Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá

1988 nr. 19 5. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. janúar 1989. Breytt með: L. 33/1999 (tóku gildi 1. nóv. 1999). L. 143/2006 (tóku gildi 1. jan. 2007). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við dómsmálaráðherra eða dómsmálaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
[Lög þessi taka til sjóða og stofnana sem starfa samkvæmt skipulagsskrá staðfestri af sýslumanni samkvæmt lögum þessum eða samkvæmt skipulagsskrá staðfestri af [ráðherra] 1) eða forseta Íslands eða konungi, sbr. þó 2. mgr. [Ráðherra] 2) ákveður hvaða sýslumaður fer með framkvæmd laga þessara.] 3)
Undanskildir lögum þessum eru þó þeir sjóðir og stofnanir sem stofnað er til með lögum, ákvörðunum Alþingis eða milliríkjasamningum enda þótt skipulagsskrá þeirra sé staðfest.
[Um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur fer samkvæmt lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur.] 4)
[Ákvarðanir sýslumanns samkvæmt lögum þessum eru kæranlegar til [ráðuneytisins]. 2)] 3)
    1)L. 126/2011, 123. gr. 2)L. 162/2010, 115. gr. 3)L. 143/2006, 1. gr. 4)L. 33/1999, 49. gr.
2. gr.
Stofnfé sjóðs eða stofnunar skal vera 300.000 kr. hið minnsta miðað við lánskjaravísitölu þá sem í gildi er við gildistöku laganna og breytist síðan árlega í samræmi við þá vísitölu í janúarmánuði. Skal [sýslumaður] 1) auglýsa árlega lágmarksupphæð. Heimilt skal þó ef sérstakar ástæður þykja mæla með að stofnfé nemi lægri upphæð.
Í skipulagsskrá skal greina stofnfé og hvaðan það er runnið, svo og hvert skuli vera markmið sjóðs eða stofnunar og hvernig fé skuli varið til að ná þeim markmiðum. Þá skal greina skýrt hvernig stjórn sjóðs eða stofnunar skal skipuð og hver bera skuli ábyrgð á fjárvörslu.
[Sýslumaður] 1) skal halda skrá um alla sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og nefnist hún sjóðaskrá.
Staðfestar skipulagsskrár og breytingar á þeim skal birta í B-deild Stjórnartíðinda.
    1)L. 143/2006, 2. gr.
3. gr.
Sá sem ábyrgð ber á sjóði eða stofnun skal eigi síðar en 30. júní ár hvert senda Ríkisendurskoðun reikning sjóðsins eða stofnunarinnar fyrir næstliðið ár ásamt skýrslu um hvernig fé sjóðs eða stofnunar hefur verið ráðstafað á því ári.
Stjórn sjóðs eða stofnunar skal jafnframt tilkynna sjóðaskrá hverjir skipi stjórn hverju sinni.
Ríkisendurskoðun skal halda skrá yfir heildartekjur og gjöld svo og eignir og skuldir allra skráðra sjóða og stofnana, svo og athugasemdir sínar við framlagða reikninga. Skal færa nýjar upplýsingar í skrána eftir því sem þær berast. Aðgangur að upplýsingum í skránni er öllum frjáls og skal láta í té afrit af henni til þeirra sem eftir því leita.
4. gr.
Hafi skýrsla og reikningur sjóðs eða stofnunar eigi borist í eitt ár eða reikningsskil reynast ófullkomin getur [sýslumaður], 1) að fengnum tillögum Ríkisendurskoðunar, falið lögreglustjóra að rannsaka fjárreiður sjóðsins eða stofnunarinnar og taka í sína vörslu skjöl og eignir. Skal lögreglustjóri hafa fjárvörsluna á hendi þar til [sýslumaður] 1) hefur skipað málum á annan veg.
Kostnað, sem leiðir af rannsókn á fjárreiðum og vörslu sjóðs, má leggja á viðkomandi sjóð eða stofnun eftir mati [sýslumanns] 1) og í samráði við Ríkisendurskoðun.
    1)L. 143/2006, 2. gr.
5. gr.
Eigi má selja eða veðsetja fasteignir sem eru eign sjóðs eða stofnunar, nema að fengnu samþykki [sýslumanns]. 1) Áður en tekin er afstaða til umsóknar um veðsetningu eða sölu slíkrar fasteignar skal leitað umsagnar Ríkisendurskoðunar.
    1)L. 143/2006, 2. gr.
6. gr.
Nú hafa þjóðfélagshættir og aðstæður breyst svo mjög frá því að skipulagsskrá sjóðs eða stofnunar var staðfest að markmiðum þeim, sem skipulagsskrá gerir ráð fyrir, verður eigi náð eða stjórn verður ekki skipuð samkvæmt ákvæðum hennar og er [sýslumanni] 1) þá heimilt að breyta skipulagsskrá. Við slíka breytingu skal þess gætt að fara eftir óskum stofnenda svo sem unnt er. Ef unnt er skal fá samþykki stjórnar sjóðs eða stofnunar til breytinganna.
Eftir sömu reglum og greinir í 1. mgr. er [sýslumanni] 1) heimilt að sameina tvo eða fleiri sjóði eða stofnanir í einn sjóð eða stofnun. Þá er [sýslumanni] 1) heimilt að leggja niður staðfestan sjóð eða stofnun en eignum skal varið til málefna sem skyld eru hinum upphaflegu markmiðum.
Áður en breytt er staðfestri skipulagsskrá, sjóðir eða stofnanir sameinaðar eða lagðar niður skal ætíð leita umsagnar Ríkisendurskoðunar. Ríkisendurskoðun getur einnig átt frumkvæði að því að tekin verði afstaða til aðgerða samkvæmt framansögðu.
    1)L. 143/2006, 2. gr.
7. gr.
[Ráðherra] 1) skal með reglugerð 2) kveða nánar á um efni og gerð skipulagsskráa og önnur atriði sem varða framkvæmd laga þessara. Má í því sambandi og í samráði við Ríkisendurskoðun setja nánari reglur um samstarf [sýslumanns] 3) og Ríkisendurskoðunar eftir því sem þurfa þykir.
    1)L. 162/2010, 115. gr. 2)Rg. 1125/2006, sbr. 1152/2014. Rg. 140/2008, sbr. 859/2016. 3)L. 143/2006, 2. gr.
8. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1989.
Ákvæði til bráðabirgða.