Eldri útgáfa lagasafns

Lagasafn.  Íslensk lög 1. október 2013.  Útgáfa 142.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um embætti sérstaks saksóknara

2008 nr. 135 11. desember


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 12. desember 2008. Breytt með l. 25/2009 (tóku gildi 1. apríl 2009), l. 80/2009 (tóku gildi 7. ágúst 2009), l. 52/2010 (tóku gildi 12. júní 2010), l. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011), l. 82/2011 (tóku gildi 1. sept. 2011 nema brbákv. sem tók gildi 30. júní 2011) og l. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við innanríkisráðherra eða innanríkisráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr. [Embætti sérstaks saksóknara skal rannsaka grun um refsiverða háttsemi sem tengst hefur starfsemi fjármálafyrirtækja og þeirra sem átt hafa hluti í þeim fyrirtækjum eða farið með atkvæðisrétt í þeim, sömuleiðis grun um refsiverða háttsemi stjórnenda, ráðgjafa og starfsmanna fjármálafyrirtækja og þeirra annarra sem komið hafa að starfsemi fyrirtækjanna. [Embætti sérstaks saksóknara skal einnig rannsaka grun um alvarleg brot gegn 109. gr., 128. gr., 129. gr., 179. gr., 247.–250. gr., 253. gr., 254. gr., 262. gr., 264. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga, alvarleg brot gegn skatta- og tollalögum, brot gegn lögum sem varða gjaldeyrismál, samkeppni, verðbréf, lánsviðskipti, umhverfisvernd, vinnuvernd, stjórn fiskveiða og grun um önnur alvarleg, óvenjuleg eða skipulögð fjármunabrot sem tengjast atvinnurekstri eða verslun og viðskiptum.] 1) Embættið skal eftir atvikum fylgja rannsókn eftir með saksókn.] 2)
Rannsóknar- og ákæruheimildir embættisins taka meðal annars til efnahags-, auðgunar- og skattabrota, þar með talið brota sem rannsökuð hafa verið af Fjármálaeftirlitinu, Samkeppniseftirlitinu og skattrannsóknarstjóra ríkisins og vísað hefur verið til lögreglu. Hinn sérstaki saksóknari hefur eftir þörfum samstarf við Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið og skattrannsóknarstjóra ríkisins og aðrar réttarvörslu- og eftirlitsstofnanir. [Sé þess óskað skulu þessar stofnanir, svo og skilanefndir og aðrir sem vinna að greiðslustöðvun, nauðasamningi, slitum eða gjaldþrotaskiptum fjármálafyrirtækja, láta hinum sérstaka saksóknara í té upplýsingar um stöðu annarra mála en greinir í 1. málsl. og gögn sem þessir aðilar hafa undir höndum og hinn sérstaki saksóknari telur að hafi þýðingu við rannsókn sakamáls eða ákvarðanatöku um hvort rétt sé að hefja slíka rannsókn. Sama skylda hvílir á þeim fjármálafyrirtækjum sem stofnuð voru um hluta af rekstri framangreindra fjármálafyrirtækja á grundvelli 5. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Með gögnum er meðal annars átt við skýrslur, minnisblöð, bókanir og samninga. Skylt er að verða við kröfu hins sérstaka saksóknara um að láta í té upplýsingar eða gögn þótt þau séu háð þagnarskyldu, t.d. samkvæmt reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja, og er slík afhending óháð því hvort meint brot hafi verið kærð til lögreglu.] 3)
Kærum og ábendingum vegna gruns um refsiverða háttsemi sem fellur undir lög þessi skal beina til embættisins frá og með stofnun þess. [Ef skilanefnd, aðstoðarmaður við greiðslustöðvun, umsjónarmaður með nauðasamningi, bráðabirgðastjórn, slitastjórn við slitameðferð eða skiptastjóri fjármálafyrirtækis fær vitneskju í starfi sínu um atvik sem talið er að geti gefið tilefni til rökstudds gruns um að fjármálafyrirtæki eða aðrir kunni að hafa gerst sekir um refsivert athæfi skal tilkynningu um slíkt beint til embættisins í samræmi við ákvæði þetta.] 3)
    1)L. 82/2011, 1. gr. 2)L. 52/2010, 1. gr. 3)L. 25/2009, 1. gr.
2. gr. [[Ráðherra] 1) skipar sérstakan saksóknara og skal hann veita forstöðu rannsóknar- og saksóknaraembætti skv. 1. gr. Þá skipar [ráðherra] 2) þrjá sjálfstæða saksóknara við embætti sérstaks saksóknara. Sérstakur saksóknari og saksóknarar við embætti hans skulu allir fullnægja skilyrðum til skipunar í embætti héraðsdómara, en heimilt er þó að víkja frá 70 ára aldurshámarki sem um héraðsdómara gildir. Ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, um fimm ára skipunartíma og biðlaunarétt taka ekki til þessara starfsmanna. Skipun þeirra fellur niður þegar embætti sérstaks saksóknara verður lagt niður eða sameinað annarri ríkisstofnun, sbr. 7. gr., en þeir skulu þá halda óbreyttum launakjörum í þrjá mánuði frá þeim tíma. Nú velst dómari til einhverra þessara starfa og skal þá [ráðherra] 2) veita honum leyfi frá störfum á skipunartímanum.
Sérstakur saksóknari hefur stöðu og almennar heimildir lögreglustjóra samkvæmt lögreglulögum og lögum um meðferð sakamála og fer hann með stjórn lögreglu sem starfar við embætti hans. Sérstakur saksóknari og saksóknarar við embætti hans eru ákærendur samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Sérstakur saksóknari skiptir verkum með sér og saksóknurum við embættið. Fela má saksóknara að fara með stjórn á rannsókn máls. Að rannsókn lokinni úthlutar sérstakur saksóknari máli til sín eða annars saksóknara við embættið og skal sá taka ákvörðun um saksókn, gefa eftir atvikum út ákæru í máli og flytja það nema sérstakur saksóknari feli öðrum flutning málsins skv. 4. mgr. Sérstakur saksóknari eða saksóknari við embætti hans tekur ákvörðun um kæru til Hæstaréttar í málum sem hann höfðar. Sérstakur saksóknari hefur umsjón með störfum annarra saksóknara við embættið og gætir samræmis í störfum þeirra. Hann getur þegar sérstaklega stendur á tekið í sínar hendur mál sem hann hefur úthlutað saksóknara til meðferðar eða falið öðrum saksóknara að fara með það.
[Sérstakur saksóknari ræður aðra starfsmenn embættisins en saksóknara. Heimilt er að skipa lögreglumenn sem hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins til starfa við embættið, en ákvæði lögreglulaga og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um fimm ára skipunartíma og biðlaunarétt taka ekki til þessara starfsmanna. Skipun þeirra fellur niður þegar embætti sérstaks saksóknara verður lagt niður eða sameinað annarri ríkisstofnun, sbr. 7. gr., en þeir skulu þá halda óbreyttum launakjörum í þrjá mánuði frá þeim tíma. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gildir ekki um ráðningu eða skipun samkvæmt þessu ákvæði.] 3)
Í héraði flytur sérstakur saksóknari eða saksóknari við embætti hans þau mál sem hann höfðar, svo og kærumál vegna þeirra fyrir Hæstarétti. Sérstakur saksóknari getur einnig falið saksóknarfulltrúum við embættið, lögreglustjóra, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni að flytja þau mál fyrir héraðsdómi. Sé lögmanni falið að flytja mál hefur hann sömu skyldur og ákærandi. Ríkissaksóknari tekur ákvörðun um áfrýjun héraðsdóms og fer um flutning slíkra mála fyrir Hæstarétti eftir almennum reglum, en einnig er honum heimilt að fela það verk sérstökum saksóknara eða saksóknara við embætti hans.
[Ef háttsemi felur í sér annað eða önnur brot en þau sem sérstakur saksóknari fer með skv. 1. gr. tekur ríkissaksóknari ákvörðun um hvort hann fari með málið. Ríkissaksóknari sker úr um valdsvið sérstaks saksóknara gagnvart öðrum ákærendum ef vafi rís um það. Ríkissaksóknari getur enn fremur falið sérstökum saksóknara að fara með önnur mál en þau sem falla undir 1. gr. eða falið öðrum ákæranda að fara með mál sem þar fellur undir, svo sem ef rannsókn er þegar hafin á því.] 4)] 5)
    1)L. 126/2011, 499. gr. 2)L. 162/2010, 195. gr. 3)L. 82/2011, 2. gr. 4)L. 52/2010, 2. gr. 5)L. 80/2009, 1. gr.
3. gr. Hinn sérstaki saksóknari skal birta opinberlega upplýsingar um hlutabréfaeign sína í fjármálafyrirtækjum sem aðgerðir stjórnvalda samkvæmt lögum nr. 125/2008 hafa tekið til, skuldir hans við þau, svo og starfsleg tengsl hans, maka og náinna skyldmenna við þá sem sinnt hafa stjórnunarstörfum í umræddum fjármálafyrirtækjum eða þeim stofnunum ríkisins sem rannsókn embættisins beinist að. Sama gildir um önnur atriði sem haft geta áhrif á sérstakt hæfi hins sérstaka saksóknara. Upplýsingar þessar skulu miðast við síðastliðin fimm ár fyrir gildistöku laganna, fjárhæðir sem eru yfir fimm milljónir króna og einnig eignarhlut umfram þá fjárhæð í félögum sem átt hafa hluti í umræddum fjármálafyrirtækjum 1. september 2008.
4. gr. [Saksóknarar, lögreglumenn og löglærðir starfsmenn sérstaks saksóknara við embættið fara með lögregluvald skv. 1. mgr. 9. gr. lögreglulaga.] 1) Aðrir sérfræðingar embættisins hafa, samkvæmt nánari ákvörðun hins sérstaka saksóknara, heimildir til að annast skýrslutökur á rannsóknarstigi af sakborningum og vitnum.
Hinn sérstaki saksóknari getur leitað til sérfróðra aðila, innlendra sem erlendra, eftir því sem þurfa þykir.
    1)L. 80/2009, 2. gr.
5. gr. Ríkissaksóknara er heimilt að ákveða, að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. og að fenginni rökstuddri tillögu frá hinum sérstaka saksóknara, að sá sem hefur frumkvæði að því að bjóða eða láta lögreglu eða saksóknara í té upplýsingar eða gögn sæti ekki ákæru þótt upplýsingarnar eða gögnin leiði líkur að broti hans sjálfs.
Skilyrði ákvörðunar skv. 1. mgr. eru að upplýsingar eða gögn tengist broti sem fellur undir rannsóknar- og ákæruvald sérstaks saksóknara samkvæmt lögum þessum og talið sé líklegt að þessar upplýsingar eða gögn geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða séu mikilvæg viðbót við fyrirliggjandi sönnunargögn. Þá er það skilyrði fyrir beitingu þessarar heimildar að rökstuddur grunur sé um að upplýsingar eða gögn tengist alvarlegu broti, fyrirséð sé að sök þess sem lætur slíkt í té sé mun minni en sök þess eða þeirra sem gögnin eða upplýsingarnar beinast gegn og ástæða sé til að ætla að án þeirra muni reynast torvelt að færa fram fullnægjandi sönnur fyrir broti.
6. gr. Um starfsemi embættisins gilda að öðru leyti ákvæði lögreglulaga og laga um meðferð sakamála að því leyti sem lög þessi kveða ekki á um annað.
7. gr. [Ráðherra] 1) getur eftir 1. janúar [2013] 2) lagt til, að fengnu áliti ríkissaksóknara, að embættið verði lagt niður. Skal hann þá leggja fyrir Alþingi frumvarp þess efnis. Verkefni embættisins hverfa þá til lögreglu eða ákærenda eftir almennum ákvæðum lögreglulaga og laga um meðferð sakamála.
    1)L. 162/2010, 195. gr. 2)L. 82/2011, 3. gr.
8. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.1)
    1)L. 80/2009, 3. gr.