Lagasafn.  Íslensk lög 1. maí 2020.  Útgáfa 150b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins

1990 nr. 39 15. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. júní 1990. Breytt með: L. 129/2004 (tóku gildi 31. des. 2005). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Stofna skal sjóð er nefnist Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins. Hlutverk sjóðsins er að draga úr áhrifum verðsveiflna á sjávarafurðum á þjóðarbúskapinn.
2. gr.
[Ráðherra] 1) skipar sjóðnum fimm manna stjórn til fjögurra ára í senn. Einn fulltrúi skal skipaður samkvæmt sameiginlegri tilnefningu Landssambands íslenskra útvegsmanna, Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, einn samkvæmt sameiginlegri tilnefningu hagsmunasamtaka í fiskiðnaði og þrír án tilnefningar. [Ráðherra] 1) skipar formann sjóðstjórnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Náist ekki samkomulag um sameiginlega tilnefningu fulltrúa í stjórn skipar ráðherra hann án tilnefningar.
    1)L. 126/2011, 138. gr.
3. gr.
Verðjöfnunarsjóði skal skipt í deildir eftir tegundum afurða. [Ráðherra] 1) tekur ákvörðun um deildaskiptingu sjóðsins samkvæmt tillögum sjóðstjórnar.
    1)L. 126/2011, 138. gr.
4. gr.
Greitt skal í Verðjöfnunarsjóð þegar markaðsverð afurða í hverri deild er að meðaltali 3–5% hærra en staðvirt meðalverð (grundvallarverð) síðustu fimm árin og skal innborgunin vera 50% af því sem umfram er. Sjóðstjórn ákveður fyrir hverja deild hvar 3–5% verðbilið er hverju sinni. Verðjöfnun skal miðast við útflutning og greiðslur innheimtar við gjaldeyrisskil, þó ekki síðar en fjórum mánuðum eftir að útflutningur átti sér stað. Sjóðstjórninni er þó heimilt að veita lengri greiðslufrest standi sérstaklega á. Greiðslur skulu renna inn á verðjöfnunarreikning á nafni viðkomandi framleiðanda.
5. gr.
Greiða skal af verðjöfnunarreikningum sjóðsins þegar markaðsverð er að meðaltali 3–5% lægra en staðvirt meðalverð (grundvallarverð) síðustu fimm ára og skal útgreiðsla vera 50% af því sem á vantar. Sjóðstjórn ákveður fyrir hverja deild hvar 3–5% verðbilið er hverju sinni. Greiðslur skulu þó aldrei vera umfram það fé sem er inni á viðkomandi verðjöfnunarreikningi. Verðjöfnun skal miðast við útflutning. Greiðslur eru gjaldkræfar við gjaldeyrisskil.
6. gr.
[Ráðherra] 1) skal ákveða mánaðarlega fyrir fram, að fenginni tillögu sjóðstjórnar, það hlutfall af andvirði sjávarafurða sem inn- og útgreiðslur skulu miðast við. Breytist það hlutfall ekki innan mánaðarins enda þótt breyting verði á því markaðsverði sem lá til grundvallar ákvörðuninni, sbr. 4. og 5. gr. Lánastofnanir skulu innheimta greiðslur til sjóðsins skv. 4. gr.
    1)L. 126/2011, 138. gr.
7. gr.
Innstæður á verðjöfnunarreikningum sjóðsins teljast eign hans en eru bundnar við verðjöfnun á afurðum þess framleiðanda sem inneign myndaði. Sé félagi, sem á reikning í sjóðnum, slitið og það sameinað öðru félagi með þeim hætti að ákvæðum [ 51. og 53. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt], 1) sé fullnægt skal það félag, er við tekur, taka við rétti til verðjöfnunar af sérreikningi þess félags sem slitið var. Sé rekstur einstaklings, sem greitt hefur í sjóðinn, seldur er heimilt að kveða svo á að innstæða á verðjöfnunarreikningi fylgi með í sölunni. Með sama hætti getur innstæða á nafni einstaklings flust yfir á félag sem myndað kann að vera um rekstur hans. Látist einstaklingur, sem greitt hefur í sjóðinn, taka erfingjar hans við öllum réttindum sem hinn látni hafði áunnið sér gagnvart sjóðnum uppfylli þeir ákvæði laga þessara, nema um skuldafrágöngubú sé að ræða.
Verði framleiðandi gjaldþrota eða sé félagi slitið án þess að ákvæði 1. mgr. eigi við skal innstæða á verðjöfnunarreikningi þess renna inn á óskiptan reikning Verðjöfnunarsjóðs. Sama á við ef framleiðandi hefur ekki í sex ár framleitt sjávarafurðir til útflutnings.
    1)L. 129/2004, 81. gr.
8. gr.
Greiðslur framleiðenda inn á verðjöfnunarreikninga hjá Verðjöfnunarsjóði skulu koma til lækkunar á tekjum þeirra á því ári sem framleiðsla á sér stað. Útgreiðslur af verðjöfnunarreikningum til framleiðenda skulu færðar til tekna á því ári sem framleiðsla á sér stað.
9. gr.
Skylt er framleiðendum og útflytjendum sjávarafurða ásamt flutningafyrirtækjum og lánastofnunum að veita Verðjöfnunarsjóði allar þær upplýsingar sem hann kann að leita eftir um söluverð, söluskilmála, tegundir, pakkningar, vinnslustig afurða og annað það sem máli skiptir.
10. gr.
Stjórn sjóðsins er heimilt að fella niður inngreiðslur í Verðjöfnunarsjóð verði verulegur aflabrestur.
Fari samanlagðar innstæður einstakra deilda umfram 30% af verðmæti útfluttra afurða viðkomandi tegundar síðasta almanaksár er stjórninni heimilt að lækka inngreiðslur eða fella þær niður um tiltekinn tíma.
Stjórn sjóðsins er heimilt, þrátt fyrir ákvæði 4. og 5. gr., að ákveða að verðjöfnun fyrir óunnar botnfiskafurðir taki mið af verðjöfnun botnfiskafurða er undir aðrar deildir falla.
11. gr.
Stjórn Verðjöfnunarsjóðs hefur yfirumsjón með starfsemi sjóðsins. Hún ræður starfsfólk til að annast daglegan rekstur hans eða semur um það við fjármálastofnanir eftir því sem hagkvæmt þykir.
Kostnaður af rekstri Verðjöfnunarsjóðs skal greiddur af óskiptum reikningi sjóðsins. Sé rekstrarkostnaður meiri en nemur innstæðu á óskiptum reikningi sjóðsins skal honum skipt hlutfallslega niður á verðjöfnunarreikninga sjóðsins.
Innstæður á verðjöfnunarreikningum sjóðsins skulu ávaxtaðar á tryggan og hagkvæman hátt í erlendum gjaldeyri.
12. gr.
[Ráðherra] 1) setur með reglugerð, 2) að fengnum tillögum sjóðstjórnar, nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.
    1)L. 126/2011, 138. gr. 2)Rg. 254/1990.
13. gr.
Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins er undanþeginn opinberum gjöldum og sköttum hverju nafni sem nefnast.
14. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1990.
Ákvæði til bráðabirgða.