Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um áframhaldandi gildi samninga með tilkomu evrunnar

1998 nr. 39 27. apríl


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 11. maí 1998. EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 93/6/EBE.

Skilgreiningar.
1. gr.
Í lögum þessum merkir:
    Evra: Gjaldmiðil þeirra ríkja Evrópusambandsins (ESB) sem taka upp sameiginlegan gjaldmiðil í samræmi við sáttmála ESB, sem undirritaður var 7. febrúar 1992.
    EMU: Efnahags- og myntbandalag Evrópu.
    Eka: Evrópureikningseiningu (European Currency Unit, ECU) sem myndar myntkörfu sem um er fjallað í reglum ESB nr. 3320/94 og í gildi er þegar evran verður tekin upp sem gjaldmiðill þátttökuríkja í EMU.
Eka sem vísað er til í samningi, skuldaskjali eða öðrum löggerningi og skilgreind er á sama hátt og segir í 1. mgr. skal metin sem ein eka á móti einni evru. Sé vísað til eku í samningi, skuldaskjali eða öðrum löggerningi án þess að eka sé skilgreind á þann hátt sem greinir í 1. mgr. skal líta svo á að um eku í skilningi 1. mgr. sé að ræða, nema sýnt sé fram á að annað hafi vakað fyrir aðilum að slíkum samningi, skuldaskjali eða öðrum löggerningi.
Áframhaldandi gildi samninga.
2. gr.
Sé greiðsluskylda samkvæmt samningi, skuldaskjali eða öðrum löggerningi í gjaldmiðli sem ekki verður lengur til sem sjálfstæður gjaldmiðill við tilkomu evrunnar skal evra koma í stað þess gjaldmiðils samkvæmt því hlutfalli sem ákveðið er í reglum ESB að gilda skuli.
Sé greiðsluskylda samkvæmt samningi, skuldaskjali eða öðrum löggerningi í eku mun ein evra koma í stað einnar eku samkvæmt reglum ESB.
Skuldbindingar þær sem lýst er í 1. og 2. mgr. er heimilt að efna í þeim gjaldmiðli eða gjaldmiðlum sem upphaflega hefur verið samið um í samningum, skuldaskjölum eða öðrum löggerningum sem þar eru greindir, svo fremi að þeir gjaldmiðlar séu þá lögmætir, eða evru en ekki í öðrum gjaldmiðlum.
3. gr.
Aðili að samningi, skuldaskjali eða öðrum löggerningi getur ekki borið fyrir sig að hann þurfi ekki að efna skuldbindingar sem í þeim felast og að hann hafi einhliða rétt til að breyta, segja upp eða gjaldfella slíka samninga, skuldaskjöl eða aðra löggerninga, vegna eftirgreindra atriða:
    a. Tilkomu evrunnar.
    b. Að boðin sé fram evra til að efna skuldbindingar sem getið er í 1. og 2. mgr. 2. gr.
    c. Að verðmæti skuldbindinga sé ákveðið í samræmi við 1. og 2. mgr. 2. gr.
    d. Að útreikningi eða ákvörðun efnis eða greiðslumáta samnings, skuldaskjals eða annars löggernings vegna vaxta eða annarra atriða hafi verið breytt eða skipt út vegna tilkomu evrunnar og að evran komi þar í stað sem efnislega jafngildur gjaldmiðill.
Gildissvið.
4. gr.
Ákvæði laga þessara gilda um alla samninga, skuldaskjöl (þar með talin hlutabréf, arðmiða, vaxtamiða og þess háttar) og aðra löggerninga hverju nafni sem nefnast, sem fela í sér greiðsluskyldu, hvort sem þeir eru gerðir í atvinnuskyni eða ekki.
Gildistaka.
5. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.