Lagasafn.  Íslensk lög 20. apríl 2022.  Útgáfa 152b.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 1/2010, um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

2010 nr. 4 11. janúar


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 12. janúar 2010.

1. gr.
Svo fljótt sem kostur er og eigi síðar en fyrsta laugardag í mars 2010 skal fara fram, í samræmi við 26. gr. stjórnarskrárinnar, almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíðargildi laga nr. 1/2010, um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.
Dómsmálaráðherra tekur ákvörðun um dagsetningu atkvæðagreiðslunnar að höfðu samráði við landskjörstjórn.
2. gr.
Um kosningarrétt og kjörskrár til afnota í þjóðaratkvæðagreiðslunni skv. 1. gr. fer á sama hátt og við alþingiskosningar. Kjörskrár skulu þó miðaðar við íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag og skulu liggja frammi hjá sveitarstjórnum í heila viku fyrir kjördag.
Meiri hluti greiddra atkvæða á landinu öllu ræður niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.
3. gr.
Á kjörseðli skal koma fram eftirfarandi: „ Lög nr. 1/2010 kveða á um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. Alþingi samþykkti lög nr. 1/2010 en forseti synjaði þeim staðfestingar. Eiga lög nr. 1/2010 að halda gildi?
Á kjörseðli skulu gefnir tveir möguleikar á svari, þ.e. „Já, þau eiga að halda gildi“ og „Nei, þau eiga að falla úr gildi“.
4. gr.
Dómsmálaráðuneytið lætur gera kjörseðla til afnota við atkvæðagreiðsluna. Kjörseðlar sem nota skal við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar skulu gerðir í öðrum lit.
5. gr.
Dómsmálaráðuneytið skal auglýsa kjördag skv. 1. gr. eigi síðar en þremur vikum fyrir atkvæðagreiðsluna. Þá skal einnig viku fyrir kjördag birta spurninguna skv. 3. gr., sem lögð verður fyrir kjósendur, með auglýsingu í Ríkisútvarpi og dagblöðum. Þar skal jafnframt vakin athygli á því að lög nr. 1/2010, frumvarp til laganna og öll skjöl varðandi meðferð málsins á Alþingi séu aðgengileg á áberandi stað á vefsíðu Alþingis.
6. gr.
Undirkjörstjórnir, yfirkjörstjórnir og landskjörstjórn eru hinar sömu og við alþingiskosningar.
Mörk kjördæma, kjörstaðir og kjördeildir skulu vera hin sömu og í síðastliðnum alþingiskosningum.
7. gr.
Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar skal hefjast á sama tíma um land allt að undangenginni auglýsingu eftir að kjörseðlar hafa verið fullgerðir. Um framkvæmd hennar fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga um kosningar til Alþingis.
8. gr.
Dómsmálaráðuneytið lætur yfirkjörstjórnum í té kjörseðla sem nota skal við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Yfirkjörstjórnir annast framsendingu þeirra til undirkjörstjórna með sama hætti og við alþingiskosningar.
9. gr.
Að þjóðaratkvæðagreiðslunni lokinni senda undirkjörstjórnir oddvita yfirkjörstjórnar tafarlaust atkvæðakassana og ónotaða og ónýtta kjörseðla í þeim umbúðum er segir í lögum um kosningar til Alþingis. Á áður auglýstum stað og stund opnar yfirkjörstjórn atkvæðakassana og fer síðan fram talning atkvæða á sama hátt og segir í lögum um kosningar til Alþingis, svo og um það hvort kjörseðill telst gildur eða ekki, og um meðferð ágreiningsseðla. Landskjörstjórn skal skipa umboðsmenn til að gæta tveggja ólíkra sjónarmiða við atkvæðagreiðsluna og úrlausn ágreiningsmála. Ekki skal meta atkvæði ógilt nema óljóst sé hvernig kjósandi hefur greitt atkvæði.
10. gr.
Að lokinni talningu atkvæða sendir yfirkjörstjórn landskjörstjórn eftirrit af gerðabók sinni ásamt þeim kjörseðlum sem ágreiningur hefur verið um milli umboðsmanna og yfirkjörstjórnar. Þegar landskjörstjórn hefur fengið í hendur eftirrit gerðabóka allra yfirkjörstjórna og ágreiningsseðla auglýsir hún með hæfilegum fyrirvara hvar og hvenær hún kemur saman til að úrskurða um gildi ágreiningsseðlanna og lýsa úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar til að umboðsmönnum gefist færi á að vera viðstaddir. Að því loknu tilkynnir landskjörstjórn dómsmálaráðuneytinu um niðurstöður sínar.
Ráðuneytið auglýsir úrslit atkvæðagreiðslunnar í Lögbirtingablaði og Ríkisútvarpi.
Verði lögin felld úr gildi í þjóðaratkvæðagreiðslunni skal ráðuneytið auk þess birta sérstaka auglýsingu þess efnis í A-deild Stjórnartíðinda um leið og úrslit atkvæðagreiðslunnar liggja fyrir.
11. gr.
Um atkvæðagreiðsluna sjálfa, sem og undirbúning hennar, fer að öðru leyti samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.
Kjörstjórnir nota sömu gerðabækur og við alþingiskosningar.
Ákvæði 114. gr. og XIX., XX., XXIV. og XXV. kafla laga um kosningar til Alþingis gilda um þjóðaratkvæðagreiðsluna að svo miklu leyti sem við getur átt.
12. gr.
Kærur um ólögmæti atkvæðagreiðslunnar, aðrar en refsikærur, skulu sendar landskjörstjórn til úrlausnar eigi síðar en tveimur dögum fyrir fund þann sem getið er um í 10. gr.
13. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.