allir skilmálar varðandi viðbótartryggingaverndina skulu koma fram í samningnum. Greiðslur samkvæmt samningi skulu hefjast eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að samningur er gerður. Heimilt er að segja upp samningi með sex mánaða fyrirvara. Uppsögnin tekur þó ekki gildi fyrr en sá sem segir samningi upp hefur sannanlega tilkynnt hana til þess lífeyrissjóðs sem ráðstafar iðgjaldi hans til lágmarkstryggingaverndar. Uppsögn veitir ekki rétt til útborgunar innstæðu eða réttinda, en í reglum um tryggingaverndina er heimilt að kveða svo á um að flytja megi innstæðu eða réttindi á milli þeirra aðila sem tilgreindir eru í 8. gr.

Á sama hátt og öðrum aðilum sem tilgreindir eru í 1.–3. tölul. 3. mgr. 8. gr. er lífeyrissjóði sem uppfyllir skilyrði 4.–5. gr. heimilt að taka einungis við iðgjaldi frá tilteknum sjóðfélaga samkvæmt samningi um viðbótartryggingavernd. Sjóðurinn skal þó áður fá staðfesta aðild viðkomandi launamanns að þeim lífeyrissjóði sem veitir móttöku iðgjaldi til lágmarkstryggingaverndar.
10. gr. Viðskiptabankar, sparisjóðir, líftryggingafélög, verðbréfafyrirtæki og lífeyrissjóðir, sem óska eftir því að bjóða upp á samninga um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað í samræmi við ákvæði laga þessara, skulu fyrir fram leita eftir staðfestingu fjármálaráðherra á því að reglur sem um tryggingaverndina gilda séu í samræmi við ákvæði laga þessara. Allar breytingar á reglunum skal einnig tilkynna fjármálaráðherra og öðlast þær ekki gildi fyrr en ráðherra hefur staðfest þær að fenginni umsögn opinbers eftirlitsaðila. Taka skal afstöðu til reglnanna og breytinga á þeim skriflega eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúið erindi berst ráðherra. Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari formskilyrði fyrir samningum um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað.
II. kafli.
Lífeyrissparnaður.
11. gr. Hefja má úttekt á innstæðu eða gera sérstakan útborgunarsamning tveimur árum eftir fyrstu greiðslu iðgjalds til öflunar lífeyrisréttinda í séreign, þó aldrei fyrr en rétthafi hefur fullnægt sérstökum viðbótarskilyrðum skv. 2.–4. mgr. þessarar greinar.

Þegar rétthafi er orðinn 60 ára er heimilt að hefja útborgun lífeyrissparnaðar og vaxta með jöfnum árlegum greiðslum á ekki skemmri tíma en sjö árum eða á þeim tíma sem rétthafa vantar upp á 67 ára aldur.

Verði rétthafi öryrki og orkutapið sem hann verður fyrir er 100% á hann rétt á að fá lífeyrissparnað og vexti greidda út með jöfnum árlegum greiðslum á sjö árum. Nú er örorkuprósentan lægri en 100% og lækkar þá árleg útborgun í hlutfalli við lækkun örorkuprósentunnar og úttektartíminn lengist samsvarandi.

Deyi rétthafi áður en innstæða er að fullu greidd út fellur hún til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Hlut barns undir 13 ára aldri ber að skipta með jöfnum greiðslum á þau ár sem vantar á að barnið nái 18 ára aldri. Hafi barn náð 13 ára aldri við andlát rétthafa skal hlutur þess greiddur út á fimm árum. Hlut eftirlifandi maka ber að skipta með jöfnum greiðslum á sjö ár eða á þann tíma sem makann vantar á 67 ára aldur við andlát rétthafa. Láti rétthafi ekki eftir sig maka eða barn rennur innstæðan til dánarbúsins og gildir þá ekki takmörkunin í 2. málsl. 2. mgr. 8. gr.

Í reglugerð skal kveðið á um styttri útborgunartíma ef um lágar upphæðir er að ræða.
12. gr. Með jöfnum greiðslum skv. 11. gr. er átt við jafnar greiðslur að tiltölu við fjölda greiðsluára þannig að rétthafi fái á hverju ári þann hluta af innstæðunni að meðtöldum vöxtum sem samsvarar tölu þeirra ára er eftir standa af endurgreiðslutímanum.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að gera sérstakan samning um mánaðarlega útborgun tiltekinnar krónutölu. Útborgunin skal þá breytast í samræmi við vísitölu neysluverðs. Samningur þessi getur að hluta til eða öllu leyti verið til ákveðins tíma, sbr. skilyrði 11. gr. um lágmarkstíma, eða til æviloka rétthafa.
III. kafli.
Lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum.
13. gr. Með iðgjaldagreiðslum til öflunar lífeyrisréttinda í sameign ávinnur sjóðfélagi sér og maka sínum og börnum eftir því sem við á rétt til ellilífeyris, örorkulífeyris og maka- og barnalífeyris sem er ekki lakari en sá réttur sem kveðið er á um í þessum kafla. Í samþykktum lífeyrissjóðs skal kveðið nánar á um ávinnslu réttinda en hún getur verið mismunandi eftir því hvort iðgjald er til lágmarks- eða viðbótartryggingaverndar og eftir atvikum háð eða óháð aldri.

Réttur til lífeyris samkvæmt lögum þessum reiknast frá þeim tíma sem iðgjald berst lífeyrissjóði. Iðgjöld launþega, sem launagreiðandi hefur sannanlega innheimt en ekki staðið lífeyrissjóði skil á, svo og iðgjaldshluta hans, skal þó meta að fullu til réttinda frá eindaga iðgjaldagreiðslu, enda hafi sjóðnum borist vitneskja um iðgjaldsgreiðsluskyldu innan 60 daga frá dagsetningu yfirlits skv. 18. gr. Þó ber lífeyrissjóðurinn ekki ábyrgð á réttindum sjóðfélaga vegna þeirra iðgjalda sem glatast við gjaldþrot og ábyrgðasjóður launa ber ekki ábyrgð á samkvæmt lögum um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota.
14. gr. Lífeyrissjóður skal hefja útborgun ellilífeyris samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum þegar sjóðfélagi hefur náð 65–70 ára aldri. Lífeyrissjóði er heimilt að gefa sjóðfélögum kost á að fresta eða flýta töku lífeyris um allt að fimm ár. Í samþykktum skal kveðið á um hvernig frestun eða flýting lífeyristöku hefur áhrif á fjárhæð lífeyris.

Ellilífeyrir skal borgaður út mánaðarlega með jöfnum greiðslum til æviloka. Mánaðarlegur lífeyrir skal verðtryggður og breytast til samræmis við breytingu á vístitölu neysluverðs. Nánar skal kveðið á um fjárhæð ellilífeyris, útreikning og skilyrði fyrir greiðslu hans í samþykktum.

Á grundvelli samkomulags sjóðfélaga og maka hans getur sjóðfélagi ákveðið skipan mála skv. 1.–3. tölul. þessarar málsgreinar. Samkomulag þetta skal eftir því sem við á ná til ellilífeyrisgreiðslna, verðmætis ellilífeyrisréttinda eða ellilífeyrisréttinda beggja aðilanna og fela í sér gagnkvæma og jafna skiptingu áunninna réttinda meðan hjúskapur, óvígð sambúð eða staðfest samvist hefur staðið eða stendur:
1. Að ellilífeyrisgreiðslur sem renna eiga til hans skuli allt að hálfu renna til maka hans eða fyrrverandi maka. Viðkomandi lífeyrissjóður skal þá skipta greiðslum í samræmi við ákvörðun sjóðfélagans, en þær falla niður við andlát hans. Deyi makinn eða fyrrverandi maki sem nýtur slíkra greiðslna hins vegar á undan sjóðfélaganum skulu greiðslurnar allar renna til sjóðfélagans.
2. Í síðasta lagi sjö árum áður en taka ellilífeyris getur fyrst hafist og ef sjúkdómar eða heilsufar draga ekki úr lífslíkum, að verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda hans skuli allt að hálfu renna til að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans eða fyrrverandi maka og skerðast þá réttindi sjóðfélagans sem því nemur. Heildarskuldbinding lífeyrissjóðsins skal ekki aukast við þessa ákvörðun sjóðfélagans.
3. Að iðgjald vegna hans sem gengur til að mynda ellilífeyrisréttindi skuli allt að hálfu renna til þess að mynda sjálfstæð réttindi fyrir maka hans. Við ráðstöfun iðgjalds til lágmarkstryggingaverndar og viðbótartryggingaverndar skal litið svo á að iðgjaldsstofni sjóðfélagans hafi verið skipt milli hans og makans eins og iðgjaldinu.
15. gr. Sjóðfélagi á rétt á örorkulífeyri ef hann verður fyrir orkutapi sem metið er 50% eða meira, hefur greitt í lífeyrissjóð í a.m.k. tvö ár og orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins.

Örorkulífeyrir skal framreiknaður samkvæmt reglum sem nánar er kveðið á um í samþykktum, enda hafi sjóðfélagi greitt til lífeyrissjóðs í a.m.k. þrjú ár á undanfarandi fjórum árum, þar af a.m.k. sex mánuði á síðasta tólf mánaða tímabili, og ekki orðið fyrir orkutapi sem rekja má til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.

Hafi sjóðfélagi öðlast rétt til framreiknings sem fallið hefur niður vegna tímabundinnar fjarveru af vinnumarkaði vegna vinnu erlendis, náms, leyfis frá störfum, barneigna eða sambærilegra ástæðna skal framreikningsréttur stofnast á nýjan leik eigi síðar en sex mánuðum frá því að hann hefur aftur störf og greiðslu iðgjalds til lífeyrissjóðs.

Eigi sjóðfélagi ekki rétt á framreikningi skal fjárhæð örorkulífeyris miðast við áunnin réttindi.

Heimilt er að ákveða að örorkulífeyrir greiðist ekki fyrstu þrjá mánuðina eftir orkutap. Sama gildir ef orkutap hefur varað skemur en sex mánuði.

Í samþykktir lífeyrissjóðs skulu sett frekari ákvæði um örorkulífeyri, svo sem um örorkumat, fjárhæð örorkulífeyris, útreikning og skilyrði fyrir greiðslu hans.
16. gr. Lífeyrissjóður skal greiða lífeyri til maka látins sjóðfélaga ef hann hefur greitt iðgjöld til lífeyrissjóðs í a.m.k. 24 mánuði á undanförnum 36 mánuðum fyrir andlát sitt, notið elli- eða örorkulífeyris við andlátið eða öðlast rétt til framreiknings skv. 3. mgr. 15. gr.

Fullur makalífeyrir skal aldrei greiddur skemur en í 24 mánuði en hafi makinn barn yngra en 18 ára á framfæri sínu, sem sjóðfélaginn hafði áður á framfæri sínu, eða ef makinn er a.m.k. 50% öryrki og yngri en 67 ára skal fullur makalífeyrir greiddur á meðan það ástand varir. Fullur makalífeyrir skal að lágmarki vera 50% af áunnum örorkulífeyri viðkomandi sjóðfélaga við andlátið miðað við 100% örorku.

Maki samkvæmt þessari grein telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap með sjóðfélaga, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð karls og konu sem eiga sameiginlegt lögheimili, eru samvistum, eiga barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár. Réttur til makalífeyris fellur niður ef makinn gengur í hjónaband á ný, stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar eða stofnar til staðfestrar samvistar, nema kveðið sé á um annað í samþykktum.

Í samþykktum lífeyrissjóðs skulu sett frekari ákvæði um makalífeyri, svo sem um fjárhæð hans, framreikningsreglur, útreikning og skilyrði fyrir greiðslu hans.
17. gr. Andist sjóðfélagi sem greitt hefur iðgjöld til lífeyrissjóðs í a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum, notið elli- eða örorkulífeyris við andlátið eða öðlast rétt til framreiknings skv. 3. mgr. 15. gr. skulu börn hans og kjörbörn sem yngri eru en 18 ára eiga rétt á lífeyri til 18 ára aldurs. Sama rétt til lífeyris öðlast börn fædd eða ættleidd fyrir orkutap sjóðfélaga sem nýtur fulls örorkulífeyris. Ef örorka er metin lægri en 100% skal barnalífeyrir vera hlutfallslega lægri.

Fullur barnalífeyrir skal vera að lágmarki 5.500 kr. á mánuði með hverju barni örorkulífeyrisþega. Við andlát sjóðfélaga skal barnalífeyrir vera að lágmarki 7.500 kr. með hverju barni. Upphæðir þessar skulu breytast árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.

Í samþykktum lífeyrissjóðs skulu sett frekari ákvæði um barnalífeyri, svo sem um útreikning og skilyrði fyrir greiðslu hans og fjárhæð þegar makalífeyrir vegna barns er ekki greiddur.
18. gr. Hver lífeyrissjóður skal halda skrá um þá sem greitt hafa iðgjöld til sjóðsins og þá sem öðlast hafa rétt til lífeyrisgreiðslna úr sjóðnum með öðrum hætti en greiðslu iðgjalda. Í skránni skal vera nafn og kennitala þessara aðila. Þá skulu vera í skránni upplýsingar um fjárhæð iðgjaldagreiðslna hvers aðila, greiðslutímabil og áunnin réttindi, svo og þau atriði sem geta haft áhrif á rétt til lífeyris. Sjóðfélagi á rétt á aðgangi að upplýsingum er varða hann sjálfan. Jafnframt skal ríkisskattstjóri eiga aðgang að nauðsynlegum upplýsingum úr skránni vegna eftirlits hans skv. 6. gr.

Lífeyrissjóður skal samhliða greiðsluyfirliti eigi sjaldnar en einu sinni á ári senda upplýsingar um áunninn og væntanlegan lífeyrisrétt sjóðfélaga, rekstur og fjárhagsstöðu sjóðsins og breytingar á samþykktum. Sömu upplýsingar skal senda þeim sjóðfélögum sem náð hafa ellilífeyrisaldri.

[Lífeyrissjóðir skulu senda sjóðfélögum sínum yfirlit um iðgjaldagreiðslur eigi sjaldnar en á hálfs árs fresti. Yfirliti þessu skal fylgja áskorun til sjóðfélaga um að gera án tafar athugasemdir ef sannanlega innheimt iðgjöld hafa ekki borist sjóðnum.]
1)

Sjóðfélagi á rétt á að lífeyrissjóður rökstyðji skriflega ákvörðun er hann varðar. Í rökstuddri ákvörðun skal getið um rétt sjóðfélaga til að skjóta ákvörðun til gerðardóms, sbr. 33. gr.

Heimilt er að kveða á um kerfisbundna skráningu upplýsinga um iðgjöld og lífeyrisréttindi í reglugerð, svo og veitingu upplýsinga úr slíkri skrá til skattyfirvalda og annarra eftirlitsaðila.
1)L. 56/2000, 1. gr.
19. gr. Óheimilt er í samþykktum að kveða svo á að áunnin lífeyrisréttindi skerðist eða falli niður ef sjóðfélagi hættir iðgjaldagreiðslum til lífeyrissjóðs.

Ekki skal skipta máli hvort menn eiga lífeyrisréttindi í einum eða fleiri lífeyrissjóðum og hvorki skulu menn glata réttindum né öðlast meiri rétt vegna þess að iðgjaldagreiðslur skiptast milli tveggja eða fleiri sjóða. Nánar skal í reglugerð kveða á um skiptingu lífeyrisgreiðslna milli sjóða þegar lífeyrisréttindi hafa myndast í fleiri en einum sjóði, hvernig réttindi leggjast saman og um framkvæmd þessa ákvæðis að öðru leyti.

Heimilt er að flytja iðgjöld og þar með réttindi sem þeim fylgir milli lífeyrissjóða þegar að töku lífeyris kemur í því skyni að auðvelda framkvæmd þessarar greinar.

Heimilt er að endurgreiða iðgjöld til erlendra ríkisborgara þegar þeir flytjast úr landi enda sé slíkt ekki óheimilt samkvæmt milliríkjasamningi sem Ísland er aðili að. Óheimilt er að takmarka endurgreiðsluna við tiltekinn hluta iðgjaldsins nema á tryggingafræðilega réttum forsendum.

Í [samþykktum]
1) er heimilt að kveða á um útborgun lífeyris í einu lagi ef um lágar upphæðir er að ræða.
1)L. 56/2000, 2. gr.
IV. kafli.
Almenn skilyrði lífeyrissjóðsrekstrar.
20. gr. Starfsemi lífeyrissjóðs skal lúta að móttöku, varðveislu og ávöxtun iðgjalda og greiðslu lífeyris. Iðgjöld og annað ráðstöfunarfé lífeyrissjóðs skal ávaxta sameiginlega með innlánum í bönkum og sparisjóðum eða í framseljanlegum verðbréfum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu.

Lífeyrissjóður skal ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem nauðsynleg er til að ná þeim tilgangi er um ræðir í 2. mgr. 1. gr. og 1. mgr. þessarar greinar. Lífeyrissjóði er ekki heimilt að inna af hendi framlög í öðrum tilgangi.
21. gr. Ekki er heimilt að starfrækja lífeyrissjóð nema hann hafi fullgilt starfsleyfi skv. V. eða XI. kafla.

Að jafnaði skulu minnst 800 sjóðfélagar greiða iðgjöld til lífeyrissjóðs reglulega í mánuði hverjum, nema sjóðurinn tryggi áhættudreifingu vegna skuldbindinga sinna með öðrum hætti í samræmi við tryggingafræðilega athugun.

Lífeyrissjóði er heimilt að tryggja áhættudreifingu vegna lífeyrisskuldbindinga sinna, að hluta til eða öllu leyti, hjá vátryggingafélögum, sbr. lög um vátryggingastarfsemi. Jafnframt er honum heimilt að kaupa tiltekna tryggingavernd hjá vátryggingafélögum eða öðrum lífeyrissjóðum fyrir einstaka sjóðfélaga sína. Enn fremur er lífeyrissjóðum heimilt að hafa samstarf um einstaka þætti tryggingaverndar. Nánar skal kveðið á um þessi atriði í reglugerð.
22. gr. Lífeyrissjóðum er skylt og einum heimilt að nota í heiti sínu orðið „lífeyrissjóður“, eitt sér eða samtengt öðrum orðum eða til nánari skýringa á starfsemi sinni. Lífeyrissjóðum, sem starfandi eru við gildistöku laga þessara, er þó heimilt að halda heiti sínu óbreyttu.
23. gr. Lífeyrissjóður ábyrgist skuldbindingar sínar með eignum sínum. Iðgjaldagreiðendur bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins með öðru en iðgjöldum sínum.
24. gr. Árlega skal stjórn lífeyrissjóðs láta fara fram tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins í samræmi við 39. gr. og ákvæði reglugerðar sem ráðherra setur. Í reglugerð skal kveðið á um almennar tryggingafræðilegar forsendur, m.a. um dánaráhættu, raunvexti sem athugunin skal byggjast á og ávöxtunarkröfu sem nota skal við núvirðingu framtíðariðgjalda og væntanlegs lífeyris sjóðsins. Í reglugerð skulu jafnframt sett ákvæði um mat á hreinni eign til greiðslu lífeyris vegna tryggingafræðilegra athugana. Skal í reglugerðinni tilgreina möguleg frávik frá mati á eignarliðum í efnahagsreikningi skv. 40. gr., m.a. að verðmæti skráðra hlutabréfa og sambærilegra verðbréfa skuli miða við vegið markaðsvirði á tilteknu tímabili sem þó getur ekki verið lengra en sex mánuðir.

Athugun skv. 1. mgr. skal framkvæmd af tryggingafræðingi eða öðrum þeim sem hlotið hefur viðurkenningu [Fjármálaeftirlitsins]
1) til slíks starfs, sbr. lög um vátryggingastarfsemi.

Fyrir 1. júlí ár hvert skal senda [Fjármálaeftirlitinu]
1) tryggingafræðilega athugun skv. 1. mgr.
1)L. 84/1998, 7. gr.
V. kafli.
Starfsleyfi lífeyrissjóða.
25. gr. Fjármálaráðherra skal veita lífeyrissjóði starfsleyfi að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
1. Sýnt er fram á að sjóðurinn muni innan þriggja ára uppfylla skilyrði 2. mgr. 21. gr.
2. Samþykktir eru samkvæmt ákvæðum 27. gr.
3. Stjórn hefur verið valin.
4. Löggiltur endurskoðandi hefur verið valinn.
5. Tryggingafræðingur hefur verið valinn.

Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg. Skulu fylgja henni samþykktir sjóðsins ásamt öðrum þeim upplýsingum og gögnum sem ráðherra ákveður. Áður en umsókn um starfsleyfi er afgreidd skal leita umsagnar [Fjármálaeftirlitsins].
1)

Birta skal tilkynningar um starfsleyfi lífeyrissjóða í Lögbirtingablaði.
1)L. 84/1998, 7. gr.
26. gr. Ákvörðun um starfsleyfi skal rökstudd og send umsækjanda skriflega eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst ráðherra.

Uppfylli lífeyrissjóður sem sótt er um starfsleyfi fyrir ekki skilyrði laga þessara skal synja honum um það.
27. gr. Samþykktir lífeyrissjóðs skulu við það miðaðar að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.

Samþykktir lífeyrissjóðs skulu m.a. kveða á um eftirtalin atriði:
1. Heiti, heimili og hlutverk sjóðsins.
2. Hverjir eru sjóðfélagar.
3. Almenn skilyrði um aðild að sjóðnum og um brottfall aðildar.
4. Ársfund, hvernig boða skuli til hans, hvaða mál skuli þar lögð fram, hverjir eigi þar atkvæðisrétt og hvernig atkvæðisréttur er ákveðinn.
5. Hlutverk stjórnar, fjölda stjórnarmanna og varamanna þeirra, kjörtímabil þessara aðila, svo og hvernig vali þeirra og endurskoðanda skuli háttað.
6. Hvort fé í vörslu sjóðsins skuli varðveitt sem ein heild eða í fjárhagslega aðskildum deildum og hvernig fé sjóðsins skuli ávaxtað.
7. Hvernig iðgjöld til sjóðsins skuli ákveðin og hvernig þau skuli greidd.
8. Réttindi sjóðfélaga eða aðstandenda þeirra til lífeyris, hvernig útreikningi þessara réttinda skuli háttað og hver séu nánari skilyrði lífeyrisréttar. Þá skal og kveðið á um framkvæmd lífeyrisgreiðslna.
9. Framkvæmd reglubundinnar, tryggingafræðilegrar athugunar á hag sjóðsins og hvenær slík athugun skuli fara fram, sbr. 24. gr. og 39. gr.
10. Hvernig staðið skuli að breytingu á samþykktum sjóðsins.
11. Upplýsingaskyldu sjóðsins við sjóðfélaga.
12. Hlutverk og skipan gerðardóms.
28. gr. [Allar breytingar á samþykktum lífeyrissjóðs skal tilkynna fjármálaráðherra og öðlast þær ekki gildi fyrr en ráðherra hefur staðfest að þær fullnægi ákvæðum laga þessara og ákvæðum gildandi samþykkta fyrir lífeyrissjóðinn að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins.]
1) Samtök lífeyrissjóða geta tilkynnt breytingar á samþykktum í umboði aðildarsjóða sinna. Tilkynning um breytingar á samþykktum lífeyrissjóða skulu birtar í Lögbirtingablaði. Jafnframt skal tilkynna [Fjármálaeftirlitinu]
2) um breytingar á stjórn, framkvæmdastjóra, endurskoðanda og tryggingafræðingi lífeyrissjóðs.
1)L. 56/2000, 3. gr. 2)L. 84/1998, 7. gr.
VI. kafli.
Rekstur og innra eftirlit.
29. gr. Stjórn lífeyrissjóðs ber ábyrgð á starfsemi sjóðsins í samræmi við lög þessi, reglugerðir settar samkvæmt þeim og samþykktir sjóðsins. Stjórn lífeyrissjóðs skal einnig hafa með höndum almennt eftirlit með rekstri, bókhaldi og ráðstöfun eigna sjóðsins. Stjórnin setur sér starfsreglur og gerir tillögur til breytinga á samþykktum sjóðsins á ársfundi.

[Stjórn lífeyrissjóðs er heimilt að gera breytingar á samþykktum sjóðsins án þess að bera þær undir ársfund eins og mælt er fyrir um í 30. gr. og eftir atvikum í samþykktum einstakra lífeyrissjóða, ef þær leiða af ófrávíkjanlegum ákvæðum laga eða reglugerða.]
1)

Stjórn lífeyrissjóðs annast m.a. eftirfarandi verkefni:
1. að ráða framkvæmdastjóra, ákveða laun og ráðningarkjör hans eða þeirra samkvæmt sérstöku erindisbréfi,
2. að ráða forstöðumann endurskoðunardeildar eða semja við sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila,
3. að móta fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðsins, sbr. VII. kafla,
4. að setja reglur um upplýsingagjöf framkvæmdastjóra til stjórnar um rekstur, iðgjöld, réttindaávinning og ráðstöfun eigna sjóðsins,
[5. að setja verklagsreglur um verðbréfaviðskipti lífeyrissjóðsins, stjórnar hans og starfsmanna. Verklagsreglurnar skulu staðfestar af Fjármálaeftirlitinu],
2)
[6.]
2) að ákveða hver skuli vera fulltrúi af hálfu lífeyrissjóðs í stjórn stofnunar eða atvinnufyrirtækis, nema lög kveði á um annað,
[7.]
2) að láta tryggingafræðilega athugun fara fram á fjárhag sjóðsins, sbr. 24. gr.
1)L. 56/2000, 4. gr. 2)L. 11/2000, 18. gr.
30. gr. Fyrir lok júní hvert ár skal stjórn lífeyrissjóðs boða til ársfundar sjóðsins. Allir sjóðfélagar eiga rétt til fundarsetu á ársfundinum með umræðu- og tillögurétti. Atkvæðisréttur skal vera í samræmi við samþykktir hlutaðeigandi lífeyrissjóðs, sbr. 27. gr.

Ársfund skal boða með tryggilegum hætti.

Á ársfundi skal gerð grein fyrir skýrslu stjórnar, ársreikningum, tryggingafræðilegum úttektum, fjárfestingarstefnu og tillögum stjórnar til breytinga á samþykktum sjóðsins.
31. gr. Stjórnarmenn í lífeyrissjóði skulu vera lögráða, fjár síns ráðandi, hafa óflekkað mannorð og mega ekki á síðustu fimm árum hafa í tengslum við atvinnurekstur fengið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld. Stjórnarmenn skulu vera búsettir hér á landi eða í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.

Um hæfi stjórnarmanns lífeyrissjóðs til meðferðar máls fer eftir ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga.

Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins og skal hann fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem sjóðstjórn hefur gefið. Ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt heimild frá sjóðstjórn.

Framkvæmdastjóra er óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema að fengnu leyfi stjórnar. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórn þess.

[Menntun, starfsreynsla og starfsferill framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs skal vera með þeim hætti að tryggt sé að hann geti gegnt stöðu sinni á forsvaranlegan hátt. Að öðru leyti fer um hæfi framkvæmdastjóra skv. 1. og 2. mgr.]
1)
1)L. 56/2000, 5. gr.
32. gr. Stjórnarmenn, framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn, svo og endurskoðendur lífeyrissjóðs, eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um í starfi og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

Halda skal gerðabók um það sem gerist á fundum stjórnar. Allir stjórnarmenn sem mættir eru skulu undirrita fundargerðina.
33. gr. Vilji sjóðfélagi ekki una úrskurði sjóðstjórnar í máli er hann hefur skotið til hennar getur hann vísað því til gerðardóms sem skipaður skal þremur mönnum, einum tilnefndum af viðkomandi sjóðfélaga, einum tilnefndum af viðkomandi lífeyrissjóði og oddamanni tilnefndum af [Fjármálaeftirlitinu]
1) eða öðrum þeim aðila sem tilgreindur er í samþykktum viðkomandi sjóðs. Úrskurður gerðardóms er bindandi fyrir báða aðila. Málskostnaði skal skipt milli málsaðila eftir mati dómsins, en þó skal sjóðfélagi ekki greiða meira en
1/
3 hluta málskostnaðar. Um málsmeðferð fyrir gerðardómnum fer samkvæmt lögum um samningsbundna gerðardóma.
1)L. 84/1998, 7. gr.
34. gr. Við lífeyrissjóð skal endurskoðunardeild eða sjálfstætt starfandi eftirlitsaðili annast innra eftirlit, [sbr. 2. tölul. 3. mgr. 29. gr.]
1) Innra eftirlit skal vera hluti af skipulagi lífeyrissjóðs og þáttur í eftirlitskerfi hans.
2)

Sjálfstætt starfandi eftirlitsaðili getur verið löggiltur endurskoðandi eða sá sem hlotið hefur viðurkenningu [Fjármálaeftirlitsins].
3)

Lífeyrissjóði er skylt að tilkynna [Fjármálaeftirlitinu]
3) ef skipt er um eftirlitsaðila skv. 1. mgr.

[Lífeyrissjóður skal hafa í þjónustu sinni starfsmann sem hæfur er til að sinna eignastýringu verðbréfasafna sjóðsins á grundvelli menntunar sinnar og starfsreynslu.

Lífeyrissjóður sem býður upp á tvo eða fleiri valmöguleika varðandi ávöxtun lífeyrisiðgjalda eða ávinnslu lífeyrisréttinda skal hafa í þjónustu sinni starfsfólk sem hæft er til að sinna ráðgjöf í þeim efnum. Gæta skal þess að ráðgjöf sé sett fram á hlutlægan og faglegan hátt og taki mið af hagsmunum hvers sjóðfélaga. Lífeyrissjóður skal enn fremur láta útbúa skriflegt kynningarefni þar sem gerð er grein fyrir kostum og göllum einstakra valkosta miðað við mismunandi forsendur. Í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi lífeyrissjóða skal þess gætt að fram komi réttar og nákvæmar upplýsingar um starfsemi og þjónustu lífeyrissjóðanna.]
1)
1)L. 56/2000, 6. gr. 2)Rg. 546/1998. 3)L. 84/1998, 7. gr.
35. gr. Endurskoðunardeild eða eftirlitsaðili lífeyrissjóðs skv. 1. mgr. 34. gr. skal m.a. annast eftirfarandi verkefni:
1. hafa eftirlit með að skráning iðgjalda og lífeyrisréttinda sé samkvæmt lögum og samþykktum sjóðsins,
2. hafa eftirlit með að lífeyrisréttindi séu reiknuð í samræmi við lög og samþykktir sjóðsins,
3. gera tillögu til stjórnar um skipulagningu innra eftirlits og annast sérstakar úttektir á virkni innra eftirlits,
4. hafa eftirlit með að í viðskiptum með eignir lífeyrissjóðs sé endurgjald fyrir þær innt af hendi innan eðlilegra tímamarka,
5. hafa eftirlit með því að fjárfestingarstefnu sé fylgt og að ávöxtun eigna sé eðlileg,
6. hafa eftirlit með að iðgjöldum og öðru ráðstöfunarfé lífeyrissjóðs sé ráðstafað í samræmi við lög og samþykktir sjóðsins.

[Fjármálaeftirlitið]
1) setur nánari reglur um verkefni endurskoðunardeilda og eftirlitsaðila lífeyrissjóða.
1)L. 84/1998, 7. gr.
VII. kafli.
Fjárfestingarstefna lífeyrissjóða.
36. gr. Stjórn lífeyrissjóðs skal móta fjárfestingarstefnu og ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af þeim kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu. Stjórn lífeyrissjóðs er heimilt að móta sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja deild í deildaskiptum sjóði. Lífeyrissjóði er heimilt að ávaxta fé sitt með eftirfarandi hætti:
1. Í ríkisvíxlum, ríkisskuldabréfum og skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs.
2. Í skuldabréfum bæjar- og sveitarfélaga.
3. Í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign að hámarki 65% af metnu markaðsvirði nema þegar um er að ræða sérhæft atvinnuhúsnæði þá skal hámark þetta vera 35%.
4. Með innlánum í bönkum og sparisjóðum.
5. Í skuldabréfum og víxlum banka, sparisjóða og annarra lánastofnana sem lúta eftirliti [opinbers eftirlitsaðila].
1)
6. Í hlutabréfum fyrirtækja.
7. Í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða, en verðbréfasafni að baki skírteinunum skal skipt á aðra töluliði þessarar málsgreinar með tilliti til takmarkana í 2.–6. mgr.
8. Í öðrum verðbréfum.
[9.]
1) Með gerð afleiðusamninga sem draga úr áhættu sjóðsins.

Verðbréf skv. 1., 2. og 5.–8. tölul. 1. mgr. skulu hafa skráð kaup- og sölugengi á skipulegum markaði. Með skipulegum markaði er átt við skipulegan verðbréfamarkað innan aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) sem starfar reglulega, er opinn almenningi og viðurkenndur með þeim hætti sem [Fjármálaeftirlitið]
2) metur gildan. Sé markaðurinn utan ríkja OECD skal [Fjármálaeftirlitið]
2) hafa viðurkennt hann.

[Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er heimilt að fjárfesta fyrir allt að 10% af hreinni eign sjóðsins í verðbréfum sem falla undir 1., 2., 5., 6. og 8. tölul. 1. mgr. og ekki eru skráð á skipulegum markaði, enda séu verðbréfin gefin út af aðilum innan aðildarríkja OECD. Fjárfestingar í óskráðum hlutabréfum eru þó eingöngu heimilar ef engar hömlur eru á viðskiptum með hlutabréfin og ársreikningar hlutafélaganna öllum aðgengilegir.]
1)

[Eign lífeyrissjóðs í einstökum tegundum verðbréfa skv. 2., 5., 6., og 8. tölul. 1. mgr. skal ekki vera meiri en 50% af hreinni eign sjóðsins.]
1)

Samanlögð eign sjóðsins í verðbréfum skv. [2.–8. tölul.]
1) 1. mgr. útgefnum af sama aðila eða aðilum sem tilheyra sömu samstæðunni skal ekki vera meiri en 10% af hreinni eign sjóðsins. Þessi takmörkun skal vera 5% fyrir verðbréf skv. 8. tölul. Eigi er lífeyrissjóði heimilt að eiga meira en 15% af hlutafé í hverju fyrirtæki né meira en 25% af hlutdeildarskírteinum útgefnum af sama verðbréfasjóði. Þó er lífeyrissjóði heimilt að eiga stærri hluta en 15% í fyrirtæki sem eingöngu sinnir þjónustuverkefnum fyrir lífeyrissjóðina sjálfa.

Lífeyrissjóður skal takmarka áhættu í erlendum gjaldmiðlum í heild við [50%]
1) af hreinni eign sjóðsins.

Með hreinni eign í 3.–6. mgr. er átt við hreina eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris samkvæmt síðasta endurskoðaða ársuppgjöri. Takmarkanir í 3.–6. mgr. skulu halda á hverjum tíma.

[Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er þeim lífeyrissjóðum sem keyptu óskráð bréf tengd húsnæðislánum Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna á árunum 1972 til 1994 heimilt að flokka þau sem skráð bréf skv. 1. tölul. 1. mgr.]
1)
1)L. 56/2000, 7. gr. 2)L. 84/1998, 7. gr.
37. gr. [Fjárfestingarstefna lífeyrissjóðs skal byggð á tegundaflokkun innlána og verðbréfa, sbr. 1.–9. tölul. 1. mgr. 36. gr. Hver tegund innlána og verðbréfa skal jafnframt sundurliðuð eftir því sem við á með tilliti til gjaldmiðlaáhættu og stærðar einstakra innlánsaðila eða verðbréfaútgefenda. Lífeyrissjóðir skulu senda upplýsingar um fjárfestingarstefnu sína fyrir komandi ár til Fjármálaeftirlitsins eigi síðar en 1. desember ár hvert.

Fjármálaeftirlitið skal setja reglur um form og efni fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða og hvernig henni skuli skilað til eftirlitsins.]
1)
1)L. 56/2000, 8. gr.
38. gr. [Lífeyrissjóður má ekki fjárfesta í fasteignum eða lausafé nema að því marki sem nauðsynlegt er vegna starfsemi sjóðsins.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er lífeyrissjóði heimilt án takmarkana að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu. Eignirnar skulu seldar eigi síðar en innan 18 mánaða frá yfirtöku eignanna. Heimilt er þó að draga sölu lengur sé það augljóslega í þágu hagsmuna sjóðsins. Slíkan drátt á sölu eigna skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu sem getur þá krafist sölu þeirra innan viðeigandi frests.]
1)

Lífeyrissjóði er óheimilt að taka lán nema til fjárfestingar í fasteignum sem eru nauðsynlegar vegna starfsemi sjóðsins. Lífeyrissjóði er þó heimilt að nýta almenna greiðslufresti vegna kaupa á verðbréfum eða taka skammtímalán til þess að jafna fjárstreymi.

Lífeyrissjóði er óheimilt að veita lán til stjórnarmanna, varamanna þeirra, starfsmanna sjóðsins, endurskoðenda, eftirlitsaðila, þeirra er framkvæma tryggingafræðilega athugun á hag sjóðsins eða maka þessara aðila, nema þeir séu félagar í viðkomandi sjóði og þá eftir þeim reglum sem gilda um lán til sjóðfélaga almennt.
1)L. 56/2000, 9. gr.
39. gr. Hrein eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skal vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Áætlun um framtíðariðgjöld og væntanlegan lífeyri skal miðuð við sjóðfélaga á þeim tíma sem tryggingafræðileg athugun tekur mið af. Hrein eign til greiðslu lífeyris skal á hverjum tíma metin í samræmi við ákvæði 24. gr.

Leiði tryggingafræðileg athugun skv. 24. gr. í ljós að meira en 10% munur er á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga skv. 1. mgr. er hlutaðeigandi lífeyrissjóði skylt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins. Sama gildir ef munur samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár.

Stjórn lífeyrissjóðs er skylt að fá álit tryggingafræðings á áhrifum breytinga á samþykktum lífeyrissjóðs á getu hans til þess að greiða lífeyri. Tryggingafræðingi lífeyrissjóðs er skylt að skýra stjórn sjóðsins þegar í stað frá því ef tryggingafræðileg úttekt leiðir í ljós að sjóðurinn stendur ekki við skuldbindingar sínar. Hann skal skila tillögum til úrbóta til stjórnar og gera [Fjármálaeftirlitinu]
1) viðvart.

Tryggingafræðingur lífeyrissjóðs má ekki sitja í stjórn hans, vera starfsmaður hans eða starfa í þágu hans að öðru en tryggingafræðilegum athugunum og tengdri ráðgjöf.
1)L. 84/1998, 7. gr.
VIII. kafli.
Ársreikningur og endurskoðun.
40. gr. Stjórn lífeyrissjóðs og framkvæmdastjóri skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár. Ársreikningur skal hafa að geyma efnahagsreikning, fjárstreymisyfirlit, yfirlit um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris og skýringar. Enn fremur skal semja skýrslu stjórnar sem ásamt ársreikningi mynda eina heild. Reikningsár lífeyrissjóðs er almanaksárið.

Ársreikningur skal undirritaður af stjórn lífeyrissjóðs og framkvæmdastjóra hans. Hafi stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann gera grein fyrir því í áritun sinni.

Ársreikningur skal gefa glögga mynd af fjárhagsstöðu lífeyrissjóðs og breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris. Hann skal gerður í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju.

[Fjármálaeftirlitið]
1) skal sjá til þess í samráði við reikningsskilaráð að á hverjum tíma liggi fyrir skilgreining á góðri reikningsskilavenju við gerð ársreiknings lífeyrissjóðs.

[Fjármálaeftirlitið]
1) setur reglur
2) að höfðu samráði við reikningsskilaráð um uppsetningu ársreiknings, innihald einstakra liða efnahagsreiknings, yfirlit um breytingar á hreinni eign til greiðslu lífeyris og fjárstreymisyfirlit og skýringar og mat á einstökum liðum.

[Með ársreikningum lífeyrissjóða skal fylgja sú fjárfestingarstefna sem starfað er eftir. Jafnframt skal fylgja úttekt á ávöxtun eignasafna síðasta árs. Fjármálaeftirlitið skal setja nánari reglur um form og efni þessara skýrslna.]
3)
1)L. 84/1998, 7. gr. 2)
Rgl. 55/2000. 3)L. 56/2000, 10. gr.
41. gr. Í skýrslu stjórnar skal koma fram yfirlit um starfsemi sjóðsins á árinu, svo og upplýsingar um atriði er mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu sjóðsins og afkomu hans á reikningsárinu er ekki koma fram annars staðar í ársreikningnum.

Í skýrslu stjórnar skal enn fremur upplýst um eftirfarandi:
1. atburði eftir uppgjörsdag sem hafa verulega þýðingu,
2. væntanlega þróun sjóðsins og
3. aðgerðir sem hafa þýðingu fyrir framtíðarþróun hans.

Skýrsla stjórnar skal veita upplýsingar um fjölda greiðandi sjóðfélaga á árinu, fjölda virkra sjóðfélaga, þ.e. sjóðfélaga sem að jafnaði greiða iðgjöld til sjóðsins með reglubundnum hætti í mánuði hverjum, fjölda lífeyrisþega, fjölda starfsmanna að meðaltali á reikningsárinu, heildarfjárhæð launa, þóknana eða annarra greiðslna til starfsmanna, stjórnar og annarra í þjónustu sjóðsins.
42. gr. Endurskoðun hjá lífeyrissjóði skal gerð af löggiltum endurskoðanda.

Endurskoðandi lífeyrissjóðs má ekki sitja í stjórn hans, vera starfsmaður hans eða starfa í þágu hans að öðru en endurskoðun og innra eftirliti, sbr. 35. gr.

Um endurskoðun hjá lífeyrissjóði gilda ákvæði VII. kafla laga um ársreikninga, eftir því sem við á, nema annað komi fram í þessum lögum.

Verði endurskoðandi var við verulega ágalla í rekstri lífeyrissjóðs eða atriði er varða innra eftirlit, iðgjaldainnheimtu, greiðslutryggingar útlána, meðferð fjármuna eða önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu lífeyrissjóðsins, svo og ef hann hefur ástæðu til að ætla að lög, reglugerðir eða reglur sem gilda um starfsemina hafi verið brotnar, skal hann þegar í stað gera stjórn sjóðsins og [Fjármálaeftirlitinu]
1) viðvart. Ákvæði þessarar málsgreinar brjóta ekki í bága við þagnarskyldu endurskoðanda skv. 32. gr. laga þessara eða ákvæði annarra laga.

[Fjármálaeftirlitið]
1) skal sjá til þess, í samráði við Félag löggiltra endurskoðenda og aðra hlutaðeigandi aðila, að á hverjum tíma liggi fyrir skilgreining á góðri endurskoðunarvenju við endurskoðun hjá lífeyrissjóðum. [Fjármálaeftirlitið]
1) setur reglur
2) um endurskoðun lífeyrissjóða.
1)L. 84/1998, 7. gr. 2)Rg. 541/1998.
43. gr. Senda skal [Fjármálaeftirlitinu]
1) endurskoðaðan ársreikning lífeyrissjóðs ásamt skýrslu stjórnar þegar eftir undirritun hans og eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs. Meginniðurstöður ársreiknings skal birta opinberlega og í samræmdu formi sem [Fjármálaeftirlitið]
1) ákveður. Slíkar meginniðurstöður skulu liggja frammi í starfsstöð viðkomandi lífeyrissjóðs og vera aðgengilegar fyrir sjóðfélaga.
1)L. 84/1998, 7. gr.
IX. kafli.
Eftirlit.
44. gr. [Fjármálaeftirlitið]
1) hefur eftirlit með að starfsemi lífeyrissjóða sé í samræmi við ákvæði laga þessara, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og staðfestar samþykktir lífeyrissjóða. Skal [Fjármálaeftirlitið]
1) eiga aðgang að öllum gögnum og upplýsingum lífeyrissjóða sem það telur nauðsynlegt vegna eftirlitsins. …
2)

[Fjármálaeftirlitið]
1) getur lagt fyrir stjórn lífeyrissjóðs að láta fara fram tryggingafræðilega athugun á hag sjóðs á öðrum forsendum en gefnar eru í reglubundnum athugunum sjóðsins telji eftirlitið að hagur sjóðsins gefi tilefni til þess.

Er [Fjármálaeftirlitinu]
1) berst tilkynning skv. 4. mgr. 42. gr. eða það telur af öðru tilefni ástæðu til að ætla að rekstri lífeyrissjóðs og fjárhagsstöðu sé ábótavant í verulegum atriðum skal það krefja stjórnendur og endurskoðanda þegar í stað um nauðsynleg gögn sem þeim ber að afhenda innan tveggja vikna frá því að þeim barst krafan.

Telji [Fjármálaeftirlitið]
1) að starfsemi lífeyrissjóðs brjóti gegn ákvæðum laga þessara, reglugerðum og reglum settum samkvæmt þeim, staðfestum samþykktum lífeyrissjóða eða sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust getur það veitt viðkomandi sjóði hæfilegan frest til úrbóta, nema brot sé alvarlegt.

[Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá dótturfyrirtækjum eða hlutdeildarfyrirtækjum lífeyrissjóða, enda telji Fjármálaeftirlitið upplýsingarnar nauðsynlegar í eftirliti sínu með viðkomandi lífeyrissjóði.]
2)
1)L. 84/1998, 7. gr. 2)L. 11/2000, 19. gr.
45. gr. [Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins gilda, eftir því sem við getur átt, lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Heimilt er að beita ákvæðum þeirra laga um dagsektir, stjórnvaldssektir og leit og hald á gögnum við upplýsingaöflun og eftirlit samkvæmt þessum lögum.]
1)
1)L. 11/2000, 20. gr.
X. kafli.
Umsjónaraðili, slit og samruni.
46. gr. Fullnægi lífeyrissjóður ekki lengur skilyrði laga þessara til þess að öðlast starfsleyfi, sbr. V. kafla, reynist lífeyrissjóður ekki gjaldhæfur að mati [Fjármálaeftirlitsins],
1) brjóti hann gegn ákvæðum laga þessara, reglugerðum og reglum settum samkvæmt þeim, staðfestum samþykktum lífeyrissjóðs eða sé rekstri hans ábótavant og kröfum [Fjármálaeftirlitsins]
1) skv. 44. gr. ekki sinnt er ráðherra heimilt að skipa lífeyrissjóði umsjónaraðila um tiltekinn tíma að fengnum tillögum [Fjármálaeftirlitsins].
1)

Stjórn og framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs skulu víkja frá störfum þann tíma sem umsjónaraðili starfar. Tekur umsjónaraðili við réttindum og skyldum þessara aðila eftir því sem nánar er kveðið á um í erindisbréfi hans sem ráðherra gefur út. Kostnaður við starf umsjónaraðila greiðist af viðkomandi lífeyrissjóði.
1)L. 84/1998, 7. gr.
47. gr. Skipun umsjónaraðila skal rökstudd og tilkynnt hlutaðeigandi lífeyrissjóði skriflega. Jafnframt skal birta tilkynningu um skipunina í Lögbirtingablaði og auglýsa hana í fjölmiðlum.

Skylda til greiðslu iðgjalds til hlutaðeigandi lífeyrissjóðs fellur niður frá og með þeim tíma sem tilkynning um skipun umsjónaraðila birtist í Lögbirtingablaði. Ef iðgjaldagreiðslu til sjóðsins er hætt skal tryggingaskyldu fullnægt með aðild að og greiðslu iðgjalds til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda eða annars lífeyrissjóðs sem viðurkenndur er af fjármálaráðherra.

Að tillögu umsjónaraðila getur ráðherra ákveðið slit lífeyrissjóðs. Skal ráðherra þá skipa skilanefnd þriggja manna sem sér um slit á sjóðnum eða flutning á starfsemi hans til annars lífeyrissjóðs. Skilanefnd tekur við öllum heimildum sjóðstjórnar og falla jafnframt niður heimildir stjórnarinnar frá sama tíma. Skilanefnd skal taka ákvörðun um hvort sjóðnum skuli slitið með sameiningu við annan sjóð eða með öðrum hætti, sbr. 2. og 3. mgr. 49. gr.
48. gr. Ákvörðun um slit lífeyrissjóðs, hvort heldur er með sameiningu eða öðrum hætti, skal tekin af stjórn hans, nema samþykktir sjóðsins kveði á um annað eða ákvæði 47. gr. eigi við.

Ákvörðun um slit lífeyrissjóðs skal þegar í stað tilkynna fjármálaráðuneytinu og [Fjármálaeftirlitinu].
1)

Sé gert samkomulag um að sameina lífeyrissjóð algjörlega öðrum sjóði skal gefa út innköllun skv. 2. mgr. 49. gr. og halda eignunum aðgreindum þar til fresturinn er útrunninn og lýstum kröfum fullnægt. Ekki þarf þó að halda eignum aðgreindum ef allir lánardrottnar samþykkja eða þeim er sett fullnægjandi trygging.

Eignir lífeyrissjóðs skulu renna til þess lífeyrissjóðs sem hann sameinast. Við flutning og ákvörðun lífeyrisréttinda skal þess gætt að hver og einn sjóðfélagi beggja sjóðanna verði ekki fyrir réttindaskerðingu vegna sameiningarinnar. Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um hvernig lífeyrisréttindi skulu metin í þessu sambandi.
1)L. 84/1998, 7. gr.
49. gr. Stjórn sjóðs eða sá aðili sem samkvæmt samþykktum sjóðs hefur ákveðið að honum skuli slitið skal þegar í stað tilnefna þriggja manna skilanefnd er taki við störfum stjórnar og framkvæmdastjóra sjóðsins, enda hafi skilanefnd ekki þegar verið skipuð skv. 3. mgr. 47. gr.

Skilanefnd skal láta birta tvisvar í Lögbirtingablaði áskorun til lánardrottna sjóðsins um að lýsa kröfum sínum innan tveggja mánaða frá fyrstu birtingu áskorunarinnar og hefur hún sömu réttaráhrif og gildir um innköllun krafna við gjaldþrotaskipti.

Eignir lífeyrissjóðs sem eftir standa þegar skuldir hafa verið greiddar skulu renna til Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Skulu réttindi sjóðfélaga og lífeyrisþega jafnframt metin til réttar í Söfnunarsjóðnum í sama hlutfalli og er milli þeirra eigna sjóðsins er til Söfnunarsjóðsins renna og heildarlífeyrisskuldbindinga sjóðsins metinna í samræmi við ákvæði laga þessara. Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um hvernig lífeyrisréttindi skulu metin í þessu sambandi.
XI. kafli.
Lífeyrissjóðir sem starfa við gildistöku laga þessara.
50. gr. Lífeyrissjóðir sem starfa samkvæmt sérlögum eru undanþegnir ákvæðum 21. gr., V. kafla og X. kafla. Jafnframt eru þeir undanþegnir ákvæðum 3. gr. og III. kafla enda sé kveðið á um iðgjaldsstofn og réttindi í viðkomandi lögum. Ákvæði 3. mgr. 14. gr. skal þó gilda fyrir þessa sjóði.
51. gr. [Lífeyrissjóðir sem njóta bakábyrgðar ríkis, sveitarfélaga og banka eru undanþegnir ákvæðum 21., 23. og 39. gr.]
1)
1)L. 56/2000, 11. gr.
52. gr. Lífeyrissjóðir, sem hyggjast halda áfram að taka við iðgjöldum eftir gildistöku laga þessara, skulu innan eins árs frá gildistökunni senda fjármálaráðuneytinu umsókn um starfsleyfi. Umsókn skulu fylgja samþykktir lífeyrissjóðs, tryggingafræðileg athugun, ásamt öðrum þeim upplýsingum sem ráðherra ákveður. Hafi sjóður ekki nægjanlega marga sjóðfélaga skv. 21. gr. skal í umsókn koma fram hvenær og hvernig sjóðurinn hyggst uppfylla skilyrði greinarinnar, sbr. 25. gr. Um veitingu starfsleyfis fer að öðru leyti eftir ákvæðum V. kafla, um starfsleyfi.

Hafi lífeyrissjóður ekki sent umsókn um starfsleyfi ásamt tilskildum gögnum innan þess tíma sem greinir í 1. mgr. telst sjóðurinn ekki fullnægja ákvæðum laga þessara til þess að öðlast starfsleyfi og fer þá um málefni hans samkvæmt ákvæðum X. kafla.
53. gr. Lífeyrissjóðir, sem starfandi eru við gildistöku laga þessara og hyggjast einvörðungu veita lífeyri vegna áunninna réttinda, skulu tilkynna fjármálaráðuneytinu um þá fyrirætlan innan eins árs frá gildistöku laganna og skal þeim veitt starfsleyfi í því skyni, að fenginni umsögn [Fjármálaeftirlitsins].
1) [Um réttindi sjóðfélaga til greiðslu lífeyris úr sjóðum sem starfa samkvæmt greininni fer eftir reglugerðum hlutaðeigandi sjóða sem í gildi voru við gildistöku laga þessara. Þó skal heimilt að breyta ákvæðum um réttindi sjóðfélaga til samræmis við samkomulag sem samtök launþega og vinnuveitenda gera með sér, enda fari slík breyting hvorki í bága við III. kafla laganna né teljist ganga á ólögmætan hátt á áunninn rétt einstakra sjóðfélaga innbyrðis eða annarra sem réttinda njóta, eða hafa teljandi fjárhagsleg áhrif þegar litið er til eigna sjóðsins og lífeyrisskuldbindinga. Við það mat skal m.a. litið til umsagnar tryggingafræðings viðkomandi sjóðs sem fylgja skal ósk um breytingar. Breytingar á réttindaákvæðum skulu koma fram í staðfestum samþykktum fyrir viðkomandi sjóði. Að öðru leyti skulu lög þessi gilda um hlutaðeigandi sjóði eftir því sem við getur átt.]
2)
1)L. 84/1998, 7. gr. 2)L. 56/2000, 12. gr.
54. gr. Lífeyrissjóði, sem starfar í samræmi við staðfesta reglugerð samkvæmt
lögum nr. 55/1980 og nýtur bakábyrgðar ríkis, sveitarfélags eða [banka eða naut slíkrar ábyrgðar 31. desember 1997, er heimilt að starfa áfram á óbreyttum iðgjalda- og]
1) réttindagrundvelli fyrir þá sem eiga aðild að sjóðnum við gildistöku laga þessara. [Lífeyrissjóðum sem kjósa að starfa áfram á óbreyttum réttindagrundvelli er þó heimilt að breyta viðmiðum sínum vegna töku lífeyris á grundvelli eftirmannsreglu, sbr. reglugerðir sjóðanna, þannig að lífeyrir breytist í samræmi við meðalbreytingar dagvinnulauna hjá opinberum starfsmönnum samkvæmt launavísitölu Hagstofu Íslands.]
2) Lífeyrissjóðurinn skal tilkynna fjármálaráðuneytinu um þá fyrirætlun innan eins árs frá gildistöku laganna og skal honum veitt starfsleyfi í því skyni.

Kjósi sjóðurinn að taka við iðgjöldum frá nýjum sjóðfélögum skulu þeir eiga aðild að sérstakri deild í sjóðnum og skulu samþykktir hennar uppfylla skilyrði laga þessara. Um starfsleyfi fyrir slíka deild skal sótt innan sömu tímamarka og í 1. mgr. greinir.

Í að minnsta kosti eitt ár eftir gildistöku laga þessara skal gefa þeim sem eiga aðild að lífeyrissjóði er þessi grein tekur til kost á aðild að réttindakerfi eða öðrum lífeyrissjóði sem uppfyllir skilyrði laga þessara, [enda hafi slíkt val ekki farið fram fyrir gildistöku laganna].
1)
1)L. 148/1998, 4. gr. 2)L. 56/2000, 13. gr.
XII. kafli.
Ýmis ákvæði.
55. gr. Brot gegn lögum þessum varða sektum eða fangelsi allt að einu ári, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt almennum hegningarlögum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðilanum sekt.
56. gr. Fjármálaráðherra fer með framkvæmd laga þessara og er honum heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð.
1)
1)Rg. 391/1998, sbr. 742/1998. Rg. 698/1998, sbr. 9/1999.
57. gr. Kostnaður við birtingu tilkynninga samkvæmt lögum þessum skal greiddur af viðkomandi lífeyrissjóði.
58. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1998. …
Ákvæði til bráðabirgða.
I. Fram til þess tíma er starfsleyfi er veitt skv. XI. kafla skal um starfsemi lífeyrissjóðs gilda sú staðfesta reglugerð sem í gildi er við gildistöku laga þessara enda hafi heimild til reksturs lífeyrissjóðs ekki fallið niður.
II. Á árinu 2001 skal fjármálaráðherra láta gera skýrslu um þróun lífeyrismála í framhaldi af samþykkt laga þessara. Sérstaklega skal fjalla um hvernig lífeyrissjóðir hafa breytt samþykktum sínum og boðið sjóðfélögum upp á fleiri valmöguleika í samsetningu lífeyrisréttinda sinna, sbr. 4. gr., enda er það eitt af markmiðum laga þessara að auka valmöguleika sjóðfélaganna. Komi í ljós að lífeyrissjóðir hafi almennt ekki boðið upp á valmöguleika með hliðsjón af lágmörkum skv. 4. gr. skal fjármálaráðherra láta, í samráði við hagsmunaaðila, undirbúa frumvarp um breytingu á lögum þessum þannig að þetta markmið þeirra náist.
[III. Þrátt fyrir ákvæði
36. gr. er lífeyrissjóðum sem starfandi voru við gildistöku laga nr. 129/1997 ekki skylt að selja eignir í því skyni að fullnægja þeim takmörkunum sem kveðið er á um í greininni.

Lífeyrissjóðum sem keypt hafa óskráð bréf á grundvelli 9. tölul. 1. mgr. og 3. mgr.
36. gr. laga nr. 129/1997 er ekki skylt að selja óskráð bréf sem keypt voru fyrir gildistöku þessara laga.

Skuldabréf skv. 3. mgr.
33. gr. laga nr. 1/1997 sem Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefur tekið við, svo og skuldabréf sem Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar hefur tekið við, vegna uppgreiðslu skuldbindinga fyrir gildistöku
laga nr. 129/1997 eru undanþegin takmörkunum 2. mgr. 36. gr.]
1)
1)L. 56/2000, brbákv.