Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um samningsbundna gerðardóma

1989 nr. 53 24. maí


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. janúar 1990. Breytt með: L. 16/2002 (tóku gildi 3. apríl 2002). L. 117/2016 (tóku gildi 1. jan. 2018, nema 52., 53., 75., 76. og 79.–81. gr. sem tóku gildi 28. okt. 2016). L. 141/2018 (tóku gildi 1. jan. 2019). L. 81/2019 (tóku gildi 1. janúar 2020 nema III. kafli og 1. mgr. 20. gr. sem tóku gildi 6. júlí 2019; EES-samningurinn: XIX. viðauki tilskipun 2013/11/ESB, reglugerð 524/2013, 2015/1051).


1. gr.
Lög þessi taka til samningsbundinna gerðardóma.
Aðilar geta með samningi ákveðið að leggja réttarágreining sín á milli í gerð ef þeir hafa forræði á sakarefninu. Slíkan samning má gera hvort heldur er um ágreining sem upp er kominn eða síðar kann að koma upp í tilteknum lögskiptum aðila.
2. gr.
Hafi mál verið höfðað fyrir almennum dómstólum um ágreiningsefni sem á undir gerðardóm samkvæmt gildum gerðarsamningi skal ekki vísa því frá dómi nema krafa komi fram um það.
3. gr.
Gerðarsamningur skal vera skriflegur. Þar skal koma skýrt fram að um gerðarsamning sé að ræða, hverjir séu aðilar samningsins og úr hvaða réttarágreiningi skuli leyst.
Gerðarsamningur skuldbindur ekki aðila ef í verulegum atriðum er vikið frá ákvæðum 1. mgr., ef úrlausnarefni má ekki leggja í gerð eða ef ákvæði um skipun gerðarmanna, málsmeðferð eða önnur atriði þykja ekki veita fullnægjandi réttarvernd. [Gerðarsamningur um ágreining sem síðar kann að koma upp í neytendasamningi bindur ekki neytanda.] 1)
Gerðardómurinn kýs sér formann nema annað sé ákveðið í gerðarsamningi. Sé frestur til að útnefna gerðarmenn ekki tiltekinn í gerðarsamningi skulu aðilar tilnefna þá innan hæfilegs tíma.
    1)L. 81/2019, 24. gr.
4. gr.
Rísi ágreiningur um skipun í gerðardóminn getur aðili leitað til þess héraðsdómara sem hefði dómsvald um sakarefnið ef gerðarsamningur lægi ekki fyrir og leysir hann úr ágreiningnum með úrskurði.
Aðili getur með sama hætti snúið sér til héraðsdómara ef gagnaðili fullnægir ekki skyldum sínum samkvæmt gerðarsamningi um skipun gerðarmanns eða ef aðilar ná ekki samkomulagi um skipun gerðarmanns. Getur dómari þá skipað þann eða þá gerðarmenn. Sama gildir ef gerðardómur verður óstarfhæfur sakir þess að gerðarmaður tekur ekki þátt í störfum gerðardóms vegna veikinda eða annarra atvika.
Sé ákvæði um skipun og fjölda gerðarmanna ekki til að dreifa í gerðarsamningi og ekki næst samkomulag um aðra tilhögun skal dómari, eftir kröfu aðila, tilnefna þrjá menn í gerðardóm, þar af einn sem skal vera formaður.
5. gr.
Beiðni skv. 4. gr. skal vera skrifleg og koma fram strax og tilefni er til. Í henni skal m.a. tilgreina aðila málsins, ágreining þann sem gerðarmál snýst um, tildrög þess að leitað er til héraðsdómara og hverra aðgerða er óskað. Gerðarsamningur eða afrit hans skal fylgja beiðni.
Dómari gerir aðilum viðvart hvenær mál verði tekið fyrir. Sé þess óskað getur gagnaðili fengið stuttan frest til að semja greinargerð, en að því loknu tekur dómari ágreiningsefnið til úrskurðar eftir að aðilar hafa tjáð sig um það munnlega. Dómari er óbundinn af áliti því er liggur til grundvallar úrskurði ef á það reynir í dómsmáli síðar. Úrskurði verður ekki skotið til [æðri dóms]. 1) Þó má kæra til [Landsréttar] 2) úrskurði þar sem synjað er tilnefningu gerðarmanns.
    1)L. 117/2016, 30. gr. 2)L. 117/2016, 31. gr.
6. gr.
Gerðarmenn skulu vera nægjanlega líkamlega og andlega hraustir til að fara með gerðarmál. Þeir skulu vera lögráða og hafa forræði fjár síns. [Þeir mega ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað þar sem refsing var fjögurra mánaða óskilorðsbundið fangelsi hið minnsta eða öryggisgæsla ef þeir voru fullra 18 ára þegar brotið var framið nema fimm ár hafi liðið frá því að afplánun var að fullu lokið.] 1)
Gerðarmenn skulu fullnægja sérstökum hæfisskilyrðum héraðsdómara til meðferðar einstaks máls.
Formaður gerðardóms sker úr ágreiningi um hæfisskilyrði gerðarmanna. Þá úrlausn getur aðili borið undir héraðsdómara með þeim hætti og með þeim áhrifum sem um getur í 5. gr. Héraðsdómari kveður upp úrskurð um ágreiningsefnið og verður honum ekki skotið til [æðri dóms]. 2)
    1)L. 141/2018, 12. gr. 2)L. 117/2016, 30. gr.
7. gr.
Kröfur aðila fyrir gerðardómi skulu vera skýrar. Gerðarmenn skulu ávallt gefa aðilum kost á að gera kröfur, færa fram sönnunargögn, kynna sér gögn málsins og tjá sig um sakarefnið. Gæta skal jafnræðisreglu.
Að öðru leyti fer um málsmeðferð fyrir gerðardómi eftir gerðarsamningi. Þar sem slíkar reglur er ekki að finna ákveður gerðardómur sjálfur málsmeðferð og skal hraða gerðarmáli svo sem kostur er.
Gerðarmenn skulu allir taka þátt í störfum dómsins. Formaður gerðardóms getur þó einn tekið við skjölum og sinnt öðrum minni háttar framkvæmdaratriðum. Í gerðarsamningi má einnig fela formanni gerðardóms einum að taka ákvarðanir um atriði sem varða rekstur gerðarmáls.
Afl atkvæða í gerðardómi ræður úrslitum.
8. gr.
Gerðardómur skal vera skriflegur, skýr, rökstuddur í meginatriðum og undirritaður af þeim gerðarmönnum sem að dómi standa. Sátt fyrir gerðardómi skal vera skrifleg og undirrituð af aðilum og gerðarmönnum.
9. gr.
Verði verulegur dráttur á meðferð gerðarmáls sem aðili telur að rekja megi til vanrækslu gerðarmanna á starfsskyldum sínum getur hann snúið sér til héraðsdómara með þeim hætti sem segir í 4. og 5. gr. með kröfu á hendur gagnaðila og gerðarmönnum um að gerðarmenn, einn eða fleiri, verði leystir frá störfum og aðrir skipaðir í þeirra stað.
Héraðsdómari tekur ákvörðun um þetta með úrskurði sem kæra má til [Landsréttar]. 1)
    1)L. 117/2016, 31. gr.
10. gr.
Gerðarmenn eiga rétt á endurgjaldi fyrir verk sitt, svo og ferðakostnaði eftir reikningi. Verði ágreiningur getur aðili borið hann undir héraðsdómara með þeim hætti sem 5. gr. áskilur. Héraðsdómari leysir úr ágreiningsefninu með úrskurði sem kæra má til [Landsréttar]. 1)
    1)L. 117/2016, 31. gr.
11. gr.
Gerðardómur kveður á um greiðslu málskostnaðar milli aðila eftir kröfu þeirra, þar á meðal kostnaðar sem leiðir af starfsemi gerðardómsins. Frá þessu má víkja með ákvæði í gerðarsamningi.
12. gr.
Gerðardóm má ógilda að nokkru leyti eða öllu með málsókn í héraði:
    1. ef gerðarsamningur var ógildur,
    2. ef gerðarmenn voru vanhæfir,
    3. ef málsmeðferð var áfátt í verulegum atriðum,
    4. ef gerðarmenn hafa farið út fyrir valdsvið sitt,
    5. ef gerðardómur er ekki í lögmætu formi,
    6. ef gerðardómur er bersýnilega reistur á ólögmætum sjónarmiðum eða fer í bága við allsherjarreglu.
[Lög um meðferð einkamála gilda um málsóknina og málskot til æðri dóms að öðru leyti en kveðið er á um í lögum þessum.] 1)
Hafi mál verið höfðað skv. 1. mgr., en mótmæli ekki áður komið fram um þau atriði sem málsókn er reist á, verður gerðardómur ekki ógiltur nema mótmælin skipti ekki máli eða afsakanlegt var að slík mótmæli kæmu ekki fram. Sátt fyrir gerðardómi má ógilda með sama hætti og réttarsátt með málsókn í héraði.
[Hafi mál verið höfðað skv. 1. mgr. getur dómari ákveðið samkvæmt kröfu að fresta réttaráhrifum gerðardóms meðan málið er leitt til lykta. Ákveða má að slík frestun sé bundin því að lögð sé fram trygging fyrir efndum skuldbindingar samkvæmt gerðardóminum. Ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein skal tekin með úrskurði sem kæra má til [Landsréttar] 2) samkvæmt almennum reglum laga um meðferð einkamála.] 3)
    1)L. 117/2016, 32. gr. 2)L. 117/2016, 31. gr. 3)L. 16/2002, 1. gr.
13. gr.
Sé annað ekki ákveðið í gerðarsamningi skal gerðardómur eða sátt, sem gerð er fyrir honum, vera aðfararhæf. [Um aðförina fer eftir sömu reglum og gilda um dóma uppkveðna af íslenskum dómstólum og sáttir sem komist hafa á fyrir þeim.] 1)
Ef aðili byggir rétt fyrir dómi á gerðardómi eða sátt sem gerð er fyrir gerðardómi getur gagnaðili vefengt gildi hans vegna þeirra atriða sem greind eru í 12. gr. og sker dómurinn þá úr.
    1)L. 16/2002, 2. gr.
14. gr.
Gerðardómar, sem kveðnir eru upp í samræmi við þjóðréttarsamninga sem Ísland er aðili að, skulu öðlast viðurkenningu og aðfararhæfi hér á landi eftir því sem efni þeirra stendur til.
Aðrir alþjóðlegir gerðardómar skulu öðlast viðurkenningu og aðfararhæfi ef þeir fullnægja fyrirmælum íslenskra laga um gerðardóma.
[Um aðför til fullnustu gerðardóms skv. 1. eða 2. mgr. fer eftir sömu reglum og gilda um aðför til fullnustu erlendra dómsúrlausna.] 1)
    1)L. 16/2002, 3. gr.
15. gr.
Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990.
16. gr.