Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 534, 123. löggjafarþing 228. mál: tryggingagjald (lífeyrissparnaður launamanns).
Lög nr. 148 22. desember 1998.

Lög um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum, og lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.


I. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 2. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar er orðast svo:
     Geri launamaður eða sá sem stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi samning um tryggingavernd á grundvelli iðgjalds sem hann ákvarðar og hefur beinan ráðstöfunarrétt yfir, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 2. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, skal almennt tryggingagjald lækka um allt að 0,2% af gjaldstofni og sá hluti tryggingagjaldsins nýttur sem iðgjaldshluti launagreiðanda á móti iðgjaldshluta launamanns. Frádráttarbær iðgjaldshluti launagreiðanda skal vera 10% af iðgjaldshluta launamanns, þó aldrei hærri en 0,2% af gjaldstofni tryggingagjalds.
     Skilyrði lækkunar skv. 8. mgr. er að mótframlag sé innt af hendi um leið og sparnaður er dreginn af launum og ráðstafað til aðila skv. 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
     Við skil á staðgreiðslu tryggingagjalds skal taka tilliti til lækkunar skv. 8. mgr. einu sinni á ári eins og um uppgjör fyrir desember væri að ræða. Um uppgjör og álagningu gilda ákvæði V. kafla.
     Maður sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi og ekki er háður skyldu til að skila launaframtali, sbr. 3. mgr. 12. gr., skal gera grein fyrir frádráttarbærum iðgjaldshluta á sérstöku eyðublaði í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

II. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

2. gr.

     Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Iðgjaldi samkvæmt ákvörðun launamanns eða þess sem stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal varið til aukningar lífeyrisréttinda skv. II. eða III. kafla.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Lífeyrissjóðum og aðilum skv. 3. mgr. 8. gr. er skylt að tekjuári liðnu að gera ríkisskattstjóra grein fyrir því iðgjaldi til öflunar lífeyrisréttinda sem greitt hefur verið til þeirra fyrir hvern rétthafa á því ári.
  3. Við 3. mgr. bætist: og aðila skv. 3. mgr. 8. gr.
  4. 4. mgr. orðast svo:
  5.      Hver sá sem er skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði samkvæmt lögum þessum og er framtalsskyldur samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt skal í framtali sínu eða á annan hátt er ríkisskattstjóri ákveður tilgreina þau iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda sem hann hefur greitt á árinu og þá lífeyrissjóði og aðila skv. 3. mgr. 8. gr. sem hann hefur greitt til.


4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „banka, er heimilt að starfa áfram á óbreyttum“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: banka eða naut slíkrar ábyrgðar 31. desember 1997, er heimilt að starfa áfram á óbreyttum iðgjalda- og.
  2. Við 3. mgr. bætist: enda hafi slíkt val ekki farið fram fyrir gildistöku laganna.


5. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 1998.