Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda

2001 nr. 141 21. desember


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 31. desember 2001. EES-samningurinn: XIX. viðauki tilskipun 98/27/EB. Breytt með: L. 33/2005 (tóku gildi 1. júní 2005; EES-samningurinn: IX. og XIX. viðauki tilskipun 2002/65/EB). L. 82/2009 (tóku gildi 8. ágúst 2009; EES-samningurinn: IX. og XIX. viðauki tilskipun 2005/29/EB). L. 98/2009 (tóku gildi 1. okt. 2009 nema 69. og 70. gr. sem tóku gildi 1. jan. 2010). L. 162/2010 (tóku gildi 1. jan. 2011). L. 126/2011 (tóku gildi 30. sept. 2011). L. 97/2014 (tóku gildi 4. okt. 2014).

Ef í lögum þessum er getið um ráðherra eða ráðuneyti án þess að málefnasvið sé tilgreint sérstaklega eða til þess vísað, er átt við menningar- og viðskiptaráðherra eða menningar- og viðskiptaráðuneyti sem fer með lög þessi. Upplýsingar um málefnasvið ráðuneyta skv. forsetaúrskurði er að finna hér.

1. gr.
Samkvæmt lögum þessum geta stjórnvöld eða samtök, sem um ræðir í 2. og 3. gr., leitað lögbanns eða höfðað dómsmál skv. 4. gr. til að vernda hagsmuni neytenda þótt hvorki þau sjálf né félagsmenn í samtökum hafi orðið fyrir röskun réttinda, enda snúi beiðni um aðgerðirnar að því að stöðva eða koma á annan hátt í veg fyrir háttsemi sem hefur afleiðingar hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu og þykir stríða gegn [EES-gerðum sem taldar eru upp í viðauka við tilskipun 2009/22/EB], 1) eins og þær hafa verið leiddar inn í íslensk lög.
   … 1)
[Ráðherra kveður á um hvaða EES-gerðir falla undir viðauka við tilskipun 2009/22/EB í reglugerð. 1)] 2)
    1)Rg. 914/2014, sbr. 536/2020. 2)L. 97/2014, 1. gr.
2. gr.
Erlend stjórnvöld, sem getið er á skrá Eftirlitsstofnunar EFTA vegna ákvæða í tilskipun [2009/22/EB], 1) geta að fullnægðum ákvæðum 1. gr. leitað lögbanns eða höfðað dómsmál hér á landi skv. 4. gr. Sama á við um samtök sem þannig eru skráð og gæta hagsmuna neytenda á ákveðnu sviði ef brot beinist gegn slíkum hagsmunum.
    1)L. 97/2014, 2. gr.
3. gr.
[Stjórnvöld og félagasamtök á sviði neytendamála, sem ráðherra útnefnir, 1) geta leitað lögbanns eða höfðað dómsmál skv. 4. gr. fyrir stjórnvöldum eða dómstólum hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu til að vernda heildarhagsmuni íslenskra neytenda, enda hafi afleiðinga athafnarinnar gætt hér á landi. Setja má í reglugerð nánari skilyrði fyrir þessari heimild og notkun hennar.
Ráðherra skal tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um nafn og tilgang samtaka sem hann útnefnir skv. 1. mgr. og um nánari skilyrði, sem kunna að verða sett um heimild þeirra í reglugerð, til að fá þau tekin þar á skrá, sbr. 2. gr.] 2)
    1) Augl. 1320/2011. 2)L. 97/2014, 3. gr.
4. gr.
Í þeim tilgangi, sem um ræðir í 1. gr., geta stjórnvöld eða samtök, sem njóta réttar skv. 2. og 3. gr., leitað lögbanns hér á landi við athöfn sem ákvæði 1. gr. geta tekið til. Um lögbannsbeiðni, meðferð hennar, lögbannið sjálft, áhrif þess og höfðun máls til að fá það staðfest gilda almennar reglur að öðru leyti en því að gerðarbeiðandi getur að fengnu lögbanni krafist þess að sýslumaður láti birta auglýsingu um það svo að komið verði í veg fyrir að áfram gæti afleiðinga af háttseminni sem lögbann var lagt við. Fallist sýslumaður á að nauðsyn beri til slíkrar auglýsingar skal hann verða við kröfu um að fá hana birta en kostnaður af því greiðist þá úr ríkissjóði.
Í sama skyni og um ræðir í 1. mgr. geta stjórnvöld eða samtök, sem þar greinir, höfðað einkamál hér á landi til að fá bann lagt við athöfn.
5. gr.
[Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/22/EB frá 23. apríl 2009, um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 35/2010, frá 12. mars 2010, sem birt var 10. júní 2010 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 30/2010.] 1)
    1)L. 97/2014, 4. gr.
6. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.