Lagasafn.  Íslensk lög 13. september 2022.  Útgáfa 152c.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um útgáfu og meðferð rafeyris

2013 nr. 17 6. mars


Ferill málsins á Alþingi.    Frumvarp til laga.

Tóku gildi 1. apríl 2013. Breytt með: L. 78/2014 (tóku gildi 12. júní 2014). L. 58/2015 (tóku gildi 17. júlí 2015). L. 91/2019 (tóku gildi 1. jan. 2020 nema 133. gr. sem tók gildi 16. júlí 2019). L. 19/2021 (tóku gildi 1. sept. 2021). L. 70/2021 (tóku gildi 29. júní 2021). L. 114/2021 (tóku gildi 1. nóv. 2021; EES-samningurinn: IX. viðauki tilskipun 2015/2366). L. 38/2022 (tóku gildi 1. júlí 2022 nema 76. gr., a-liður 82. gr., d-liður 177. gr., d-liður 206. gr. og 65. gr. sem taka gildi skv. fyrirmælum í 215. gr. EES-samningurinn: IX. viðauki reglugerð 575/2013, 2015/62, 2016/1014, 2017/2188, 2017/2395, 2019/630, 2019/876, 2020/873).


I. kafli. Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið.
Lög þessi gilda um útgáfu og meðferð rafeyris hér á landi.
Lög þessi gilda um innlend rafeyrisfyrirtæki og um starfsemi erlendra rafeyrisfyrirtækja hér á landi.
Um rafeyrisfyrirtæki með takmarkað starfsleyfi skv. 16. gr. gilda ekki ákvæði 11.–14. gr. og 1. mgr. 26. gr.
2. gr.
Lög þessi gilda ekki um:
    a. peningaleg verðmæti sem geymd eru á miðlum sem aðeins er unnt að nota til kaupa á vörum og þjónustu á athafnasvæði útgefanda eða samkvæmt viðskiptasamningi við útgefanda, annaðhvort innan afmarkaðs þjónustukerfis þjónustuveitenda eða fyrir takmarkað svið vara og þjónustu, eða
    b. peningaleg verðmæti sem notuð eru til greiðslna sem framkvæmdar eru með tilstyrk hvers kyns fjarskiptabúnaðar, stafræns búnaðar eða upplýsingatæknibúnaðar þegar keyptar vörur eða þjónusta er afhent til og skal notuð í slíkum búnaði, að því tilskildu að rekstraraðili búnaðarins starfi ekki einvörðungu sem milliliður milli notanda greiðsluþjónustu og afhendingaraðila vara og þjónustu.
3. gr. Útgefendur rafeyris.
Útgáfa rafeyris er þeim einum heimil hér á landi er teljast til útgefenda rafeyris í skilningi laga þessara, enda hafi þeir tilskilin leyfi íslenskra stjórnvalda eða stjórnvalda í öðru aðildarríki.
4. gr. Orðskýringar.
Í lögum þessum merkir:
    1. Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar.
    2. Dreifingaraðili: Aðili sem veitir þjónustu í formi sölu og dreifingar rafeyris fyrir hönd útgefanda og hefur ekki með höndum greiðsluþjónustu í skilningi laga … 1) um greiðsluþjónustu.
    3. Greiðslumiðill: Hvers kyns persónubundinn búnaður og/eða verklag sem greiðsluþjónustuveitandi og notandi greiðsluþjónustu koma sér saman um og notandinn notar til að gefa greiðslufyrirmæli.
    4. Meðaltal útistandandi rafeyris: Meðaltal heildarfjárskuldbindinga vegna rafeyris sem gefinn hefur verið út við lok hvers almanaksdags næstliðna sex mánuði, reiknað út fyrsta almanaksdag hvers almanaksmánaðar og gildir þann mánuð.
    5. Rafeyrir: Peningaleg verðmæti, í formi kröfu á útgefanda sem er geymd í rafrænum miðli, þ.m.t. á segulformi, gefin út í skiptum fyrir fjármuni, í þeim tilgangi að framkvæma greiðslu í skilningi laga um greiðsluþjónustu og samþykkt er sem slík af öðrum aðilum en útgefandanum sjálfum.
    6. Rafeyrisfyrirtæki: Lögaðili sem hefur fengið starfsleyfi til að gefa út rafeyri skv. III. kafla, hér á landi eða í öðru aðildarríki.
    7. Umboðsaðili: Aðili sem auk þess að selja eða innleysa rafeyri fyrir hönd rafeyrisfyrirtækis stundar greiðsluþjónustu í skilningi laga … 1) um greiðsluþjónustu.
    8. Útgefandi rafeyris, sbr. 3. gr.:
    a. rafeyrisfyrirtæki skv. III. kafla,
    b. fjármálafyrirtæki með starfsleyfi til móttöku innlána eða annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi og veitingar útlána fyrir eigin reikning,
    c. Seðlabanki Evrópu (ECB) og seðlabankar ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu þegar þeir eru ekki í hlutverki stjórnvalds peningamála,
    d. stjórnvöld þegar þau starfa á eigin vegum sem opinber yfirvöld.
    9. Útibú: Starfsstöð önnur en aðalskrifstofa sem er hluti af rafeyrisfyrirtæki og telst ekki sjálfstæður lögaðili og annast beint, að öllu leyti eða að hluta, þá starfsemi sem fram fer hjá rafeyrisfyrirtæki. Allar starfsstöðvar rafeyrisfyrirtækis í einu og sama ríkinu á Evrópska efnahagssvæðinu skulu teljast eitt útibú ef aðalskrifstofa rafeyrisfyrirtækis er í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.
    1)L. 114/2021, 117. gr.

II. kafli. Útgáfa rafeyris og möguleiki á innlausn.
5. gr. Útgáfa rafeyris.
Útgefandi rafeyris skal gefa rafeyri út á nafnverði þegar fjármunum er veitt viðtaka.
6. gr. Bann við vöxtum.
Óheimilt er að reikna vexti eða veita handhafa rafeyris önnur hlunnindi sem byggjast á lengd þess tíma sem handhafi hefur rafeyri undir höndum.
7. gr. Innlausn rafeyris.
Útgefanda rafeyris ber að innleysa peningalegt verðmæti rafeyris án tafar og á nafnverði, að kröfu handhafa rafeyrisins, að teknu tilliti til heimilda til gjaldtöku vegna innlausnarinnar, sbr. 8. gr.
Handhafi rafeyris getur krafist innlausnar hvort heldur í heild eða að hluta.
Í samningi útgefanda og handhafa rafeyris skal á greinilegan og áberandi hátt tilgreina skilyrði fyrir innlausn rafeyrisins, þ.m.t. mögulega greiðslu þóknunar vegna innlausnarinnar. Handhafi rafeyris skal upplýstur um skilyrði innlausnar áður en samningur eða tilboð verður bindandi fyrir hann.
Ef handhafi rafeyris krefst innlausnar við lok samnings eða allt að ári eftir að samningurinn fellur úr gildi skal:
    a. samtala peningalegs verðmætis rafeyrisins innleyst eða
    b. innleysa alla þá fjármuni sem handhafi rafeyrisins krefst ef rafeyrisfyrirtæki annast aðra starfsemi skv. e-lið 1. mgr. 24. gr. og ekki er vitað fyrir fram hvaða hlutfall fjármuna á að nota sem rafeyri.
Um fyrningu krafna vegna rafeyris fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda.
8. gr. Þóknun vegna innlausnar.
Gjaldtaka vegna innlausnar skv. 7. gr. er aðeins heimil ef hún á stoð í samningi aðila og aðeins í eftirfarandi tilvikum:
    a. ef gerð er krafa um innlausn fyrir lok samnings,
    b. ef um ræðir tímabundinn samning og handhafi rafeyrisins segir honum upp fyrir lokadag eða
    c. ef innlausnar er krafist meira en ári eftir lokadag samnings.
Gjaldtaka vegna innlausnar skal vera hófleg og endurspegla raunkostnað útgefanda vegna innlausnarinnar.
Víkja má frá ákvæðum 7. gr. og þessarar greinar með samningi, í heild eða að hluta, þegar handhafi er ekki neytandi.

III. kafli. Rafeyrisfyrirtæki.
A. Stofnun og fjárhagsgrundvöllur.
9. gr. Rekstrarform og höfuðstöðvar.
[Rafeyrisfyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 15. eða 16. gr. skal vera lögaðili, hafa höfuðstöðvar sínar hér á landi og framkvæma a.m.k. hluta af rafeyrisþjónustu sinni hérlendis.] 1)
    1)L. 114/2021, 117. gr.
10. gr. Heiti.
Rafeyrisfyrirtæki með starfsleyfi samkvæmt lögum þessum er einu heimilt að nota í firma sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni orðið „rafeyrisfyrirtæki“, eitt sér eða samtengt öðrum orðum.
Sé hætta á að villst verði á nöfnum erlends og innlends rafeyrisfyrirtækis sem starfa hér á landi getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að annað fyrirtækjanna verði auðkennt sérstaklega.
11. gr. Stofnfé.
Stofnfé rafeyrisfyrirtækis skal á hverjum tíma nema að lágmarki jafnvirði 350.000 evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni og skal samsett úr þeim þáttum sem taldir eru upp í [a–e-lið 1. mgr. 26. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013, sbr. lög] 1) um fjármálafyrirtæki.
    1)L. 38/2022, 160. gr.
12. gr. Eiginfjárgrunnur.
Eiginfjárgrunnur rafeyrisfyrirtækis samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki má á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en kveðið er á um í 11. eða 13. gr., hvor fjárhæðin sem er hærri.
Rafeyrisfyrirtæki sem tilheyrir samstæðu þar sem í er annað rafeyrisfyrirtæki, fjármálafyrirtæki, greiðslustofnun eða vátryggingafélag er einungis heimilt að telja eiginfjárliði einu sinni til eiginfjárgrunns. Það sama á við ef rafeyrisfyrirtæki stundar aðra starfsemi en útgáfu rafeyris samkvæmt lögum þessum.
13. gr. Útreikningur eigin fjár rafeyrisfyrirtækja.
Eigið fé rafeyrisfyrirtækis skal á hverjum tíma nema að lágmarki summu útreikninga skv. 2. og 3. mgr.
Eigið fé rafeyrisfyrirtækis vegna veitingar greiðsluþjónustu skv. a-lið 1. mgr. 24. gr., og sú starfsemi tengist ekki útgáfu rafeyris, skal reiknað í samræmi við [9. gr.] 1) laga um greiðsluþjónustu.
Eigið fé rafeyrisfyrirtækis vegna útgáfu rafeyris skal reiknað í samræmi við aðferð D, sbr. 4. mgr.
Aðferð D: Eigið fé rafeyrisfyrirtækis vegna útgáfu rafeyris skal að lágmarki nema 2% af meðaltali útistandandi rafeyris.
Ef rafeyrisfyrirtæki annast veitingu greiðsluþjónustu skv. a-lið 1. mgr. 24. gr., og sú starfsemi tengist ekki útgáfu rafeyris, eða aðra starfsemi sem um getur í b–e-lið 1. mgr. 24. gr. og fjárhæð útistandandi rafeyris er óþekkt fyrir fram skal Fjármálaeftirlitið heimila rafeyrisfyrirtækinu að reikna út kröfur um eigið fé á grundvelli lýsandi hlutfalls sem ætla má að notað sé til útgáfu rafeyris, að því tilskildu að hægt sé að meta slíkt lýsandi hlutfall með góðu móti á grundvelli sögulegra gagna og með þeim hætti sem Fjármálaeftirlitið fellst á. Ef rafeyrisfyrirtæki hefur ekki starfað í nægilega langan tíma skulu kröfur um eigið fé reiknaðar á grundvelli áætlaðs útistandandi rafeyris samkvæmt viðskiptaáætlun fyrirtækisins, með fyrirvara um breytingar á áætluninni sem Fjármálaeftirlitið kann að vilja gera á henni.
Fjármálaeftirlitið getur, á grundvelli mats á áhættustýringarferlum, gagnagrunni yfir tapsáhættu og innra eftirlitskerfi rafeyrisfyrirtækis, gert kröfu um að eigið fé rafeyrisfyrirtækis sé allt að 20% hærra en fjárhæðin sem leiðir af beitingu aðferðarinnar sem valin er í samræmi við 1.–3. mgr. Á sama grundvelli getur Fjármálaeftirlitið heimilað að fjárhæð eigin fjár rafeyrisfyrirtækis sé allt að 20% lægri en fjárhæðin sem leiðir af beitingu þeirrar aðferðar sem valin er í samræmi við 1.–3. mgr.
[Seðlabanka Íslands] 2) er heimilt að setja nánari reglur samkvæmt þessu ákvæði.
    1)L. 114/2021, 117. gr. 2)L. 91/2019, 112. gr.
14. gr. Virkur eignarhlutur.
Aðili sem hyggst eignast, einn sér eða í samstarfi við aðra, virkan eignarhlut í rafeyrisfyrirtæki í skilningi laga um fjármálafyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um áform sín. Hið sama á við hyggist aðili, einn sér eða í samstarfi við aðra, auka svo við eignarhlut sinn að virkur eignarhlutur fari yfir 20%, 30% eða 50% eða nemi svo stórum hluta að [rafeyrisfyrirtæki] 1) verði talið dótturfyrirtæki hans.
Ákvæði 1. mgr. gildir einnig um eiganda virks eignarhlutar sem hyggst draga svo úr hlutafjár- eða stofnfjáreign sinni eða atkvæðisrétti að hann eigi ekki virkan eignarhlut. Í tilkynningu skal koma fram hver eignarhlutur hans muni verða. Fari eignarhluturinn niður fyrir 20%, 30% eða 50% eða svo mikið að rafeyrisfyrirtækið hættir að vera dótturfyrirtæki hlutaðeigandi skal það einnig tilkynnt. Sama á við ef hlutfallslegur eignarhlutur eða atkvæðisréttur rýrnar vegna hlutafjár- eða stofnfjáraukningar.
Ákvæði VI. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, gilda um meðferð virkra eignarhluta í rafeyrisfyrirtækjum og mat á hæfi virks eiganda eftir því sem við á.
Fjármálaeftirlitið skal setja nánari viðmið um þær upplýsingar sem greina þarf í tilkynningu.
    1)L. 38/2022, 161. gr.
B. Starfsleyfi.
15. gr. Starfsleyfi.
Aðilar, aðrir en þeir sem taldir eru upp í b–d-lið 8. tölul. 4. gr., er hyggjast gefa út rafeyri, skulu afla sér starfsleyfis sem rafeyrisfyrirtæki.
Fjármálaeftirlitið veitir rafeyrisfyrirtækjum starfsleyfi samkvæmt lögum þessum. Rafeyrisfyrirtæki er heimilt að hefja útgáfu rafeyris að fengnu starfsleyfi.
Starfsleyfi samkvæmt ákvæði þessu skal gilda í öllum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. nánari ákvæði þessa kafla.
16. gr. Takmarkað starfsleyfi á Íslandi.
Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita lögaðila með höfuðstöðvar hér á landi takmarkað starfsleyfi til útgáfu rafeyris að eftirfarandi skilyrðum uppfylltum:
    a. enginn þeirra einstaklinga sem ábyrgir eru fyrir stjórn eða rekstri fyrirtækisins hefur á síðustu tíu árum verið dæmdur fyrir brot sem tengjast peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverkastarfsemi eða auðgunarbrot,
    b. samanlögð áætluð útgáfa fjárhæðar rafeyris fer ekki yfir 30 millj. kr. á almanaksári.
Takmarkað starfsleyfi veitir aðeins heimild til útgáfu rafeyris hér á landi.
Lögaðili sem hlotið hefur takmarkað starfsleyfi skal í byrjun hvers almanaksárs senda Fjármálaeftirlitinu yfirlit með upplýsingum um heildarfjárskuldbindingar vegna rafeyris sem gefinn hefur verið út síðastliðið almanaksár auk útgáfuspár fyrir yfirstandandi ár. Yfirlitið skal undirritað af stjórn lögaðilans.
Lögaðili sem hlotið hefur takmarkað starfsleyfi skal tafarlaust tilkynna Fjármálaeftirlitinu ef samanlögð útgáfa fjárhæðar rafeyris sem gefinn hefur verið út á einu og sama almanaksárinu fer yfir 30 millj. kr.
Ef fjárhæð rafeyris skv. b-lið 1. mgr. fer yfir tilgreind fjárhæðarmörk er lögaðila þó heimil áframhaldandi útgáfa rafeyris á grundvelli þessa ákvæðis ef fullbúin umsókn um starfsleyfi skv. 15. gr. berst Fjármálaeftirlitinu innan 30 daga frá þeim tíma. Þrátt fyrir 2. mgr. 21. gr. skal ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu eða synjun starfsleyfis tilkynnt umsækjanda eigi síðar en 15 dögum eftir að fullbúin umsókn barst.
17. gr. Skrá yfir rafeyrisfyrirtæki.
[Fjármálaeftirlitið heldur opinbera skrá yfir rafeyrisfyrirtæki samkvæmt lögum þessum. Í skránni skal tilgreina helstu upplýsingar um rafeyrisfyrirtæki, svo sem um starfsheimildir, afturköllun starfsheimilda og, ef við á, um umboðsaðila og útibú. Færa skal útibú erlends rafeyrisfyrirtækis hér á landi í skrá aðildarríkis. Auk þess skal tilgreina þá einstaklinga og lögaðila sem njóta undanþágu skv. 16. gr. og, ef við á, umboðsaðila þeirra.
Almenningur skal hafa aðgang að skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 1. mgr. á vef Seðlabanka Íslands og skal hún uppfærð þegar í stað ef breytingar verða.
Fjármálaeftirlitið skal án tafar tilkynna Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni um þær upplýsingar sem það færir í skrána yfir rafeyrisfyrirtæki. Fjármálaeftirlitið er ábyrgt gagnvart Evrópsku bankaeftirlitsstofnuninni fyrir því að upplýsingar í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki séu réttar.] 1)
    1)L. 114/2021, 117. gr.
18. gr. Umsókn um starfsleyfi.
[Umsókn um starfsleyfi skal berast Fjármálaeftirlitinu. Hún skal vera skrifleg og ítarleg til að gera Fjármálaeftirlitinu kleift að ganga úr skugga um að skilyrði 9., 11., 12., 20., 23., 24., 26. og 38.–40. gr. séu uppfyllt. Eftirfarandi skal koma fram í umsókn:
    1. Gögn til staðfestingar á því að umsækjandi sé lögaðili og að höfuðstöðvar og a.m.k. hluti af starfsemi rafeyrisfyrirtækis fari fram hér á landi, sbr. 9. gr.
    2. Lýsing á núverandi og fyrirhugaðri þjónustu umsækjanda vegna rafeyris og hvort umsækjandi ætli að vera í annarri starfsemi, sbr. 24. gr.
    3. Viðskipta- og rekstraráætlun fyrir a.m.k. þrjú fyrstu rekstrarárin, sem sýnir fram á að umsækjandinn geti staðið fyrir ábyrgum rekstri, ásamt síðasta endurskoðaða ársreikningi, ef honum er til að dreifa.
    4. Upplýsingar um starfsskipulag umsækjanda, þ.m.t. hvort fyrirhugað sé að veita þjónustu, opna útibú eða nota umboðsmenn í starfsemi félagsins, sbr. 36. og 37. gr., hvort um útvistun sé að ræða, sbr. 38. gr., eða hvort um verði að ræða þátttöku í innlendu eða alþjóðlegu greiðslukerfi.
    5. Upplýsingar um hvort fyrirhugað sé að veita þjónustu yfir landamæri með eða án stofnunar útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila, sbr. 29.–35. gr.
    6. Gögn til staðfestingar á því að umsækjandi hafi yfir að ráða því stofnfé sem krafist er skv. 11. gr.
    7. Upplýsingar sem gera unnt að meta hvort stjórnarmenn og stjórnendur uppfylli kröfur um hæfi skv. 26. gr.
    8. Upplýsingar um þá einstaklinga sem eiga hlutdeild í umsækjanda, beint eða óbeint, virka eignarhlutdeild í umsækjanda í skilningi VI. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, stærð eignarhlutdeildar þeirra og gögn um hæfni þeirra með hliðsjón af nauðsyn þess að tryggja trausta og varfærna stjórn rafeyrisfyrirtækis.
    9. Upplýsingar um hvernig varðveislu fjármuna verði háttað í samræmi við 25. gr.
    10. Lýsing á verkferli sem fylgja skal til að hafa eftirlit með, meðhöndla og fylgja eftir rekstrar- eða öryggisfrávikum og kvörtunum viðskiptavina að því er varðar öryggisatriði.
    11. Lýsing á stjórnunarfyrirkomulagi og innra skipulagi umsækjanda, þ.m.t. innri eftirlitsferlum, aðferðum við stjórnun, áhættustýringu og reikningsskilum, sem sýnir að stjórnarhættir, eftirlitskerfi og verkferlar séu viðeigandi miðað við umfang starfseminnar og traustir og fullnægjandi.
    12. Lýsing á eftirlitskerfi sem verður komið á fót til að fara að kröfum laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka að því er varðar umsækjanda sem fellur undir lögin.
    13. Lýsing á hvernig skilyrði 40. gr. um varðveislu gagna verði uppfyllt.
    14. Lýsing á fyrirkomulagi rekstrarsamfellu þar sem mikilvæg starfsemi er skýrt tilgreind, skilvirkri viðbragðsáætlun og ferli til að kanna reglulega og endurskoða hversu fullnægjandi og skilvirkar áætlanirnar eru.
    15. Lýsing á meginreglum og skilgreiningum sem beitt er við söfnun á tölfræðilegum gögnum um árangur, færslur og svik.
    16. Öryggisstefna og lýsing á öryggiskerfi umsækjanda sem skal fela í sér ítarlegt áhættumat í tengslum við þjónustu vegna útgáfu eða meðferðar rafeyris, lýsingu á eftirlitsaðgerðum sem gripið er til í því skyni að vernda handhafa rafeyris með fullnægjandi hætti fyrir tilgreindri áhættu, svo sem svikum og ólöglegri notkun viðkvæmra gagna og persónuupplýsinga. Sérstaklega skal tilgreina hvernig eftirlitsaðgerðir tryggja öflugt tæknilegt öryggi og persónuvernd, þ.m.t. fyrir hugbúnaðar- og upplýsingatæknikerfi sem umsækjandinn eða útvistunaraðili, sem starfseminni er að öllu leyti eða hluta útvistað til, notar.
    17. Upplýsingar um löggilta endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki, sbr. 27. gr.
    18. Önnur atriði sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegt að komi fram í umsókn samkvæmt upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands.
Upplýsingar sem getið er um í 5. og 11.–13. tölul. 1. mgr. skulu jafnframt fela í sér lýsingu á því fyrirkomulagi sem umsækjandinn hefur innleitt til að gera allar þær ráðstafanir sem raunhæfar teljast til að vernda hagsmuni handhafa rafeyris og tryggja samfellu og áreiðanleika við framkvæmd þjónustunnar.
Rafeyrisfyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 20. gr. skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu án tafar um allar breytingar á áður veittum upplýsingum skv. 1. mgr. í tengslum við umsókn og veitingu starfsleyfis.] 1)
    1)L. 114/2021, 117. gr.
19. gr. Viðvarandi upplýsingaskylda.
Rafeyrisfyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 15. gr. eða takmarkað starfsleyfi skv. 16. gr. skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu án tafar um allar breytingar á áður veittum upplýsingum í tengslum við umsókn og veitingu starfsleyfis.
20. gr. Starfsleyfisskilyrði.
[Starfsleyfi skal veitt ef umsækjandi uppfyllir að mati Fjármálaeftirlitsins, í umsókn sinni og meðfylgjandi gögnum, skilyrði 18. gr. og sýnir fram á að skipulag í fyrirhuguðum rekstri vegna útgáfu og meðferðar rafeyris sé skýrt, fullnægjandi verklagsreglur séu fyrir hendi er þjóni markmiðum um traustan og varfærinn rekstur og að starfsemin hafi á að skipa fullnægjandi innra eftirlitskerfi að því er varðar aðferðir við stjórnun, fyrirkomulag áhættustýringar og reikningsskil. Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um efni 1. málsl. Um efni reglnanna skal hafa til hliðsjónar ákvæði 17. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, eftir því sem við á.
Þær kröfur sem gerðar eru til umsækjanda skv. 1. mgr. skulu vera í samræmi við eðli og umfang þeirrar þjónustu sem fyrirhugað er að veita og verður umsækjandi að uppfylla þær á hverjum tíma með því að aðlaga skipulag, verklagsreglur og annað skv. 1. mgr. í samræmi við umfang rekstrar.
Við mat á umsókn um starfsleyfi er Fjármálaeftirlitinu heimilt að leita ráðgjafar annarra viðeigandi opinberra stjórnvalda.
Fjármálaeftirlitið getur gert kröfu um stofnun sérstakrar einingar fyrir rekstur þjónustu vegna útgáfu og meðferðar rafeyris ef rafeyrisfyrirtæki sinnir annarri starfsemi samhliða og sá hluti rekstrarins hefur áhrif á fjárhagslegan styrk rafeyrisfyrirtækisins eða torveldar eftirlit með því.
Fjármálaeftirlitið skal synja um veitingu starfsleyfis ef það telur hluthafa eða eigendur virkra eignarhluta ekki hæfa með tilliti til traustrar og varfærinnar stjórnunar rafeyrisfyrirtækis.
Starfsleyfi skal ekki veitt ef náin tengsl rafeyrisfyrirtækis við einstaklinga eða lögaðila hindra eftirlit Fjármálaeftirlitsins með starfseminni. Hið sama á við ef lög eða reglur sem gilda um slíka tengda aðila hindra eftirlit. Með nánum tengslum er í lögum þessum átt við náin tengsl í skilningi laga um fjármálafyrirtæki. Enn fremur skal starfsleyfi ekki veitt ef lög og stjórnsýslufyrirmæli þriðja ríkis, sem gilda um einn eða fleiri einstaklinga eða lögaðila, sem rafeyrisfyrirtækið hefur náin tengsl við, eða vandkvæði tengd framkvæmd þeirra koma í veg fyrir að Fjármálaeftirlitið geti sinnt eftirlitshlutverki sínu.] 1)
    1)L. 114/2021, 117. gr.
21. gr. Tilkynning um veitingu eða synjun starfsleyfis.
[Fullnægi umsókn um starfsleyfi skilyrðum laga þessara að mati Fjármálaeftirlitsins veitir það starfsleyfi. Að öðrum kosti skal Fjármálaeftirlitið synja um starfsleyfi með rökstuðningi. Starfsleyfið gildir í öllum aðildarríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins og gerir hlutaðeigandi rafeyrisfyrirtæki kleift að veita þjónustu sem fellur undir starfsleyfið alls staðar á Evrópska efnahagssvæðinu að fullnægðum skilyrðum 29.–31. gr.
Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu eða synjun starfsleyfis skal tilkynnt umsækjanda eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullnægjandi umsókn barst.] 1)
    1)L. 114/2021, 117. gr.
22. gr. Afturköllun leyfis.
Fjármálaeftirlitið getur afturkallað starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis í heild eða að hluta ef:
    a. rafeyrisfyrirtæki nýtir ekki starfsleyfi innan 12 mánaða frá því að það var veitt, afsalar sér ótvírætt leyfinu eða hættir starfsemi í meira en sex mánuði samfellt,
    b. starfsleyfis hefur verið aflað á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt,
    c. rafeyrisfyrirtæki uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir leyfisveitingu [eða upplýsir Fjármálaeftirlitið ekki um umfangsmikla þróun starfseminnar], 1)
    d. áframhaldandi rekstur rafeyrisfyrirtækis ógnar stöðugleika greiðslukerfis [eða trausti á því], 1)
    e. starfsemi rafeyrisfyrirtækis fellur undir annað ákvæði í landslögum sem kveður á um afturköllun leyfis eða
    f. rafeyrisfyrirtæki brýtur að öðru leyti alvarlega eða ítrekað gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.
Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal rafeyrisfyrirtæki veittur hæfilegur frestur til úrbóta ef unnt er að koma úrbótum við að mati Fjármálaeftirlitsins. Þetta á þó ekki við um a-lið 1. mgr.
Afturköllun á starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis skal tilkynnt stjórn þess og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynninguna í Lögbirtingablaði og auglýsa í fjölmiðlum. Tilkynning skal enn fremur send lögbærum eftirlitsaðilum í þeim ríkjum þar sem hlutaðeigandi rafeyrisfyrirtæki starfrækir útibú eða veitir þjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila.
[Fjármálaeftirlitið skal uppfæra skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 17. gr. og birta þar opinberlega afturköllun á starfsleyfi.] 1)
    1)L. 114/2021, 117. gr.
23. gr. Góðir viðskiptahættir og þagnarskylda.
Rafeyrisfyrirtæki skal viðhafa eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur. [Seðlabanki Íslands] 1) setur reglur 2) um hvað teljist eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir og venjur.
Um þagnarskyldu stjórnarmanna rafeyrisfyrirtækis, framkvæmdastjóra, endurskoðenda, starfsmanna og hverra þeirra sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins fer samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.
    1)L. 91/2019, 114. gr. 2) Rgl. 353/2022.
C. Starfsheimildir.
24. gr. Starfsemi.
Rafeyrisfyrirtækjum er heimilt að stunda eftirfarandi starfsemi, auk útgáfu rafeyris:
    a. veitingu greiðsluþjónustu samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu,
    b. lánveitingar í tengslum við greiðsluþjónustu sem um getur í [d- og e-lið 22. tölul. 3. gr. og 14. tölul. 2. gr.] 1) laga um greiðsluþjónustu, að uppfylltum skilyrðum [4. mgr. 16. gr.] 1) þeirra laga,
    c. aðra starfsemi og stoðþjónustu er tengist útgáfu rafeyris eða veitingu greiðsluþjónustu sem um getur í a-lið,
    d. rekstur greiðslukerfa samkvæmt skilgreiningu laga um greiðsluþjónustu,
    e. aðra starfsemi, nema því séu takmörk sett í þessum lögum eða öðrum lögum.
Lánveitingar skv. b-lið 1. mgr. má ekki fjármagna með þeim fjármunum sem rafeyrisfyrirtæki tekur við í skiptum fyrir útgefinn rafeyri og varðveittir skulu í samræmi við 25. gr.
Rafeyrisfyrirtæki er óheimilt að taka við innlánum eða öðrum endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi í skilningi laga um fjármálafyrirtæki.
Rafeyrisfyrirtæki er heimilt að halda greiðslureikninga sem skal einungis nota við framkvæmd greiðslna.
    1)L. 114/2021, 117. gr.
25. gr. Varðveisla fjármuna.
[Rafeyrisfyrirtæki skal varðveita tryggilega fjármuni sem mótteknir hafa verið í skiptum fyrir rafeyri og halda þeim skýrt aðgreindum frá fjármunum sínum.] 1) Fjármunir teljast tryggilega varðveittir ef þeir eru geymdir á innlánsreikningi hjá fjármálafyrirtæki eða ef fjárfest er með þeim í öruggum, seljanlegum og áhættulitlum eignum.
Fjármunum, sem mótteknir hafa verið frá notendum greiðsluþjónustu eða frá öðrum greiðsluþjónustuveitendum vegna framkvæmdar greiðslu, skal haldið skýrt aðgreindum frá eigin fé greiðsluþjónustuveitanda, þ.m.t. rafeyrisfyrirtækisins, og fjármunum í eigu annarra en notenda greiðsluþjónustu.
Fjármunir sem rafeyrisfyrirtæki veitir viðtöku í formi greiðslu með greiðslumiðli skulu varðveittir í samræmi við 1.–2. mgr. frá þeim tíma sem þeir eru lagðir inn á greiðslureikning rafeyrisfyrirtækisins, eða þeir eru aðgengilegir því til ráðstöfunar í samræmi við ákvæði laga um greiðsluþjónustu um framkvæmdartíma, og í síðasta lagi innan fimm viðskiptadaga, í skilningi laga um greiðsluþjónustu, frá útgáfu rafeyris. Hvað sem öðru líður skulu slíkir fjármunir varðveittir tryggilega eigi síðar en fimm viðskiptadögum síðar, eins og þeir eru skilgreindir í [49. tölul. 3. gr.] 2) laga um greiðsluþjónustu, eftir útgáfu rafeyris.
Fjármunir skv. 1.–3. mgr. skulu teljast sértökukröfur í þrotabú rafeyrisfyrirtækis komi til gjaldþrots. Um rétthæð þeirra fer skv. 109. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., enda sýni eigandi fjármuna fram á eignarrétt sinn að þeim.
Rafeyrisfyrirtæki skulu tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um breytingar sem máli skipta hvað varðar ráðstafanir til varðveislu fjármuna skv. 1.–3. mgr.
[Seðlabanki Íslands] 3) setur nánari reglur 4) um tryggilega varðveislu fjármuna samkvæmt þessari grein.
    1)L. 78/2014, 7. gr. 2)L. 114/2021, 117. gr. 3)L. 91/2019, 114. gr. 4) Rgl. 322/2014.
D. Stjórn. Reikningsskil og endurskoðun.
26. gr. Hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda.
Um hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda samkvæmt skipulagi rafeyrisfyrirtækis gilda hæfisreglur laga um fjármálafyrirtæki eftir því sem við á.
Rafeyrisfyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan og síðari breytingar á stjórn fyrirtækis og framkvæmdastjórn og skulu tilkynningunni fylgja fullnægjandi upplýsingar til að hægt sé að meta hvort skilyrðum 1. mgr. sé fullnægt.
[Seðlabanki Íslands] 1) setur reglur um hvernig staðið skuli að hæfismati stjórnarmanna og framkvæmdastjóra skv. 1. mgr. Í reglunum skal tekið tillit til eðlis starfsemi fyrirtækis og umfangs reksturs.
    1)L. 91/2019, 114. gr.
27. gr. Reikningsskil og endurskoðun.
[Reikningsár rafeyrisfyrirtækis er almanaksárið. Rafeyrisfyrirtæki skal leggja fram aðskilin reikningsskil fyrir annars vegar þjónustu vegna útgáfu og meðferðar rafeyris og hins vegar fyrir aðra starfsemi sem hún hefur heimild til að stunda skv. 1. mgr. 24. gr.
Ákvæði laga um fjármálafyrirtæki, eða eftir atvikum laga um ársreikninga, gilda að öðru leyti um bókhald, endurskoðun og tilkynningarskyldu endurskoðenda rafeyrisfyrirtækja til Fjármálaeftirlitsins.
Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja reglur um ársreikninga rafeyrisfyrirtækja.] 1)
    1)L. 114/2021, 117. gr.
E. Eftirlit.
28. gr. Eftirlit.
[Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi rafeyrisfyrirtækja, þ.m.t. umboðsaðilum, útibúum og útvistun rekstrarþátta vegna útgáfu og meðferðar rafeyris, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
Fjármálaeftirlitið hefur m.a. heimild til að:
    a. krefjast þess að rafeyrisfyrirtæki leggi fram allar upplýsingar sem þörf er á til að unnt sé að hafa eftirlit með því að lögum og reglum sé fylgt; skal Fjármálaeftirlitið tilgreina tilganginn að baki beiðninni og gefa tiltekinn skilafrest,
    b. framkvæma skoðun á starfsstöð rafeyrisfyrirtækis, umboðsaðila eða útibúi þar sem veitt er þjónusta sem rafeyrisfyrirtæki ber ábyrgð á eða þar sem útvistunaraðili er til húsa,
    c. gefa út fyrirmæli, leiðbeiningar og bindandi stjórnsýslufyrirmæli,
    d. stöðva tímabundið eða afturkalla starfsleyfi skv. 20. gr.,
    e. beita heimildum sem því eru fengnar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
Fjármálaeftirlitið skal fyrst og fremst grípa til ráðstafana sem lýst er í 2. mgr. til að tryggja nægilegt eigið fé rafeyrisfyrirtækis til þjónustu vegna útgáfu og meðferðar rafeyris, einkum ef sú starfsemi rafeyrisfyrirtækis sem ekki er útgáfa eða meðferð rafeyris rýrir eða er líkleg til að rýra trausta fjárhagsstöðu þess.] 1)
    1)L. 114/2021, 117. gr.
F. Veiting þjónustu yfir landamæri með eða án stofnunar útibús eða í gegnum umboðsaðila.
29. gr. [Starfsemi rafeyrisfyrirtækja erlendis án stofnunar útibús.]1)
Hyggist rafeyrisfyrirtæki veita þjónustu samkvæmt lögum þessum í öðru aðildarríki án stofnunar útibús skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. [Í tilkynningu skal koma fram heiti og heimilisfang fyrirtækis, leyfisnúmer ef því er að skipta, hvaða aðildarríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð þjónusta er fólgin. Einnig skal koma fram í tilkynningunni hvort rafeyrisfyrirtæki hyggist útvista rekstrarþætti þjónustu vegna útgáfu og meðferðar rafeyris til þriðja aðila í því aðildarríki sem í hlut á.] 1) Innan mánaðar frá viðtöku slíkrar tilkynningar skal Fjármálaeftirlitið áframsenda lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi aðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækis.
[Fjármálaeftirlitið skal innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki og viðkomandi rafeyrisfyrirtæki ákvörðun sína varðandi starfsemi yfir landamæri. Þegar ákvörðun Fjármálaeftirlits er jákvæð skal samhliða færa upplýsingarnar um rafeyrisfyrirtækið í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 17. gr.] 1)
    1)L. 114/2021, 117. gr.
30. gr. [Starfsemi rafeyrisfyrirtækja erlendis með stofnun útibús.
Hyggist rafeyrisfyrirtæki veita þjónustu samkvæmt lögum þessum í öðru aðildarríki með stofnun útibús skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram hvaða aðildarríki á í hlut, í hverju fyrirhuguð þjónusta er fólgin, heiti og heimilisfang fyrirtækis, leyfisnúmer ef því er að skipta, nöfn þeirra sem ábyrgir eru fyrir stjórn útibúsins, í hvaða ríkjum útibúið hyggst veita þjónustu og skipulag þess, þ.m.t. lýsing á innra eftirlitskerfi, verkferlum, áhættustýringu, reikningsskilum og viðskiptaáætlun fyrir fyrstu þrjú fjárhagsárin. Einnig skal koma fram í tilkynningunni hvort rafeyrisfyrirtæki hyggist útvista rekstrarþætti þjónustu vegna útgáfu og meðferðar rafeyris til þriðja aðila í gistiaðildarríki. Innan mánaðar frá viðtöku tilkynningarinnar skal Fjármálaeftirlitið áframsenda lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækisins.
Fjármálaeftirlitið skal innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki og viðkomandi rafeyrisfyrirtæki ákvörðun sína varðandi starfsemi yfir landamæri. Þegar ákvörðun Fjármálaeftirlitsins er jákvæð skal samhliða uppfæra upplýsingarnar um rafeyrisfyrirtækið í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki skv. 17. gr. Útibúið getur þá hafið starfsemi í viðkomandi gistiaðildarríki.
Berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki þar sem rafeyrisfyrirtæki hyggst stofna útibú um að þau hafi gilda ástæðu til að ætla að stofnun útibúsins geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal Fjármálaeftirlitið hafna því að færa upplýsingar um útibúið í skrá skv. 17. gr. eða afturkalla skráningu hafi hún þegar farið fram.
Berist Fjármálaeftirlitinu ekki svar frá lögbærum yfirvöldum eða telji Fjármálaeftirlitið að lögbær yfirvöld í hinu aðildarríkinu hafi ekki gaumgæft upplýsingar réttilega og komist að rangri niðurstöðu getur það vísað erindi þess efnis til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, í samræmi við 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.
Rafeyrisfyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um daginn sem það hefur starfsemi sína fyrir milligöngu útibúsins.
Rafeyrisfyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu, án ótilhlýðilegrar tafar, um allar verulegar breytingar varðandi upplýsingar sem sendar hafa verið skv. 1. mgr., þ.m.t. um viðbótarútibú eða þriðju aðila sem starfsemi er útvistað til í því aðildarríki sem í hlut á. Beita skal málsmeðferð sem fram kemur í 3. og 4. mgr.
Rafeyrisfyrirtæki skal sjá til þess að útibú sem veitir þjónustu fyrir þess hönd upplýsi notendur um það.] 1)
    1)L. 114/2021, 117. gr.
31. gr. Veiting þjónustu erlendis í gegnum umboðsaðila.
[Rafeyrisfyrirtæki sem óskar eftir því að dreifa rafeyri í öðru aðildarríki, fyrir milligöngu umboðsaðila, skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram heiti og heimilisfang fyrirtækis, leyfisnúmer ef því er að skipta, hvaða aðildarríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð starfsemi er fólgin. Tilkynningunni skulu fylgja upplýsingar um nafn og heimilisfang umboðsaðilans og lýsing á innra eftirlitskerfi hans, sem m.a. skal uppfylla kröfur laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, og uppfæra án tafar ef verulegar breytingar verða á þeim frá því að upphafleg tilkynning var send. Tilkynningunni skulu einnig fylgja nauðsynlegar upplýsingar og gögn um stjórnendur umboðsaðilans og gögn sem sýna fram á að þeir uppfylli hæfiskröfur 3. mgr. 14. gr. ef umboðsaðilinn er ekki rafeyrisfyrirtæki, upplýsingar um þjónustu sem umboðsaðilinn hefur umboð til að veita og auðkenni umboðsaðilans, sé því til að dreifa. Að endingu skal koma fram í tilkynningunni hvort rafeyrisfyrirtæki hyggst útvista rekstrarþætti þjónustunnar til þriðja aðila í gistiaðildarríki. Innan mánaðar frá viðtöku tilkynningarinnar skal Fjármálaeftirlitið senda lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki upplýsingarnar ásamt staðfestingu á því að sú þjónusta sem veita á falli undir starfsleyfi fyrirtækis ásamt beiðni um umsögn.
Fjármálaeftirlitið skal innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinga sem um getur í 1. mgr. tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki og viðkomandi rafeyrisfyrirtæki ákvörðun sína varðandi starfsemi yfir landamæri. Þegar ákvörðun Fjármálaeftirlitsins er jákvæð skal samhliða uppfæra upplýsingar um rafeyrisfyrirtækið í skrá skv. 17. gr. Umboðsaðilinn getur þá hafið starfsemi í viðkomandi gistiaðildarríki.
Berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki þar sem rafeyrisfyrirtæki hyggst dreifa rafeyri fyrir milligöngu umboðsaðila um að þau hafi gilda ástæðu til að ætla að tilnefning umboðsaðila geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal Fjármálaeftirlitið hafna því að færa upplýsingar um umboðsaðilann í skrá skv. 17. gr. eða afturkalla skráningu hafi hún þegar farið fram.
Berist Fjármálaeftirlitinu ekki svar frá lögbærum yfirvöldum eða telji Fjármálaeftirlitið að lögbær yfirvöld í hinu aðildarríkinu hafi ekki gaumgæft upplýsingar réttilega og komist að rangri niðurstöðu í mati sínu getur það vísað erindi þess efnis til Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar eða Eftirlitsstofnunar EFTA, eftir því sem við á, í samræmi við 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.
Rafeyrisfyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um daginn sem það hefur starfsemi sína fyrir milligöngu umboðsaðila.
Rafeyrisfyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu, án ótilhlýðilegrar tafar, um allar verulegar breytingar varðandi upplýsingar sem sendar hafa verið skv. 1. mgr., þ.m.t. um viðbótarumboðsaðila eða þriðju aðila sem starfsemi er útvistað til í því aðildarríki sem í hlut á. Beita skal málsmeðferð sem fram kemur í 3. og 4. mgr.
Rafeyrisfyrirtæki ber ábyrgð á því að umboðsaðili upplýsi notendur þjónustu um að þjónustan sé veitt fyrir hönd erlends rafeyrisfyrirtækis.
Rafeyrisfyrirtæki sem dreifir rafeyri á Íslandi fyrir milligöngu umboðsaðila skal tilnefna miðlægan tengilið til Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið hefur m.a. samband við miðlægan tengilið til að fá upplýsingar og skýrslu til að sinna eftirliti samkvæmt þessum lögum.] 1)
    1)L. 114/2021, 117. gr.
32. gr. Starfsemi utan Evrópska efnahagssvæðisins.
Hyggist rafeyrisfyrirtæki veita þjónustu samkvæmt lögum þessum í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram heiti og heimilisfang fyrirtækis, hvaða ríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð þjónusta sé fólgin, auk annarra upplýsinga sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegar þar að lútandi.
Fjármálaeftirlitið getur bannað starfsemi skv. 1. mgr. ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun eða fjárhagsstaða hlutaðeigandi rafeyrisfyrirtækis sé ekki nægilega traust. Fyrirtækinu skal tilkynnt afstaða Fjármálaeftirlitsins svo fljótt sem auðið er.
33. gr. [Þjónusta rafeyrisfyrirtækis með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu hérlendis án stofnunar útibús.
Rafeyrisfyrirtæki með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að veita þjónustu samkvæmt lögum þessum hér á landi án stofnunar útibús.
Rafeyrisfyrirtæki með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að veita þjónustu hér á landi eftir að tilkynning sem uppfyllir sömu skilyrði og koma fram í 1. mgr. 29. gr. hefur borist Fjármálaeftirlitinu frá lögbæru yfirvaldi aðildarríkis. Tilkynningin skal vera yfirfarin af Fjármálaeftirlitinu innan mánaðar.] 1)
    1)L. 114/2021, 117. gr.
34. gr. [Þjónusta rafeyrisfyrirtækis með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu hérlendis með stofnun útibús.
Rafeyrisfyrirtæki með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að veita þjónustu samkvæmt lögum þessum hér á landi með stofnun útibús.
Rafeyrisfyrirtæki með staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skv. 1. mgr. er heimilt að veita þjónustu hér á landi þegar tilkynning sem uppfyllir sömu skilyrði og koma fram í 1. mgr. 30. gr. hefur borist Fjármálaeftirlitinu frá lögbæru yfirvaldi aðildarríkis. Tilkynningin skal vera yfirfarin af Fjármálaeftirlitinu innan mánaðar.
Hafi Fjármálaeftirlitið gilda ástæðu til að ætla að stofnun útibús geti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka skal Fjármálaeftirlitið tilkynna lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis um það. Ákveði lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis að hafna eða afturkalla skráningu í framhaldi af slíkri tilkynningu er viðkomandi útibúi ekki heimilt að veita þjónustu hér á landi frá þeim tíma.
Ef lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki taka ekki tillit til athugasemda Fjármálaeftirlitsins og veita rafeyrisfyrirtæki heimild til að stofna útibú eða veita þjónustu á Íslandi fyrir milligöngu umboðsaðila getur Fjármálaeftirlitið borið þá ákvörðun undir Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina, eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, í samræmi við 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.
Útibú sem veitir þjónustu fyrir hönd erlends rafeyrisfyrirtækis skal upplýsa notendur þjónustu um það.
Ákvæði laga um hlutafélög varðandi útibú erlendra hlutafélaga eiga ekki við um útibú skv. 1. mgr.] 1)
    1)L. 114/2021, 117. gr.
35. gr. [Opnun útibús eða dreifing rafeyris fyrir milligöngu umboðsaðila af hálfu rafeyrisfyrirtækis utan Evrópska efnahagssvæðisins.
Fjármálaeftirlitið getur heimilað fyrirtæki, sem gefur út rafeyri, með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins að opna útibú eða dreifa rafeyri fyrir milligöngu innlends umboðsaðila hér á landi. Skilyrði fyrir slíku leyfi er að fyrirtækið hafi leyfi til að stunda hliðstæða starfsemi í heimaríki sínu, að sú starfsemi sé háð sambærilegu eftirliti í heimaríkinu og að gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra yfirvalda í því ríki. Til að útibú geti hafið starfsemi hér á landi skal heimaríki fyrirtækisins undirrita samning við íslensk stjórnvöld, sem fer að öllu leyti að stöðlum skv. 26. gr. skattasamningsfyrirmyndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar um tekjur og fjármagn og tryggir skilvirk upplýsingaskipti um skattamál, þ.m.t. hvers konar marghliða samninga um skattamál, ef við á.
Fjármálaeftirlitið skal innan sex mánaða frá því að fyrirtæki lagði fram fullnægjandi umsókn tilkynna ákvörðun sína um veitingu eða synjun umsóknar um að starfrækja útibú eða dreifa rafeyri fyrir milligöngu umboðsaðila hér á landi.] 1)
    1)L. 114/2021, 117. gr.
[35. gr. a. Eftirlit gistiaðildarríkis með rafeyrisfyrirtækjum á Evrópska efnahagssvæðinu sem veita þjónustu yfir landamæri með stofnun útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila.
Fjármálaeftirlitið skal hafa samstarf við lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki um framkvæmd eftirlits með lögum þessum vegna starfsemi umboðsaðila og útibúa rafeyrisfyrirtækis sem eru staðsett í gistiaðildarríki. Skal Fjármálaeftirlitið tilkynna lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki þegar það hyggst framkvæma skoðun á starfsstöð umboðsaðila eða útibúi í gistiaðildarríki. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að fela lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríki framkvæmd skoðunar á starfsstöð umboðsaðila eða í útibúi sem staðsett er í því ríki.
Komist lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki að raun um að rafeyrisfyrirtæki með starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu, sem hefur umboðsaðila eða útibú á yfirráðasvæði þeirra, fari ekki að reglum tekur Fjármálaeftirlitið á móti upplýsingum um það. Fjármálaeftirlitið skal, eftir að hafa lagt mat á upplýsingarnar sem það fær samkvæmt þessari grein, án ótilhlýðilegrar tafar, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að hlutaðeigandi rafeyrisfyrirtæki fari að settum reglum. Fjármálaeftirlitið skal jafnframt tilkynna lögbæru yfirvaldi í gistiaðildarríkinu og lögbærum yfirvöldum í öðrum hlutaðeigandi gistiaðildarríkjum tafarlaust um þessar ráðstafanir.
Fjármálaeftirlitið skal að ósk lögbærra yfirvalda í gistiaðildarríki eða að eigin frumkvæði veita þeim viðeigandi upplýsingar, einkum þegar um er að ræða brot eða grun um brot umboðsaðila eða útibús og hvort rafeyrisfyrirtæki uppfylli skilyrði 9. gr.] 1)
    1)L. 114/2021, 117. gr.
[35. gr. b. Eftirlit með rafeyrisfyrirtækjum með starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu sem veita þjónustu hérlendis með stofnun útibús eða fyrir milligöngu umboðsaðila.
Ef Fjármálaeftirlitið kemst að raun um að rafeyrisfyrirtæki sem veitir þjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila eða í gegnum útibú hérlendis fer ekki að ákvæðum III. kafla skal það upplýsa lögbært yfirvald í heimaaðildarríki um það án tafar.
Fjármálaeftirlitið getur gripið til tafarlausra aðgerða reynist það nauðsynlegt í ljósi neyðarástands vegna alvarlegrar ógnar við sameiginlega hagsmuni handhafa rafeyris hérlendis eða gert varúðarráðstafanir samhliða samstarfi við lögbær yfirvöld í aðildarríki rafeyrisfyrirtækis og fram að ráðstöfunum þeirra yfirvalda. Hér skiptir ekki máli hvort neyðarástandið skapast vegna útibús hérlendis, umboðsaðila hérlendis eða vegna þjónustu rafeyrisfyrirtækis með starfsleyfi frá Evrópska efnahagssvæðinu. Varúðarráðstafanirnar skulu vera viðeigandi og í réttu hlutfalli við þann tilgang þeirra að verjast alvarlegri ógn við sameiginlega hagsmuni handhafa rafeyris hérlendis. Þær mega ekki leiða til þess að handhafar rafeyris hér á landi fyrir milligöngu umboðsaðila eða í gegnum útibú erlends rafeyrisfyrirtækis njóti betri meðferðar en handhafar rafeyris í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Auk þess skulu varúðarráðstafanirnar vera tímabundnar og þeim hætt þegar tekið hefur verið á þeirri alvarlegu ógn sem greind er, þ.m.t. með hjálp eða í samvinnu við lögbær yfirvöld í aðildarríki rafeyrisfyrirtækis sem í hlut á eða Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina eða Eftirlitsstofnun EFTA, eftir því sem við á, í samræmi við 19. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1093/2010.
Fjármálaeftirlitið skal, ef við á, upplýsa lögbær yfirvöld í aðildarríkjum sem í hlut eiga, Eftirlitsstofnun EFTA og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunina fyrir fram og án ástæðulausrar tafar um varúðarráðstafanirnar sem gripið er til skv. 2. mgr. og rökstyðja þær.
Telji Fjármálaeftirlitið að lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki rafeyrisfyrirtækis sýni athafnaleysi með því að grípa ekki til þeirra ráðstafana sem það hafi viðurkennt að nauðsynlegt sé að grípa til, hafni samstarfi og/eða láti undir höfuð leggjast að bregðast við neyðarástandi eða viðurkenni ekki að fyrir hendi sé neyðarástand getur Fjármálaeftirlitið leitað aðstoðar Eftirlitsstofnunar EFTA og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar vegna þeirrar afstöðu og leitað lausnar þess ágreinings. Fjármálaeftirlitið skal fresta ákvörðunum sínum þar til niðurstaða liggur fyrir.] 1)
    1)L. 114/2021, 117. gr.
G. Umboðsaðilar.
36. gr. Veiting rafeyrisþjónustu í gegnum umboðsaðila.
[Rafeyrisfyrirtæki sem hyggst dreifa eða innleysa rafeyri fyrir milligöngu umboðsaðila skal tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrir fram. Tilkynningunni skulu fylgja upplýsingar um nafn og heimilisfang umboðsaðilans og lýsing á innra eftirlitskerfi hans sem m.a. skal uppfylla kröfur laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og uppfæra án tafar ef verulegar breytingar verða á þeim frá því að upphafleg tilkynning var send. Tilkynningunni skulu einnig fylgja nauðsynlegar upplýsingar og gögn um stjórnendur umboðsaðilans og gögn sem sýna fram á að þeir séu hæfir að mati Fjármálaeftirlitsins ef umboðsaðilinn er ekki rafeyrisfyrirtæki, upplýsingar um þá þjónustu sem umboðsaðilinn hefur umboð til að veita og auðkenni hans, sé því til að dreifa.
Fjármálaeftirlitið skráir rafeyrisfyrirtæki í skrá skv. 17. gr., að fengnum upplýsingum skv. 1. mgr., innan tveggja mánaða frá viðtöku upplýsinganna og sendir samhliða rafeyrisfyrirtæki upplýsingar um það. Telji Fjármálaeftirlitið vafa leika á að upplýsingarnar séu réttar skal það grípa til aðgerða til að sannreyna þær. Fjármálaeftirlitið synjar um skráningu á umboðsaðila í skrá yfir rafeyrisfyrirtæki ef það er mat þess að ósannað teljist að upplýsingar skv. 1. mgr. séu réttar. Hið sama á við meti Fjármálaeftirlitið upplýsingarnar rangar eða ófullnægjandi. Synji Fjármálaeftirlitið um skráningu skal rafeyrisfyrirtækið upplýst um það án tafar og er því óheimilt að notast við hlutaðeigandi umboðsaðila til að dreifa og innleysa rafeyri frá þeim tíma.
Rafeyrisfyrirtæki er heimilt að dreifa rafeyri og innleysa hann fyrir milligöngu umboðsaðila sem aðhefst fyrir hönd þess eftir að Fjármálaeftirlitið hefur fært hann í skrá skv. 17. gr. Útgáfa rafeyris fyrir milligöngu umboðsaðila er óheimil.
Rafeyrisfyrirtæki skal sjá til þess að umboðsaðilar sem dreifa eða innleysa rafeyri fyrir þess hönd upplýsi handhafa rafeyris um það.
Rafeyrisfyrirtæki skal án tafar tilkynna Fjármálaeftirlitinu um breytingar á umboðsmönnum, þ.m.t. viðbótarumboðsmönnum, og skal við það fylgt málsmeðferð skv. 2.–4. mgr.
Ef rafeyrisfyrirtæki óskar eftir því dreifa rafeyri í öðru aðildarríki fyrir milligöngu umboðsaðila fer um slíkt skv. 31. gr.] 1)
    1)L. 114/2021, 117. gr.
37. gr. Veiting greiðsluþjónustu rafeyrisfyrirtækis í gegnum umboðsaðila.
Rafeyrisfyrirtæki er heimil veiting greiðsluþjónustu samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu, sbr. a-lið 1. mgr. 24. gr., þar á meðal fyrir tilstilli umboðsaðila að uppfylltum skilyrðum [17. gr.] 1) laga um greiðsluþjónustu.
Ef rafeyrisfyrirtæki óskar eftir því að veita greiðsluþjónustu í öðru aðildarríki í gegnum umboðsaðila fer um slíkt skv. [25. gr.] 1) laga um greiðsluþjónustu.
    1)L. 114/2021, 117. gr.
H. Útvistun.
38. gr. [Útvistun rekstrarþátta.
Rafeyrisfyrirtæki sem hyggst útvista rekstrarþætti í starfsemi sinni skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um það.
Útvistun mikilvægra rekstrarþátta, þ.m.t. útvistun upplýsingakerfa, er óheimil ef hún dregur umtalsvert úr gæðum innra eftirlits rafeyrisfyrirtækis og torveldar eftirlit með framkvæmd laga þessara. Rekstrarþáttur telst mikilvægur ef ágalli eða brestur í framkvæmd hans hefur umtalsverð neikvæð áhrif á getu rafeyrisfyrirtækis til að uppfylla þær kröfur sem liggja til grundvallar starfsleyfi þess eða skyldur samkvæmt lögunum, fjárhagslega afkomu rafeyrisfyrirtækis eða traustleika eða samfelldni þjónustunnar sem um ræðir.
Þegar rafeyrisfyrirtæki útvistar mikilvægum rekstrarþætti verður það að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
    1. Útvistunin má ekki leiða til þess að ábyrgð stjórnenda verði framseld til útvistunaraðila.
    2. Skyldur og samband rafeyrisfyrirtækis gagnvart handhöfum rafeyris samkvæmt lögum þessum breytist ekki.
    3. Rafeyrisfyrirtæki uppfyllir eftir sem áður skilyrðin sem eru forsendan fyrir starfsleyfi þess.
    4. Hvorki skal breyta né fella brott einhver þeirra skilyrða sem liggja til grundvallar starfsleyfi rafeyrisfyrirtækis.
Seðlabanka Íslands er heimilt að setja nánari reglur um útvistun mikilvægra rekstrarþátta rafeyrisfyrirtækis.] 1)
    1)L. 114/2021, 117. gr.
I. Annað.
39. gr. Bótaábyrgð.
Rafeyrisfyrirtæki ber skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem rakið verður til athafna starfsmanna þess, umboðsaðila, útibúa og þeirra aðila sem rekstrarþáttum rafeyrisfyrirtækis hefur verið útvistað til.
Rafeyrisfyrirtæki sem reiðir sig á þriðja aðila til að annast tiltekna rekstrarþætti skal gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að farið sé að lögum þessum.
40. gr. Varðveisla gagna.
Rafeyrisfyrirtæki ber að varðveita öll viðeigandi gögn er varða þennan kafla að lágmarki í sjö ár frá lokum viðkomandi reikningsárs.

IV. kafli. Eftirlit, réttarúrræði og viðurlög.
41. gr. Fjármálaeftirlitið.
Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara að því er varðar eftirlitsskylda aðila samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
[Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi rafeyrisfyrirtækja, þ.m.t. umboðsaðilum, útibúum og útvistun rekstrarþátta þjónustunnar, sbr. 28.–32. gr. og 38. gr., nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
Fjármálaeftirlitið sem lögbært yfirvald í gistiaðildarríki hefur eftirlit með umboðsaðilum og útibúum erlendra rafeyrisfyrirtækja hér á landi, sbr. 28. og 34. gr. Auk þess hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með veitingu þjónustu í útibúum hérlendis og fyrir milligöngu innlends umboðsaðila fyrirtækis með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 35. gr., vegna stofnana frá þriðju ríki.] 1)
Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins fer samkvæmt ákvæðum laga þessara og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    1)L. 114/2021, 117. gr.
42. gr. [Úrskurðaraðili.
Handhafar rafeyris geta skotið ágreiningi sínum gagnvart útgefanda rafeyris er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni til úrskurðaraðila samkvæmt lögum um úrskurðaraðila á sviði neytendamála.] 1)
    1)L. 114/2021, 117. gr.
43. gr. Stjórnvaldssektir.
Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og, eftir atvikum, reglum settum á grundvelli þeirra:
    1. 3. gr. um einkarétt útgefanda rafeyris til útgáfu rafeyris hérlendis,
    2. 5. gr. um að rafeyrir skuli gefinn út á nafnverði þegar fjármunum er veitt viðtaka,
    3. 6. gr. um bann við vöxtum,
    4. 7. gr. um innlausn rafeyris,
    5. 8. gr. um þóknun vegna innlausnar,
    6. 11. gr. um stofnfé,
    7. 12. og 13. gr. um eiginfjárgrunn og útreikning eigin fjár,
    8. 14. gr. um meðferð virkra eignarhluta,
    9. 15. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis,
    10. 2.–4. mgr. 16. gr. um heimildir og skyldur aðila með takmarkað starfsleyfi,
    11. 19. gr. um viðvarandi upplýsingaskyldu,
    12. 23. gr. um góða viðskiptahætti og þagnarskyldu,
    13. 2. og 3. mgr. 24. gr. um aðra starfsemi,
    14. 25. gr. um varðveislu fjármuna,
    15. 26. gr. um hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda,
    16. 27. gr. um reikningsskil og lögboðna endurskoðun,
    [17. 1. mgr. 29. gr., 1. og 5.–7. mgr. 30. gr., 1. og 5.–8. mgr. 31. gr. og 5. mgr. 34. gr. um veitingu þjónustu yfir landamæri,
    18. 1. og 3.–4. mgr. 36. gr. og 37. gr. um veitingu þjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila,
    19. 1.–3. mgr. 38. gr. um útvistun rekstrarþátta], 1)
    20. 2. mgr. 39. gr. um skyldu til að tryggja að þriðji aðili, sem falið hefur verið að annast tiltekna rekstrarþætti, geri viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að farið sé að lögum þessum,
    21. 40. gr. um varðveislu gagna.
Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10 þús. kr. til 20 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 50 þús. kr. til 50 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. [Ákvarðanir um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar.] 2) Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi. Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara, reglur settar á grundvelli þeirra eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. [Seðlabanki Íslands] 3) setur nánari reglur 4) um framkvæmd ákvæðisins.
Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
Frestur skv. 5. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.
    1)L. 114/2021, 117. gr. 2)L. 91/2019, 116. gr. 3)L. 91/2019, 114. gr. 4) Rgl. 326/2019.
44. gr. Sektir eða fangelsi.
Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og, eftir atvikum, reglum settum á grundvelli þeirra:
    1. 3. gr. um einkarétt útgefanda rafeyris til útgáfu rafeyris hérlendis,
    2. 12. og 13. gr. um eiginfjárgrunn og útreikning eigin fjár,
    3. 15. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis,
    4. 2. mgr. 23. gr. um þagnarskyldu,
    5. 27. gr. um reikningsskil og lögboðna endurskoðun.
Þá varðar það sömu refsingu að gefa vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar um hagi útgefanda rafeyris eða annað er hann varðar, opinberlega eða til Fjármálaeftirlitsins, annarra opinberra aðila eða notenda þjónustu útgefanda rafeyris.
Brot gegn lögum þessum er varða sektum eða fangelsi varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi.
Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins.
Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Fjármálaeftirlitið hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Fjármálaeftirlitinu að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum og ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Fjármálaeftirlitið á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
Með kæru Fjármálaeftirlitsins skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kæra mál til lögreglu.
Fjármálaeftirlitinu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 7. mgr. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 7. mgr.
Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 7. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Fjármálaeftirlitsins sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 7. mgr.
Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Fjármálaeftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar.
[Gera má lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum og reglum settum á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðilans, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum. Hafi fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum með saknæmum hætti brotið gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra í starfsemi lögaðilans má gera honum refsingu, auk þess að gera lögaðilanum sekt.] 1)
    1)L. 58/2015, 21. gr.

V. kafli. Önnur ákvæði.
45. gr. Innleiðing.
Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/110/EB frá 16. september 2009 um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og varfærniseftirlit með þeim, breytingu á tilskipunum 2005/60/EB og 2006/48/EB og um niðurfellingu á tilskipun 2000/46/EB, eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2010, frá 10. nóvember 2010, sem birt var 3. mars 2011 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 12/2011.
46. gr. Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2013.
47. gr. Breytingar á öðrum lögum.
Ákvæði til bráðabirgða. …1)     1)L. 70/2021, 27. gr.