Lagasafn.  Íslensk lög 20. apríl 2022.  Útgáfa 152b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um bryta og matreiðslumenn á farskipum og fiskiskipum

1961 nr. 50 29. mars


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 2. maí 1961. Breytt með: L. 31/1966 (tóku gildi 14. maí 1966). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við innviðaráðherra eða innviðaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Skylt er að hafa matreiðslumenn og/eða bryta á öllum vélknúnum skipum, sem eru 800 rúmlestir brúttó eða stærri, annast farþega- og vöruflutninga og hafa minnst 20 manna áhöfn fyrir utan eldhús- og þjónustufólk.
Á fiskiskipum og flutningaskipum, sem eru 100 rúmlestir brúttó eða stærri, og á farþegaskipum, sem eru 100–800 rúmlestir brúttó, er skylt að hafa matsveina.
2. gr.
Til þess að öðlast réttindi sem matreiðslumaður samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skal viðkomandi hafa sveins- eða meistararéttindi í matreiðslu.
Til þess að öðlast réttindi sem [matsveinn] 1) samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skal viðkomandi uppfylla eitthvert eftirtalinna skilyrða:
    a. að hafa sveins- eða meistararéttindi í matreiðslu;
    b. að hafa lokið 8 mánaða námskeiði við Matsveina- og veitingaþjónaskólann og starfað sex mánuði sem [aðstoðarmatsveinn] 1) á skipum;
    c. að hafa sótt viðurkennt matreiðslunámskeið og starfað sem [matsveinn] 1) á fiskiskipum samkvæmt 1. gr. í 18 mánuði.
    1)L. 31/1966, 1. gr.
3. gr.
Í Matsveina- og veitingaþjónaskólanum skulu haldin námskeið fyrir þá, sem ætla að verða brytar á farþega- og flutningaskipum, og skal ráðherra setja nánari ákvæði um tilhögun þeirra í reglugerð.
4. gr.
Til þess að öðlast brytaréttindi á farþegaskipum og flutningaskipum skal viðkomandi hafa öðlast meistararéttindi í matreiðslu- eða framreiðsluiðn og hafa staðist brytapróf við Matsveina- og veitingaþjónaskólann.
5. gr.
[Ákvæði laga þessara ná ekki til þeirra, sem við gildistöku laganna starfa sem matreiðslumenn, matsveinar eða brytar á fiski-, flutninga- eða farþegaskipum, né þeirra, sem hafa haft það starf fyrir gildistökuna eitt ár eða lengur á skipum yfir 50 rúmlestir. Til þessara starfa þurfa þeir að hafa krafist viðurkenningar ráðuneytisins innan fimm ára frá gildistöku laga þessara.] 1)
    1)L. 31/1966, 2. gr.
6. gr.
[Ráðuneytið] 1) getur veitt tímabundna undanþágu frá ákvæðum þessara laga, sé ekki unnt að fá menn til starfa, sem uppfylla þau skilyrði, sem eru í lögum þessum, eða það er erfiðleikum bundið.
    1)L. 126/2011, 31. gr.