Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Athugið að þetta er ekki nýjasta útgáfa lagasafns.
Lagasafn. Íslensk lög 1. janúar 2009. Útgáfa 136a. Prenta í tveimur dálkum.
Lög um framhaldsskóla
2008 nr. 92 12. júní
Ferill málsins á Alþingi. Frumvarp til laga.
Tóku gildi 1. ágúst 2008.
I. kafli. Gildissvið, hlutverk og yfirstjórn.
1. gr. Gildissvið.
Lög þessi taka til skólastarfs á framhaldsskólastigi. Nám á framhaldsskólastigi er skipulagt sem framhald af námi á grunnskólastigi. Það miðar að lokaprófi, svo sem framhaldsskólaprófi, starfsréttindaprófi, stúdentsprófi eða öðrum skilgreindum námslokum sem geta miðast við tiltekin störf og veitt sérstök réttindi þeim tengd.
Lög þessi taka til opinberra framhaldsskóla, sbr. II. kafla, og annarra skóla á framhaldsskólastigi sem hlotið hafa viðurkenningu ráðherra, sbr. III. kafla.
2. gr. Hlutverk.
Hlutverk framhaldsskóla er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemanda nám við hæfi.
Framhaldsskólar búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og frekara nám. Þeir skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu, efla siðferðisvitund, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi nemenda, þjálfa þá í öguðum og sjálfstæðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja til þekkingarleitar. Framhaldsskólar sinna miðlun þekkingar og þjálfun nemenda þannig að þeir öðlist færni til að gegna sérhæfðum störfum og hafi forsendur til að sækja sér frekari menntun.
3. gr. Yfirstjórn.
Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála er lög þessi taka til og ber ábyrgð á eftirfarandi:
a. almennri stefnumótun í málefnum framhaldsskóla,
b. aðalnámskrá og staðfestingu á námskrám og námsbrautarlýsingum skóla,
c. eftirliti með stjórnsýslu og skólastarfi,
d. stuðningi við þróunarstarf í framhaldsskólum og þróun námsefnis,
e. söfnun, úrvinnslu og miðlun upplýsinga um skólastarf.
II. kafli. Opinberir framhaldsskólar.
4. gr. Stofnun framhaldsskóla.
Opinber framhaldsskóli er ríkisstofnun og heyrir undir menntamálaráðherra.
Ráðherra, eftir atvikum í samstarfi við sveitarfélög, eitt eða fleiri, getur haft frumkvæði að stofnun opinbers framhaldsskóla. Opinber framhaldsskóli er stofnaður með því að Alþingi leggur skólanum til rekstrarfé í fjárlögum.
Opinberir framhaldsskólar þarfnast ekki sérstakrar viðurkenningar, en þeir skulu uppfylla öll almenn skilyrði fyrir viðurkenningu framhaldsskóla, sbr. 12. gr.
5. gr. Skólanefndir.
Ráðherra skipar skólanefnd við framhaldsskóla til fjögurra ára í senn. Í skólanefnd skulu sitja fimm einstaklingar. Tveir eru skipaðir samkvæmt tilnefningum sveitarstjórna og þrír án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Nefndin kýs sér formann til eins árs í senn. Áheyrnarfulltrúar eru þrír með málfrelsi og tillögurétt, einn tilnefndur af kennarafundi, einn af nemendafélagi skólans og einn af foreldraráði, til eins árs í senn. Skólameistari situr fundi skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt. Hann er framkvæmdastjóri nefndarinnar.
Hlutverk skólanefndar er að:
a. marka áherslur í starfi skólans og stuðla að sem bestri þjónustu við íbúa á starfssvæði skólans og tengslum hans við atvinnu-, félags- og menningarlíf,
b. vera skólameistara til samráðs um námsframboð skóla,
c. staðfesta skólanámskrá að fenginni umsögn almenns skólafundar og fylgjast með framkvæmd hennar,
d. veita skólameistara umsögn um árlega starfs- og fjárhagsáætlun í samræmi við niðurstöður fjárlaga og fylgjast með framkvæmd hennar,
e. vera skólameistara til samráðs um fjárhæð þeirra gjalda sem skólameistari ákveður skv. 45. gr.,
f. vera skólameistara til samráðs um samninga sem viðkomandi skóli gerir,
g. vera skólameistara til samráðs um starfsmannamál,
h. veita ráðherra umsögn um umsækjendur um stöðu skólameistara.
6. gr. Skólameistari.
Ráðherra skipar skólameistara í framhaldsskólum til fimm ára í senn. Skólanefnd veitir umsögn um umsækjendur um starf skólameistara. Kennari, sem skipaður er skólameistari, skal fá leyfi frá kennarastarfi sínu þann tíma sem hann gegnir embætti skólameistara.
Skólameistari veitir framhaldsskóla forstöðu. Hann stjórnar daglegum rekstri og starfi framhaldsskóla og gætir þess að skólastarfið sé í samræmi við lög, reglugerðir, aðalnámskrá og önnur gildandi fyrirmæli á hverjum tíma. Hann ber ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar og að henni sé fylgt og hefur frumkvæði að gerð skólanámskrár og umbótastarfi innan skólans.
7. gr. Skólaráð.
Skólaráð skal vera skólameistara til samráðs og aðstoðar. Skólameistari er oddviti skólaráðs sem auk hans skal skipað staðgengli hans og fulltrúum kennara og nemenda. Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um skipan skólaráðs, verksvið þess og starfshætti.
8. gr. Starfsfólk framhaldsskóla.
Skólameistari ræður stjórnendur, kennara og aðra starfsmenn skólans að höfðu samráði við skólanefnd.
Skólameistari ræður staðgengil sinn til allt að fimm ára í senn. Kennari, sem ráðinn er staðgengill skólameistara, skal eftir atvikum fá leyfi frá kennarastarfi sínu þann tíma sem hann gegnir staðgöngu.
Um skilyrði þess að vera ráðinn skólameistari eða kennari við framhaldsskóla fer eftir ákvæðum gildandi laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
Óheimilt er að ráða einstakling til starfa við framhaldsskóla sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Við ráðningu skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild skólameistara til að afla upplýsinga úr sakaskrá.
Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um menntun og starfssvið náms- og starfsráðgjafa, starfsfólks skólasafna og annars starfsfólks framhaldsskóla, eftir því sem við á. Sama gildir um starfssvið skólameistara og kennara.
9. gr. Skólafundir.
Í framhaldsskólum skal halda skólafund a.m.k. einu sinni á skólaári. Rétt til setu á skólafundi eiga allir starfsmenn skóla ásamt fulltrúum nemenda samkvæmt nánari ákvörðun skólameistara. Á skólafundi er rætt um málefni viðkomandi skóla. Skólameistari boðar til fundar, leggur fram dagskrá og stýrir fundi eða felur öðrum stjórn hans. Fundargerð skólafundar skal kynnt skólanefnd.
Skylt er skólameistara að halda skólafund ef þriðjungur fastra starfsmanna skóla krefst þess.
10. gr. Kennarafundir.
Í framhaldsskólum skal halda kennarafund a.m.k. tvisvar sinnum á skólaári. Skólameistari boðar til fundar, leggur fram dagskrá og stýrir fundi eða felur öðrum stjórn hans. Fundargerð kennarafundar skal kynnt skólanefnd. Almennir kennarafundir í framhaldsskólum skulu fjalla um stefnumörkun í starfi skóla, m.a. námsskipan, kennsluhætti, gerð skólanámskrár, tilhögun prófa og námsmat.
Skólanefnd, skólameistari og skólaráð geta leitað til kennarafundar um önnur mál.
Kennarafundur kýs við upphaf haustannar fulltrúa í skólaráð. Kennarafundur kýs einnig áheyrnarfulltrúa í skólanefnd.
Allir kennarar sem starfa við skóla eiga rétt til setu á kennarafundi. Skólameistari undirbýr mál er fyrir kennarafund koma, en öllum sem þar eiga seturétt er heimilt að bera þar fram mál.
11. gr. Námsorlof.
Kennari sem starfað hefur í a.m.k. fimm ár getur óskað eftir að fá sérstakt námsorlof til að efla þekkingu sína og kennarahæfni. Skal hann senda menntamálaráðuneyti beiðni um námsorlof. Ráðuneytið getur, að fenginni umsögn skólameistara, veitt námsorlof allt að einu ári á föstum launum. Kennari er nýtur námsorlofs getur jafnframt sótt um styrk til að standa straum af kostnaði við ferðalög og námsdvöl í sambandi við námsorlofið. Sá sem fær orlof skilar skýrslu til ráðuneytisins um hvernig því var varið.
Ákvæði þessarar greinar taka einnig til skólameistara og annarra faglegra stjórnenda.
Ráðherra setur reglugerð um námsorlof samkvæmt grein þessari.
III. kafli. Aðrir skólar á framhaldsskólastigi.
12. gr. Viðurkenning.
Ráðherra getur veitt skólum, öðrum en þeim sem falla undir II. kafla, viðurkenningu til kennslu á framhaldsskólastigi. Slíka skóla má starfrækja sem sjálfseignarstofnun, hlutafélag eða með öðru viðurkenndu rekstrarformi. Skilyrði fyrir viðurkenningu lúta að eftirtöldum þáttum:
a. hlutverki og markmiðum skóla,
b. stjórnskipan skóla og skipulagi hans,
c. skólanámskrám og námsbrautarlýsingum,
d. fyrirkomulagi náms og kennslu,
e. hæfisskilyrðum starfsmanna,
f. inntökuskilyrðum nemenda,
g. réttindum og skyldum nemenda,
h. starfsaðstöðu og aðbúnaði kennara og nemenda og þjónustu við þá,
i. innra gæðakerfi,
j. fjárhagsmálefnum og tryggingum.
Í viðurkenningu skóla felst staðfesting á því að starfsemi viðkomandi skóla uppfylli, á þeim tíma sem viðurkenning er veitt, almenn skilyrði laga þessara og reglna sem settar eru með stoð í þeim. Skóli sem hlotið hefur viðurkenningu hefur sjálfdæmi um starfsemi sína að öðru leyti en því sem kveðið er á um í lögum þessum, reglum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru á grundvelli laganna.
Í viðurkenningu felst ekki skuldbinding um fjárframlög úr ríkissjóði til viðkomandi skóla og eigi heldur ábyrgð á skuldbindingum hans.
Skóli sem hlotið hefur viðurkenningu skal leitast við að leysa úr málum er varða réttindi og skyldur nemenda í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti.
Uppfylli skóli, sem fengið hefur viðurkenningu, ekki skilyrði laga þessara og reglur og skilyrði sem sett eru á grundvelli þeirra getur ráðherra afturkallað viðurkenninguna.
Í reglugerð skal kveðið nánar á um skilyrði fyrir viðurkenningu og hvernig staðið er að veitingu viðurkenningar, eftirlit með starfsemi skóla, sbr. VII. kafla, og afturköllun viðurkenningar.
13. gr. Skólameistari, kennarar.
Stjórn skóla, sem hlýtur viðurkenningu ráðherra á grundvelli 12. gr., ræður skólameistara til að stýra daglegri starfsemi skólans. Hann ber ábyrgð á starfsemi skólans í umboði stjórnar eða ábyrgðaraðila í samræmi við samþykktir, stofnskrá eða önnur stofnskjöl viðkomandi skóla.
Um skilyrði þess að vera ráðinn skólameistari eða kennari fer eftir ákvæðum laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
Heimilt er ráðherra að víkja frá menntunarkröfum kennara í skólum sem hljóta viðurkenningu skv. 12. gr., enda sé þá ekki um að ræða nám sem byggist á aðalnámskrá framhaldsskóla heldur sérhæft starfsmiðað nám.
14. gr. Skóla- og kennarafundir.
Um skóla- og kennarafundi fer samkvæmt ákvæðum 9. og 10. gr.
IV. kafli. Skipulag náms, námslok.
15. gr. Námseiningar.
Öll vinna nemenda í framhaldsskóla skal metin í stöðluðum námseiningum og skal að baki hverri einingu liggja því sem næst jafnt vinnuframlag nemanda. Eitt námsár, sem mælir alla ársvinnu nemanda með fullnaðarárangri, veitir 60 einingar. Er þá miðað við að árlegur fjöldi vinnudaga nemenda sé að lágmarki 180 dagar.
Ráðherra setur í aðalnámskrá nánari reglur um mat á námi til eininga og vinnu nemenda í framhaldsskólum.
16. gr. Framhaldsskólapróf.
Til að útskrifast með framhaldsskólapróf skal nemandi hafa lagt stund á nám sem svarar til 90–120 eininga samkvæmt námskrá og námsbrautarlýsingu sem hlotið hefur staðfestingu ráðherra skv. 23. gr.
17. gr. Próf til starfsréttinda.
Til að útskrifast með starfsréttindapróf frá framhaldsskóla skal nemandi hafa lokið námi með fullnaðarárangri samkvæmt námskrá og námsbrautarlýsingu sem hlotið hefur staðfestingu ráðherra, sbr. einnig 23. gr.
18. gr. Stúdentspróf.
Til að útskrifast með stúdentspróf frá framhaldsskóla skal nemandi hafa lokið námi með fullnaðarárangri samkvæmt námskrá og námsbrautarlýsingu sem hlotið hefur staðfestingu ráðherra, sbr. 23. gr. Námsbraut til stúdentsprófs skal innihalda að lágmarki 45 námseiningar er skiptast milli náms í kjarnagreinum framhaldsskóla, þ.e. íslensku, stærðfræði og ensku, samkvæmt nánari ákvæðum í aðalnámskrá.
Stúdentspróf miðar m.a. að því markmiði að undirbúa nemendur undir nám á háskólastigi. Við mat á námsbrautarlýsingu til stúdentsprófs og staðfestingu ráðherra á henni skal það vera tryggt að prófið uppfylli almennar kröfur háskóla um undirbúning fyrir nám á háskólastigi.
19. gr. Önnur lokapróf.
Framhaldsskólar geta boðið nám til annarra skilgreindra námsloka en getið er um í 16., 17. og 18. gr. á námsbrautum sem hlotið hafa staðfestingu ráðherra, sbr. nánar ákvæði V. kafla.
20. gr. Viðbótarnám við framhaldsskóla.
Heimilt er framhaldsskólum að hafa í boði nám í framhaldi af skilgreindum námslokum á framhaldsskólastigi, sbr. 17., 18. og 19. gr. Skal ráðherra staðfesta námsbrautarlýsingar fyrir slíkt nám, sbr. nánar ákvæði V. kafla, sem og heiti viðkomandi prófgráða.
Nám sem stundað er samkvæmt grein þessari skal metið í einingum, sbr. 15. gr., og þegar við á í námseiningum háskóla, sbr. 6. gr. laga nr. 63/2006.
Nám sem í boði er samkvæmt grein þessari getur veitt sérstök eða aukin réttindi.
V. kafli. Námskrár og námsbrautir.
21. gr. Aðalnámskrá.
Aðalnámskrá framhaldsskóla, er ráðherra setur, kveður á um markmið og fyrirkomulag skólastarfs á framhaldsskólastigi. Aðalnámskrá framhaldsskóla skiptist í tvo hluta, almennan hluta samkvæmt grein þessari og námsbrautarlýsingu skv. 23. gr. Tilkynning um gildistöku aðalnámskrár eða hluta hennar skal birt í Stjórnartíðindum.
Í almennum hluta aðalnámskrár eru útfærðir starfshættir og markmið framhaldsskóla. Almennur hluti aðalnámskrár skal m.a. innihalda eftirfarandi:
a. ákvæði um uppbyggingu námsbrautarlýsinga og um vægi kjarnagreina framhaldsskóla,
b. skilyrði um hvernig markmið einstakra áfanga og námsbrauta og lokamarkmið náms skulu skilgreind,
c. viðmið um námskröfur og námsframvindu,
d. reglur um námsmat og vitnisburð,
e. skilgreining á vinnustaðanámi og reglur um fyrirkomulag vinnustaðanáms,
f. reglur um mat á starfsnámi og skilgreiningu færnimarkmiða,
g. reglur um raunfærnimat, jafngildingu náms og mat á námi þegar nemendur flytjast milli skóla eða námsbrauta,
h. almennar reglur um skólanámskrár,
i. ákvæði um mat á skólastarfi,
j. almennar reglur um réttindi og skyldur nemenda og meðferð ágreiningsmála.
22. gr. Skólanámskrá.
Sérhver framhaldsskóli skal gefa út skólanámskrá. Skólanámskrá skiptist í tvo hluta, almennan hluta og námsbrautarlýsingar.
Í almennum hluta skólanámskrár skal gerð grein fyrir starfsemi skólans, helstu áherslum og stefnumörkun, stjórnskipan, námsframboði og skipulagi náms, kennsluháttum, námsmati, stuðningi, ráðgjöf og þjónustu við nemendur, réttindum og skyldum nemenda, foreldrasamstarfi og samstarfi við utanaðkomandi aðila, sjálfsmati og gæðamálum og öðru sem skóli kýs að kveða á um í skólanámskrá. Jafnframt skal skóli gera grein fyrir því hvernig hann uppfyllir skilyrði samkvæmt almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla og markmið laga þessara og reglna sem settar eru með stoð í þeim.
Um setningu námsbrautarlýsinga í skólanámskrá skal farið að ákvæðum 23. gr.
Skólanámskrá skal staðfest af skólanefnd að fenginni umsögn skólafundar, sbr. 5. gr. Skólanefnd fylgist með framkvæmd skólanámskrár.
23. gr. Námsbrautarlýsingar.
Framhaldsskólar setja sér námsbrautarlýsingar og leggja þær fyrir ráðherra til staðfestingar. Námsbrautarlýsingar framhaldsskóla sem hlotið hafa staðfestingu ráðherra eru þar með hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla. Heimilt er að tveir eða fleiri framhaldsskólar standi sameiginlega að gerð námsbrautarlýsingar og leiti staðfestingar á henni. Tilkynning um staðfestingu ráðherra á námsbrautarlýsingu skal birt í Stjórnartíðindum. Brottfelling námsbrautarlýsingar skal auglýst með sama hætti.
Námsbrautarlýsingar skulu byggðar upp í samræmi við ákvæði almenns hluta aðalnámskrár framhaldsskóla og skólanámskrár viðkomandi skóla. Í námsbrautarlýsingu skal kveðið á um innihald og vægi áfanga í einstökum greinum, samhengi í námi, vægi námsþátta og lokamarkmið náms. Þar er ákveðinn lágmarksfjöldi áfanga og eininga í einstökum námsgreinum og inntak náms í megindráttum.
Heimilt er ráðherra að setja sérstakar reglur um flokkun og þrepaskiptingu náms í samræmi við færni- og lokamarkmið námsins.
Staðfesting ráðherra á námsbrautarlýsingu er háð því að skilyrðum aðalnámskrár skv. 21. gr. sé fullnægt.
Ráðherra er heimilt að gefa út námsbrautarlýsingar sem einstakir framhaldsskólar geta haft til viðmiðunar í starfi sínu. Slíkar viðmiðunarnámskrár eru þá hluti aðalnámskrár framhaldsskóla og geta náð til eftirfarandi námsbrauta:
a. námsbrauta sem leiða til starfsréttindaprófs, þar á meðal þeirra sem leiða til sveinsprófs,
b. námsbrauta sem leiða til stúdentsprófs,
c. annarra námsbrauta sem leiða til prófa og skilgreindra námsloka samkvæmt ákvörðun ráðherra.
24. gr. Starfsgreinaráð, skipan.
Ráðherra skipar til fjögurra ára í senn starfsgreinaráð fyrir starfsgreinaflokka eða starfsgreinar. Í starfsgreinaráði skulu eiga sæti fimm til níu fulltrúar, þar af tveir til fjórir tilnefndir af samtökum atvinnurekenda, tveir til fjórir af samtökum launþega í viðkomandi starfsgreinum og einn fulltrúi tilnefndur sameiginlega af Félagi íslenskra framhaldsskóla og Kennarasambandi Íslands. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
Starfsgreinaráð kýs formann og varaformann úr hópi aðalmanna til tveggja ára í senn. Tilnefningaraðilar greiða kostnað af störfum fulltrúa sinna í starfsgreinaráði. Menntamálaráðuneytið greiðir kostnað af sérfræðilegri vinnu við námskrárgerð.
25. gr. Hlutverk starfsgreinaráða.
Starfsgreinaráð eru, hvert á sínu sviði, ráðherra til ráðgjafar um starfsnám á framhaldsskólastigi. Hlutverk þeirra er eftirfarandi:
a. að gera tillögur um almenn markmið náms og skilgreina þarfir fyrir kunnáttu og hæfni sem námsbrautarlýsingar fyrir viðkomandi starfsgreinar byggjast á og eru hluti af almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla og gera tillögur um lokamarkmið náms,
b. að setja viðmið fyrir skiptingu náms í skóla- og vinnustaðanám,
c. að gera tillögur um uppbyggingu og inntak prófa í einstökum starfsgreinum,
d. að halda skrá yfir fyrirtæki og vinnustaði sem uppfylla skilyrði til vinnustaðanáms, sbr. 28. gr.,
e. að gera tillögur að námsbrautarlýsingum fyrir einstakar námsbrautir sem framhaldsskólar geta haft til viðmiðunar, sbr. 23. gr., og
f. að veita ráðherra umsögn um námsbrautarlýsingar starfsnáms sem einstakir skólar leita eftir staðfestingu á af hálfu ráðherra, sbr. 23. gr.
Ráðherra getur leitað álits starfsgreinaráðs við mat á beiðni skóla um viðurkenningu, sbr. 12. gr.
Menntamálaráðuneytið greiðir kostnað af sérfræðilegri vinnu sem unnin er skv. a- og d-lið 1. mgr.
Ráðherra setur reglugerð um skipan starfsgreinaráða, sbr. 24. gr., og um störf þeirra.
26. gr. Fagráð.
Starfsgreinaráð geta stofnað fagráð fyrir hverja starfsgrein eða starfsgreinaflokka sem eru skipuð fulltrúum einstakra starfsgreina og fagkennurum skóla og/eða öðrum sérfræðingum. Fagráð veitir ráðgjöf um nýjungar og þróun starfsgreina á viðkomandi sviði og gerir tillögur um sérstök tilrauna- og þróunarverkefni. Starfsgreinaráð móta að öðru leyti reglur um verksvið fagráða.
27. gr. Starfsgreinanefnd, skipun og hlutverk.
Formenn starfsgreinaráða skipa sérstaka starfsgreinanefnd, ásamt formanni og varaformanni sem eru skipaðir án tilnefningar.
Hlutverk starfsgreinanefndar er að vera ráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í starfsnámi og framkvæmd starfsnáms, að vera vettvangur samráðs og samræmingar milli starfsgreinaráða og að veita álit á skiptingu og flokkun starfsgreina milli starfsgreinaráða.
Starfsgreinaráð greiða kostnað af störfum fulltrúa sinna í nefndinni. Menntamálaráðuneytið greiðir kostnað af fulltrúum sem skipaðir eru án tilnefningar.
28. gr. Vinnustaðanám.
Verknám og starfsþjálfun á vinnustað byggist á almennum ákvæðum aðalnámskrár um nám á vinnustað.
Skóli ber ábyrgð á gerð sérstaks starfsþjálfunarsamnings um vinnustaðanám við vinnustað, samtök eða aðila sem er hæfur til að veita nemanda tilskilda þjálfun og menntun. Starfsþjálfunarsamningar skulu kveða á um rétt og skyldur vinnuveitanda, skóla og nemanda, markmið vinnustaðanáms og gæðakröfur, gildistíma, meðferð ágreinings og samningsslit.
Sé þörf á því að gera sérstakan ráðningarsamning milli nema og vinnuveitanda skal skóli staðfesta hann. Skulu slíkir samningar vera í samræmi við gildandi kjarasamninga um nema í viðkomandi starfsnámi.
Starfsgreinaráð skulu halda skrá yfir fyrirtæki og vinnustaði sem uppfylla skilyrði til vinnustaðanáms.
Skóli getur með samningi falið aðila utan hans umsýslu með gerð og skráningu samninga og um eftirlit með þeim. Jafnframt má fela fulltrúa á vegum slíks umsýsluaðila að staðfesta og eftir atvikum að slíta námssamningi, enda sé þá gætt málsmeðferðar samkvæmt stjórnsýslulögum og nánari fyrirmælum í starfsþjálfunar- eða ráðningarsamningi. Verði ágreiningur um réttindi eða skyldur nemenda vegna framkvæmdar umsýsluaðila sker skólameistari úr.
Ráðherra er heimilt, að fenginni umsögn aðila vinnumarkaðar og samtaka nemenda, að setja reglugerð um vinnustaðanám, starfsþjálfun á vinnustað og um heimildir skóla til þess að fela aðila utan hans umsýslu með starfsþjálfunarsamningum, sbr. 5. mgr.
29. gr. Kjarnaskólar.
Ráðherra getur gert framhaldsskóla að kjarnaskóla á tilteknu sviði um lengri eða skemmri tíma. Kjarnaskóli hefur forgöngu um að þróa námsefni, námsskipan og kennsluaðferðir og aðstoðar aðra skóla og fyrirtæki við umbætur í kennslu og þjálfun á viðkomandi sviði.
Í samningi, er ráðherra gerir við skóla er tekur að sér hlutverk kjarnaskóla, skal verkefnið skilgreint, stjórnun þess, lengd samningstíma og hvernig úttekt þess skuli háttað. Hagsmunaaðilar á vinnumarkaði og starfsgreinaráð geta átt aðild að slíkum samningi.
Menntamálaráðuneytið leggur kjarnaskólum til sérstakar fjárveitingar vegna samningsbundinna verkefna.
30. gr. Námsmat.
Almennt námsmat í framhaldsskóla er í höndum kennara, undir umsjón skólameistara. Matið byggist á markmiðum skólastarfs sem kveðið er á um í aðalnámskrá og skólanámskrá.
Nemandi á rétt til að fá útskýringar á mati er liggur að baki lokaeinkunn í námsáfanga innan fimm virkra daga frá birtingu einkunnar. Vilji nemandi, sem ekki hefur náð lágmarkseinkunn, þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til skólameistara og óskað eftir mati sérstaks prófdómara. Þá skal kveðja til óvilhallan prófdómara sem metur prófúrlausnir. Úrskurður hans er endanlegur og verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.
Þeir nemendur sem hyggjast ljúka stúdentsprófi skulu hafa lokið öllum námsáföngum samkvæmt námskrá með fullnægjandi árangri samkvæmt mati viðkomandi skóla. Í kjarnagreinum framhaldsskóla, sbr. 18. gr., skal námsmat í lokaáföngum til stúdentsprófs taka mið af viðmiðunarprófum sem ráðherra lætur í té eða viðurkennir. Jafnframt getur ráðherra ákveðið að leggja fyrir könnunarpróf í einstökum námsgreinum framhaldsskóla, svo og færnipróf, sbr. 23. gr. um færnimarkmið náms.
Námi í löggiltum iðngreinum lýkur með sveinsprófi. Ráðherra setur reglugerð um uppbyggingu og framkvæmd sveinsprófa. Heimilt er ráðherra að skipa sérstakar sveinsprófsnefndir í löggiltum iðngreinum til að annast samræmingu, framkvæmd og mat í tengslum við prófhald. Heimilt er ráðherra jafnframt að fela sveinsprófsnefnd mat á annarri iðnmenntun þegar við á.
Ráðherra setur reglugerð þar sem nánar er kveðið á um fyrirkomulag og framkvæmd færni- og könnunarprófa sem lögð eru fyrir nemendur í framhaldsskólum.
31. gr. Viðurkenning á námi og raunfærni.
Nemandi sem flyst á milli skóla sem starfa samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla á rétt á því að fá nám sem hann hefur lokið metið til eininga í viðtökuskóla, enda falli námið að námskrá og námsbrautarlýsingum viðkomandi skóla. Viðurkennda námsþætti sem falla utan brautarkjarna ber að meta sem valgreinar.
Nemandi sem innritast í framhaldsskóla á rétt á því að raunfærni hans sé metin til náms og námseininga, enda falli metin raunfærni að námskrá og námsbrautarlýsingum viðkomandi skóla. Viðurkennda raunfærni sem fellur utan brautarkjarna ber að meta sem valgreinar.
Ráðherra setur í aðalnámskrá reglur um viðurkenningu náms og raunfærnimat og tilhögun þess.
VI. kafli. Nemendur.
32. gr. Innritun, réttur til náms.
Þeir sem lokið hafa grunnskólanámi, hafa hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða hafa náð 16 ára aldri eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Þeir sem rétt eiga á að hefja nám í framhaldsskóla samkvæmt málsgrein þessari eiga jafnframt rétt á því að stunda nám í framhaldsskóla til 18 ára aldurs, sbr. ákvæði 2. gr. og 33. gr.
Hver framhaldsskóli ber ábyrgð á innritun nemenda, en í samningi skóla og menntamálaráðuneytis skv. 44. gr. skal kveðið sérstaklega á um skyldur einstakra framhaldsskóla við innritun nemenda og þær forsendur sem skóli leggur til grundvallar innritun nemenda. Heimilt er framhaldsskóla að gera sérstakar kröfur um undirbúning og námsárangur vegna innritunar á einstakar námsbrautir framhaldsskóla.
Heimilt er ráðherra að setja í reglugerð 1) nánari fyrirmæli og ákvæði um innritun nemenda.
1)Rg. 1150/2008.
33. gr. Skólareglur og meðferð mála.
Í skólanámskrá hvers skóla skulu vera reglur þar sem gerð er grein fyrir réttindum og skyldum nemenda. Skólareglur skulu geyma ákvæði um eftirfarandi þætti:
a. skólasókn,
b. hegðun og umgengni,
c. námsmat, námsframvindu og prófareglur,
d. viðurlög vegna brota á skólareglum,
e. reglur um meðferð ágreiningsmála og um beitingu viðurlaga.
Við ákvörðun skólameistara um rétt eða skyldu nemenda skv. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, svo sem brottvísun úr skóla í fleiri en einn skóladag eða að nemanda sé meinað að sækja kennslutíma í ákveðnu fagi eða námsgrein um nokkurt skeið, skal fylgja reglum stjórnsýslulaga um málsmeðferð. Ákvörðun skólameistara er kæranleg til menntamálaráðuneytis. Um málskot gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga.
34. gr. Nemendur með sérþarfir.
Á framhaldsskólastigi skal veita nemendum með fötlun, sbr. 2. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, og nemendum með tilfinningalega eða félagslega örðugleika kennslu og sérstakan stuðning í námi. Látin skal í té sérfræðileg aðstoð og viðeigandi aðbúnaður eftir því sem þörf krefur. Nemendur með fötlun skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.
Ráðherra getur í samningi við framhaldsskóla heimilað rekstur sérstakra námsbrauta við framhaldsskóla fyrir nemendur með fötlun.
Nemendur með leshömlun skulu eiga aðgang að sérsniðnum námsgögnum eftir því sem við verður komið. Framhaldsskóli gerir grein fyrir því í skólanámskrá hvernig staðið er að skimun og greiningu leshömlunar, ásamt eftirfylgni og stuðningi við nemendur sem greindir eru með leshömlun.
Framhaldsskólar skulu leitast við að veita þeim nemendum sérstakan stuðning sem eiga við sértæka námsörðugleika að stríða eða veikindi.
Ráðherra getur sett reglugerð með nánari ákvæðum um réttindi, kennslu og nám í framhaldsskólum. Einnig skal í reglugerð kveðið á um rétt heyrnarskertra eða heyrnarlausra nemenda til sérstakrar kennslu í íslensku táknmáli.
35. gr. Tungumál, nemendur með annað móðurmál en íslensku.
Kennsla í framhaldsskólum skal fara fram á íslensku.
Heimilt er að nám fari fram á öðrum tungumálum en íslensku þegar
a. það leiðir af eðli náms eða námskrár og
b. þegar um er að ræða námsbrautir sem sérstaklega eru ætlaðar nemendum sem ekki hafa vald á íslensku eða verða að stunda eða hafa stundað hluta af námi sínu erlendis.
Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku eiga rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Sama gildir um nemendur sem dvalist hafa langdvölum erlendis og hafa litla kunnáttu í íslensku. Miða skal við að nemendur með annað móðurmál en íslensku fái tækifæri til að viðhalda móðurmáli sínu sem valgrein, í fjarnámi eða með öðrum hætti.
Framhaldsskólar skulu setja sér áætlun um móttöku nemenda. Móttökuáætlun framhaldsskóla skal vera aðgengileg nemendum og foreldrum, þar sem m.a. koma fram upplýsingar um námið og skólastarfið almennt og foreldrum með annað móðurmál en íslensku og heyrnarlausum foreldrum er greint frá möguleikum á túlkaþjónustu. Móttökuáætlun vegna nemenda með annað móðurmál en íslensku skal taka mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni og færni á öðrum námssviðum.
Í reglugerð skal kveðið nánar á um rétt nemenda til kennslu í íslensku, svo og um tilhögun og mat á náminu.
36. gr. Heilsuvernd, hollustuhættir, forvarnir.
Skólameistari framhaldsskóla skal hafa samráð við heilsugæslustöð í nágrenni skólans um heilsuvernd og hollustuhætti. Framhaldsskóli og viðkomandi heilsugæslustöð geri samkomulag um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu sem veitt er nemendum.
Framhaldsskólar skulu tryggja að í boði sé innan veggja hvers skóla heilnæmt fæði í samræmi við opinber manneldismarkmið.
Framhaldsskólar skulu hvetja til heilbrigðs lífernis og heilsuræktar nemenda. Sérhver framhaldsskóli skal setja sér stefnu um forvarnir og skal sú stefna birt opinberlega. Skólinn skal gera grein fyrir því með reglubundnum hætti hvernig forvarnastarfi er háttað.
37. gr. Náms- og starfsráðgjöf.
Nemendur eiga rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í framhaldsskóla af til þess bærum sérfræðingum.
Í skólanámskrá framhaldsskóla skal markmiðum og stefnu skóla varðandi ráðgjöf lýst og þar skal einnig koma fram hvernig skóli rækir skyldur sínar og hlutverk á þessu sviði.
38. gr. Námsferilsskrá.
Framhaldsskóla ber skylda til að varðveita upplýsingar um nám nemenda og veita nemendum aðgang að þeim. Um aðgang annarra en nemenda að upplýsingum um námsferil fer eftir nánari reglum 55. gr. og reglugerð settri samkvæmt þeirri grein.
39. gr. Nemendafélög í framhaldsskólum.
Í hverjum framhaldsskóla skal starfa nemendafélag. Nemendafélag vinnur m.a. að félags-, hagsmuna- og velferðarmálum nemenda. Það setur sér reglur um skipan, starfssvið og starfshætti. Nemendafélög starfa á ábyrgð skóla. Nemendafélögum skal búin aðstaða til starfsemi sinnar.
Framhaldsskólum er heimilt að styrkja starfsemi nemendafélaga fjárhagslega og skal bókhald þeirra háð sömu endurskoðun og aðrar fjárreiður framhaldsskóla.
VII. kafli. Mat og eftirlit með gæðum.
40. gr. Markmið.
Markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í framhaldsskólum er að:
a. veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks framhaldsskóla, viðtökuskóla, atvinnulífs, foreldra og nemenda,
b. tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár framhaldsskóla,
c. auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum,
d. tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum.
41. gr. Innra mat.
Hver framhaldsskóli metur með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs á grundvelli 40. gr. með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra eftir því sem við á.
Framhaldsskóli birtir opinberlega upplýsingar um innra mat sitt, tengsl þess við skólanámskrá og áætlanir um umbætur.
42. gr. Ytra mat.
Menntamálaráðuneyti annast öflun, greiningu og miðlun upplýsinga um skólahald í framhaldsskólum og er það liður í reglubundnu ytra mati á gæðum skólastarfs ásamt úttektum, könnunum og rannsóknum.
Ytra mat getur náð til framhaldsskóla í heild, aðferða við innra mat eða annarra skilgreindra þátta í starfsemi framhaldsskóla. Jafnframt getur ytra mat náð til nokkurra framhaldsskóla í senn. Framhaldsskólar skulu leggja fram þá aðstoð og þau gögn sem matið útheimtir, þ.m.t. niðurstöður innra mats. Matsskýrslur sem unnar eru samkvæmt lögum þessum skulu birtar opinberlega. Að loknu ytra mati skal framhaldsskóli gera grein fyrir því hvernig brugðist verður við niðurstöðum þess. Menntamálaráðuneyti skal leitast við að fylgja innra og ytra mati eftir með stuðningi, fræðslu og ráðgjöf til viðkomandi skóla þannig að slíkt mat leiði til umbóta í skólastarfi.
Menntamálaráðuneyti gerir áætlun til þriggja ára um kannanir og úttektir sem miða að því að veita upplýsingar um framkvæmd laga þessara, aðalnámskrár framhaldsskóla og annarra þátta skólastarfs. Jafnframt getur ráðherra ákveðið að láta fara fram sérstakt ytra mat á framhaldsskóla eða einstökum þáttum skólastarfs ef ástæða þykir til. Úttekt á framhaldsskóla skal fara fram eigi sjaldnar en á fimm ára fresti og unnin af óháðum aðilum.
Ytra mat nær eingöngu til framhaldsskóla sem hljóta fjárveitingar í fjárlögum og gerður hefur verið samningur við, sbr. 44. gr.
Ráðherra setur reglugerð um innra og ytra mat.
VIII. kafli. Rekstrar- og fjárhagsmálefni.
43. gr. Rekstrarframlög.
Ríkissjóður greiðir samkvæmt lögum þessum rekstrarframlög til þeirra framhaldsskóla sem njóta framlaga í fjárlögum. Skólar sem njóta framlaga í fjárlögum eru opinberir framhaldsskólar og aðrir framhaldsskólar sem ráðherra gerir þjónustusamninga við um kennslu á framhaldsskólastigi, enda hafi þeir hlotið viðurkenningu, sbr. 12. gr.
Hver skóli hefur sérstaka fjárveitingu í fjárlögum. Ráðherra gerir tillögur um fjárveitingar í fjárlögum til hvers skóla, til kennslu og eftir atvikum annarra verkefna. Tillögurnar eru unnar á grundvelli reiknireglna sem ráðherra setur með reglugerð. Reiknireglurnar skulu m.a. styðjast við áætlun um fjölda nemenda, áætlaðan fjölda kennslustunda, námsframboð, kostnað sem leiðir af kjarasamningum kennara og annars starfsfólks, húsnæði og annað, sem ráðherra metur að máli skipti.
Rekstrarframlagi skv. 1. mgr. er ekki ætlað að standa straum af námskeiðs-, skráningar- eða skólagjöldum sem innheimt kunna að vera af öðrum skólum, þ.m.t. tónlistarskólum, vegna náms sem metið verður til eininga í framhaldsskóla. Ráðherra getur í samningum við framhaldsskóla, sbr. 44. gr., heimilað framhaldsskóla að ganga til samninga um greiðslur vegna slíks náms.
44. gr. Samningar við framhaldsskóla.
Umfang starfsemi framhaldsskóla, að svo miklu leyti sem hún er fjármögnuð með framlögum úr ríkissjóði, er ákveðið í fjárlögum.
Í samningum milli ráðherra og einstakra framhaldsskóla, sem gerðir eru til 3–5 ára í senn, skulu koma fram helstu áherslur í starfsemi skólans, námskrár, námsframboð, kennslufyrirkomulag, mat og eftirlit með gæðum og annað sem æskilegt er talið af hálfu samningsaðila. Farið skal yfir framkvæmd þessara samninga árlega og gildandi samningar endurskoðaðir ef samningsaðilar telja ástæðu til.
Þjónustusamningar sem gerðir eru við aðra en opinbera framhaldsskóla skulu, auk þeirra atriða sem talin eru í 2. mgr., kveða á um réttarstöðu nemenda, nemendafjölda, gjaldtöku af nemendum og greiðslur fyrir aðra þjónustu sem veitt er á grundvelli samningsins.
45. gr. Gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla.
Skólameistari ákveður upphæð innritunargjalds og efnisgjalds sem nemendum er gert að greiða við upphaf námsannar eða skólaárs:
a. Upphæð innritunargjalds skal taka mið af kostnaði við nemendaskráningu. Heimilt er að taka 25% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til innritunar utan auglýsts innritunartíma og er heimilt að láta gjaldið renna í skólasjóð, enda sé tekjum hans samkvæmt skipulagsskrá ráðstafað í þágu nemenda.
b. Ekki er heimilt að innheimta gjald fyrir efni sem nemendum er látið í té samkvæmt einhliða ákvörðun skóla. Heimilt er að innheimta efnisgjald af nemendum fyrir efni sem skóli lætur nemendum í té ef nemandi hefur af því ávinning eða sérstök not. Skal það taka mið af raunverulegum efniskostnaði og framlögum til skóla í fjárlögum til að mæta efniskostnaði. Halda skal bókhald um fjárreiður þessar. Um endurskoðun gilda sömu reglur og um annan rekstur.
Ráðherra ákveður hámark innritunargjalds og efnisgjalds í reglugerð.
Framhaldsskólum er heimilt að bjóða nám utan reglubundins starfstíma framhaldsskóla að sumri til og er þá heimilt að taka gjald af nemendum til að mæta þeim sérgreinda launakostnaði sem til fellur vegna kennslunnar.
Framhaldsskólum er heimilt að bjóða nám utan reglubundins daglegs starfstíma framhaldsskóla og í fjarnámi og er þá heimilt að taka gjald af nemendum sem svarar til allt að 10% af meðalkennsluframlagi á nemanda á framhaldsskólastigi samkvæmt fjárlögum miðað við fullt nám. Annars reiknast gjaldið hlutfallslega miðað við fjölda námsgreina.
Heimilt er framhaldsskólum að innheimta gjald af nemendum fyrir valkvæða starfsemi sem í boði er, svo sem námsferðir, safnferðir eða leikhúsferðir.
Heimilt er framhaldsskólum að innheimta gjald fyrir aðra þjónustu sem í boði er og telst ekki vera hluti af eða leiða af lögbundnu hlutverki skóla, svo sem vegna útgáfu skírteina, skápaleigu og þess háttar.
Ráðherra setur nánar í reglugerð ákvæði um gjaldtöku samkvæmt þessari grein.
Ákvarðanir um gjaldtöku samkvæmt þessari grein eru kæranlegar til ráðherra. Um meðferð kærumála fer að ákvæðum stjórnsýslulaga.
46. gr. Heimavistir í opinberum framhaldsskólum.
Í samningum milli ráðuneytis og framhaldsskóla, sbr. 44. gr., er heimilt að kveða á um rekstur heimavistar við framhaldsskóla. Ráðherra leitar heimilda í fjárlögum til þess að mæta kostnaði við umsjón og almennan rekstur. Nemendur bera sjálfir hluta sérgreinds kostnaðar í heimavistum sem skilgreindur er í reglugerð sem ráðherra setur. Skólameistari ber ábyrgð á starfsemi heimavistar, en getur með samningi falið öðrum að annast daglega umsýslu og rekstur.
47. gr. Stofnkostnaður opinberra framhaldsskóla.
Þegar stofnað er til framhaldsskóla skal gera samning um stofnkostnað og skiptingu hans milli þeirra sem standa að stofnun skólans. Með stofnkostnaði er átt við kostnað vegna húsnæðis og almenns búnaðar sem samningsaðilar ákveða að leggja til skólans. Lóðir undir framhaldsskóla skulu sveitarfélög leggja til án endurgjalds. Ráðherra setur viðmið um stofnkostnað framhaldsskóla að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.
Þegar ráðherra og sveitarfélög ákveða í sameiningu að stofna framhaldsskóla skal gerður samningur um undirbúning og umsjón með stofnframkvæmdum. Stofnframkvæmdir geta verið á forræði og ábyrgð ríkis, sveitarfélaga eða ríkis og sveitarfélaga í sameiningu, eftir því sem um semst:
a. Þegar sveitarfélög annast undirbúning og verkframkvæmdir, sbr. 2. mgr., greiðir ríkissjóður 60% kostnaðar við stofnframkvæmdir, aðrar framkvæmdir á lóð, stofnbúnað og eftir atvikum heimavist við þá, samkvæmt sérstökum viðmiðum um stofnkostnað.
b. Þegar ráðuneyti annast undirbúning og verkframkvæmdir, sbr. 2. mgr., greiða sveitarfélög 40% kostnaðar við stofnframkvæmdir, aðrar framkvæmdir á lóð, stofnbúnað og eftir atvikum heimavist við þá, samkvæmt sérstökum viðmiðum um stofnkostnað.
c. Ef um sameiginlega framkvæmd er að ræða greiðir ríkissjóður 60% og sveitarfélag 40%.
Ef ríki og sveitarfélag, eitt eða fleiri, ákveða að leggja skóla sem þau standa að í sameiningu til húsnæði og búnað í eigu þriðja aðila skal samið sérstaklega um skiptingu kostnaðar sem af því hlýst. Skal þá miðað við að kostnaðarskipting ríkis og sveitarfélaga verði með hliðstæðum hætti og þegar um framkvæmd á þeirra vegum er að ræða, sbr. 2. mgr.
Ákveði Alþingi að stofna skóla án aðildar sveitarfélags greiðist stofnkostnaður úr ríkissjóði.
Um notkun heimavistarhúsnæðis utan skólatíma skal samið sérstaklega. Halda skal fjárreiðum vegna slíkrar notkunar aðskildum í reikningshaldi framhaldsskóla.
48. gr. Viðhaldskostnaður, eignarhald, breytt nýting á opinberu skólahúsnæði.
Ráðherra er heimilt að fela ríkisstofnun eða öðrum til þess bærum aðila umsýslu vegna húsnæðis framhaldsskóla gegn gjaldi. Meiri háttar viðhald framhaldsskóla í eigu ríkissjóðs og sveitarfélaga, sem ekki hefur verið ráðstafað með framangreindum hætti, skal greitt af sérstakri fjárveitingu sem ákveðin er í fjárlögum.
Eignarhlutfall skólamannvirkja í eign ríkis og sveitarfélaga skal vera í sömu hlutföllum og stofnkostnaður er greiddur, eða hefur verið greiddur sé um eldra húsnæði að ræða. Verði húsnæði framhaldsskóla ráðstafað til annarra nota en framhaldsskólahalds skulu eignaraðilar gera með sér samkomulag þar um. Verði eign seld öðrum hvorum eignaraðila skal hún metin af dómkvöddum mönnum.
49. gr. Styrktarsjóðir.
Heimilt er skólameistara, að fenginni umsögn skólanefndar og samþykki menntamálaráðuneytis, að stofna sérstaka styrktarsjóði við opinbera framhaldsskóla. Skal um slíka sjóði sett skipulagsskrá, leitað staðfestingar á henni og hún birt í Stjórnartíðindum.
IX. kafli. Ýmis ákvæði.
50. gr. Foreldraráð.
Við hvern framhaldsskóla skal starfa foreldraráð. Skólameistari boðar til stofnfundar þess. Hlutverk foreldraráðs er að styðja við skólastarfið, huga að hagsmunamálum nemenda og í samstarfi við skólann efla samstarf foreldra og forráðamanna ólögráða nemenda við skólann. Félagsmenn geta verið foreldrar nemenda við skólann.
Kjósa skal í stjórn ráðsins á aðalfundi þess. Foreldraráð tilnefnir einn áheyrnarfulltrúa í skólanefnd. Foreldraráð setur sér starfsreglur.
51. gr. Námsgögn.
Í fjárlögum ár hvert skal tilgreind sú fjárhæð sem veitt er til að mæta kostnaði nemenda vegna námsgagna. Ráðherra setur reglur um skiptingu fjárins og fyrirkomulag þessa stuðnings.
52. gr. Nýbreytni í skólastarfi.
Ráðherra getur heimilað framhaldsskóla að innleiða nýbreytni í skólastarfi og gera tilraunir með ákveðna þætti þess með undanþágu frá ákvæðum laga þessara og reglugerða er settar kunna að verða samkvæmt þeim. Slíkum tilraunum skulu ávallt sett eðlileg tímamörk og í leyfi kveðið á um úttekt að tilraun lokinni.
53. gr. Sprotasjóður.
Sprotasjóður styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá. Sjóðurinn er sameiginlegur fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
Til sjóðsins renna fjármunir samkvæmt fjárlögum hverju sinni. Menntamálaráðuneyti hefur umsjón með sjóðnum og setur reglugerð um styrkveitingar. Í reglugerð er heimilt að fela stofnun á vegum ráðuneytisins eða öðrum þar til bærum aðilum umsjón með sjóðnum og að annast úthlutanir úr honum.
54. gr. Þátttaka opinberra framhaldsskóla í símenntun.
Framhaldsskóla er heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, í samvinnu við sveitarfélög, faggreinafélög, stéttarfélög, atvinnurekendur eða aðra hagsmuna- og áhugahópa, að eiga aðild að rekstri símenntunarmiðstöðvar. Samstarfsaðilar skulu gera með sér samning um starfsemina.
Framhaldsskóla er heimilt, að fengnu samþykki ráðherra, í samvinnu við faggreinafélög, stéttarfélög, atvinnurekendur eða aðra hagsmuna- eða áhugahópa, að standa fyrir námskeiðahaldi og fræðslu fyrir fullorðna. Halda skal kostnaði vegna þessara námskeiða aðgreindum frá öðrum rekstri skólans og skal hann greiddur að fullu af þeim aðilum er að námskeiðum standa með skólanum eða með þátttökugjöldum.
Heimilt er ráðherra að setja nánari reglur um starfsemi samkvæmt grein þessari.
55. gr. Upplýsingagjöf.
Menntamálaráðuneytið annast söfnun og miðlun upplýsinga um skólahald og skólastarf á framhaldsskólastigi sem varða lögbundið eftirlitshlutverk þess. Skulu framhaldsskólar gera ráðuneytinu árlega eða oftar, sé þess óskað, grein fyrir framkvæmd skólahalds.
Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um upplýsingaskyldu framhaldsskóla um skólahald og enn fremur aðra kerfisbundna skráningu skóla og meðferð persónuupplýsinga, þar á meðal um námsferil nemenda.
56. gr. Skýrslur til Alþingis.
Ráðherra gerir Alþingi grein fyrir framkvæmd skólastarfs í framhaldsskólum landsins á þriggja ára fresti.
X. kafli. Gildistaka o.fl.
57. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 2008. …
Ákvæði til bráðabirgða.
I. Þrátt fyrir ákvæði 57. gr. skulu framhaldsskólar, sem starfandi eru við gildistöku laga þessara, uppfylla ákvæði IV. og V. kafla eigi síðar en 1. ágúst 2011.
II. Framhaldsskólar sem falla undir III. kafla skulu hafa aflað sér viðurkenningar ráðherra eigi síðar en 1. ágúst 2011, sbr. 12. gr.
III. Reglugerðir, auglýsingar og önnur fyrirmæli sett samkvæmt lögum nr. 80/1996, með síðari breytingum, skulu halda gildi sínu að svo miklu leyti sem þau stangast ekki á við lög þessi þar til nýjar reglugerðir, auglýsingar eða önnur fyrirmæli hafa öðlast gildi. 1)
1)Sjá nú rg. 132/1997, rg. 138/1997, rg. 139/1997, rg. 140/1997, rg. 141/1997, rg. 274/1997, rg. 279/1997, rg. 280/1997, sbr. 423/2000; rg. 328/1997, rg. 329/1997, rg. 331/1997, rg. 333/1997, rg. 372/1998, rg. 108/1999, augl. 274/1999, sbr. 138/2004, 661/2004, 302/2005, 303/2005, 689/2005, 408/2006, 514/2006, 515/2006, 843/2006, 292/2007, 538/2007, 767/2007, 1182/2007, 1206/2007, 525/2008, 609/2008 og 687/2008; rg. 335/1999, sbr. augl. 4/2001; rg. 525/2000, sbr. 990/2006; rg. 6/2001, rg. 475/2001, sbr. 746/2003 og 730/2006; rgl. 1150/2006 og rg. 1100/2007.
IV. Skólanefndir sem skipaðar hafa verið skv. 6. gr. laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla, skulu starfa út skipunartíma sinn.